Bæjarráð Mosfellsbæjar mótmælir frestun tvöföldunar Vesturlandsvegar harðlega

Á fundi bæjarráðs í morgun samþykktum við einróma að senda samgönguráðherra og þingmönnum svohljóðandi bókun:
 
"Bæjarráð Mosfellsbæjar mótmælir harðlega þeirri forgangsröðun verkefna í vegagerð sem samgönguráðherra, Kristján Möller, hefur tilkynnt um. Í kjölfar ákvörðunar um niðurskurð í vegagerð  er tvöföldun Vesturlandsvegar við Mosfellsbæ frestað sem og öðrum brýnum verkefnum á höfuðborgar-svæðinu en á sama tíma tilkynnt um að ákvörðun hafi verið tekin um að ráðast í gerð jarðganga í gegnum Vaðlaheiði.

Tvöföldun hringtorgs og gerð hljóðmana meðfram Vesturlandsvegi, sem tilbúið er til útboðs, og átti að bjóða út í þessum mánuði ásamt tvöföldun á kaflanum frá Hafravatnsvegi að Þingvallavegi, eru afar brýnar framkvæmdir fyrir íbúa Mosfellsbæjar, sem og þá sem ferðast um þennan fjölfarna vegarkafla. Yfir sumartímann eru það 15.750 bílar á dag sem aka þennan vegakafla á Vesturlandsvegi og samsvarar það1,4 milljónum bíla á tímabilinu júní til ágúst.

Vesturlandsvegur er einn hættulegasti þjóðvegur landsins og liggur hann þvert í gegnum Mosfellsbæ.  Á síðustu áratugum hafa orðið fjölmörg banaslys innan bæjarmarka Mosfellsbæjar. Á þeim stutta kafla sem fresta á framkvæmdum við hafa orðið þrjú banaslys og að auki fjöldi alvarlegra slysa á kaflanum frá Álafosshringtorgi að Þingvallahringtorgi. Umferð er mjög þung á þessum kafla og umferðateppa algeng á álagstímum. Á síðustu tveimur árum hafa orðið tíu umferðaróhöpp og minniháttar slys á kaflanum frá Álafosshringtorgi að Áslandi. Að auki verða íbúar við Vesturlandsveg fyrir verulegri lífsgæðaskerðingu vegna umferðarhávaða og tafa vegna mikillar umferðar í gegnum bæinn.

Í ljósi þessa er ótækt að fresta framkvæmdum við hringtorg við Álafossveg og gerð hljóðmana við Vesturlandsveginn lengur en orðið er.

Mosfellsbær skorar á  samgönguráðherra að endurskoða ákvörðun sína um forgangsröðun verkefna í vegagerð með bætt umferðaröryggi."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Indriðadóttir

ég hef ekki nokkra trú að hann skipti um skoðun held að hann sé hreinn kjördæmapotari sem þarf að koma frá völdum

Guðrún Indriðadóttir, 2.7.2009 kl. 21:30

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Héðinsfjarðargöng og önnur þvæla sem þetta, já þetta endemis fyrirbæri stendur fyrir, sýnir, svo ekki verður um villst, að hér er á ferðinni veruleikafyrrt "heimahagavinsældaverkefni" sem bitnar á þúsund sinnum fleira fólki en þeirra sem af einskærri tilviljun villast í þennan rana sem lítinn tilgang hefur. Möllerinn er alveg eins og Bjarnasoninn, risaeðla sem sér hvorki til hægri né vinstri, svo lengi sem honum er klappað á kinnina af bóndanum á næsta bæ. Tæplega meira virði en þokkalega agaður smalahundur af blendingskyni, enda ávallt hægt að freista hunda með góðri heimalagaðri kæfu eð lifrarpylsu.

Halldór Egill Guðnason, 12.7.2009 kl. 04:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband