Siðareglur sveitarstjórnarmanna

DSC01670

Siðareglur hafa verið mótaðar af mörgum starfsstéttum og hefur nokkuð verið fjallað um gerð siðareglna fyrir stjórnmálamenn.

Á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga 2008 var lýðræðishópi sambandsins falið að gera tillögur að siðarreglum fyrir sveitarstjórnarmenn árið 2009. Þá var mikil umræða um það hvort lögfesta ætti gerð slíkra siðaregna eða hvort sveitarstjórnum ætti að vera frjálst að setja slíkar reglur á grundvelli leiðbeininga eða fyrirmyndar sem sambandið gæfi út. Einnig var fólk líka að velta því fyrir sér hvernig málsmeðferð ætti að vera ef slíkar reglur yrðu brotnar og hvaða viðurlög ættu að vera.

Í ágúst 2009 kynnti formaður nefndarinnar, Dagur B. Eggertsson, tillögur sínar á málþingi í Háskóla Íslands sem haldið var í samvinnu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Stofnunar stjórnsýslufræða. Málþingið bar yfirskriftina "Aukið lýðræði í sveitarfélögum" og þar.

Siðareglur

  • Siðareglur eru safn leiðbeininga um rétta breytni og veita leiðsögn um hvernig bregðast skuli við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi.
  • Þær hvetja þannig til faglegra vinnubragða
  • Draga úr vandkvæðum við matskenndar ákvarðanir og auka traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.

"Lýðræðishópurinn mælir með því að í lögum verði kveðið á um meginatriði og tilgang siðareglna sveitarfélaga og að ráðuneyti sveitarstjórnarmála staðfesti siðareglur þeirra á sama hátt og samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga til að tryggja að siðareglur séu í samræmi við ákvæði laga."

Siðareglur

  • Mælt er með því að ábyrgð vegna brota á siðareglum verði eingöngu pólitísk en ekki lagaleg, sbr. álit umboðsmanns Alþingis.
  • Ef mál er alvarlegt og hefur valdið sveitarfélagi eða almenningi skaða sé þó eðlilegt að sveitarstjórn vísi máli til opinberrar rannsóknar.
  • Lýðræðishópurinn mælir með því að skilyrði um kjörgengi, sbr. 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, og hæfi, sbr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, verði endurskoðuð í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun sveitarstjórnarlaga til að skerpa á ábyrgð sveitarstjórnarmanna gagnvart íbúum.
  • Sérstök siðanefnd fyrir sveitarstjórnarstigið verði sett á laggirnar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún kveði upp leiðbeinandi álit í ágreiningsmálum.
  • Nánar verði kveðið á um stöðu hennar og hlutverk í sveitarstjórnarlögum.

Sambandið lét á sínum tíma þýða siðareglur Sveitarstjórnarþings Evrópuráðsins fyrir kjörna fulltrúa á sveitar- og héraðsstjórnarstigs sem fjallað var um á landsþingi 2006 og sendar sveitarstjórnum. Ég man að á þeirri ráðstefnu kom fram að Reykjavíkurborg væri búin að móta drög að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa, sem samþykktar voru í borgarstjórn í gær. 

Í siðareglum fyrir kjörna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg segir m.a.: "Markmið reglnanna er að skrá og skilgreina þá háttsemi sem kjörnir fulltrúar vilja sýna af sér við öll sín störf. Í þeim er m.a. fjallað um starfsskyldur kjörinna fulltrúa, valdmörk, hagsmunaárekstra, gjafir, fríðindi og trúnað. Með undirskrift sinni undirgangast fulltrúarnir siðareglurnar og lýsa því þar með yfir að þeir ætli að hafa þær að leiðarljósi í störfum sínum fyrir Reykjavíkurborg."

Kópavogsbær var þó fyrstur allra sveitarfélaga til að setja siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og stjórnendur í sveitarfélaginu í maí 2009. Í frétt á netsíðu Kópavogs segir m.a. um málið:  "Markmiðið með siðareglunum er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til af bæjarfulltrúum og stjórnendum í störfum þeirra fyrir Kópavogsbæ og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Samkvæmt siðareglunum ber þeim m.a. að gæta almannahagsmuna og starfa fyrir opnum tjöldum á málefnalegum forsendum. Þeir mega hvorki hvetja eða aðstoða kjörinn fulltrúa eða starfsmann Kópavogsbæjar við að brjóta reglurnar né beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra. Jafnframt eru ákvæði í siðareglunum um gjafir og fríðindi, hagsmunaárekstra, ábyrgð í fjármálum og þjónustu við almenning. "

Sveitarstjórnarmenn starfa m.a. á grundvelli lsveitarstjórnarlaga og hefur Mosfellsbær samþykktir fyrir störf þeirra. Ég er engu að síður fylgjandi gerð siðaregna fyrir kjörna fulltrúa og höfum við rætt um gera slíkra reglur í Mosfellsbæ. Á sínum tíma var ákveðið að hinkra eftir sniðmáti eða leiðbeiningum frá lýðræðishópi Sambands íslenskra sveitarfélaga sem talað var um að ætti að leggja fram á þessu ári.

Nú er búið að kynna tillögur lýðræðishópsins sem taka til mála í bráð og lengd og líkt og fram kom þá eru siðareglur eru safn leiðbeininga um rétta breytni og veita leiðsögn um hvernig bregðast skuli við þegar siðferðileg álitamál koma upp í starfi. Þær hvetja þannig til faglegra vinnubragða og draga úr vandkvæðum við matskenndar ákvarðanir og auka traust á stjórnsýslu og stjórnmálum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þeir sem ekki hafa fyrirfram tamið sér þessar siðareglur, án utanaðkomandi regluverks, ættu ekkert að vera að garfast í pólitík, hvorki heima í héraði né á Alþingi. Skelfing er þessi þjóð orðin steingeld, ef heilbrigð skynsemi og þokkalega greind þarf að stafa ofan í hana.

Halldór Egill Guðnason, 23.10.2009 kl. 01:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband