Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Mínir menn ekki á blesgæsaveiðum

BlesaHeidaGra2

Ég heyrði í mínum mönnum áðan og voru þeir þá í skurðinum. Þeir komnir með 12 gæsir og því þarf ég ekki að örvænta um að fá ekki áramótasteikina. Ég var að tala við Stóra áðan þegar hann allt í einu henti frá sér símanum og svo heyrði ég gva gva gva og svo bang og lágu tvær.

Ég hef annars aldrei borðað blesgæs, enda er Skagafjörðurinn ekki í blesgæsar leið, en þær eru algengastar á Suður og Vesturlandi. Ég fann kort á netinu...svona ef einhverjir væri ekki klárir á blesgæsarsvæðinu og eins útliti gæsarinnar, en erfitt getur verið að þekkja unga blesgæs frá grágæs á flugi, en ungar blesgæsir eru yfirleitt á flugi með eldri blesgæsum.

Blesukort3

Veiðimenn verða að hafa varann á sér á svæðinunum sem eru merkt rauð á kortinu.


mbl.is Áhyggjur af blesgæs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á gæs

gaes

Elli bíður í gæsagallanum eftir því að Jóhann og Sigurjón Veigar komi. Þeir eru að fara í hina árlegu gæsaveiðiferð með pabba, Balda og Jóhanni bróður í Skagafjörðinn og núna Sjonna "litla" líka. Pabbi og Baldi fóru uppeftir í dag og eru búnir að skoða túnin og leggja á minnið hvar þær settust og verður prógramm hjá þeim fram á miðvikudag. Sturla Sær er efnilegur og súr yfir því að fá ekki að fara með en ég veit að hans tími mun koma.

Jóhann var annars að lenda í Keflavík og fór Sigurjón og sótti hann. Þeir verða svo komnir norður þegar pabbi og Baldi vakna í Hjarðarhaganum í nótt, en þá ætla þeir að tryggja mér áramótasteikina.

Það sem Jóhann leggur á sig á sig fyrir eina gæsaveiðiferð. Hann flaug frá Seattle á þriðjudaginn síðasta, með byssuna og ætlaði að koma við hér í Keflavík á leið sinni til Noregs og henda dótinu af sér og fara svo til Noregs á fund. En viti menn hann missti af vélinni úti í Bandaríkjunum vegna veðurs og fyrir vikið varð hann að druslast með vopnið og allt dótið, fyrst til Noregs, Danmerkur og svo hingað og vona ég svona hans vegna að farangurinn hafi skilað sér. Það væri nú rosalegt ef hann yrði að fá rúsann minn lánaðan, algjörlega manual og fullkomlega handsnúinn.

Við krakkarnir ætlum annars að reyna slappa af um helgina, eða þannig. Ásdís nýbakaður formaður nemendafélagsins í Lágafellsskóla og súperskáti verður á Hafravatnsdeginum á morgun og Sturla að jafna sig eftir skólaferðalagið...en það var víst lítið sofið. Mamman þarf að fara á einn fund á morgunog læra og klára svo spurningarnar sem sendar verða til sveitarfélaganna í næstu viku vegna verkefnisins. Ég er búin að ná í flesta sveitarstjóra og er mikil jákvæðni í garð verkefnisins og því er ég nokkuð bjartsýn á framhaldið. Ég hlakka óskaplega til að sjá niðurstöðurnar og fara að skrifa ritgerðina fyrir alvöru, en ég er hrædd um að það verði ekki fyrr en í jólafríinu.

IMG_5383

Jóhann og Sigurjón Veigar komu um eitt og voru þeir félagarnir sælir og ánægðir líkt og sést á myndinni, þegar þeir fóru á vit ævintýranna í Skagafirði.


Pollagallar í XXL

Ég kom heim úr skólanum rennandi blaut eftir þetta sk... veður sem er úti. Ég þurfti nefnilega að ganga úr siðfræðinni, frá hinni gömlu virðulegu háskólabyggingu niður í hina nýju innstungulausu Öskju og vorum við ræflarnir rennandi blaut þegar við mættum í umhverfisþættina hjá henni Binnu.

Mér varð hugsað til umræðna um viðhofsbreytingu um til útveru þegar börn hætta á leikskóla. Það er nefnilega þannig að þegar börn eru á leikskóla geta þau verið úti í hvaða veðri sem er. Frk Sædís Erla lætur það ekki stoppa sig ef það rignir úti og lítur hún á það sem plús ef það snjóar. Veður bara skiptir ekki máli, þau fara bara út og það skiptir ekki máli hvort það er sól, rigning eða snjór.

En svo fer barnið í grunnskólann og þá skyndilega hættir pollagallinn að fylgja með í töskunni. Litlu skvísurnar mæta kannski í sparifötunum og útiveran ekki lengur skemmtileg og eðlilegur þáttur í skóladeginum. Ég heyri það líka á stóru börnunum mínum að þau njóta þess ekki að vera í útileikfimi á haustin og kvarta hástöfum yfir því að þurfa að hlaupa úti og verða voða fegin þegar íþróttir eru komnar inn í hús.

Það er samt alveg tilfellið að það er gaman er að leika sér úti og líka í vondu veðri. Þegar búið var að aflýsa skóla vegna veðurs á Siglufirði, þá þustu börnin út að leika sér (ef það var stætt). Gerðu snjóhús inn í skafla og hoppuðu af þökum. Ég hef persónulega gaman að því að ganga ein úti í rigningu og sérstaklega þegar það er logn, láta hugann reika og gleyma mér, en þá er ég líka klædd til útiverunnar....

....af hverju ætli við hættum að kaupa pollagalla þegar við hættum á leikskóla? Væri ekki bara gaman að sjá okkur mæðgur í Sollu Stirðu pollagalla, já og kannski Elli minn með okkur í bláum íþróttaálfs galla í XXL...  

Nei í alvöru, maður ætti svo sem að taka sig á og vera meira úti við, en það er svo sem allt í lagi að hugsa bara um það í vetur.

 


Mamma litla

sturla

Það er STÓR dagur hjá Sturlu í dag í orðsins fyllstu, hann er nefnilega orðinn stærri en mamma. Nú kann einhver sem mig þekkir að hugsa sem svo að það sé nú ekki mikið afrek Whistling... en annað las ég úr augum og svipbrigðum Sturlu, þannig að stórafrek er það, þó mamma sé ekki hærri en rétt rúmlega 160.

Ásdís Magnea var á sama aldri þegar hún óx mér yfir höfuð og er hún nú 176 + og er enn að stækka. Ég hef oft sagt að ég hafi átt Sædísi Erlu til að fresta því um nokkur ár að verða minnst í fjölskyldunni. En eitthvað er hún nú líka óþreyjufull því hún leit á mig með þjósti í gær og sagði .. "mamma hvenær verð ég stór?".... "sko svona stór eins og Ásdís", hún vildi ekki taka sénsinn á því að ég misskildi sig eitthvað og héldi að hún ætlaði að verða jafn stór og mamma LoL.


Meira um eiturlyf - pfff þetta eru bara ellur?

180px-Ecstacy_monogram

Í gær tjáði ég mig um stóra eiturlyfjamálið og lýsti yfir ánægju minni með árangur lögreglunnar, og hryllingi yfir því magni eiturlyfja sem fannst, sem klárlega kallaði á framleiðslu nýrra fíkla.

Ég fékk athugasemdir frá manni, Geir, sem segir þetta ekkert mál, þetta séu bara ellur og talar fyrir því að lögleiða sölu eiturlyfja og talar um að hægt sé að neyta eiturlyfja í hófi líkt og með vín. 

220px-MDMA-enantiomers-3D-balls

Ég hef á undaförnum árum talað við ungt fólk sem segir neyslu á e-töflum og hassreykingar með öllu skaðlausar og hef ég haft nokkrar áhyggjur af því viðhofi. En eftir að hafa fengið þessar athugasemdir frá Geir fór að velta því fyrir mér í framhaldinu hvort þetta væri útbreitt viðhorf meðal ungs fólks í dag og ákvað að skrifa aðra færslu um eiturlyf og spyrja ykkur hin, hvað segir fólk í ykkar nærumhverfi um a) skaðsemi eiturlyfja og notkun og  b) lögleiðingu á sölu eiturlyfja?


Svona er Ísland í dag!

441080B

Það er nákvæmlega magnið sem maður veltir fyrir sér. Af þessum rúmlega 60 kílóum voru 14 kíló af hreinu e-töflu dufti sem hefði dugað til að framleiða 140 þúsund e-töflur.. sem NB átti að framleiða hér á Íslandi. Þá eru um 50 kíló eftir að dópi sem væntanlega er hægt að blanda upp og selja þúsundum Íslendinga, sem klárlega hefði kallað á "framleiðslu" nýrra fíkla. Ég fæ hroll sem móðir 12 og 15 ára barna.

Maður veltir því líka fyrir sér hver er höfuðpaurinn í svona máli? Hvaða milli leggur sig svo lágt? Já það verður fróðlegt að vita hvort hann finnst. Það er líka búið að upplýsa um að þetta hafir trúlega ekki verið í fyrsta skiptið sem þessi leið í innflutningi hafi verið farin, sömu menn á annarri skútu fóru eins svaðilför yfir hafið á sama árstíma, og líklegt að um sama "rekstraraðila" hafi verið að ræða. 

Svona er Ísland í dag! 

 

 

 


mbl.is E-töfluduftið dugar í 140 þúsund töflur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpeningum mínum vel varið

eiturlyf

Talandi um fjármuni, þá vil ég bara segja að ég er hæstánægð með hvað skattpeningum mínum var vel varið í þessa aðgerð sem hefur staðið yfir í langan tíma. Ég veit að samstarf hefur verið aukið við önnur lönd og er ánægjulegt að sjá árangurinn í baráttunni við eitrið. 

Bravó Björn Bjarnason yfirmaður löggæslumála í landinu og til hamingju með árangurinn allir sem tóku þátt í  aðgerðinni.


mbl.is Gríðarlegir fjármunir í spilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa dýr einhvern rétt?

hugsun

Ég fór í siðfræði náttúrunnar í morgun og var það gaman eins og alltaf. Pæling dagsins var um rétt dýra. Eru dýr jafn rétthá mönnum? Hvaða rétt hafa menn til að nota dýr í tilraunaskyni? Af hverju notum við ekki menn í tilraunaskyni fyrst tilraunirnar eru í flestum tilfellum til góða fyrir okkur mennina? Af hverju að nota frískan apaunga, en ekki gamlan mann? Höfum við mennirnir bara ekki fullan rétt á því að rækta dýr og veiða okkur til matar?

Ég hef ekki svo mikið velt þessu fyrir mér, en þetta var hressandi og var gaman að heyra um ýmsar kenningar á þessu sviði. Ein var til dæmis á þá leið að það væri í lagi að nýta dýr okkur mönnunum til góða, svo lengi sem við njótum þess ekki að pína þau og drepa. Mér fannst mjög áhugavert hjá einum nemanum sem fór að velta því fyrir sér hvort við værum ekki bara að haga okkur nákvæmlega eins og önnur dýr myndu gera í okkar stöðu, á toppi fæðupýramídans.

Samt þegar ég hugsa um dýr þá detta mér alltaf í hug hundar og kettir til að njóta og lömb, folöld, kjúklingar og naut mér til matar. En hvað með allt  annað líf, hvað með skordýr og frumdýr, hafa þau sama rétt og við mennirnir og æðri dýrategundir. Geta flugur hugsað? 

Já það geta heldur betur verið djúpar pælingar hjá okkur í siðfræðinni.


Er enn á lífi

Það hefur verið heldur mikið að gera hjá minni undanfarið. Meira að segja svo mikið að ég hef ekki einu sinni náð að blogga. Ég tók morguninn heldur snemma og var komin á fund kl. 6.30 með dómnefnd Krikaskóla og vorum við að hitta einn af þeim hópum sem valdir voru til áframhaldandi þróunarvinnu. En Mosfellsbær auglýsti eftir hópi hugmyndasmiða til að þróa skólastefnu og hús fyrir nýjan skóla í Krikahverfi hér í bæ fyrir börn frá 1 árs til 9 ára. Sem sé margt að gerast í skólaþróun í Mosfellsbænum og eru mikil forréttindi að fá að fá að starfa að fræðslumálum fyrir bæjarfélagið sitt.

Síðasta helgi var meiriháttar ætlaði ég að vera búin að blogga og setja inn myndir, en allt fyrir löngu. Helgin byrjaði á bæjarstjórnargolfi á föstudagskvöldinu og fékk ég ekki verðlaun að þessu sinni, en Kalli Tomm félagi minn vann ásamt Skúla formanni. Ég hef ekki farið í bæjarstjórnargolf til að golfa í nokkur ár og var þetta mjög gaman.

Á laugardeginum var svo sextugsafmæli tengdamömmu. 130 manns takk og elduðu kokkarnir þau Siggi og Inga Rósa þennan líka flotta mat, en ég sá um veislustjórn með pompi og prakt. Það var mikið um ræður þetta kvöld og dansatriði. Vinir tengdó héldu ræður og svo urðum við páfuglarnir í fjölskyldunni eðlilega líka að láta ljós okkar skína. Fyrst hélt ég hálfa ræðu, svo hélt Elli minn heila. Ég hélt svo seinni hlutann af minni. Svo hélt fröken Ásdís Magnea þessa líka fínu ræðu fyrir ömmu og held ég að ég hafi bara aldrei verið jafn stolt og skrifaði hún líka ljóð á staðnum um ömmu flipp sem féll í góðan jarðveg veislugesta. Svo hélt Siggi litli bróðir ræðu í restina og var þá kominn danstími og allir fóru að tjútta, enda veislan haldin í Danshöllinni. 

Á sunnudeginum fór ég í vettvangsferð með vistfræðinni, grasaferð frá kl.8 til sex. Það var mikið skoðað og greint og vorum við orðin sérfræðingar í flórunni þegar við fórum heim, en ég var nú samt svona frekar tuskuleg þegar heim var komið.


Frábært sumar og vætusamt haust

Mynd frá Ásdísi hálfnöfnu

Það er alveg dæmalaust hvað veðrið hefur mikil áhrif á mig. En verð ég samt að segja að þrátt fyrir mikið rigningar haust, er enn nokkur jákvæð orka eftir á sólarsellunni hjá mér og dugar hún svona eina rigningarviku enn. 

þetta sumar var annars alveg dásamlegt og verður lengi í minni haft, nema þetta sé það sem bíður okkar í framtíðinni. Við fjölskyldan fórum ekki til útlanda saman og ferðuðumst í staðinn um landið með nýja fellihýsið í staðinn og var það bara stórgott. Ég var að vísu að hugsa um að selja það um daginn, en svo nennti ég ekki að standa í því og því fer Fleetwoodinn í geymslu um helgina.

Þegar ég hef rætt veðrið undanfarið eru flestir sammála mér með að það sé frábært að fá gott sólríkt sumar og vætusamt haust. En draumastaðan væri náttúrulega sú að taka út smá af haustrigningunni aðfaranótt mánudags yfir sumartímann, svona fyrir gróðurinn Cool.


mbl.is Vaxandi suðaustanátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband