Gleðileg jól

DSC09745

Jólin eru tími kærleika og friðar. Tíminn þegar jólalögin fara að hljóma og mannlífið fær á sig annan blæ. Fallegar jólaskreytingar lífga upp á umhverfið og jólaljós lýsa upp skammdegið. Spenningur barnanna eykst dag frá degi og velta mörg fyrir sér þessum jólasveinum sem ná að gefa öllum börnum í skóinn á einni nóttu, vita hvort þau fara snemma að sofa og eru þæg og góð. Já en, hvernig komast þeir inn?  Við foreldrar endurnýtum alla gömlu góðu frasana, sem við fengum að heyra sem börn við sömu heimspekilegu jólasveinaumræðurnar.

Fjölskyldu og vinabönd eru treyst á þessum tíma. Fjölskyldur koma saman og jólakveðja send í jólakorti eða netpósti til vina og fjölskyldna og fólk minnist liðinna ára. Í ár er annar blær á jólaundirbúningi og hefur efnahagskreppan vissulega sett mark sitt á samfélagið. Margir eiga um sárt að binda um þessar mundir og sinna margir bæði opinberir aðilar og hjálparstofnanir aðstoð við þá sem þurfa. Minni áhersla er á hið efnahagslega og höfum við Íslendingar skipt niður um marga gíra í kaupæðinu, sem vissulega mátti gerast, en kannski ekki svona harkalega. Nú er mikilvægt að huga að hinum innri búnaði og öllu sem skiptir okkur mestu máli í lífinu, fjölskyldu og vinum. Er ekki einmitt gott að staldra við og velta því fyrir okkur hvort ekki sé kominn tími til að nýta betur tímann sem við eigum og njóta. Ég hvet fólk líka til að staldra við og fara yfir það í huganum hvort mögulega er einhver í nærumhverfinu sem gæti verið einmana. Einhver sem ekki fær þess notið að tala við eða hlæja dátt með einhverjum. Einmanaleikinn nístir sál og eru meiri líkur á að hann sverfi að á efri árum ævinnar og einmitt um jólin. Kannski er sjaldan mikilvægara en einmitt í ár að hafa þetta í huga.

Jólin eru vissulega trúarhátíð kristinna. Haldið er upp á komu Krists í heiminn, ljóss heimsins sem fæddist í Betlehem. Helgileikir eru hluti af undirbúningi jólanna. María, Jósef, jólastarnan. Jesú er reifaður og lagður í jötu fær gull, reykelsi og myrru að gjöf frá vitringunum þremur. Spaugstofan var með nýja útgáfu af helgileiknum. En í Útrásarvíkingaútgáfu þeirra var ekki gefið gull, reykelsi og myrra heldur bull, elgelsi og pirra. Það var þó ekki andinn í bæjarstjórn Mosfellsbæjar í ár, en við unnum saman að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, sem var ánægjulegt og ríkir alger samstaða í hópnum um að takast á við breyttar forsendur og óvissuna sem framundan er. En þrátt fyrir mótbyr er margt jákvætt framundan í Mosfellsbæ. Ráðist verður í ýmsar framkvæmdir, viðbyggingu við íþróttahúsið við Varmá, Krikaskóli verður byggður og Brúarlandi verður breytt. Nýr framkahdsskóli mun svo hefjast haustið 2009, einnig mun hjúkrunarheimili rísa á næstu árum og ævintýra og útivistargarður Mosfellinga verður að veruleika.

Á dögunum fékk ég boð á Andlitsskinnunni um að vera með í hópnum, „ Ég óska mér minni pakka og meiri kærleika",  sem ég gekk til liðs við.  Hópur sem gengur út á að skora neysluhyggju liðinna ára á hólm, eyða minna fjármagni í veraldlegar gjafir, en gefa vinum og vandamönnum meira af kærleika og ást. Þrátt fyrir tímabundna efnahagslega erfiðleika getum við ennþá gefið tíma okkar. Því hvet ég ykkur til að ganga til liðs við hópinn og gefa meira af ykkur sjálfum og búa þannig til kvíðaminni og innihaldsríkari jól fyrir þig og þína.

Ég óska þér og fjölskyldu þinni gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hér eru nokkrar fjölskyldujólamyndir.


mbl.is „Gengið vonum framar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gleðileg jól elsku vinkona og njótið hátíðarinnar. Hjartanskveðja

Ásdís Sigurðardóttir, 25.12.2008 kl. 21:19

2 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Fallegur pistill hjá þér frænka.

Sigurður Þórðarson, 25.12.2008 kl. 23:12

3 identicon

Jólakveðja og knús elsku Herdís mín, Elli minn og börn :)

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 23:29

4 Smámynd: Guðrún Indriðadóttir

Elsku Herdís og Co.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og takk fyrir allt sjáumst fljótt á nýju árijóla knús Rúna

Guðrún Indriðadóttir, 27.12.2008 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband