Jarðskjálftinn stóri á Haítí 12. janúar 2010

Þegar náttúruhamfarir ríða yfir, líkt og stóri jarðskjálftinn á Haítí fer mikið viðbragð af stað um allan heim. Alþjóðlegar björgunarsveitir og ráðgjafateymi bjóða fram aðstoð sína sem heimamenn meta og þiggja eftir föngum. Í þessu tilfelli á Haiti er þörf á mikilli aðstoð. Þetta er fátækt ríki og innviðir samfélagsins veikir og því augljóst að hamfarir líkt og jarðskjálfti upp á rúmlega 7 á Richter, bætir enn ofan á hörmungarnar. Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum, og allt að 3 milljónir manna þurfi á tafarlausri neyðarhjálp að halda.

Viðbragð íslensku alþjóðlegu rústabjörgunarsveitarinnar var frábært, sem skiptir miklu máli þegar teymi eru að koma að.  Skjót viðbrögð eru ekki síst mikilvæg við þær aðstæður sem eru á Haiti, mikið af rústum og skipta því fyrstu dagar í rústabjörgun miklu máli. Stjórnendur sveitarinnar munu svo hitta fulltrúa Sameinuðu þjóðanna á svæðinu og mun sveitin vinna í samstarfi við þá.

Þau hjálparlið sem mæta fyrst á vettvang koma oft að skipulagningu hjálparstarfsins. Ekki er ólíklegt að íslenska sveitin, eða þeir stjórnendur sem með sveitinni starfa  komi að slíkri skipulagningu þar sem sveitin var með þeim fyrstu, ef ekki sú fyrsta. Það þarf að koma upp fjarskiptum og samhæfingu aðgerða, en yfirsýn er mikilvæg í svo víðtæku hjálparstarfi. Það þarf líka að huga að því að fá rétta mannskapinn og búnað á staðinn og því er að mörgu að hyggja.

Sérstök samhæfingarteymi koma í fyrsta viðbragði og hefur Alþjóðlegi Rauði krossinn þegar sent átta manna matsteymi á staðinn. Rauði krossinn hefur einnig sent níu önnur neyðarteymi frá Evrópu og Norður-Ameríku sem skipuð eru heilbrigðisstarfsfólki og sérfræðingum til að mynda í hreinsun vatns, byggingu neyðarskýla, birgðaflutningum og fjarskiptum.

Þær myndir sem sést hafa sýna mikla eyðileggingu og blöstu rústir og hópar fólks sem safnast höfðu saman á opnum svæðum við íslendingunum við komu til Haítí. Þeirra bíða erfið verkefni framundan. Sjálfboðaliðar Rauða krossins á Haítí vinna nú í kapp við tímann við björgun og aðhlynningu slasaðra. Rauða kross félög á svæðinu hafa einnig sent sjálfboðaliða og hjálpargögn áleiðis til Haítí. Erfiðlega reynist að fá upplýsingar af hamfarasvæðunum þar sem símalínur eru slitnar í sundur og rafmagnslaust er að mestu.

Rauði krossinn er byrjaður að dreifa hjálpargögnum í höfuðborginni Port-au-Prince, en neyðarbirgðir Rauða krossins í landinu duga til að veita um 13.000 fjölskyldum aðstoð fyrstu dagana. Verið er að leita leiða við að senda meiri hjálpargögn frá birgðastöðvum Alþjóða Rauða krossins í Panama.

 

Hægt er að styrkja hjálparstarfið á Haítí með því að hringja í síma 904 1500, bætast þá 1500 krónur við næsta símreikning. Símtalið kostar 79 kr. Fólk getur líka styrkt beint með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs Rauða krossins í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband