Mosfellsbær er í sókn

Tengdó, Sædís Erla og Herdís  Sturla Sær on the top of Reykjafell 

Mosfellsbær er víðfeðm náttúruparadís í jaðri höfuðborgarsvæðisins. Búið er að byggja upp sterka innviði og erum við því betur undirbúin að nýta okkar hina einstöku náttúru, menningu og sögu, samfélaginu til góðs.

Ég held að flestir geti verið mér sammála um að Mosfellsbær er í sókn og mikilvægt að spila rétt úr þeim tækifærum sem felast m.a. í sérstöðunni. Því höfum við verið að marka okkur stefnur og tekið ákvarðanir sem efla bæði lífsgæði þeirra sem nú lifa og komandi kynslóða.

Heilsubærinn Mosfellsbær

Mosfellsbær gaf á síðasta ári út velferðaráætlun í anda Staðardagskrár 21 til ársins 2020 sem ber heitið Mosfellsbær - sjálfbært samfélag. Jafnframt hefur verið sett stefna um að Mosfellsbær verði leiðandi á sviði heilsueflingar, endurhæfingar og lýðheilsu. Í þessu felast margvísleg tækifæri fyrir samfélagið og ekki síst á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu.

Reykjalundur er stolt okkar Mosfellinga. Fyrirtækið er í fararbroddi á sviði endurhæfingar í landinu og eru eflaust mörg ónýtt tækifæri tengd þeirri starfsemi. Það var mikið gleðiefni þegar fyrirtækið PrimaCare tók ákvörðun um að reisa sjúkrahús sitt í Mosfellsbæ og var það hið einstaka umhverfi og metnaðarfull stefna Mosfellsbæjar í umhverfismálum sem átti þátt í staðarvali fyrirtækisins. Á vormánuðum skýrast næstu skref hjá PrimaCare og ef áætlunin stenst þá verða til 600 störf  að ógleymdri afleiddri  þjónustu sem  til verður. 

Ævintýralegt Varmársvæði

Varmársvæðið sem liggur á milli Varmár og Köldukvíslar er trúlega eitt mikilvægasta útivistarsvæði okkar Mosfellinga. Á 20 ára afmæli Mosfellsbæjar 9. ágúst 2007 var tekin ákvörðun um að svæðið yrði nýtt sem ævintýra- og útivistargarður. Hugmyndin er sú að garðurinn geti nýst allri fjölskyldunni, allan ársins hring til fjölbreyttrar útivistar.

IMG 2051  Vígsla mosfellska ævintýragarðsins 2009

Varmársvæðið er um margt sérstakt, upp með Varmánni er það skógi vaxið að hluta, stígar liggja með ánni og þar að leiðandi mikið nýtt til útivistar. Varmá er á náttúruminjaskrá sem varmá, því heitar uppsprettur runnu í hana áður fyrr. En áin kólnaði eftir að farið var að virkja heita vatnið á svæðinu. Í námi mínu í umhverfis- og auðlindafræði skoðaði ég möguleika svæðisins og sýndu niðurstöður að margvísleg tækifæri eru til staðar sem nýst gætu íbúum og ferðamönnum á svæðinu. Slíkt svæði hefði einnig töluvert vísindalegt gildi og mætti m.a. skoða verndun og endurheimt vistkerfa.

Mér er umhugað um að efla  bæinn okkar og tryggja að uppbygging samfélagsins verði í góðri sátt við íbúa og umhverfi. Ég vil nýta sérstöðu sveitarfélagsins til eflingar atvinnu, útivistar, nýsköpunar og menntunar og lít bjartsýn til framtíðar. 

Ég heiti því að vinna áfram af  krafti fyrir bæjarfélagið og óska eftir stuðningi í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 6. febrúar.

Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi

Herdís gefur kost á sér í 2. sæti.  Upplýsingar um Herdísi 

Greinin birtist í Mosfellingi 5. febrúar 2010. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég vil minna á baráttu Varmársamtakanna fyrir verndun Varmár, en það er öllum ljóst hvernig á þeim málum hefur verið haldið í Mosfellsbæ þar sem bakkar Varmár eru uppgrafnir við bakkana á löngum kafla með leyfi bæjaryfirvalda !

Varmá er á náttúruminjaskrá síðan 1978 og ósarnir voru gerðir að friðlandi árið 1980.

Hvers vegna eigum við að reikna með að þið haldið betur á málum í framtíðinni ?

Ólafur í Hvarfi (IP-tala skráð) 5.2.2010 kl. 12:05

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Innilega til hamingju með sigurinn mín kæra, þeir eru heppnir að fá þig í framvarðasveit.

Ásdís Sigurðardóttir, 6.2.2010 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband