Þegar ég veiktist af H1N1

DSC03941

Síðasta vika er ein af þessum vikum sem ég á örugglega eftir að muna um ókomna tíð, sem vikuna sem ég lá veik vegna H1N1, eða svínaflensu eins og pestin er nefnd í daglegu tali manna á milli.

Það eru mikil veikindi um allt og greinilegt að hér er inflúensufaraldur. Fyrir helgina voru yfir 20% barna í grunnskóla krakkanna minna veik og fjöldi kennara. Eins voru margir veikir í framhaldsskólanum hjá minni elstu. 

Við vorum þrjú hundveik hérna heima alla síðustu viku, ég Sædís Erla og Sturla Sær. Ásdís var bara svona hálfveik og lá okkur til samlætis hluta vikunnar, þannig að einkennin eru greinilega eitthvað misjöfn. Elli minn hefur trúlega fengið pestina seinnipart sumars, en þá var hann með pest sem lýsti sér eins og þessi sem við hin fengum.

Pestin byrjaði með höfuðverk og slappleika. Ég fór á Esjuna með Hafdísi Rut vinkonu minni á laugardaginn fyrir viku síðan og var að vísu ekki alveg að ná því af hverju ég var svona rosalega móð og svitnaði ótrúlega og fannst ég alveg í ömurlegu formi. En svo á sunnudeginum kom í ljós að trúlega var þetta ekki dagsformið, eða ekki eingöngu að minnsta kosti heldur trúlega pestin. Þá var ég búin að vera með þennan höfuðverkinn í nokkra daga. Við Sturla fengum svo hita, beinverki og lungnakvef. Það sem var ólíkt venjulegri inflúensu voru verkirnir sem við fengum í lungun, eða brjósthimnuna og svona í gegnum okkur. Svo fengum við líka rosalega verki í bakið, eða í allt brjóstbakið og vorum með mikið ofurnæmi í húðinni. Eins fengum við verki í augun og náðum ekki fókus þegar við vorum verst og virðist sem slímhimnan í augunum hafi heldur betur fengið pest.

Rúmri viku eftir að við veiktumst er Sturla Sær enn með hita og liggur heima. Við Sædís Erla erum komnar á ról, hún eftir tæpar tvær vikur og ég eftir rúma viku. En við förum varlega.

Ástæða þess að ég óskaði eftir sýnatöku er sú að ég er með ofnæmi og get ekki látið bólusetja mig. En líkt og Haraldur sóttvarnalæknir sagði í síðustu viku eru flestir þeirra sem eru með inflúensulík einkenni sýktir af H1N1, svo ég var nokkuð viss. En það var ágætt að fá þetta staðfest í dag.

Fyrir fólk sem er sæmilega hraust er H1N1 ekki ekkert til að hræðast. Það er mikilvægast að drekka vel, reyna að nærast og taka verkjalyf til að lækka hita og slá á verstu verkina. Það er verst fyrir þá sem eru veikir fyrir að fá svona sýkingu og sjálfsagt mál fyrir þá sem geta að láta bólusetja sig. Því fagna ég því að búið sé að flýta bólusetningum.

Þar sem ég starfa m.a. við að gera viðbragðsáætlanir við heimsfaraldri inflúensu, voru vinir mínir að grínast með að þetta væri vissulega ein leið til að taka vinnuna með sér heim ....

 


mbl.is 15 þúsund skammtar á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Sæl hálfnafna.  Gott að heyra að þið eruð á batavegi.  Bjarni fékk mjög slæma flensu í ágúst og mat læknir það svo í gegnum síma að þetta væri svínaflensa og ég væri líka með hana þó svo að mín einkenni væru mjög lítil. Í dag byrjaði ég svo að fá hita en er ekki með höfuðverk, en innan verki og alls kyns vanlíðan, veit ekki hvort þetta er sú svínslega núna, ætla þó að vona það og ef ég versna ætla ég að biðja um test svo ég get verið viss, ekki góð í lungunum svo þetta er frekar erfitt.  Kær kveðja í Mosó og hafðu það sem allra best.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.10.2009 kl. 19:26

2 Smámynd: Ragnheiður

Þetta hljómar nú ekki vel...*hrollur*

Ragnheiður , 12.10.2009 kl. 20:00

3 Smámynd: Guðrún Indriðadóttir

það er gott að sjá að þú ert komin á stjá og hressist vonandi fljótt

Guðrún Indriðadóttir, 13.10.2009 kl. 22:04

4 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Athyglisvert, ég er hálf drusluleg hér heima, best að fara varlega. Nettur höfuðverkur og óþægindi. Er samt ekki a því að þetta sé flensan. Greinilegt miðað við ykkar sögu að þetta leggst misharkalega á fólk.

Gangi ykkur vel að skríða saman!

Vilborg Traustadóttir, 14.10.2009 kl. 13:18

5 identicon

hihi...algerlega komin með vinnuna heim. Gott að þið séuð að hressast. Er að fara með yngstu dömuna í bólusetningu á morgun. Hin eru ekki búin að fá boð um bólusetningu, en kemur sjálfsagt bráðum.

Batakveðja frá Lundi!

Vanda Hellsing (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 20:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband