Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Ánægð með að vera Íslendingur

Ég ætlaði að setjast niður og fara að skrifa ritgerð í siðfræði, en var svo stútfull af skólamálum eftir frábært skólaþing hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga að ég bara varð að byrja á að skrifa það frá mér.

Mikið erum við annars heppin að vera Íslendingar. Sameinuðu þjóðirnar birtu lífskjaralista sinn á fimmtudaginn... Ísland númer eitt og höfum við reyndar verið í 5 efstu sætunum frá því að farið var að taka þetta saman. En það var ekki lífskjaralistinn sem ég ætlaði að skrifa um, heldur skólaþróun.

Ég var á skólaþingi í dag eins og áður sagði og var farið vel yfir nýju grunn og leikskólafrumvörpin og leist mér val á það sem ég las. Ég tel að með þeim sé verið að auka frelsi skólastjóra enn frekar og þá faglegu, sem er jákvætt að mínu mati. Mér leist líka vel á skólaráðin við skólana, ráðgefandi ráð sem skólastjórinn stýrir með foreldrum, kennurum, öðrum starfsmönnum og aðila úr nærsamfélaginu. Ég held að með því fáist aukin samvinna og hafa einhverjir skólar þegar tekið þetta upp með góðum árangri. Skólanefndir fá breytt hlutverk og er ég að skoða hverju þarf að breyta í samþykktum sveitarfélaganna ef frumvarpið verður að lögum. Það er líka talað um að hægt sé að vera með fleiri en einn skólastjóra eins og við gerum í báðum grunnskólunum í Mosfellsbæ og eins að hægt sé að vera með einn stjórnanda yfir bæði leik- og grunnskóla.

Við Björn Þráinn forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs kynntum nýja "barnið" okkar hér í Mosfellsbænum, Krikaskólann skóla fyrir börn frá eins árs til níu ára. Það var mikill áhugi á verkefninu og þekktu eins margir til þess sem segir mér það að hann hefur verið í skólaumræðunni.  Það var heldur ekki slakt þegar Þorgerður Katrín menntamálaráðherra nefndi skólann í máli sínu þegar hún var að tala um jákvæða skólaþróun í landinu.

Dómnefnd mun ljúka störfum í næstu viku og kemur þá í ljóst hvaða hópur verður fyrir valinu af þeim fjórum sem héldu áfram með okkur í samningskaupaferlinu í sumar. En í raun gætu allar tillögurnar fjórar sómt sér vel sem skóli í Mosfellsbæ, svo vandaðar og flottar voru þær, en ein mun verða fyrir valinu á mánudaginn.

Svo þegar ég hef fengið senda mynd ætla ég að skrifa um Sorpu og borðann sem ég og hinir stjórn Sorpu vorum að klippa á í Framtíðinni, nýja endurvinnsluendanum áðan.

Jæja þá get ég snúið mér að siðfræðiritgerðinni.


Aukin þjónusta þrátt fyrir mikla uppbyggingu í Mosfellsbæ - fjárhagsáætlun 2008 lögð fram

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram í bæjarráði í morgun og vísað þar til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Í þessari fjárhagsáætlun eru megináherslur á aukin og bætt þjónusta við íbúa, uppbygging á þjónustumannvirkjum í ört stækkandi sveitarfélagi og að rekstur verði áfram ábyrgur,  traustur og til fyrirmyndar. 

Heildartekjur  Mosfellsbæjar eru áætlaðar 4.065 mkr og heildargjöld 3.798 mkr.  Útsvarsprósenta verður óbreytt milli ára eða 12,94% og er Mosfellsbær eitt fárra sveitarfélaga sem ekki fullnýtir útsvarsprósentuna.  Samkvæmt áætluninni verður rekstrarniðurstaða samstæðunnar  af reglulegri starfssemi jákvæð um 92 mkr.  Auk þess eru tekjur af sölu byggingarréttar áætlaðar 645 mkr. sem renna eiga til uppbyggingar á skólamannvirkjum í nýjum hverfum á næstu árum. En allt stefnir í að íbúafjölgun á árinu 2008 verði um 11%. Gert er ráð fyrir að heildarskuldir bæjarfélagsins og skuldir á íbúa haldi áfram að lækka. 

Á árinu 2008 er áætlað að verja um 775 mkr. til uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, þ.m.t. byggingu nýrra grunn- og leiksskóla, hafist verði handa við byggingu framhaldsskóla í samvinnu við ríkið og sérstökum endurbótum á eldra skólahúsnæði í bæjarfélaginu.  Hafist verður handa um byggingu menningarhúss í tengslum við byggingu kirkju  í miðbænum og hjúkrunarheimilis á Hlaðhömrum.

Áfram verður haldið á þeirri braut að Mosfellsbær verði í fremstu röð í þjónustu sinni við barnafjölskyldur.  Útgjöld til fræðslumála aukast um tæp 18% eða um 275 mkr.  og er það í takt við aukna þjónustu. Leikskólavist 5 ára barna verður  gjaldfrjáls og með því áfram stuðlað að lægri kostnaði fyrir barnafjölskyldur.

Gert er ráð fyrir því að á árinu 2008 fari fram vinna við að samtvinna starf í frístundaseljum og almennu grunnskólastarfi þannig að til verði heilsdagsskóli í fullmótaðri mynd fyrir yngstu bekki grunnskólans.  Þegar þessu markmiði er náð gefst tækifæri til að fella niður gjaldtöku fyrir frístundasel þannig að nám og vera í grunnskólum verði gjaldfrjáls. 

Sú nýjung verður kynnt á árinu 2008 að teknar verða upp heimgreiðslur til foreldra eins til tveggja ára barna til að jafna stöðu þeirra og stuðla að því að foreldrar geti verið lengur heima hjá ungum börnum sínum.

Gert er ráð fyrir verulegri hækkun á framlagi til íþrótta- og tómstundafélaga vegna barna og unglingastarfs sem og að frístundagreiðslur hækki og aldursviðmið þeirra.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að sérstakt átak verði gert í umhverfismálum  með ráðningu umhverfisstjóra sem m.a. hafi málefni staðardagskrár 21 í sinni könnu sem og auknum framlögum til umhirðu opinna svæða og leikvalla.


Virkjunarframkvæmdir í sveitinni hennar ömmu Herdísar

Ég er að skrifa ritgerð í siðfræði náttúrunnar, um mannhverf viðhorf til náttúrunnar. Ég er að bera saman sterk og veik mannhverf viðhorf og ætla að vinna út frá framkvæmdunum vegna Skeiðsfossvirkjunar.

Þetta er stórmerkilegt mál og hef ég lengi ætlað að skoða þetta betur. Ég hafði oft heyrt minnst á hvað virkjunin breytti miklu fyrir Siglfirðinga m.t.t. rafmagnsins sem hún gaf af sér. En ég tel það samt nokkuð öruggt að ekki hafi allir verið sælir með framkvæmdin. Amma tregaði fossinn sem hvarf og eins hafa margir þurft að flytja búferlum, yfirgefa jörðina sína og horfa svo á landið hverfa undir lónið. Lón sem er fallegt vatn sem ég hef alltaf þekkt sem Stífluvatn og í mínum huga hafði bara verið þarna alltaf.

Ég mun ljúka við þessa tilteknu ritgerð í byrjun desember, en þá mun ég halda áfram að skoða málið og demba mér í heimildaleit og hef ég þegar fengið margar góðar ábendingar frá héraðsskjalasafninu á Króknum og líka frá pabba og Örlygi Kristfinns. Ég held að það gæti verið gaman að skrifa svona alvöru sögu og flétta líf ömmu inn í hana, en ég hef verið að fylla inn í lífspúsl hennar á liðnum árum.

Hér er hluti af ritgerðinni sem nefnist Fossinn og ég held að endi meira sem smásaga.

Eigum við ekki bara að hætta að tína í dag, erum við ekki fyrir löngu komnar með nóg af berjum í jólasultuna?  Svakalega er ég annars mýbitin. Mamma manstu þegar við fórum í berjamó og ég sprengdi mýfluguna í eyranu á mér og ég hélt væri að deyja af því að það blæddi svo mikið úr eyranu?

Mikið er þetta nú annars fallegt vatn og ótrúlegt að það hafi verið búið til þegar Skeiðfossvirkjun var gerð. Mér finnst eins og það hafi bara alltaf verið hérna. Ég man þegar pabbi sagði mér sögurnar af því þegar hann var að vinna við að byggja virkjunina, við frekar frumstæðar vinnuaðferðir, miðað við hvernig hlutirnir eru unnir í dag. Allt handmokað, mölin, sandurinn og sementið og höfðu þá aldrei sést svona stórir vörubílar í sveitinni. Mörg handtökin þar við að koma efninu fyrst á og svo af pöllunum. Pabbi mundi líka svo vel eftir stóra norska sementsskipinu Ringen sem lá inni á legunni í Haganesvíkinni. Trillunni sem var fengin frá Siglufirði og hafði það hlutverk að draga uppskipunarbátana milli Ringen og bryggjunnar, alveg eins og gömlu nótarbátarnir sem notaðir voru á síldinni um árið. Ég er viss um að ömmu Herdísi hefur brugðið við að líta út um gluggann í Vík og þetta stóra skipið sem var svo miklu stærra en Súðin sem kom alltaf við í Haganesvíkinni í áætlunarsiglingum sínum kringum landið. Hún hefur kannski orðið jafn undrandi og ég þegar ég sá Norrænu í fyrsta skipti við bryggju í Seyðisfjarðarhöfn, stærðin bara passaði eitthvað svo illa inn í umhverfið. Á þessum tíma sem sementsskipið kom var seinni heimstyrjöldin byrjuð og hélt pabbi að sementsskipið hefði verið skotið niður á leiðinni til baka, ég ætti nú kannski að skoða hvor það er tilfellið.


Helgi selaskarfur og heimsóknarvinur fyrir Ella minn

Ég er rík kona því ég á marga góða vini. Ég er að fara hitta nokkra þeirra þann 1. desember. Hluta af gamla hópnum frá Rauða krossinum, yndislegt fólk og buðu þau Linda Ósk og hann Helgi (minn) hennar okkur Ella í Kosovóhæðar, eins og ég hef kallað hverfið frá því að ég vann við að taka á móti flóttamönnum sem fluttu ofar í hverfið um árið. En hvað um það. Ég sé ekki betur en kvöldið verði bæði þjóðlegt og Strandalegt og síðast en ekki síst verður það skemmtilegt. Ég bara get ekki beðið W00t

Svo fattaði ég ekki að ég hefði náttúrulega átt að fá heimsóknavin hjá henni Lindu Ósk til að heimsækja hann Ella minn á á St. Jósefs í dag . En við lasarusarnir í Rituhöfðanum komumst ekki. Svo hringdi ég í hann áðan á spítalann og þá leið honum bara ágætlega og hvað var hann að horfa á... nema spítalaþátt!


Ekki mín börn

Ég trúi því nú tæplega að einhver sendi barnið sitt veikt í skólann. Ekki eru það ný vísindi fyrir mér að mikið sé um pestir á leikskólum. Ætli börnin séu ekki bara yngri á leikskólum í dag og því sé þetta meira áberandi en áður. En annars er annar hver maður veikur í dag, en ekki bara í skólunum.

Það hefur nú verið samið um að börnin fá að vera inni eftir veikindi bæði í leik- og grunnskóla, en annars er maður heima með barnið sitt. Nú erum við mæðgur t.d. heima í rólegheitum. Hún er búin að vera veik frá því síðasta miðvikudag og er enn fárveik, en fékk hún veirusýkingu ofan í streptococcasýkingu, en er nú komin á lyf og því verður hún örugglega komin á leikskólann eftir helgina.


mbl.is Veik börn send í leikskólann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að svæfa stóru börnin sín

Ég fór á Maríta fíkniefnafræðslu hjá Lágafellskóla í gær. Frábær fundur vel mætt af 10, bekkingum, enda fengu þau frí í fyrstu tímunum í dag í staðinn. Það vor miklar og góðar umræður og þekkir maður marga af þessum foreldrum sem mættu sem eiga krakka sem hafa verið með Ásdísi í skóla frá byrjun. Ég heyrði eina góða er snertir Ella minn, sem getur allt. Það var nefnilega þannig að vinur Sturlu okkar og fjölskylda hans voru að fara út á land og mamman fór og keypti tvo 1944 rétti fyrir pabbann sem varð eftir heima. Þá vildi þessi 12 ára vita hvað þetta væri. Mamma hans sagði honum það og þá sagði hann um hæl. Maður skammar sín nú bara, hann Elli sér nú bara oft um matinn hjá Sturlu Wink. Ég verð að stríða Mr 1944 þegar ég sé hann næst.

Ég heyrði hjá einni mömmunni sem er með krakka í bekknum sem sagði að þegar hún var að fara að svæfa yngri systkinin þá hefði hann orðið fúll og viljað láta hana svæfa sig líka. Nú er langur tími liðinn og hún "svæfir" hann alltaf á þriðjudögum og ef af einhverjum sökum hún kemst ekki er hún alltaf rukkuð um þessa samverustund. Alveg yndislegt fyrirkomulag sem ég ætla að byrja á í kvöld. Lillan legin, fárveik og nú á að fara að pakka þeim stóru inn. Svo er það bara beint í rúmið, en ég var að skrifa fyrirlestur fram til kl. 2 síðustu nótt, en ég hélt að sá fyrirlestur yrði ekki fyrr en í næstu viku. En bara fínt, þetta er frá og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af þessu í heila viku.


Útivinnandi húsmóðir og mamma

Á undanförnum dögum hefur verið mikil og jákvæð umræða um að besta forvörnin séu samvistir með foreldrum og skipulögð íþrótta og tómstundastarfsemi og að krakkar hafi það sterka sjálfsmynd og styrk að þau geti sagt nei við vímuefnum. Ég tek heils hugar undir þetta og fagna því að krakkarnir mínir eru virkir í íþróttum og tómstundum og njótum við fjölskyldan þess svo sannarlega að vera saman.

Ég er samt hugsi yfir umræðu sem hefur svolítið fylgt forvarnaumræðunni. Eða það að eina rétta sé að hætta að vinna svona mikið úti frá börnunum og mannvonska sé að láta leikskóla um uppeldið og geyma börnin í 8-9 tíma. Svo þegar foreldrarnir sæki þau loksins sé bara eftir að baða, hátta og svæfa. Það læðist nú að mér sá grunur að þeir sem tala svona hafi ekki nýtt sér dagvistun allan daginn. Við hjónin eigum þrjú börn og það elsta 15 ára. Ég hef alla tíð unnið úti allan daginn og var reyndar ekkert annað í boði þegar ég byrjaði að vinna úti, enda þá eina fyrirvinnan og maðurinn þá enn í skóla. Ég hef á þessum árum frá því að ég lauk námi margoft tekið þátt og orðið vitni af þessari umræðu um að vinna úti frá börnunum allan daginn. Ég hef heyrt hjá starfsfólki leikskóla að þetta sé ekki hægt að litlu greyin hafi lengri vinnudag en allir starfsmenn skólans. Ég hef líka oft heyrt að við, "þessir foreldrar" eigum bara ekki að eignast börn við getum ekki sinnt börnunum.

Það er staðreynd að þessi umræða beinist oftar en ekki gegn okkur mömmunum, enda er það langalgengast að ef annað foreldrið er heima með börnin, er það mamman sem vinnur heima. Það er að sjálfsögðu öllum frjálst að velja það að vera heima og virði ég þá ákvörðun fólks að gera slíkt þó að ég velji að vinna úti og maðurinn minn líka. Enda getur það varla verið meining fólks sem talar svona að ef foreldrar ákveða, eða þurfa að vinna úti frá börnum sínum allan daginn, þá sé betra fyrir það sama fólk að sleppa bara að eignast börn? 

Margt hefur áunnist í jafnréttismálum á þeim árum sem liðin eru síðan við hjónin eignuðumst okkar fyrsta barn. Þegar maðurinn minn tók fyrst veikindadag með veiku barni sínu, varð einum eldri starfsfélaga hans að orði, "bíddu ertu ekki giftur?". Ég held að svona heyrist nú ekki mikið í dag, enda sjálfsagt mál að pabbar taki veikindadaga líkt og við mömmurnar. Ég held að fæðingarorlofið hafi breytt miklu varðandi viðhorf til þessara hluta og þótti mörgum fjarstæða að skilyrða pöbbum 3 mánuði og gera þeim kleift að vera heima í 3-6 mánuði með ungum börnum sínum. En ég segi fyrir mig að ég vissi að þetta væri stórt skref þegar við samþykktum þetta á landsfundi um árið, en mig óraði samt ekki fyrir því hvað þetta ætti eftir að hafa jafn víðtæk og mikil áhrif á vinnumarkaði og raunin hefur orðið. En enn eigum við langt í land og vona ég svo sannarlega að öll börnin mín þrjú komi til með að njóta jafnra tækifæra í lífinu.   


Trílogía í Mosfellsbænum

Ásdís Magnea við myndina old vs. new

Það var stolt mamma sem gekk inn á sýninguna Trílógíu í listasal Mosfellsbæjar í dag. Þetta er nemendasýning Varmárskóla og Lágafellsskóla og var hún opnuð í dag að viðstöddu margmenni. Sýningin er afrakstur mikillar vinnu grunnskólanna síðastliðin þrjú ár, en hafa þeir verið þátttakendur í mjög spennandi grafíklistaverkefni í samvinnu við Billedskolen í Kaupmannahöfn. 

Nafn sýningarinnar Trílógía stendur fyrir þau þrjú árþúsund í sögunni sem verkefnin túlka. En var það biblían, Landnám í Mosfellsbær og svo Arkitektúr í borginni okkar. En í haust voru nokkrir áhugasamir listakrakkar og Ásdís þar á meðal sem fengu að helga listinni heila skólaviku. Þau fóru um borg og bý og unnu verkefnið "Arkitektúrhöfuðborgin okkar". Ásdís naut vikunnar í botn og skissaði og mannlíf og byggingar og síðan hófst grafík vinnan og lokaútkoman voru glæsilegar grafíkmyndir.

Ásdís Magnea og Kristín frænka

Amma Binna, Birna María, Sturla og Sædís Erla komu við opnun sýningarinnar, sem sjálfur bæjarstjórinn opnaði. Svo kom Kristín frænka frá Grindavík ,en þá var listamaðurinn farinn í smink í leikhúsinu, en hún var að fara að sýna í "allt í plati"og rétt náði að skella á sig kanínufésinu áður en sýningin hófst. En blómin fékk hún samt frá frænku. Svo fórum við systur saman í besta bakarí í heimi, eða Mosfellsbakarí og sukkuðum svolítið og nutum þess að vera saman.

c_users_herdis_pictures_november2007_img_5921.jpg

Það er ljóst að í hópnum eru margir ungir upprennandi listamenn, sem er vel við hæfi í listabænum Mosfellsbæ. Ég veit að þær listakonur og kennarar Inger, Arna Björk, Hólmfríður Vala og Elísabet hafa lagt mikið á sig til að koma þessu öllu saman. Ég sá líka hvað þær voru stoltar af "ungunum sínum" og er þetta dýrmætt fyrir Mosfellsbæ og skólastarfið og geta þær svo sannarlega verið stoltar af þessu starfi. Sýningin Trílógía verður opin til 24. nóvember og hvet ég alla sem komast til að skoða myndirnar, þær eru frábærar og er þegar farið bjóða í og meira að segja komið tilboð frá Danmörku um að sýna myndirnar þar.

 


Músíkþerapía

Ég fór á stjórnarfund hjá Eir og svo fulltrúaráðsfund sem haldinn var að honum loknum. Á fulltrúaráðsfundinn kom Kristín Björnsdóttir músíkþerapisti og hélt hún líflegan og skemmtilegan fyrirlestur um músíkþerapíu. Ég hélt að ég vissi svona nokk um hvað málið snérist, en fljótlega komst ég að því að kannski vissi ég lítið sem ekki neitt um málið. 

Þarna fékk ég innsýn í þessa meðferð sem myndi klárlega flokkast undir aðra þjónustu í drögum að nýrri stofnskrá Eirar, eins og Kristín sagði. En nokkur umræða var um nýja grein í stofnskrá um hlutverk stofnunarinnar, að auk þess að byggja hjúkrunarheimili og reka og veita öldruðum umönnun og hjúkruna yrði bætt við að veita öldruðum líka aðra þjónustu, og því í raun aðeins verið að aðlaga stofnskrána að því sem verið er að gera í dag. En aftur að músíkþerapíunni sem á hug minn allan, þessa stundina. Ég hélt að í músíkþerapíu fælist að spila tónlist og syngja saman og dansa, en það er ekki svo. Um er að ræða markvissa örvun, sem hefur gefist vel í starfi með öldruðum og sérstaklega með minnissjúkum. Notuð eru hljóðfæri til að skapa tónlist og virkja fólk og styrkja. Mikið er lagt upp úr félagslega þættinum og að rjúfa félagslega einangrun, enda ef maður hugsar um það þá er augljóst að maður fær meira út úr því ef maður er einmanna, að vera með hóp af fólki sem hefur gaman saman, en maður setti geisladisk í tækið og hlustaði á einn og yfirgefinn.

Það var fróðlegt að hlusta á frásögn af verkefni sem gengur út á því að nota tónlist til að tengja kynslóðir. Þetta verkefni er unnið á jafnréttisgrunni og felst í söng og sögustundum og samvinnu kynslóðanna, báðum kynslóðum til hagsbóta. Best þótti mér sagan af litla stubbnum sem varð að orði að hann hefði aldrei séð SVONA gaman mann, enda margar ömmu og afar nú í ræktinni, með litað hár og strípur og því sjaldgæfara að sjá orginal grátt hár og andlitskrumpur Wink.

Músíkþerapía er dæmi um það hvernig hægt er að nota tónlist til að viðhalda færni einstaklinganna og er klárt að með því er hægt að auka lífsgæði. Það verður gaman að sjá hvað gerist í framhaldinu en ljóst er að þetta yrði góð viðbót við það faglega og metnaðarfulla starf sem unnið er af starfsmönnum Eirar í dag. 


Flokkun, jarðgerð, gasgerð, brennsla og minni urðun

Ég var búin að skrifa heillanga færslu um vinnuferð sem stjórn Sorpu fór með sorpsamlögum á Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi til að skoða þær leiðir sem talið var að við gætum farið í þeim málum. Færslan hvarf þegar ég ætlaði að setja inn mynd og því ætla ég bara að skrifa stuttu útgáfuna núna og bæta svo öllum fræðunum við seinna.

Þessi ferð var vel skipulögð og þétt og náðum við að skoða jarðgerð, gasgerð, flokkunarstöðvar, tvær brennslustöðvar og flokkunarstöð þar sem íbúar nota litaða poka fyrir lífrænan heimilisúrgang sem svo er flokkaður frá í flokkunarstöðinni. Ég taldi mig nú þekkja þetta ágætlega og var í vafa hvort ég ætti að fara með vegna skólans. Þegar heim er komið er ég enn að melta allan fróðleikinn og sé ekki eftir því núna að hafa farið með þar sem margt kom mér á óvart og annað sem mér þótti flókið og ómögulegt reyndist einfaldara þegar maður sá það með berum augum og fékk tækifæri til að ræða við heimamenn. Það sem kom mér samt mest á óvart voru brennslustöðvarnar. Þær voru staðsettar í miðju íbúahverfi. Glæsilegar byggingar og þegar inn var komið var allt hreint og fínt. 

Ekki var verra að í för voru skemmtilegir ferðafélagar og þegar við fengum þessa flottu bláu hjálma í einum staðnum þótti okkur við hæfi að taka þessa fínu sjálfstæðismynd.

Herdís, Gísli Marteinn og Ómar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband