Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Skemmdarvargar í Álafosskvos

Skemmdir í Álafosskvos

Ég tók þá ákvörðun að fjalla ekki um tengibrautina í Helgafellshverfið fyrr en deiliskipulagið yrði auglýst að nýju með umhverfisskýrslunni, en bara gat ekki haldið aftur af mér lengur.

Ég er hálf miður mín yfir skemmdaverkunum í Álafosskvosinni og vona svo sannarlega að skemmdarvargarnir gefi sig fram. Ég sá ekki strax fréttirnar frá uppákomunni þar sem m.a. varaformaður Varmársamtakanna reif niður girðingu og skemmdi, en börnin mín sáu fréttirnar og undruðust mjög þetta háttalag fullorðna fólksins. Ég skoðaði svo allar fréttirnar tengdar málinu og næ ekki upp málflutning þeirra sem þar tjáðu sig og tek undir með þeim fjölmörgu sem hafa tjáð sig við mig um að orð forsvarsmanna Varmársamtakanna hafi náð að kynda verulega undir framkvæmdagleði skemmdarvarganna sem létu til sín taka síðustu nótt, þó svo að Varmársamtökin fordæmi verknaðinn.

Þær framkvæmdir sem verið er að mótmæla núna eru vegna lagna sem eru nauðsynlegar til að tengja hið nýja glæsilega íbúahverfi í Helgafellslandi. Þær framkvæmdir eru ekki háðar skipulaginu og verða lagnirar að koma á þessum stað, hvort sem tengibrautin verður að veruleika eða ekki.

Ég hef hitt marga á síðustu mánuðum sem hafa haldið að verið sé að leggja hraðbraut í gegnum Álafosskvosina, en hið sanna er að þessi vegur hefur verið á skipulagi í aldarfjórðung. Á undirbúningstímanum hefur vegurinn svo verið færður fjær kvosinni og hann aðlagaður enn frekar að landinu eins og sjá má á þessum myndum af tengiveginum. Ég skrifaði grein fyrir nokkru síðan um málið sem hægt er að lesa hér.

En til upprifjunar á þessu máli þá var Mosfellsbær búinn að tilkynna Skipulagsstofnun um þessa framkvæmd og komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat. Þessa ákvörðun Skipulagsstofnunar staðfesti umhverfisráðherra. Sú niðurstaða var kærð til kærunefndar skipulags- og byggingarmála sem komst að því að á grundvelli nýrra laga frá 2006 um umhverfismat áætlana yrði gera umhverfisskýrslu sem svo auglýst yrði með deiliskipulaginu að þessum 500 metra kafla brautarinnar sem um ræðir.

Fljótlega verður deiliskipulagið auglýst aftur til kynningar og þá með umhverfisskýrslunni.

Mikið hefur verið rætt um að bæjaryfirvöld hafi ekki tekið tillit til skoðana íbúa í Álafosskvosinni og því fékk ég þessa upptalningu að láni úr grein sem Haraldur Sverrisson formaður skipulags og byggingarnefndar skrifaði um kynningar- og samráðsferlið.

Helgafellsvegur

- misskilningur leiðréttur -

Þriðjudaginn 13 feb. sl.  var haldinn fjölmennur fundur í Hlégarði þar sem Mosfellsbær stóð fyrir kynningu á hönnun og útfærslu á Helgafellsvegi inn í Helgafellsland.  Undirritaður hélt þar framsögu þar sem farið var yfir skipulags- og kynningarferlið ásamt því að útskýrt var með hvaða hætti komið hefur verið til móts við athugasemdir bæjarbúa, einkum Varmársamtakanna.  Mig langar hér að gera grein fyrir þremur atriðum sem fram komu í framsögunni fyrir þá sem ekki áttu þess kost að sækja fundinn.

1. Kynningar- og samráðsferlið

Bæjaryfirvöld hafa legið undir ámæli að hafa í skipulagsferli Helgafellsvegar brugðist í lögbundnu kynningar- og samráðsferli við íbúana.  Staðreyndir málsins eru þessar:  Þegar þetta er ritað hafa verið haldnir sex kynningarfundir um skipulag tengivegar og nýs hverfis í landi Helgafells.

  • Almennur fundur um tengiveginn og skipulag Helgafellshverfis í tengslum við endurskoðun aðalskipulags 2002.
  • Í mars 2005, almennur fundur um niðurstöður um samkeppni um rammaskipulag Helgafellshverfis. 
  • Í febrúar 2006, almennur kynningarfundur um fyrstu deiliskipulagstillögur í Helgafellslandi.
  • Í  maí 2006,  sérstakur fundur með þeim sem gerðu athugasemdir við deiliskipulagstillögu  umrædds tengivegar.
  • Nýverið fundur með íbúum kvosarinnar og nágrennis þar sem hönnunargögn vegarins voru kynnt. 
  • Opinn kynningarfundur um hönnun og útfærslu þriðjudaginn 13. febrúar nk. í Hlégarði.
  • Auk þessa hafa embættismenn bæjarins afhent og útskýrt gögn og átt samtöl og fundi með fjölda manns vegna þessa máls.

Ljóst er að sú kynning og það samráð sem viðhaft hefur verið í þessu máli er langt umfram það sem lög og reglur krefjast um slík mál í stjórnsýslunni.

2. Komið hefur verið til móts við athugasemdir

Mikið hefur verið rætt um að ekki hafi verið hlustað á athugasemdir sem borist hafa og þær virtar að vettugi.  Þetta er ekki rétt því útfærsla og hönnun Helgafellsvegar hefur breyst mikið einmitt til að koma til móts við athugasemdir og ábendingar.

  • Tengiveginum hefur verið breytt í tvær safngötur á kafla með 30 km. hámarkshraða. Þetta hefur verið gert til að draga úr fýsileika þess að vegurinn verði tenging út á Vesturlandsveg frá framtíðarhverfum innar í Reykjadalnum. Við þetta mun umferð á veginum verða minni.
  • Vegurinn hefur verið færður fjær Álafosskvosinni og Varmánni.
  • Annað vegstæði valið sem aðlagast betur að landi og umhverfi.
  • Vegurinn lækkaður um tvo metra þannig að ásýnd hans mildast og stoðveggur lækkar og styttist. Stoðveggurinn verður um tveggja metra hár í stað fjögurra eins og áður var áætlað.
  • Skipulögð hefur verið lóð fyrir hverfisverslun á svæðinu. Er það gert til að gera hverfið sjálfbærara og við það minnkar umferð íbúa í og úr hverfinu.

Sú mikla vinna sem lögð hefur verið í hönnun tengivegar fyrir ofan kvosina hefur skilað þeim árangri að kynnt hefur verið lausn sem fellur vel að landi og umhverfi og hefur sem minnst áhrif á íbúa og nærumhverfi.

3.     Hverfisvernd Varmár ekki rofin

Því hefur verið haldið statt og stöðugt fram að umræddur Helgafellsvegur fari inn á hverfisverndarsvæði Varmár.  Þetta er ekki rétt.  Samkvæmt aðalskipulagsuppdrætti nær hverfisverndin frá fyrirhugðu vegstæði að bökkum Varmár.  Vegurinn kemur því hvergi inn á hverfisverndarsvæðið.  Reyndar er það þannig sveitarstjórnir ákveða hvort og þá hversu mikið einstök svæði skuli háð ákvæðum hverfisverndar innan sinna sveitarfélagamarka skv. skipulagslögum.  En engin þörf hefur verið á að breyta hverfisverndinni í þessu tilfelli þar sem nýr tengivegur í Helgafellshverfi fer ekki og hefur aldrei farið inn á hverfisverndarsvæði Varmár.

 

 


mbl.is Skora á skemmdarvarga að gefa sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningastríð í Evrópu

Eiríkur Hauks

Það er skoðun margra að breyta verði kosningakerfinu í evrópsku söngvakeppninni. Ég sagði sjálf að við kæmumst ekki upp úr undankeppninni fyrr en kerfinu yrði breytt. En viti menn svo var það víst málið að Eiríkur Hauks og strákarnir voru aðeins nokkrum atvæðum frá uppgöngu, þannig að kannski eigum við raunhæfa möguleika á að komast upp.

En þetta er greinilega bæði háalvarlegt og hápólitískt mál, komið á breska þingið og farið að skaða samskipti milli íbúa í Evrópu. En ég verð nú samt að segja að það hefur nú ekki bara verið kosningafyrirkomulagið sem varð til þess að breska lagið komst ekki lengra í keppninni... það var bara ekkert sérstakt. En ég er hjartanlega sammála Sigmari um að það hefði snarlagast ef Jónsi flugþjónn no. 1 hefði tekið þátt í þessu söngatriði Whistling.

Hvernig ætli færi nú með fiskinn í lögsögu okkar litla Íslands ef við gengjum í ESB, ef kosningakerfið í Evróvisjón er farið að valda nágrannastríði milli landa í Evrópu ?


mbl.is Breskur þingmaður krefst þess að Evróvisjón-kosningunni verði breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

130 milljón króna tekjuafgangur Mosfellsbæjar

Mynd_0265331

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2006 var kynntur á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku og verður reikningurinn tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 23. maí.

Rekstur sveitarfélagsins á árinu 2006 gekk mjög vel og umtalsvert betur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var jákvæð um 130 mkr eða um 68 mkr. betri en áætlað var. Veltufé frá rekstri var 531 mkr eða 16,5% sem er með því hæsta sem gerist meðal sveitarfélagana á landinu og handbært fé frá rekstri var 636 mkr. Eiginfjárhlutfall A og B hluta var 33% og hefur hækkað úr 25% frá árinu 2002 en sé einungis litið til A hluta var eiginfjárhlutfall 30% og hefur hækkað úr 15% frá árinu 2002.

Sköttum og þjónustugjöldum er stillt í hóf og er Mosfellsbær með eitt lægsta útsvar á höfuðborgarsvæðinu 12,94%, auk þess sem fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði voru lækkaðir úr 0,360% í 0,225% að meðtöldum afslætti. Frá síðastliðnu hausti hefur 5 ára börnum verið veitt 8 klst endurgjaldslaus vistun á leikskólum.

Mikil uppbygging átti sér stað í sveitarfélaginu á árinu og námu fjárfestingar 510 mkr. og bar þar hæst nýjan gervigrasvöll að Varmá, stækkun Lágafellsskóla og stækkun leikskólans Huldubergs. Þrátt fyrir þetta tók bærinn engin lán á árinu og skuldir við lánastofnanir lækkuðu.  Íbúum fjölgaði um 344 eða um 4,8% og voru 7.501 þann 1. desember. Á árinu voru gerðir samningar um byggingu um 1.400 íbúða í Leirvogstungu og í Helgafellslandi sem tryggja að kostnaður sveitarfélagsins við byggingu grunn- og leikskóla á þessum svæðum verður mun minni. Áætlanir gera ráð fyrir að íbúar verði tæplega 11 þúsund í árslok 2010.

Ársreikning bæjarsjóðs Mosfellsbæjar er hægt að nálgast hér.

 

 


Til hamingju Ragnheiður

Ragheiður Ríkharðsdóttir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ er nýjasti þingmaðurinn eins og ég bloggaði um í sigurvímu í morgun. Hún kom inn í lokatölum frá NV kjördæmi eftir "inn og út um gluggann" kosninganæturinnar eins og hún sagði sjálf þegar ég hitti hana á Aftureldingarleiknum í dag.

Kannanir sýndu fyrir kosningar að raunhæfur möguleiki væri á að Ragnheiður sjötta á lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum gæti náð kjöri. Það var líka ljóst ef hún næði ekki inn þá yrði enginn þingmaður úr Mosfellsbæ. En hún náði kjöri og erum við Mosfellingar afskaplega stolt af nýja þingmanninum okkar.  

Hún Ragnheiður er vel kynnt af störfum sínum bæði sem bæjarstjóri og eins sem kennari og skólastjóri í yfir 20 ár. Hún hefur verið oddviti okkar sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ og bæjarstjóri frá 2002. Það eru vissulega blendnar tilfinningar hjá mér þegar ég hugsa til þess að hún hætti sem bæjarstjóri í Mosfellsbæ, en á hinn bóginn veit ég líka hvað það skiptir miklu máli fyrir okkur að hafa fulltrúa á alþingi sem hefur jafn víðtæka reynslu og þekkingu á málefnum sveitarstjórna og hún hefur og ekki síst málefnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Það verður svo sannarlega skrítið að hitta hana á árlegu þingmannafundum í Hlégarði, þar sem hún verður nú í nýju hlutverki og þarf ekki lengur að messa yfir þingmönnum Kragans um öll þau málefni sem við viljum fá úrbætur á í Mosfellsbænum sem eru á hendi ríkisins. En ég treysti því að hún geti með auðveldum hætti sett sig inn í okkar mál Smile.

Þingflokki Sjálfstæðisflokksins hefur bæst góður liðsauki með Ragnheiði Ríkharðsdóttur og veit ég að hún á eftir að vinna af krafti fyrir alþjóð á Alþingi okkar Íslendinga næstu árin.

 

 


mbl.is Ragnheiður: Spennandi kjörtímabil framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bleiki kjörseðillinn

410975A

Ég var bara nokkuð ánægð með bleika kjörseðilinn í kosningunum í gær. Eins og fram kemur í fréttinni þá verða 20 konur og 43 karlar þingmenn samkvæmt úrslitunum kosninganna. Í mín kjördæmi kraganum eru 12 þingmenn og 6 konur og 6 karlar og í mínum flokki Sjálfstæðisflokknum eru 3 konur og 3 karlar og allt 100% fólk. 

Það er afskaplega ánægjulegt að Sjálfstæðismenn eiga fyrsta þingmann allra kjördæma og fylgja því Zero ónot að búa í Sjálfstæðisvíginu kraganum, þar sem við eigum 6 þingmenn og ekki var það nú verra að sjá sjötti inn var Ragnheiður Ríkharðs.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins

Geir H. Haarde - Reykjavík suður 39.23%
Björn Bjarnason
Illugi Gunnarsson
Ásta Möller
Birgir Ármannsson
Guðlaugur Þór Þórðarson - Reykjavík norður 36.41%
Guðfinna S. Bjarnadóttir
Pétur H. Blöndal
Sigurður Kári Kristjánsson
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir - Suðvesturkjördæmi 42,64%
Bjarni Benediktsson
Ármann Kr. Ólafsson
Jón Gunnarsson
Ragnheiður Elín Árnadóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Sturla Böðvarsson - Norðvesturkjördæmi 29.05%
Einar Kristinn Guðfinnsson
Einar Oddur Kristjánsson
Kristján Þór Júlíusson - Norðausturkjördæmi 27.99%
Arnbjörg Sveinsdóttir
Ólöf Nordal
Árni M. Mathiesen - Suðurkjördæmi 35.97%
Árni Johnsen
Kjartan Ólafsson
Björk Guðjónsdóttir

 


mbl.is Tuttugu konur á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýjasti þingmaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir

sv_hopur

Já það má segja að ég hafi aldrei upplifað aðra eins spennu og þessa kosninganótt. nýjasti þingmaður landsins sem komst inn á atvæðum frá NV kjördæmi er Ragnheiður Ríkharðsdóttir vinkona mín og bæjarstjóri í Mosfellsbæ. Hér í okkar kjördæmi náðum við okkar takmarki sem var að ná inn sex þingmönnum og yfir 42% atkvæðamagn og náðum við 42.64%. Alls verða 24 nýir þingmenn á Alþingi eftir kosningar og þar af 4 Sjálfstæðismenn úr mínu kjördæmi.

Það voru miklar sviptingar í nótt og fólk og margir þingmenn í stutta stund. Ég sá viðtal við Samúel Örn sem var þingmaður í eina og hálfa klukkustund og vildi leggja fram frumvarp um breytingu á tímasetningu kosninganna og láta kjósa rétt fyrir 17. júní. Róbert Marshall var inni lengst af, en þegar hann datt út þá fór allt á hreyfingu. Kristinn H. Gunnarsson, Sleggjan eins og þau á Stöð 2 kölluðu hann er kominn inn á þing, fyrir þriðja flokkinn sem er nýtt íslandsmet.

lokaniðurstaða

Framsókn tapaði stórt í þessum kosningum og misstu þeir 5 af 12 þingmönnum og komust þar af tveir ráðherrar ekki inn á þing, þau Jón Sigurðsson formaður flokksins og Jónína Bjartmarz. Siv Friðleifs heilbrigðisráðherra var úti lengi vel, en þegar ég vaknaði í morgun var Framsókn í kraganum svo komin inn með tvo þingmenn, en Samúel Örn datt svo út aftur á lokametrunum.

Á kosningavöku okkar Sjálfstæðismanna í Hlégarði sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir nú nýkjörinn þingmaður okkar Íslendinga að hún lofaði spennandi kosninganótt. Þetta yrði rússíbani til ca. kl. 7 og þá kæmist hún inn. Já hún reyndist sannspá, en klikkaði bara örlítið á tímanum sem skapaðist af því að þeir í NV kjördæmi lentu í einhverjum vandræðum með utankjörfundaratkvæðin. Hún var eldspræk þegar ég heyrði í henni áðan, enda takmarkinu náð og þá eru keppnismenn eins og Ragnheiður glaðir.

xd_malefni_trausturgrunnur

Þetta er stórsigur fyrir okkur Sjálfstæðismenn, að ná svona árangri eftir öll þessi ár í ríkisstjórn og heldur Geir Hilmar Haarde forsætisráðherra umboði þjóðarinnar. Stjórnin hefur 32 þingmenn af 63 en á bak við þá eru 48,4% atkvæða. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í nótt, að í dag myndi hann ræða við formann Framsóknarflokksins, en fljótlega mun koma í ljós hvernig ríkisstjórnin verður skipuð, en þjóðin er sammála um að þessi trausti grunnur skiptir máli og horfi ég með bjartsýni til framtíðar. 

Ríkisstjórnin hélt velli og græt ég það ekki að kaffið er orðið kalt í kaffiboði kaffibandalagsins.

 

  


mbl.is 24 nýir þingmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

X - D

c_xdlogo

Kosningafjör í Mosfellsbænum

IMG_1239

Í fyrramálið verða kjörstaðir opnaðir um allt land og er hálf ótrúlegt að kosningabaráttunni sé að verða lokið. Það hefur verið mikið fjör í Mosfellsbænum og reyndar hjá sjálfstæðismönnum öllum í Kraganum. Við vorum að gefa blöðrur og fleira fyrir utan Krónuna og Kjarna í dag og hittum við fjölmarga hressa kjósendur.

rr

Hér í Mosfellsbænum er til mikils að vinna, en Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem er sjötta á lista Sjálfstæðismanna er eini frambjóðandinn úr bænum sem hefur raunhæfan möguleika á að hljóta kosningu á morgun. 

Það er búið að vera skemmtilegt að taka þátt í þessari kosningabaráttu og ekki síst hér á blogginu. Það er líka búið að vera gaman að heyra í sínu fólki, vinum og kunningjum og virðist sem margir ætli að kjósa stöðugleikann og merkja við XD á morgun, sem er afar ánægjulegt.

Á morgun verður svo kosningakaffi Sjálfstæðismanna í Hlégarði eins og alltaf og veður opið þar með meðan kjördeildir verða opnar . Ég veit að það verður enginn svikinn af veitingunum sem mætir þangað, sem er bara nákvæmlega eins og það á að vera í sveitinni.

Jæja þá er bara að koma öllum krökkunum sex í háttinn, en ég er með þrjá X-tra í nótt. Svo er líklega eins gott fyrir mann að fara að hvíla sig fyrir morgundaginn, því kosningabaráttunni líkur ekki fyrr en búið er að loka kjörstöðum. 

 

 

 


Vinstri stjórn og Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra?

32

Nú eru aðeins rétt rúmur sólarhringur uns kjörstaðir verða opnaðir og spennan í hámarki. Það er raunhæfur möguleiki á því að eftir helgina verði komin á vinstri stjórn í landinu miðað við niðurstöður skoðanakannana undanfarinna daga og yfirlýsingar flokkanna. Steingrímur J. hjá Vinstri grænum er meira að segja búin að gefa eftir forsætisráðherraembættið yfir til Ingibjargar Sólrúnar, sem hann var nú ekki alveg á í Kryddsíldinni á gamlársdag. Við gætum því séð hér stjórn með aðild Samfylkingar og Vinstri grænna og svo annað hvort Frjálslynda flokknum eða Framsókn.

Þá verða burðarásarnir í nýrri vinstristjórn flokkar sem hafa sett sig upp á móti öllum stærstu framfaramálum í íslensku þjóðfélagi undanfarin ár. Ef þessir flokkar hefðu verið við stjórn þá hefðu ekki orðið breytingar í ríkisrekstri, skattalækkanir, árangur í efnahagsstjórnun, hagvöxtur og kaupmáttur, uppbygging í menntakerfinu, EES- samningurinn og opnun markaða fyrir okkur og ýmis önnur framfaramál í landinu gengið eftir. Ég leyfi mér að efast um að nokkur breyting yrði á hugarfari þrátt fyrir að þau kæmust í ríkisstjórn núna. Ég nefndi í bloggi mínu í fyrradag atvinnuleysið og það vonleysi sem ríkti hér í tíð síðustu vinstri stjórnar og get ég bara ekki hugsað mér það ástand aftur.

Fram hefur komið í könnunum að mikill meirihluti þjóðarinnar vill fá ríkisstjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins og undir forystu Geirs H. Haarde. Þar endurspeglast það traust sem flokkurinn og verk hans undanfarin ár nýtur og til þess að svo geti orðið áfram, þarf flokkurinn að hljóta góða kosningu á laugardaginn.

Nú gildir ekkert að breyta til að breyta og kjósa því ekki Sjálfstæðisflokkinn. Það þýðir ekkert að treysta því að allir hinir sjái um að kjósa X-D. Fólk getur ekki treyst því að aðeins sé verið að veita mótvægi með því að kjósa aðra flokka.

Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að möguleiki á vinstri stjórn á Íslandi er ekki aðeins hugrenningar bloggara úr Mosfellsbænum, heldur raunverulegur möguleiki eftir kosningar.

Látum það ekki gerast, kjósum áframhaldandi stöðugleika, kjósum Sjálfstæðisflokkinn.

 


82% Sjálfstæðismaður

hvað skaltu kjósa?

Þetta S-Hvað próf frá Bifröst var aðal grínið hjá vinnufélögunum í dag. Ef prófað er að vera ekki með neina skoðun þá ertu Samfylkingarmaður, ef þú prófar að vera á móti öllu ertu Vinstri grænn. Ég sá að ég var bara 82% Sjálfstæðismaður og ég sem hef alltaf haldið að ég væri 100% Sjalli.

Ég ætla rétt að vona að fólk fari ekki að taka þetta próf alvarlega. Ég sá að hann Þrymur bloggvinur minn hafði einmitt verið að blogga um þetta og lýsir hann hér ágætlega tilraunum sínum.

X - HVAÐ II

Þetta sniðuga forrit frá Bifrastar hópnum bíður upp á skondna möguleika og kemur mörgum ansi undarlega fyrir sjónir þegar horft er á niðurstöðurnar

Sé ég í góðu skapi og sólin brosir bak við ský og er sammála öllum atriðum þá kemur þessi niðurstaða.

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar!

Tókuð þið eftir þessu - Aftur Samfó

Nú er ég sestur niður eftir matinn með ilmandi kaffi og konjakk og er í besta skapi og tek vel í allt og er mjög sammála. Þá kemur þessi niðurstaða.

Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Samfylkingarinnar! 

Tókuð þið eftir þessu - Aftur Samfó og enn.

Jæja þetta voru sláandi niðurstöður.

Ég vona sannarlega að fólk myndi sér ekki eingöngu skoðun út frá þessu forriti.
Sérlega þeir sem eru óvissir og vita vart í hvorn fótinn þeir eiga að stíga.

Mjög vinstra sinnað apparat svo ekki verði meira sagt.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband