Andlegur stuðningur við eldamennskuna

Ásdís og Sturla  1

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar er haldinn hátíðlegur í dag og var ég að koma af hátíðardagskrá sem haldin var í Hlégarði af því tilefni.

Yfirskrift dagsins í dag var „Ungt fólk og jafnrétti” og var dagskráin að mestu leyti borin uppi af unglingum úr félagsmiðstöðinni Bólinu og nemendum í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar sem voru einu orði sagt frábær. Einnig var veitt jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2010 og hlaut vinnustaðurinn Ásgarður verðlaunin þetta árið og er vel að þeim kominn.

DSC07625

Þeir Gauti og Dagur frá Bólráðinu kynntu niðurstöður jafnréttiskönnunar. Sögðu þeir að ætlunin væri að nýta hana til að bæta jafnrétti í félagsmiðstöðinni Bólinu, sem væri þó gott, en alltaf væri hægt að bæta. Nafnið á félagsmiðstöðinni kom sérlega skemmtilega út í þessum spurningum eins og t.d. "Af hverju ferðu ekki í Bólið á kvöldin?"

DSC07639

Bæði Bólið og F-Mos sýndu skemmtileg myndbönd þar sem ýmsir voru spurðir út í það hvað þau teldu jafnrétti vera. Svörin voru mjög mismunandi og sem dæmi töluðu margir um jafnrétti kynjanna, launajafnrétti, að allir megi vera með, að enginn megi hafa meira gaman en aðrir, að vera með jafn stóra matarskammta fyrir stelpur og stráka sagði Ásdís Magnea sem hefur sterka réttlætiskennd eins og mamma hennar. Þetta varð eiginlega svona fjölskyldumyndband því þegar strákarnir voru að taka þetta upp hittu þeir okkur Ella fyrir utan Krónuna, Ásdís Magneu í sjoppunni og tengdó, Sigga mág í fiskbúðinni. 

Mér fannst líka áhugaverð svörin við spurningunni hvort jafnrétti ríkti á Íslandi. Jú flestir voru nú á því og einn viðmælandinn sagði m.a. að konur hefðu alltaf séð um að þrífa og elda, en nú væri það ekki svoleiðis lengur. Sem betur fer segi ég nú bara! Það er samt ótrúlega stutt síðan þetta fór að breytast og dettur mér alltaf í hug vinnufélagi Ella sem var alveg hissa á því þegar við eignuðumst frumburðinn fyrir 18 árum síðan og Elli ætlaði að vera heima hjá henni veikri. Honum varð að orði "bíddu ertu ekki giftur?".

DSC07642

Tvær stelpur úr F-Mos sem ég náði því miður ekki niður hvað heita voru með flotta framsögu og marga áhugaverða punkta um jafnrétti. Þær ræddu m.a. að ekkert væri sem tengdi kyn og dugnað, ræddu kvennaríki í kennarastétt, kvenna og karlastörf og enduðu á að sýna myndband VR frá 2005 þar sem farið var yfir nokkrar staðreyndir um ákjósanlegt útlit og kyn m.t.t. launamála.

  • Vertu dökkhærð, því dökkhærðir eru með hærri laun en ljóshærðir.
  • Vertu karlmaður, því karlar fá að jafnaði 20% hærri laun en konur fyrir sömu störf og eru líka mun líklegri að komast í stjórnunarstöður.
  • Vertu hávaxinnm því ef þú ert yfir 179 cm færðu hærri laun og frekar óheppinn ef þú ert lágvaxnari en 166 cm.

Eftir auglýsinguna fór ég yfir listann í huganum og þakka í það minnsta fyrir að vera dökkhærð.

DSC07644

Þá var komið að frábæru atriði frá leiklistarhópi F-Mos sem var með frásögn af ömmum sínum og öfum. Þau lýstu þeim skemmtilega og einlægt. Einn lýsti ömmum sínum sem hann hafði búið hjá. Töluverður aldursmunur var á þeim og sú eldri dekraði hann og þreif og eldaði á meðan sú yngri lét hann sjá um sig sjálfan og meira að segja sturta niður. Hann endaði á því að tala um að hann vildi ekki einu sinni tala um hvernig mamma hans væri í þessu efnum og skildi ég hann sem svo að ekki væri mikil þjónusta á þeim bænum. Ég er líka nokkuð viss um að ég tilheyri hennar flokki. Flest lýstu þau yndislegum bakandi og prjónandi ömmum, sem margar unnu úti með heimilinu og útivinnandi öfum, sem fengu góða umönnun og mikinn skilning heimavið. Mér fannst alveg yndislegt sem einn sagði, en hann talaði um að amman eldaði, en afinn veitti henni í mesta lagi andlegan stuðning við eldamennskuna.

DSC07651

Dagskráin endaði á ljúfum tónum um 20 ungmenna í skapandi tónlist í F-Mos sem fluttu frumsamda tónlist sem þau nefndu Feimna tóna og gerðu það glæsilega.

Þegar ég gekk út út Hlégarði var ég full bjartsýni um aukið jafnrétti og vona bara að þegar barnabörnin mín, hún Herdís litla eða Elli (engin pressa á börnin he he) fara í leiklist í framhaldsskóla Mosfellsbæjar og standa á sviðinu í Hégarði og segja frá ömmu Herdísi og afa Ella segi þau. "Afi og amma sátu bæði í jafnréttisnefnd í Mosfellsbæ, já hugsið ykkur bara í gamla daga voru til sérstakar jafnréttisnefndir! En amma eldar nú samt líka".

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband