Umhverfisumræða á villigötum

Mikið hefur verið rætt um Framtíðarlandið og sáttmálann góða. Ég á eftir að kynna mér hann og ætla að nota daginn í dag, en er ljóst að ég skrifa ekki undir með neinum fyrirvara. Það er kannski erfitt fyrir mig að fjalla meira um sáttmálann þar sem ég hef ekki lesið hann, en mun ég fjalla um það seinna.

Það er mín skoðun að umhverfisumræðan sé komin út í tóma vitleysu og er fólk farið að slá fram einhverjum frösum án innistöðu, sem bendir líka til góðra áróðursmeistara innanborðs og að "markaðs"setning sé í lagi. Svona eins og fyrir 20 árum þegar Theresa mágkona ætlaði að ættleiða hval hjá ákveðnum náttúruverndarsamtökum...bara af því bara. Annað dæmi um þetta er t.d. þegar Varmársamtökin fóru að mótmæla 500 m löngum tengivegi sem leggja á fyrir ofan Álafosskvosina sem verið hafði á skipulagi í áratugi. Nú þegar komið var að lagningu brautarinnar sem eðlileg tenging við Helgafellshverfið sem er að rísa fyrir ofan, varð allt brjálað. Bæjaryfirvöld höfðu algjörlega farið að öllum leikreglum,og hef ég áður skrifað um það mál og áhugasamir geta lesið það hér. Meðan á þessu stóð hafði fólk um allt land skoðun á málinu og heyrði maður ítrekað og las...."tengibrautinni sem átti að leggja í GEGNUM Álafosskvosina" , sem er náttúrulega algjör vitleysa...tengibrautin er fyrir OFAN kvosina. Dag eftir dag heyrði maður umfjöllun um þetta mál og best þótti mér samt þegar talað var um Álafosskvíslina í fréttatíma eftir fréttatíma.....sem átti víst að vera Varmáin held ég við Álafosskvosina. Aðrir töluðu um að þetta svæði væri í Mosfellsdalnum og enn aðrir grétu jafnvel í beinni fyrir framan gröfur og höfðu sterkar fullmótaðar skoðanir á þessum umhverfisspjöllum .... en vissu lítið sem ekki neitt um málið og af hverju þau voru á móti.

Ég er svolítið hugsi yfir þessari umhverfisumræðu. Maður hefur heyrt ótrúlegustu fullyrðingar undanfarið og er algengt að fólk tali um að við sjálfstæðismenn höfum ekki áhuga á umhverfismálum. Hvað er verið að tala um? Hvað er að hafa áhuga á umhverfismálum?

Er það að:

  • hætta að virkja fallvötnin?
  • byggja ekki nein álver og því síður kjarrorkuver?
  • hætta að veiða fisk og hval?
  • hætta að yrkja jörðina og leggja niður búskap í sveitum landsins?
  • leggja ekki nýja vegi og brýr?
  • byggja ekki jarðgöng?
  • sleppa því að malbika, ólíunnar vegna
  • byggja ekki ný íbúahverfi á fyrrum landbúnaðarsvæðum?

Ég spyr mig, því ef svo er þá þakka ég fyrir að Jón Þorláksson landsverkfræðingur og stofnandi Sjálfstæðisflokksins var ekki í þeim hópi. Því ef svo hefði verið þá værum við enn  keyrandi um í kindaslóðum og sætum enn atvinnulaus með sultardropa í nefinu, hóstandi í kolarykinu (talandi um svifryk). Það má vel vera að einhverjir segi sem svo að um útúrsnúning sé að ræða, en með þessum orðum er ég að undirstrika það að fólk þarf að horfa á hlutina í samhengi, við viljum jú flest halda landinu í byggð. Það er ekkert sjálfgefið að við Íslendingar höfum það eins gott og raun ber vitni.

Einn frasinn sem svífur yfir vötnunum þessa dagana er að það eigi að virkja hugvit manna, en ekki náttúruna. Já einmitt, við Íslendingar eigum að halda áfram að virkja hugann og þá gríðarlegu þekkingu og áratugareynslu sem við höfum á nýtingu á hreinni orku og gefur nýji umhverifs- og auðlindaháskólinn á Keflavíkurflugvelli Íslendingum aukin tækifæri á heimsvísu. Í mínum huga þá verðum við að horfa á stóru samfélagsmyndina og muna að hlutirnir eru ekki bara gráir eða grænir. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Ég lenti í smá veseni með bloggið mitt og eyddi út fyrri færslu og þar með athugasemdum frá Júlíusi Sigurþórssyni og Guðmundi Bragasyni og bið þá afsökunar á því, en hér er það sem mér tókst að bjarga.

Júlíus Sigurþórsson, 21.3.2007 kl. 12:17

Það er löngu ljóst að þetta er athyglissýki á háu stigi, fól...

Þessi athugasemd kom frá Guðmundi Bragasyni

Heyr heyr!

Herdís Sigurjónsdóttir, 21.3.2007 kl. 15:35

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Fikt er besti skólinn

Annars er grátlegt hvernig misviturt fólk virðist geta gengið inn í hvaða fréttatíma sem er og grátið umhverfisspjöll hingað og þangað.

Alveg undarlegt hvernig fréttastofur hafa hlaupið langar leiðir eftir vitleysunni og svo dynur þetta á þjóðinni í tíma og ótíma.

Júlíus Sigurþórsson, 21.3.2007 kl. 16:29

3 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Var einmitt að blogga um sama efni

Eini umhverfisflokkurinn í rauninni er sjálfstæðisflokkurinn. Hann er sá eini sem vill nýta auðlyndir okkar og vitrænan hátt og þess vegna m.a. kýs ég hann.

Ágúst Dalkvist, 21.3.2007 kl. 19:46

4 identicon

Tek undir hvert orð hjá þér.

Glanni (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 01:30

5 identicon

Sæl Herdís og takk fyrir kveðjuna.  Afsakaðu að ég nota athugasemdir til að segja hæ, finn ekkert í líkingu við gestabók.  Annars er það svo að mín sýn á umhverfismálum breyttist svolítið eftir að ég fór að vinna hér í Bosníu.  Hér er mikið verk óunnið í umhverfismálum og ég gleðst yfir því að við, Íslendingar, skulum geta lagt okkar af mörkum í umhverfismálum með að ,,hýsa" stóriðju heima, með þeim reglum sem við höfum um mengun, útblástur og slíkt. Á meðan eru þessar verksmiðjur ekki í öðrum löndum með engum eða lélegum reglum um slíkt, líkt og virðist vera hér.  Á sama tíma og við sorterum pappír og slíkt og skilum í endurvinnslugáma, pössum upp á gosdrykkjaumbúðir og leyfum t.d. íþróttafélögum barna okkar að njóta endurgreiðslunar þá liggur slíkt hér út um allt, stálverksmiðjur og nágrenni sjást ekki fyrir reyk, gil til fjalla eru full af rusli og eldri bílar eru knúnir með ruslolíu frá Rússlandi.  Jú, þeir eru reyndar með mikið af trjám og gróðri á móti allri þessari mengun en hér er t.d. í gangi vorhreingerning, bæði innan borgar og utan, og fer hún þannig fram að kveikt er í, svokallaðir sinueldar, og á kvöldin má sjá fjallshlíðar skíðloga.  Herdís, farðu vel með þig, njóttu myndanna á síðunni minni og sjáumst á næsta ári vonandi.  G.Fylkis. Sarajevo

Guðm. Fylkis (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband