Bloggfærslur mánaðarins, september 2006

Ekki er allt sem sýnist

Í gær var stór dagur í Íslandssögunni. Byrjað var formlega að bora jarðgöng milli þéttbýlisstaðanna í Fjallabyggð, Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og eins var loku skotið fyrir Kárahnjúkastíflu og Jökla fór að mynda Hálslón.

Hvað varðar Héðinsfjarðargöng þá veit ég að það á eftir að breyta öllu fyrir fólkið sem þarna býr að fá jarðgöngin. Þá verður í alvöru hægt að víkka út atvinnusvæðið í Eyjafirði og fólk getur farið að sækja vinnu og þjónustu milli þéttbýlisstaðanna, líkt og hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það þykir ekkert stórmál er að búa á Selfossi eða í Reykjanesbæ og vinna á höfuðborgarsvæðinu og öfugt. Öryggi þessa fólks og eins samgöngur eiga eftir að stórbatna og verður þá til að mynda hægt að fljúga til Akureyrar og taka flugrútuna Siglufjarðar (geri bara ráð fyrir að einkaframtakið tryggi flugrútuna) sem kæmi við á Dalvík og Ólafsfirði.

Það er með ólíkindum að bera saman samgöngur nú eða þegar maður var krakki á Siglufirði í tannréttingum á Akureyri fyrir 25 árum síðan en þá var hægt að:

  • fara með flugi frá Siglufirði inn á Akureyri
  • fara með Drangi,sem var með reglulegar ferðir milli Siglufjarðar og Akureyrar með viðkomu, í Grímsey, til Ólafsfirði og Hrísey
  • fara með rútu yfir sumartímann sem gekk milli Siglufjarðar og Akureyrar
  • fara með Fossunum, en í þá daga voru líka strandflutningar
  • fara með flutningabílunum, man ég sérstaklega eftir einni ferð með Hilla, en var Lágheiðin ófær (eins og alltaf) og lentum við í ófærð og urðum að gista hjá Ellu í Skagafirðinum
  • síðan var náttúrulega hægt að keyra á sínum einkabíl..sem er NB eina færa leiðin í dag
 

“Já heimur versnandi fer” eða hvað?

 

Það var mikil fjölmiðlaumræða í vikunni vegna þess að komið var að þeim áfanga að setja lokuna fyrir Kárahnjúkastífluna og safna Jöklu upp í Hálslón, sem fyllist upp smátt og smátt næstu mánuðina. Ég reyndi að fylgjast með í gærmorgun, en sökum tækniörðugleika var ekki hægt að sýna þessa beinu útsendingu á visi.is og því sá ég lokunina á mbl í gær. Fólk var bæði ánægt og hryggt og náðist m.a. dramatískt myndskot í mótmælagöngunni hans Ómars er öldruð kona grét yfir stíflunni,,,eða bara mómentinu, en ég sjáf gæti farið við jarðaför einhvers sem ég þekkti ekki neitt og hágrátið, en þannig er ég bara, “óttarleg blúnda” eins og Gulla mín segir alltaf.

Það er náttúrulega svo að fólk lítur misjafnlega á það sem gert er, en hvað mig varðar þá er ég hlynnt þessari framkvæmd og trúir fólk því ekki að ég sé bæði umhverfisverndarsinni og Kárahnjúkakona og virðist það vera jafn fráleitt í hugum fólks og hægt sé að vera sjálfstæðismaður og umhverfisverndarsinni og meira að segja í meistaranámi í umverfis og auðlindafræðum.... Það er ekki alltaf bara hvítt og svart í þessum efnum og verða aðilar stundum að skoða báðar hliðar peningsins. Mér varð hugsað til þess þegar ég keyrði fram hjá Stífluvatni í sumar að ég bara gæti ekki hugsað mér umhverfið án þessa fallega vatns sem ég er alin upp við að sé þarna. En það var samt ekki alltaf þarna. Vatnið er nefnilega uppistöðulón fyrir Skeiðsfossvirkjun sem séð hefur Siglfirðingum fyrir rafmagni í marga áratugi. Fljótaá sem rennur ásamt fleiri ám í lónið er í dag þekkt sem veiðiperla og sá hluti hennar sem rennur úr stíflunni og á þetta einnig við um Stífluvatnið hið tilbúna. Já stundum er bara ekki allt sem sýnist!

 

Ég get alveg auðveldlega sett mig í spor þeirra Ausfirðinga og Norðlendinga sem hafa barist fyrir því áratugum saman að fá aukna atvinnu á svæðið til að halda í fólkið sem þar býr og jafnvel halda unga fólkinu áfram á svæðinu eftir að þau hafa lokið skólagöngu.... og þegar maður ræðir við fólk þá vill það í alvöru ekki að byggð leggist af úti á landi, eða er það?  Það var nú einu sinni svo að síldin hélt lífi í Íslendingum. Fyrir Austan og Norðan varð síldin til þess að þéttbýlisstaðirnir uxu og döfnuðu og fjöldi fólks frá öðrum stöðum á landinu fóru á vertíð og þénaði á tá og fingri. Það var nú einu sinni þannig að þessir staðir gáfu líka fleira af sér en atvinnu...nefnilega mikla peninga inn í þjóðarbúið, sem nýttir voru til reksturs á þjóðarskútunni og uppbyggingar og framkvæmda, um allt land .....ekki bara fyrir Austan og Norðan. Þessum kafla sögunnar vill fólk stundum gleyma og sumir vita þetta bara ekki og lifa í núinu og halda að allt hafi bara alltaf verið svona og að Bakkabræður, Björgólfsfeðgar og Baugur hafi alltaf verið til.

  

Umhverfis- og auðlindafræði

Í haust hóf ég nám í umhverfis og auðlindafræðum við Háskóla Íslands. Þetta er meistaranám og hef ég þegar hafið undirbúning að skrifum meistararitgerðar minnar sem verður hluti af stærra verkefni sem fjallar um uppbyggingu eftir náttúruhamfarir og styrkt er af Rannsóknastofnun Íslands, dómsmálaráðuneytinu, Viðlagatryggingu og fleirum. Munum við vinna að því að útbúa áætlun fyrir sveitarfélög sem hægt er að virkja eftir að samfélag hefur lent í stóráfalli eins og náttúruhamförum. Það var nú örlítið átak að byrja aftur í skóla eftir svona langt hlé, en nú er gamla vélin komin á fullt og nýt ég námsins í botn.

Ég ætla bara að halda við einni netsíðu í vetur, en ég mun nú samt mögulega skrifa einhverjar greinar og pælingar í kringum pólitíkina og námið hér á blog.is.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband