Breytt sjálfsmynd Íslendinga

Já blessuð krónulufsan eins og Edda Rós kallar íslensku krónuna. Mikið rétt hjá henni að verkefnið er að reyna starta krónunni, en stóra spurningin er hvar við fáum kaplana og rafmagnið sem þarf. Er mjög sátt við nýfenginn stuðning Póllands, en jafn svekkt yfir framkomu stórra "vina"þjóða í IMF málinu, en það verður ekki liðið eins og Geir sagði í gær.

En það sem ég er að velta fyrir mér í dag er breytt ímynd okkar Íslendinga, sjálfsmynd lítillar þjóðar. Hér hafa nokkrir Íslendingar þotið um heiminn, eins og hann sé í eigu þeirra sjálfra, fjárfest og sumir hafa komið eigum sínum fyrir í "fríríkjum", en það hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og ætla ég ekki að fara meira út í það. En við "litlu Íslendingarnir" höfum líka farið um heiminn og verið bara nokkuð sátt við þessa ímynd frumkvöðla, víkinga sem geta allt, vita allt og (sumir) eiga allt. Danir og allir hinir sem hafa verið að hnýta í velgengni okkar manna hafa bara öfundað okkur! En hvað svo?

Nú bankakerfið hrundi og velgengni sumra einstaklinga með, en alls ekki allra fyrirtækja. Enn eigum við Össur og fleiri frumkvöðlafyrirtæki sem ganga vel. Það er vissulega erfitt að reka fyrirtæki í dag, en það mun breytast, þetta vitum við. En það er núið sem verið er að berjast við og erfitt að horfa bjartsýnn til framtíðar þegar óvissan er svona mikil.

En nú fer litli Íslendingurinn til útlanda, getur ekki farið út að borða án þess að borga fyrirfram, er vantreyst og fólk er lítillækkað, við erum ekki lengur frumkvöðlar og hetjur. Ekki má gleyma í þessu sambandi þeim sem verst fóru með okkur, Bretum sem beittu hryðjuverkalögum á okkur, ekki bara bankaviðskiptin, heldur á íslenska þjóð. Þessu gleymum við ekki.

Það verður að segjast að þetta er svolítið skrítið fyrir litla Íslendinginn, sem situr með vandann í fanginu. Lánin sem hækka og éta upp eigurnar. Daglega heyri ég af fólki sem ég þekki, sem er hætt að borga af íbúðum og bílum og bíður eftir gjaldþroti. Fólk sem er að skilja og annað tekur á sig gjaldþrot svo hægt sé að halda saman fjölskyldunni á annarri kennitölu.

Já svona er Ísland í dag.


mbl.is Koma „krónulufsunni" í gang á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó Már Marinósson

Já þetta er sorglegt hvernig komið er.   Ég er hættur að hlusta á allar fréttir.  Mér finnst ekkert vera að gerast til að koma hjólinu af stað.   

Ég vil sjá stórar framkvæmdir strax í vetur svo við missum ekki allt þetta fólk í volæði og það jafnvel úr landi.   

Marinó Már Marinósson, 8.11.2008 kl. 00:39

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Svo eru íslendingar stöðvaðir af öryggisvörðum á flugvöllum eins og í Hollandi og spurðir hvort þeir séu að fara með peninga úr landinu!

Knús á okkur öll.

Vilborg Traustadóttir, 8.11.2008 kl. 02:21

3 Smámynd: Guðrún Indriðadóttir

þetta er hræðilegt er það virkilega þannig að einhver hafi lent í því í Hollandi að vera stöðvaður og spurður að þessu.

Guðrún Indriðadóttir, 10.11.2008 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband