Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Ströndin færðist til

Ég fór til Cancun í Mexico með Ella þegar hann útskrifaðist úr byggingartæknifræðinni um árið. Við fórum í maí að mig minnir og var þetta frábær ferð í alla staði og skemmtum við okkur hið besta með góðum félögum. Ég veiktist að vísu, fékk matareitrun og 40°C hita í nokkra daga. Ég gat ekkert borðað og fékk sýklalyf við sýkingunni og man að Ella fór í búðina til að kaupa Gelatina og Gingerale að læknisráði. Hann fór í búðina og bað un Djin-Djer-eil... á góðri ensku og maðurinn í búðinni horfði á hann tómum augum og Elli prófaði aftur... gin, ger, eil... en allt kom fyrir ekki. Að lokum gafst hann upp og fór að leita sjálfur og fann flöskuna og þá sagði maðurinn skælbrosandi OH you meen Gin -  Ger - Ale.

Þegar við vorum þarna þá var mikil uppbygging og svæðið í mótun. Upphaflega var ákveðið að  byggja þarna upp sumarparadís og staðsetningin ákvörðuð út frá fjarlægð frá Bandaríkjunum. Þarna er fallegt, blágrænn sjór og fallegar strandir og stutt í marga fallega ferðamannastaði.

Ströndin þarna er falleg og vorum við á sæmilegu íbúðarhóteli með risa strönd. Ég man að ég undraðist þetta mjög og ekki síst vegna þess að stutt frá okkar hóteli var glæsihótel með pínu lítilli kletta strönd og nánast engum sandi. Ég spurði heimamenn hvernig stæði á þessu og þá var mér sagt að við flotta hótelið hefði verið glæsileg strönd. En ári áður en við komum hefði komið kraftmikill fellibylur, líkt og Dean sem hreinlega breytti landslaginu í einni yfirferð um svæðið. 

Ég vona svo sannarlega að fólk hafi nýtt tímann vel og komið sér í skjól og birgt það sem hægt er, því krafturinn er óhugarlega mikill. 


mbl.is Íslendingahópur farinn frá Yucatan-skaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öðruvísi sumar

Ég vona nú að allir gestir hennar Menningarnætur hafi komist heim að lokum.

Við Rituhöfðafjölskyldan skruppum örstutt á tónleikana á Miklatúni, svona rétt til að skutla flíspeysu til ömmu Binnu og svo ætlaði Sturla að vera með henni á tónleikunum og flugeldasýningunni. Í gær var Elli var að helluleggja allan daginn, Ásdís á leikæfingu og við hin vorum bara heimapúkar og nenntum ekki í bæinn.

Þetta er annast búið að vera svona öðruvísi sumar hjá okkur fjölskyldunni. Við fórum ekki í hina árlegu sólarlandaferð í vor, keyptum okkur svo fellihýsi og lögðumst í útilegur. Fórum ekki á síldarævintýrið á Siglufirði, eins og við gerum á hverju ári. Við sáum ekki Gay Pride sem við höfum sérstaklega gaman að og svo slepptum við líka menningarnóttinni í Reykjavík. Hvað er eiginlega að gerast hjá okkur?


mbl.is Síðustu gestir Menningarnætur á leið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rituhöfðinn rokkar

Tóti og Elli að grilla  Elli og Tóti að grilla

Hið árlega Rituhöfðagrill var haldið í gær og sáum við tónleikana í beinni inni í tjaldinu. Stóra hvíta tjaldið var sett upp á planinu hjá Ástu og Gilla eins og undanfarin ár og þau fyllt af borðum og stólum. Búið var að koma fyrir græjunum, skjávarpa og tjaldi og allt virkaði þetta og því ekki eftir neinu að bíða. Fljótlega fóru að streyma að grillarar með fínu grillsamstæðurnar sínar og höfðu einhver ný bæst við frá síðasta götugrilli.

Sturla Sær

Skemmtinefndin óskaði eftir því að allir mættu með frumleg höfuðföt og sokka og síðast en ekki síst góða skapið. Við á númer fjögur gleymdum okkur eitthvað og því voru góð ráð dýr, því ekki ætluðum við að félagsskítar. Ég ætlaði að vera rosalega frumleg og setti upp sjálfstæðishúfuna fínu. Ég áttaði mig nú samt fljótt á því að þetta var ekki alveg að gera sig og því náði ég mér í hárkollu og skellti pottloki yfir. Elli fann doppóttan regnhatt frá Ásdísi og Sædís Erla setti á sig bleiku Íslandshúfuna. Sturla varð náttúrulega að vera flottur og fór hann með hatt og setti á sig Gay pride blómakrans. Ég fann líka röndótta tásusokka til að fara í og Elli einhverja gamla skrautlega sokka af Ásdísi, sem by the way var að æfa í leikhúsinu og kom seinna um kvöldið.

Veðrið lék við okkur eins og fyrri ár og nutum við þess í botn að borða góðan mat með skemmtilegum nágrönnum. Veitt voru verðlaun fyrir frumlegasta höfuðfatið og sokka. Niðurstaða fékkst með lýðræðislegri kosningu. Kosið var í einni kjördeild, sem þær Dagga og Ásta stýrðu og gerðu þær okkur alveg ljóst að þær tækju glaðar á móti mútum.

Raggi með verðlaunahattinn  Raggi með vinningshattinn

Raggi vann höfuðfataverðlaunin 2007 og hlaut að launum vinning, út að borða fyrir tvo á Bæjarins bestu. Eins og sést á myndunum fengu flestir stóru strákarnir að prófa vinningshattinn seinna um kvöldið. Ég hlaut glæsileg aukaverðlaun penna sem á stóð "Rituhöfðinn rokkar 2007" fyrir höfuðfatið frumlega, en ég mútaði líka dómurunum. Við Raggi nýttum svo tækifærið við verðlaunaafhendinguna og sýndum viðstöddum að við vorum í eins tásusokkum.

verðlaunaafhending  Sjáið bara tásurnar okkar

Frumlegustu sokkarnir voru á fótum þeirra Siggu, en Pétur granni var með öfluga kosningabaráttu fyrir Siggu sína, Örnu og Döggu, en Dagga var nú frumlegust þar sem hún málaði á sig sokkana góðu.

Verðlaunasokkarnir 2007  Arna, Dagga og Sigga

Mikið var sungið í Sing Star, sem upphaflega átti að vera fyrir börnin, en var kannski meira fyrir stóru börnin. Mest var sungið 80´s, dúettar og keppni og allir skemmtu sér vel. Nýja kaffivélin hennar Ástu var tilkeyrð og er allt í lagið að mæla með kaffinu og líka þessu 80 eitthvað sem var með því. Mikið var hoppað og skoppað og var þriggja trampólínmetið frá því í fyrra toppað og einu bætt við. Lagt var á ráðin með skreytingar næstu viku og komu upp hugmyndir um að fá gula kostunaraðila eins og Bónus til að skreyta GULT, því eðlilega ætlar Rituhöfðinn að vinna skreytingarverðlaunin 2007.

Börnin á Rituhöfða 4 Börnin í Rituhöfða 4, Ásdís Magnea, Sædís Erla og Sturla Sær

Veðrið var yndislegt og ágúst kvöldið fagurt. Við rituhöfðafjölskyldan á fjögur gengum heim sæl og ánægð með vel heppnað götugrill og hlökkum til þess næsta að ári.

Hér eru nokkrar myndir frá kvöldinu.


mbl.is Aldrei fleiri á Laugardalsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturfarar, annar hluti

Pálsson afkomendur

Ég keyrði til Grindavíkur í gær með spennuhnút í maganum. Ástæðan var sú að ég var að fara að hitta nýfundna ættingja mína frá Kanada. Þegar ég keyrði eftir aðalgötunni fékk ég símtal frá Brynju sem sagði að þau væru komin í Lautina, en þar væri ekkert hús númer 10. En ég hafði í einhverju rugli sagt þeim að Kristín systir ætti heima í númer 10 en ekki 26. En við náðum saman og keyrðum í samfloti að húsi númer 26, húsinu þar sem búið var að flagga Liverpool fánanum.

Við fórum út út bílunum og hitti ég frænkur mínar Pat og Valerie og sjálfa Brynju sem ég er búin að vera í sambandi við. Rétt á eftir komu svo þeir Páll Pálsson frændi minn, Doug maður Valerie og Þorvaldur maðurinn hennar Brynju. Þegar inn var komið tók pabbi á móti Páli frænda sínum og voru miklir fagnaðarfundir. Þeir voru glettilega líkir þremenningarnir, prófíllin og ekki síst nefið sem er víst eitt af ættareinkennunum sem flutt var út til Vesturheims á þar síðustu öld.

Við höfum um margt að spjalla og fljótlega var Kristín systir og Halla búnar að framreiða dýrindis lambakjöt a la Ísland, sem allir voru á einu máli um að væri það besta í heimi. Meira spjall og myndasýningar. Ég líktist stórum hópi af fræknum vestra og pabbi var mjög líkur einum bróður Páls og afkomenda og pabbi var á því að Páll frændi líktist meira Steina bróður pabba sem dó um þrítugt. Páll talar íslensku eins og innfæddur og Valerie og Pat tala líka þó nokkuð og skilja það sem sagt er. Pabbi og Páll sátu lengi og ræddu um ýmislegt saman, bæði gamla tímann og muninn á Kanada og Íslandi.

Það kom í ljóst að þau vissu ekki að tvær systur Páls Jónssonar hefðu líka flust vestur um haf eða þær Engilráð og Þorbjörg og ætla ég að skoða betur þeirra sögu. Ég komst að því að haldin eru ættarmót Pálsson fjölskyldunnar í Kanada. Síðasta mótið var haldið fyrir 10 árum síðan og frá því að það var haldið hafa margir af þeim elstu látist og eins hafa nýir Pálssonar bæst við. Þær Valerie og Pat eiga þrjú systkini. Þær eru elstar og síðan kemur Raymond sem nú hefur tekið við búi Páls. Yngstar eru svo þær Roslyn og Deanna. Barnabörn Páls eru orðin 14 og komið er eitt lítið barnabarnabarn. Við ræddum um ættarmót í Kanada og væri svo sannarlega gaman að fara saman til vesturheims og hitta ættingjana og er það komið á to do listann nú þegar.

Bróðir minn Jóhann býr í Seattle og kom í ljós að sonur Valerie og Dougs býr í Vancouver sem er rétt handan landamæra Kanada. Ég talaði við Jóhann í gær og sagði honum frá þessu og langar hann til að hitta Trevor frænda sinn. Hann lifnaði líka allur við þegar ég sagði að það væri allt fullt af gæsum á túnunum hjá þeim sem biðu eftir því að hann kæmi.

Þetta var aðeins fyrsta sinn sem við hittumst og til að tryggja örugg og góð samskipti var skipst var á netföngum og símanúmerum. Ég kom með þá tillögu að við ættum að setja upp heimasíðu afkomenda Jóns Pálssonar og kom Doug með uppástungu um þann sem ég gæti virkjað í Kanada og er það mál því á hugmyndastigi. Ég held að það gæti verið góð leið til að halda utan um upplýsingar og gera þær aðgengilegar og svo er auðvelt að bæta við nýjum Pálssonum.

Eftir að þau fóru settumst við hin niður og rifjuðum upp og plönuðum ferðina til Kanada. Þetta er ótrúlegt sagði pabbi. Hann sem hélt alltaf að hann væri ættlaus og öfundaði mömmu sem átti heilu bækurnar með ættartölum sínum. Nú er hann búinn að heimsækja Strandirnar í ógleymanlegri ferð og ganga á slóðum horfinna áa sinna í Kjörvogi og hitta frændfólk sitt frá Kanada og farinn að plana aðra ferð á Strandirnar og ættarmót í Kanada. Þvílíkt sumar.

Ég náði ekki að setja inn myndir með blogginu en hér eru myndir sem voru teknar á fysta Pálsson fjölskyldumótinu á Íslandi.


Menning í Mosfellsdalnum

Sædís Erla á markaðnum uppi í dal

Þeir eru menningarlegir í Mosfellsdalnum og er þá Egill Skallagrímsson meðtalinn, en hann hvílir í Mosfellsdalnum.

Ég hef farið á hverju ári í dalinn þegar sultukeppnin er, en ekki enn tekið þátt, en hver veit hvað gerist þegar berin í garðinum eru orðin stærri, eða þá ef ég færi að sulta hrútaber. Þetta er skemmtilegur siður og gaman að sjá kappið hjá þátttakendum, enda titillinn "sultugerðarmaður ársins" í húfi.

Ég fer yfirleitt á hverjum laugardegi á markaðinn upp í Dal seinnipart sumars og kaupi mér grænmeti, heimagerðarsultur og pestó og síðast en ekki síst rósir á góðu verði. Sædís Erla er farin að biðja um að fara á markaðinn, því þar fær hún heimagerða skúffuköku með ljúffengu súkkulaðikremi og djús.

Í Mosfellsdal er líka Gljúfrasteinn, heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans um hálfrar aldar skeið en nú opinn almenningi sem safn. Í móttökuhúsi er margmiðlunarsýning helguð ævi og verkum Halldórs. Þetta er skemmtilegt safn og er opið þar alla daga frá kl. 9.00 - 17.00.

Á sunnudögum eru haldnir stofutónleikar á Gljúfrasteini og eru tvennir tónleikar eftir í sumar. Tónleikarnir eru á sunnudögum kl.16.

19. ágúst Peter Maté, píanó
26. ágúst Guðný Guðmundsdóttir, fiðla og Gerrit Schuil, píanó 


 


mbl.is Leitin að bestu sultunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vesturfarar, fyrsti hluti

heyannir

Ég nefndi það um daginn að ég hefði fengið símtal frá Önnu Kristjáns bloggvinkonu minni síðasta sunnudag. Hún hafði þá verið búin að reyna að ná í mig yfir daginn, þegar ég far á fótboltamótinu á Selfossi, en allt kom fyrir ekki, ég var bara kæruleysið uppmálað og svaraði ekki. Ég held kannski að ég sé aðeins og mikið að njóta þess að vera ekki á bakvakt lengur. 

En mikið er ég nú fegin að Anna gafst ekki upp á mér. Hún var nefnilega búin að vera í ættfræðigrúski fyrir afkomendur Vesturfara nokkurs og fann mig bloggvinkonu sína á ættingjalistanum undir gcbc. Þessi umræddi vesturfari var enginn annar en bróðir hans Jóns Jónssonar langafa míns, en hann langafi minn var fæddur var 1845. 

Enn og aftur er ég dottin í ættfræðina og hafði lítið fyrir þessu sjálf núna og fékk þennan líka flotta lista yfir ættingjana frá henni Önnu. Nú er ég búin að sitja og bæta aðeins við og leiðrétta það sem ég sá rangt og er rétt að hitna.

Þetta er skemmtileg saga og hver veit nema ég fari í grúsk og skrifi hana. Þannig var að langafi minn var einn tíu systkina.

a) Þorgrímur Jónsson, fæddur 1834, lést ungur

b) Halldór Jónsson, fæddur 1836, fór til vesturheims

c) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1838, lést ung

d) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1839, lést ung

e) Þorgrímur Jónsson, fæddur 1841, fór til vesturheims

f) Þorbjörg Jónsdóttir, fædd 1844, fór til vesturheims

g) Jón Jónsson, fæddur 1845, þetta var langafi minn sem var áfram á Íslandi

h) Páll Jónsson, fæddur 1848, fór til vesturheims

i) Engilráð Jónsdóttir, fædd 1850, fór til vesturheims

j) Kristján Jónsson, fæddur 1854, lést ungur

Þau systkinin fæddust á tuttugu ára tímabili og létust fjögur þeirra ung en sex komust á legg. Af þessum sex fóru sem sé fimm vestur um haf og langafi var hér einn eftir á Ísalandinu bláa.

Eins og Önnu grunaði þegar hún benti á mig, þá hafði ég áhuga á að hitta þessa ættingja mína. Ég er búin að vera í sambandi við hana Brynju sem þau búa hjá og býr á Kalastöðum. Við ætlum að hittast hjá systur minni í Grindavík. Þarna er Páll, og talar hann víst íslensku líkt og ég og þú. Í för með honum eru tvær dætur hans og tengdasynir. Pabbi er í bænum þannig að hann mun hitta Pál frænda sinn í fyrsta skipti og er þetta jafnframt í fyrsta sinn sem við hittum einhvern af þessum horfnu, en nú nýfundnu ættingjum okkar frá Kanada. 

Það kom mér á óvart þegar ég heimsótti vesturfarasafnið á Hofsósi, hvað það voru margir sem fluttu vestur um haf. Í vesturfaraskrá 1870-1914, eftir Júníus Kristinsson er að finna upplýsingar um einstaka íslenska vesturfara. Þar eru taldir upp, í röð eftir sýslum, hreppum og sveitabæjum, ekki færri en 14.268 íslenskir vesturfarar. Tilgreint er nafn, heimili og aldur, starf eða fjölskyldustaða, útflutningsár -höfn og -skip og áfangastaður í Vesturheimi, eða allt sem hefur verið skráð um viðkomandi. En ekki eru allir þar taldir því einhverjir hafa farið vestur fyrir 1870 og enn fleiri eftir 1914 og eins hafa eflaust ekki allir verið skráðir.


Ætti ég kannski að kaupa mér DELL tölvu?

insp8500_micro

Ég ætla að kaupa mér nýja fartölvu í skólann og mitt pólitíska stúss. Ég ætla að kaupa góða tölvu, hraðvirka, öfluga, létta, með góðum skjá. Svona eina með öllu. Hún þarf líka að vera hljóðlát, því ég er að brjálast á hávaðanum í HP vinnutölvunni.

Ég hef eðlilega fengið mér persónulegan ráðgjafa, hann Marinó minn sem er eðal tölvutóti og góður vinur og er hann að vinna í málinu fyrir mig þessa dagana.

Eins og staðan er núna langar mig mest í DELL tölvu.INSPIRON 1720 sem kostar 160 þúsund og virðist vera með öllu sem ég þarf og kannski einhverjum óþarfa.

En hver er ykkar reynsla í þessum málum? Hvernig hafa ykkar tölvur reynst?


Verklegar framkvæmdir, stefnumót, vesturfarar og þjófnaður

elli og palli

Þessi helgi er búin að vera dásamleg í alla staði. Við vorum að vinna í planinu hjá okkur um helgina. Nú er hann Elli minn búinn að leggja hitalögnina, alveg sjálfur. Síðan verður sandað á morgun og eftir það munum við hjálpast að við að leggja hellurnar.  "Þegar öllu þessu er lokið"  getur frúin loksins farið út á háhæluðu skónum sínum án þess að þurfa að tipla í grús og eiga það á hættu að skemma hælana.

Sædís Erla á markaðnum í dalnum  Sædís Erla á markaðnum í Mosfellsdal

Ég fór á laugardagsmorgni á markaðinn uppi í Mosfellsdal til að kaupa fótboltasnakk handa strákunumá Olísmótinu og rósir handa Ásdísi hálfnöfnu og bloggvinkonu. Mér fannst hún nú vera svona dökkrauðarrósir typa en ákvað svo á síðustu stundu að kaupa Sigurrós, því mér fannst nafnið viðeigandi fyrir þessa kjarnorkukonu á Selfossi.

Sædís og Bóthildur   Sædís Erla og Bóthildur

Mér leið svona eins og ég væri að fara á blint stefnumót (hef reyndar aldrei prófað það...but) og hlakkaði ég mikið til að hitta hana og húsbandið og bera sjálfa Bóthildi litlu augum. Nú við Sædís Erla skelltum okkur svo í heimsókn og vorum við svona eins og gamlar vinkonur og spjölluðum um alla heima og geima og áður en ég vissi af var ég búin að missa af öllum leikjum dagsins, tíminn bara flaug það var svo gaman. Þarna var ég loksins búin að hitta mína ágætu bloggvinkonu og hálfnöfnu og sjá að þetta var ekki bara eitthvað blogg, þetta var alvöru.

    Ásdís bloggvinkona  Ásdís og Bóthildur

Við fjölskyldan fórum svo á Olísmótinu á Selfossi á sunnudeginum og hvöttum Aftureldingu óspart. Sturla og liðið hans vann sinn riðil og voru þeir heldur sælir með dolluna.

Sturla og c-liðið 

Áfram Afturelding Áfram Afturelding

Gullstrákarnir

Þegar við komum heim frá Selfossi komu Sirrý okkar og tengdó í mat og ég sótti svo pabba út á flugvöll, en hann er að fara í augnaðgerð á þriðjudaginn. Stuttu eftir að ég kom heim aftur hringdi Anna Kristjánsdóttir bloggvinkona mín og spurði hvort ég ætti ættingja í vestuheimi, ættaða úr Skagafirði. Jú ég hafði oft heyrt talað um hóp ættingja pabba sem fluttu West-ur um haf. Hún sagðist hafa vitneskju um ættingja mína sem væru á landinu. Hún hafði tekið að sér að leita ættingja þessa fólks og viti menn, hún fann mig á listanum. Nú hef ég lagt drög að því að hitta þessa ágætu ættingja mína á næstunni og verður það fróðlegt og örugglega skemmtilegt. Segið svo að bloggið sé ekki til margra hluta nytsamlegt.

Það var aðeins einn svartur blettur á þessari annars ágætu helgi. En það var að skátinn minn var rændur á flugvellinum í London. Já allt tekið, veskið með peningum og kortum, síminn, nýja flotta myndavélin hennar sem hún vann í auglýsingakeppninni. Þetta er ömurleg lífsreynsla sem allir vilja vera án, en flestir lenda í á ævinni. En vegabréfið var á vísum stað og því er hún nú komin til landsins þessi elska og erum við að fara upp í skátaheimili núna til að sækja hana.


Moggabloggaramót að ári, haldið á fiskideginum mikla á Dalvík 2008

Ég skellti því fram á heimasíðunni hjá henni Ásdísi hálfnöfnu minni og elstu bloggvinkonu hvort við ættum ekki að halda moggabloggaramót á fiskideginum mikla á Dalvík 2008. Ég skrifaði þetta líka í færslu í gær við fréttina um fiskidaginn mikla, en mig hefur alltaf langað að fara, en aldrei komist.

Ekki stóð á viðbrögðum og svei mér þá ef ekki stefnir bara í gott bloggvinamót. Það verður haldið helgina eftir verslunarmannahelgi á fiskideginum mikla á Dalvík. Ég býð öllum bloggvinum út að borða með mér á föstudagskvöldinu.


mbl.is Vináttukeðja og friðardúfur á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mig laaaaaaaaaangar svo

Fiskar

Ég hef ætlað mér að fara á fiskidaginn mikla á hverju ári, en af ýmsum ástæðum hef aldrei komist. En það er deginum ljósara að þúsundir manna klikka ekki á því að fara eins og ég. Ég hef dáðst að því hvernig hátíðin hefur vaxið og er hinn landsfrægi Dalvíkingur Júlli, algjör snillingur.

Það hefði nú verið gaman að smakka 70 fiskisúpur og sjá fiskaskreytingarnar fyrir framan húsin og ganga um Hafmeyjustræti. Ég sagði það við hana Ásdísi bloggvinkonu mína að við ættum kannski að halda bloggvinamót á Dalvík að ári.


mbl.is „Ótrúlegt mannhaf “ á Dalvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband