Endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir, fundur í HÍ 4. september

Það var hnútur í maganum í gær þegar Gustav nálgaðist New Orleans. Ég fór þangað á náttúruhamfararáðstefnu fyrr á þessu ári og sá með eigin augum hvað endurreisn samfélagsins þar hefur gengið hægt fyrir sig. Það hefði því verð hörmulegt fyrir íbúa svæðisins ef Gustav hefði skilið eftir sig "sviðna" jörð eins og Katrín og Ríta gerðu fyrir þremur árum síðan. Flóðvarnargarðarnir 30 héldu núna, en byggðin er undir sjávarmáli eins og flestir vita og vegna rigninga eru allar dælur á fullu að dæla rigningarvatni upp úr dældinni í þessum skrifuð orðum.

Næstkomandi fimmtudag, 4. september verður haldin opinn fundur í hátíðarsal Háskóla Íslands og verð ég með erindi á þeim fundi. Þar mun rannsóknarhópurinn sem ég hef starfað með síðastliðin tvö og hálft ár kynna niðurstöður rannsókna okkar um endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir. Verkefnið heitir Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum og er fyrri hluti meistaraverkefnis míns Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga, partur af rannsókninni. Ég greindi þau lög, reglugerðir og sjóði sem gilda á neyðar og endurreisnartímum og eins samskipti og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í kjölfar náttúruhamfara. Ein afurð rannsóknarinnar eru leiðbeiningar fyrir sveitarfélög sem við höfum gert, sem er áætlun sem þau geta stuðst við eftir náttúruhamfarir, en það eru sveitarfélögin sem leiða endurreisnarstarf eftir slík áföll. Hef ég verið að vinna með sveitarfélögum á Suðurlandi eftir jarðskjálftana þar í sumar, en þau tóku nýttu sér þessa vinnu okkar og hafa aðlagað að sínu stjórnkerfi og var það mikil og góð reynsla.

Ég hvet alla áhugasama til að koma og hlusta á niðurstöður okkar á fundinum sem hefst kl.13.15.

Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands og ráðgjafastofan Rainrace ehf

bjóða til fundar um

Endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir

í Hátíðarsal Háskóla Íslands

fimmtudaginn 4. september 2008 kl.13:30 - 17:00.

Kynntar verða niðurstöður verkefnisins

Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum,

sem fjölmörg sveitarfélög, ráðuneyti, ríkisstofnanir, félagasamtök, ásamt íbúum hamfarasvæða og sérfræðinga á sviði áfallastjórnunar hafa komið að. 

Meðal afurða verkefnisins eru leiðbeiningar um endurreisn, sem sveitarfélög á Suðurlandi vinna nú eftir.

Dagskrá

Setning: Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða.

Ávarp: Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sem jafnframt er formaður almannavarna og öryggismálaráðs.

Erindi flytja:

Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, Herdís Sigurjónsdóttir, Sólveig Þorvaldsdóttir, kynna niðurstöður rannsóknarinnar Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og mun hann m.a. fjalla um endurreisn samfélags eftir náttúruhamfarir.

Ólafur Örn Haraldsson, verkefnisstjóri þjónustumiðstöðvar almannavarna á Suðurlandi, hann mun fjalla um starfsemi þjónustumiðstöðvarinnar sem opnuð var í kjölfar jarðskjálfta á Suðurlandi í maí 2008.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg sem fjallar um viðbrögð sveitarfélags eftir náttúruhamfarir.

Fundurinn er opinn og allir velkomnir

Hér er meira um verkefnið.

Á fundinum verður gerð grein fyrir meginniðurstöðum verkefnisins Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum. Verkefnið tekur á endurreisn, sem er þáttur í starfi almannavarna sem lítið hefur verið rannsakaður til þessa hér á landi. Niðurstöður sýna mikilvægi þess að undirbúa markvisst endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir og önnur áföll.

Kynnt verður afurð verkefnisins sem eru almennar leiðbeiningar sem sveitarfélög geta nýtt sér til að útbúa viðbragðsáætlun um viðbrögð vegna neyðaraðstoðar og endurreisnar í kjölfar náttúruhamfara. Ráðist var í verkefnið vegna þess að reynsla af fyrri áföllum hefur sýnt að slíkra leiðbeininga er þörf. Leiðbeiningarnar eru byggðar á greiningu á margþátta reynslu sem safnast hefur vegna afleiðinga snjóflóða og jarðskjálfta hér á landi undanfarin ár, einnig á greiningu á lögum og reglum sem varða náttúruhamfarir, úttekt á mögulegri fjárhagsaðstoð til þolenda, og upplýsingum um áfallahjálp og aðkomu hjálparsamtaka, einkum Rauða kross Íslands.

Í leiðbeiningunum felst tillaga að tímabundnu starfsskipulagi sveitarfélaga í kjölfar áfalla sem hvert sveitarfélag í landinu getur notað til að útbúa sértækar leiðbeiningar fyrir sig. Hveragerði og Árborg nýttu þessar leiðbeiningar í notkun við uppbyggingu eftir jarðskjálfta 29. maí s.l. og verður sú reynsla kynnt á fundinum.

Verkefnið hefur verið unnið sl. 2 ár í samvinnu Stofnunar Sæmundar fróða og ráðgjafastofunnar Rainrace ehf., með aðstoð fjölmargra sveitarfélaga, ráðuneyta, ríkisstofnana, félagasamtaka, að ógleymdum íbúum hamfarasvæða og ýmsum sérfræðingum í viðlagamálum.


mbl.is Gustav reyndist veikari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Þetta hljómar vel.   Engin smá kraftur í þér. Enda þykjumst við fv. vinnufélagarnir eiga smá í þér í þessari vinnu.   Þú verður orðinn aðal sérfræðingur landsins í vörnum gegn náttúruvá, áður en langt um líður ef ekki nú þegar.

Marinó Már Marinósson, 2.9.2008 kl. 12:35

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta verður örugglega magnaður fundur. Kemst því miður ekki, er ekki farin að sitja lengi í einu ennþá.  Það slapp ótrúlega vel til með Gustav, vona að það verði ekki fleiri stórir á næstunni.  Gangi þér vel þann 4.sept. kær kveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 2.9.2008 kl. 16:02

3 Smámynd: Ingibjörg R Helgadóttir

Kvitti kvitt  

Ingibjörg R Helgadóttir, 3.9.2008 kl. 23:23

4 Smámynd: Jón Brynjar Birgisson

Hæ Herdís.

Takk kærlega fyrir fundinn. Hann var mjög fræðandi og gott innlegg til þess að leiða umræðuna um almannavarna- og viðlagamál inn á réttar brautir. Verst að ég náði ekki að sitja alveg út fundinn þar sem ég þurfti að mæta á fund úti á landi. Ég hlakka mikið til að lesa skýrsluna/bókina.

Jón Brynjar Birgisson, 5.9.2008 kl. 01:37

5 identicon

Þú ert frábært og ótrúlega dugleg.

Til hamingju með fundinn, komst ekki en hefði vilja fræðast um málið

Kv.

Jónína Hafdís

Jónína Hafdís (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 15:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband