Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006

Íbúalýðræði í Mosfellsbæ

TÖLUVERT hefur borið á því í greinum vinstrimanna og framsóknarmanna að sjálfstæðismenn hafi dregið úr samvinnu við íbúa og ekki unnið eftir settum stefnum. Þetta er fjarri sannleikanum og ætla ég að fjalla um fáein atriði.

Fjölmargir fundir hafa verið haldnir með íbúum til að kynna fyrirhugaðar breytingar á skipulagi áður en skipulag hefur verið auglýst sem leitt hefur til þess að hætt hefur verið við breytingar.

*Við unnum að því að gera alla stjórnsýslu opnari og skilvirkari og er framundan sú tíð að íbúar hafi rafrænan aðgang að öllum sínum gögnum hjá sveitarfélaginu

*Við héldum hverfafundi undir yfirskriftinni "Hvað finnst þér"

*Við héldum íbúaþing þar sem íbúar mættu og létu sig mál Mosfellsbæjar varða

*Við tókum upp viðtalstíma við bæjarfulltrúa (minnihlutann líka)

*Við mótuðum reglur varðandi úthlutanir lóða sem er meira en hægt er að segja um fyrri meirihluta sem mótaði úthlutunarreglur eftir að fólk hafði sótt um lóðirnar

Til hvers að móta stefnu?

Mótaðar voru ýmsar stefnur í tíð fyrri meirihluta, rétt eins og við höfum gert. Mótuð var heildstæð skólastefna, atvinnu- og ferðamálastefna, samþykkt var stefna varðandi sjálfbæra þróun á 21. öldinni og er það vel.

*Við erum að vinna fjölskyldustefnu Mosfellsbæjar sem er nokkurs konar regnhlífarstefna og koma þar m.a. fram áhersluatriði þeirra stefnumála sem í gildi eru

*Við höfum endurskoðað jafnréttisstefnuna í tvígang

*Við erum að vinna eftir aðgerðaáætlun varðandi úrbætur í aðgengismálum í bæjarfélaginu

*Við samþykktum öryggisstefnu um hámarkshraða í íbúðarhverfum og úrbætur til að ná niður hraða sem unnið er markvisst eftir svo eitthvað sé nefnt

Eru stefnur eign meirihlutans?

Oft er nauðsynlegt að móta stefnu til að hægt sé að vinna skipulega að settum markmiðum, en "er stefna stefna meirihlutans eða samfélagsins alls?" Ég spurði mig eftir að hafa lesið grein fulltrúa Samfylkingarinnar. Er fulltrúinn að meina að þau markmið sem unnið var að varðandi sjálfbæra þróun á 21. öldinni í Mosfellsbæ gildi ekki fyrir sjálfstæðismenn þar sem þetta var unnið í stjórnartíð núverandi minnihluta? Þetta er furðuleg pólitík, enda hefur verið unnið ötullega að þeim málum allt kjörtímabilið.

Ég sat í minnihluta þegar stefnan var mótuð og tók þátt í vinnunni af heilindum. Ég sýndi frumkvæði í þessum málum og var fulltrúi sjálfstæðismanna í stýrihópi sem stýrði vinnunni og vann af kappi fyrir bæjarbúa, enda til þess kjörin. Fólk verður að átta sig á því að stefna sem unnin er í sátt og samlyndi getur endurspeglað sjónarmið meirihlutans á þeim tíma. En þegar búið er að samþykkja eitthvað með öllum atkvæðum í bæjarstjórn þá erum við bæjarfulltrúar búin að taka ákvörðun um mál sem við tejum að komi sér vel fyrir samfélagið allt í Mosfellsbæ, ekki bara meirihlutann.

Ég treysti kjósendum til að kynna sér málin og sjá hverju við höfum komið í framkvæmd og núverandi stefnuskrá og veita sjálfstæðismönnum brautargengi í komandi kosningum.

X-D fyrir árangur, ábyrgð og lífsgæði.

Herdís er forseti bæjarstjórnar og 3. á framboðslista


Öldrunarþjónusta í Mosfellsbæ

Eftir: Herdísi Sigurjónsdóttur

Birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2006

MOSFELLSBÆR er eitt fárra sveitarfélaga í landinu sem hafa ekki tryggan aðgang að hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Þessi staða er óviðunandi fyrir ört vaxandi sveitarfélag sem telur um 7.300 íbúa.

Á vegum bæjarfélagsins eru 20 íbúðir fyrir aldraða í íbúða- og þjónustuhúsnæði við Hlaðhamra þar sem rekin er umfangsmikil sólarhringsþjónusta. Í sama húsi er þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir aldraða.

Til að mæta ört vaxandi þjónustuþörf hafði bæjarstjórn Mosfellsbæjar árlega sótt um styrk til Framkvæmdasjóðs aldraðra til byggingar hjúkrunarheimilisdeildar í tengslum við Íbúða- og þjónustuhús aldraðra við Hlaðhamra. Þessu var ætíð synjað. Hugmyndir bæjaryfirvalda voru í þá tíð að byggja 24 rýma hjúkrunarheimili þar sem nú eru að rísa öryggisíbúðir.

Á þessu kjörtímabili eða árið 2003 tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að ganga til samstarfs við Eir um uppbyggingu öldrunarseturs í Mosfellsbæ þ.e. byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis, öryggisíbúða og þjónustumiðstöðvar. Með samstarfinu var líka leitast við að tryggja Mosfellingum eftir atvikum vistun á Eir uns búið væri að byggja hjúkrunarheimili í bæjarfélaginu. Í lok síðasta árs dvöldu 15 Mosfellingar á Eir og hafa alls 23 fengið hjúkrunarrými þar frá 2003. Þetta samstarf hefur gjörbreytt þeim aðstæðum sem sjúkum öldruðum í Mosfellsbæ og aðstandendum þeirra var gert að þola. Vart er hægt að hugsa sér í hvaða stöðu við værum í dag ef ekki hefði komið til samstarfsins við Eir.

Rekstur hjúkrunarheimilis og öryggisíbúða undir sama þaki er hagkvæmur kostur bæði þegar tekið er tillit til nýtingar húsnæðis og reksturs þjónustunnar. Þannig er hægt að veita umfangsmikla heimaþjónustu og draga úr kostnaðarsamri og ótímabærri stofnanaþjónustu. Þannig er öldruðum gert kleift að búa sem lengst á eigin heimilum og halda ráðstöfunarrétti yfir eigin tekjum og halda þar með fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Staðan í dag

Hafin er bygging 39 öryggisíbúða sem gert er ráð fyrir að verði tilbúnar í ársbyrjun 2007. Öryggisíbúðirnar verða samtengdar þeim 20 íbúðum sem þegar eru fyrir hendi í bæjarfélaginu og verður þeim íbúðum einnig breytt í öryggisíbúðir. Óskað hefur verið eftir framkvæmdaleyfi frá heilbrigðisráðherra fyrir byggingu hjúkrunarheimilisins án mótframlags og lögð fram áætlun þess efnis. Búið er að breyta deiliskipulagi þess svæðis sem byggja á hjúkrunarheimilið á og hefur frumhönnun farið fram. Þar er gert ráð fyrir 40 rýma heimili samansettu af fjórum 10 rýma einstaklingsrýmum á fallegum stað í miðbæ Mosfellsbæjar. Þar er einnig gert ráð fyrir þjónustumiðstöð.

Við sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ viljum taka við þjónustu aldraðra frá ríkisvaldinu og byggja upp öfluga einstaklingsmiðaða þjónustu í bæjarfélaginu. Við munum byggja þjónustumiðstöð við Hlaðhamra þar sem veitt verður heildstæð þjónusta og viljum samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu til að hægt sé að mæta mismunandi þörfum fólks, í Mosfellsbæ þar sem allir skipta máli.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og formaður fjölskyldunefndar og skipar 3. sæti framboðslista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.



Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband