Útivinnandi húsmóðir og mamma

Á undanförnum dögum hefur verið mikil og jákvæð umræða um að besta forvörnin séu samvistir með foreldrum og skipulögð íþrótta og tómstundastarfsemi og að krakkar hafi það sterka sjálfsmynd og styrk að þau geti sagt nei við vímuefnum. Ég tek heils hugar undir þetta og fagna því að krakkarnir mínir eru virkir í íþróttum og tómstundum og njótum við fjölskyldan þess svo sannarlega að vera saman.

Ég er samt hugsi yfir umræðu sem hefur svolítið fylgt forvarnaumræðunni. Eða það að eina rétta sé að hætta að vinna svona mikið úti frá börnunum og mannvonska sé að láta leikskóla um uppeldið og geyma börnin í 8-9 tíma. Svo þegar foreldrarnir sæki þau loksins sé bara eftir að baða, hátta og svæfa. Það læðist nú að mér sá grunur að þeir sem tala svona hafi ekki nýtt sér dagvistun allan daginn. Við hjónin eigum þrjú börn og það elsta 15 ára. Ég hef alla tíð unnið úti allan daginn og var reyndar ekkert annað í boði þegar ég byrjaði að vinna úti, enda þá eina fyrirvinnan og maðurinn þá enn í skóla. Ég hef á þessum árum frá því að ég lauk námi margoft tekið þátt og orðið vitni af þessari umræðu um að vinna úti frá börnunum allan daginn. Ég hef heyrt hjá starfsfólki leikskóla að þetta sé ekki hægt að litlu greyin hafi lengri vinnudag en allir starfsmenn skólans. Ég hef líka oft heyrt að við, "þessir foreldrar" eigum bara ekki að eignast börn við getum ekki sinnt börnunum.

Það er staðreynd að þessi umræða beinist oftar en ekki gegn okkur mömmunum, enda er það langalgengast að ef annað foreldrið er heima með börnin, er það mamman sem vinnur heima. Það er að sjálfsögðu öllum frjálst að velja það að vera heima og virði ég þá ákvörðun fólks að gera slíkt þó að ég velji að vinna úti og maðurinn minn líka. Enda getur það varla verið meining fólks sem talar svona að ef foreldrar ákveða, eða þurfa að vinna úti frá börnum sínum allan daginn, þá sé betra fyrir það sama fólk að sleppa bara að eignast börn? 

Margt hefur áunnist í jafnréttismálum á þeim árum sem liðin eru síðan við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barn. Þegar maðurinn minn tók fyrst veikindadag með veiku barni sínu, varð einum eldri starfsfélaga hans að orði, "bíddu ertu ekki giftur?". Ég held að svona heyrist nú ekki mikið í dag, enda sjálfsagt mál að pabbar taki veikindadaga líkt og við mömmurnar. Ég held að fæðingarorlofið hafi breytt miklu varðandi viðhorf til þessara hluta og þótti mörgum fjarstæða að skilyrða pöbbum 3 mánuði og gera þeim kleift að vera heima í 3-6 mánuði með ungum börnum sínum. En ég segi fyrir mig að ég vissi að þetta væri stórt skref þegar við samþykktum þetta á landsfundi um árið, en mig óraði samt ekki fyrir því hvað þetta ætti eftir að hafa jafn víðtæk og mikil áhrif á vinnumarkaði og raunin hefur orðið. En enn eigum við langt í land og vona ég svo sannarlega að öll börnin mín þrjú komi til með að njóta jafnra tækifæra í lífinu.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Vel ritað mín kæra. Það er vandfundinn sökudólgurinn í þessum málum, en að mínu mati eru það stundirnar sem við eigum með börnunum okkar sem skipta mestu, ekki lengdin, þó svo hún sé líka góð. Þegar mín 3 voru lítil, 1-7 og 11 þá var alltaf klukkutími á milli háttatíma, þannig gat ég deilt mér á kvöldin. Það var ekki fyrr en sú elsta fermdist að hún fékk að vera lengur frammi með mömmu, strákarnir héldu sínu róli alveg uppí 6-12 ára og líkaði öllum vel.  Kær kveðja til þín á ný og ég veit að þú hugsar vel um þín börn.

Ásdís Sigurðardóttir, 19.11.2007 kl. 01:32

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Æi vinkona takk, mikið var þetta fallega sagt. Ég gæti ekki hugsað mér lífið án minna barna, enda börnin það sem gefur lífinu gildi .

Ég gæti vel hugsað mér samfélagið fjölskylduvænna, vinnudaginn styttri og pressuna minni og stressið. Mikilvægt er að ná samfellu í skóladegi barnanna og hefur verið unnið að því hér í Mosfellsbænum. Að flétta inn í skólann frístund, íþróttir, tónlistarnám. Þannig að þegar allir eru búnir að vinna, börn og foreldrar geta þau notið þess betur að vera saman.

Mér þótti ágætt viðtalið við gömlu konuna sem tók þátt í verkefninu að brúa bilið milli kynslóða og fékk litla leikskólakrakka í heimsókn. Hún sagðist ekki hafa verið á leikskóla, en henni litist vel á það starf sem þar væri unnið og metnað sem lagður er í starfið. Mér fannst líka alveg dásamlegt sem leikskólakrakkarnir sögðu. Að þau væru að kenna gamla fólkinu að föndra og svo sagði líka einn þegar hann var spurður hvað gamall væri... "það er svona þrjátíu ára" , sagði smondið þá.

Minn punktur í þessu öllu er að það sé ekki endilega samasemmerki milli þess ef foreldrar vinni úti, sé illa komið fyrir börnunum þessa lands. Það verður að horfa á stóru myndina og virða val hvers og eins, en sannleikurinn er samt sá að það eru ekki allir sem hafa val.

Herdís Sigurjónsdóttir, 19.11.2007 kl. 09:33

3 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Gaman að lesa þetta hjá þér Herdís.  Aðalmálið að hafa jafnrétti í þessu sem og öðru. 

Marinó Már Marinósson, 19.11.2007 kl. 21:25

4 identicon

Sonur minn er 5 ára gamall og er búinn að vera veikur núna síðan á fimmtudag. Eins og staðan er nú er eiginkonan mín í barneignafríi og þess vegna var ég ekkert heima þessi veikindi hans, en þó er staðreyndin að við skiptum alltaf með okkur þeim dögum sem börnin okkar eru veik.

En því miður er raunin oft sú að umræðan um jafnrétti, verkaskipting hjóna og aðrir hlutir sem fólk tengja kynjabaráttunni fari út í neikvætt jarm.

Í upphafi sambands okkar hjónanna vann Miriam úti meðan ég kláraði lærdóminn, í dag er hún að vinna hálfan daginn að hennar ósk. Þetta fyrirkomulag er eitthvað sem við tókum sameiginlega. Ég hef því miður fengið yfir mig ræður frá femínistum út af núverandi fyrirkomulagi.

Jafnréttisbaráttan er sú mikilvægasta í almennu samfélagi. Enn svo framarlega sem við lítum á hluti frá annað hvort sjónarhóli kvenna eða karla, betur sagt að við eigum að hætta að draga fólk í dilka eftir því af hvaða kyni það er,  og ekki frá hverjum einstakling fyrir sig þá mun jafnrétti aldrei ríkja.

Karl,kona,Asíubúi, blökkumaður, Íslendingur, Þjóðveri, feitur grannur, stór, lítill, gagnkynhneigður, samkynhneigður, Kristinn, Múslimi, Liverpool aðdáandi, Man . United aðdáandi o.s.f. Allir þessir mismunandi þætti sé ég ekki. Ég sé einfaldlega einstaklinga og fjölskyldur sem eiga að hafa jöfn tækifæri.

Hallgrimur Viðar Arnarson (IP-tala skráð) 20.11.2007 kl. 10:03

5 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Takk Marinó minn, þú eðalpabbinn ert nú góð fyrirmynd .

Ég gæti ekki verið meira sammála þér Hallgrímur Viðar, við höfum flest val, sem getur fer og gerum það sem okkur hentar á hverjum tíma. Við hjónin erum algjörlega "jafnvíg" á heimilisstörfin og berum jafna ábyrgð á hlutunum. Það eru ekki allir sem trúa því, en svona er þetta nú samt. 

Já það eru mikil veikindi þessa dagana. Litlan mín fjögurra ára búin að vera veik frá því á miðvikudeginum í síðustu viku og miðað við stöðu mála fer hún ekki í leikskólann fyrr en eftir næstu helgi og skiptum við foreldrarnir veikindadögunum á milli okkar.  Batakveðjur til ykkar frá okkur lasarusunum úr Mosfellsbænum.

Herdís Sigurjónsdóttir, 20.11.2007 kl. 19:23

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Fyrirgefið, ég hef kannski ekki lesið færsluna nógu vel eða athugsemdir hér að ofan en vil sant kasta mér mér inn í umræðuna.

Það er gæðatíminn sem skiptir máli en ekki magn ef svo má orða það.

Ef eitthvað er, finnst mér aldrei of nógu mikil áhersla lögð á samtöl við börn sín, bara upp á gamla mátan, setjast niður og spjalla saman, tala, tala og tala saman á móðurmálinu. Þetta er hægt að gera með ótrúlega ungum börnum, ræða málin.
Þau skilja meira en nokkurn grunar miða við aldur og fyrri störf.
Með 6 ára er hægt að setjast niður og tala um hvað það þýðir að vera stundvís, vera heiðarlegur, hvað hugtakið einelti merkir og hvað mikilvægt það er að eiga engin vond leyndarmál osfrv

Svona mætti lengi telja. Með unglingunum fer maður gjarnan á kaffihús, bíður upp á kakó og köku og spyr svo, hvað segir þú gott? Hvernig gengur þitt líf osfrv.? Svo má spyrja hvort þau hafi áhuga á að vita hvernig ykkur líður þ.e. foreldrinu sem situr á kaffihúsinu með þeim. Þetta er mjög gaman, oft sér maður allt aðra hlið á barni sínu undir þessum kringumstæðum.

Kolbrún Baldursdóttir, 20.11.2007 kl. 20:56

7 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Þetta eru góðir punktar Kolbrún. Ég heyrði eitt gott ráð frá móður í spjalli í Marítafræðslu í skólanum í gær. Hún sagði okkur frá því að stóri strákurinn hennar hefði kvartað yfir því að hún fór og svæfði yngri systkini hans og hann fengi ekki svona gæðastund með henni einni. Þau sömdu um að hún kæmi alltaf á þriðjudögum til hans í spjall og árum saman hafa þau átt saman þriðjudagskvöldin saman fyrir svefninn. Alveg yndislegt, við spjöllum mikið saman á mínum bæ, en alltaf er hægt að bæta við föstum gæðastundum sem þessum.

Herdís Sigurjónsdóttir, 20.11.2007 kl. 21:47

8 identicon

Halló Herdís.  Hér var ég búinn að skrifa langa athugasemd um kosti þess að vera vaktavinnumaður og þau forréttindi sem ég bjó við að geta séð einn um framfærsluna á meðan börnin voru ung.  Börnin mín líta á það sem forréttindi að eiga pabba sem er heima virka daga og á reglulegt helgarfrí og er þá ekki alltaf dauðþreyttur. 

Kveðja frá Sarajevo, ætla ekki að endurtaka alla langlokuna,

Guðm. Fylkisson (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 09:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband