Frænkurnar fræknu hittust á frænkumóti í Grindavík

Frænkuboð barnadætra Jóns Kristins og Hallfríðar

Ég var að koma frá Grindavík, frá því að hitta tæplega 30 fræknar frænkur. Sumar þeirra var ég að hitta í fyrsta sinn, en það var nákvæmlega ástæða þess að við Stefanía María Pétursdóttir frænka mín sáum ástæðu til að hóa frænkunum saman, eða til að kynnast. 

Við Stefanía María hittumst við athöfn í Hólavallakirkjugarði 18. júní 2005 og fórum þá fyrst að tala um frænkuboð. Þá minntust við  þess frænkurnar að 90 ár voru liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og var dagskrá í kirkjugarðinum til að minnast forystukvenna kvenréttindahreyfingarinnar. Þá spilaði einmitt ein frænkan, hún Hallfríður Ólafsdóttir dóttir Stefaníu Maríu glæsilega á flautu. Næst fórum við Stefanía María að ræða frænkuboðið þegar við hittumst 18. september sl. á jafnréttisþingi í Mosfellsbæ, sem haldið var til heiðurs Helgu J. Magnúsdóttur, en á þessu ári eru 50 ár liðin síðan Helga settist fyrst kvenna í stól oddvita í Mosfellsbæ. Þá tók ég upp dagbókina mína og ákváðum við að frænkuboðið yrði haldið 12. október 2008. Í Salthúsinu í Grindavík sem Kristín systir mín á, það væri mun skemmtilegra en að hittast á einhverju alveg "óskildu" kaffihúsi á svæðinu.

Nú ég stóð mig vel í því að ákveða daginn og allt það en frænka mín SM sá um rest. Hún útbjó þetta líka flotta bréf og sendi á frænkurnar og í gær héldum við að 14-16 myndu mæta og þótti okkur það flott start. Um daginn sagði ég bara mömmu frá því að við frænkur hefðum hist og ákveðið að hóa frænkunum saman, en gleymdi ég að segja Kristínu stóru systur minni þetta og líka Diddu frænku, en þær mættu og það er mest um vert.

Í dag fórum við mæðgur, Ásdís Magnea og Sædís Erla í Grindó, þrælspenntar yfir því að hitta allar þessar frænkur. Það rættist heldur betur úr frænkuboðinu og mættu hvorki meira né minna en 28 frænkur og einn lítill frænkusnúður sem er enn á brjósti og er alveg spurning hvort hann fái ekki bara ævileyfi til að mæta í frænkuboðin, fyrst hann mætti á stofnfundinn.

Þetta var yndislegur dagur í alla staði og þótti mér sérstaklega gaman að Hallfríður Péturs frænka mín mætti, en hún er á spítala og fékk helgarleyfi og lét þetta frænkuboð ekki fram hjá sér fara. Það var líka gaman að hitta allar hinar flottu frænkur mínar og er ég þegar búin að búa til hóp á Facebook "Frænkurnar fræknu" og ætla ég að leggja mig fram við að safna frænkum mínum.

Áður en fundi var slitið vorum við farnar að plana ættarmót í Hrísey. Hver veit nema það muni ganga eftir fyrst búið er að leggja frænkunetið. Við fengum líka heimavinnu, frá Birni Péturs frænda okkar, hann er ættfræðingurinn með stóri Æi í okkar fjölskyldu. Á næstunni munum við fara yfir ættartöluna og bæta við nýjum frænkum, frændum og uppfæra upplýsingar sem Björn hefur safnað í gegnum árin. Hver veit nema ættartalan verði einmitt gefin út í tilefni ættarmóts í Hrísey, mót afkomenda þeirra hjóna Jóns Kristins og Hallfríðar.

Hér er hægt að sjá nokkrar frænkumyndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Sæl frænka til hamingju með þetta. Þetta er fríður hópur.

 Herdís, það þyrfti svona dugnaðarfork eins og þig til að hafa forystu um ættarmót okkar úr Skógarnesi.  Ég skal gerast handlangari.

Sigurður Þórðarson, 12.10.2008 kl. 21:17

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Flottar frænkur! Til hamingju með mótið, sniðug hugmynd.

Vilborg Traustadóttir, 13.10.2008 kl. 00:59

3 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já Siggi, við verðum nú að fara að hittast Skógarnesliðið. Ég hélt nú í tvígang selkjötsveislu fyrir afkomendur lagnafa og langömmu í Rituhöfðanum og gleymi ég aldrei fyrra skiptinu 11.september 2001. En svo fór ég í skóla, en ætla að útskrifast í  byrjun næsta árs svo þá ætti maður nú að fá tækifæri til að líta upp. Siggi eigum við ættfræðing í ættinni? Einhvern sem á ættartöluna okkar?

Herdís Sigurjónsdóttir, 14.10.2008 kl. 08:59

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Selveislur er frábær arfleið bæði er þetta fínn matur en aðalatriðið er auðvitað skemmtunin.  Togga frænka (Þorgerður Sigurðardóttir) er óumdeilanlega ættfróðust okkar í okkar nánasta hóp ásamt Imbu nágrana þínum. En það eru auðvitað fleiri ættfróðir ef við teygjum þetta lengra. Í Rauðkólstaættinni er ættfróðastur Jóhannes Ellertsson (sonur fyrrum bæjarstjóra í Keflavík).  Svo má ekki gleyma ábúendum að Skógarnesi, þeim Guðríði og Trausta sem vilja allt fyrir alla gera. Ef í nauðir rekur myndi ég leita til Jóns Vals Jenssonar.

Gangi þér allt í haginn.

Sigurður Þórðarson, 15.10.2008 kl. 21:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband