Launamisrétti og umhyggjukarlmennska

malefemale

100 ár virðast langur tími, en er það langur tími í jafnréttisbaráttu? Í dag eru 100 ár liðin frá því að Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á heimili Bríetar Bjarnhéðinsdóttur í Reykjavík og var hún jafnframt fyrsti formaður félagsins. Í tilefni dagsins er því vel við hæfi að staldra við og velta því fyrir sér hvort markmið félagsins hafi gengið eftir, “að starfa að því að íslenskar konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi svo og embættisgengi og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn”. 

Það er augljóst að miklu hefur verið áorkað á þessum 100 árum, en það er líka ýmislegt sem enn á eftir að bæta. Fyrst er það óútskýranlegur launamunur á launum karla og kvenna. Sýnt hefur verið fram á að þegar búið er taka tillit til allra þátta er munurinn samt 15.7% og það árið 2006.  Okkur hefur miðað hægt í þessum málum því árið 1994 var þetta 16%....sem sé nánast engin breyting á 12 árum. Þessi staðreynd er svekkjandi og er ljóst að stjórnendur verða að taka sér tak og fara handvirkt yfir launamálin í sínum fyrirtækjum og leiðrétta skekkjuna. Þetta hefur samt trúlega töluvert með verðmætamat starfa að gera. Ég sá til að mynda á tölum frá samantekt Jafnréttisstofu að laun hafa hækkað fyrir fiskvinnslu og veit ég alveg að það er vegna þess að vinnan hefur færst úr frystihúsum í landi út á sjó. Ég hef sjálf sannreynt að það fást mun hærri laun fyrir orma- og beinhreinsun úti á sjó (dæmigert karlastarf) heldur en í frystihúsi í landi (dæmigert kvennastarf). En talandi um viðhorf þá hef ég örugglega líka fengið mun meira klapp á bakið fyrir að vera togarajaxl og hafa mígið í saltan sjó en þeir karlmenn í minni fjölskyldu sem sótt hafa sjóinn. Þetta er merkilegt þegar maður veltir fyrir sér breytilegum viðhorfum til hlutanna og þess að passa inn í staðlað kyngervi. Það er nefnilega þannig að í gegnum árin hafa konur sem vinna karlastörf verið álitnar “naglar” á meðan karlar sem unnið hafa við dæmigerð kvennastörf eru álitnir “hálfgerðar kerlingar”, eða er ekki svo?

 

En að foreldrahlutverkinu og umhyggjukarlmennskunni í nútímasamfélagi. Við hjónin eignuðumst þrjú börn á 11 ára tímabili og man ég eftir einu tilviki eftir að við eignuðumst yngstu dóttur okkar 2003 (nýju fæðingarorlofslögin að fullu til framkvæmdar það ár ;-). Ég þurfti að fara að vinna úti á landi rúmum mánuði eftir fæðinguna og fór pabbinn í fæðingarorlof og var hann heima alsæll með ungann ....á meðan hann fékk ótrúlega mikið klapp á bakið fyrir kjark og dug, var ég litin hornauga fyrir að yfirgefa barnið heila helgi. Ég veit ekki heldur hvort það er vegna meiri samveru við pabbann fyrstu mánuðina (þökk sé nýju fæðingarorlofslögunum), en sú stutta er X-tra mikil pabbastelpa. Fyrir mig er það skrítið að hafa hana ekki eins háða mér og tvö eldri systkinin, en bíddu við, var pabbinn ekki þá í öðru sæti hjá eldri börnunum?

 

Ég vil að lokum óska Kvennréttindafélagi Íslands til hamingju með árin 100 og þakka fyrir velunnin störf í þágu jafnréttis. Við þurfum öll að byrja á því að líta í eigin barm og taka okkur tak í jafnréttismálunum og ekki síst í viðhorfum okkar til hinna ýmsu hlutverka og starfa. Ég vona svo sannarlega að á næstu 100 árum muni fullu jafnrétti verða náð og árið 2107 muni ungir Íslendingar læra um jafnréttisbaráttu karla og kvenna  í sögubókum, en það er eitthvað sem tíminn einn mun leiða í ljós.


mbl.is Kvenréttindafélag Íslands 100 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband