Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Forvarnaávísanir til barna í Mosfellsbæ

Ásdís og Sturla  1

Búið er innleysa báðar frístundaávísanirnar sem börnin mín fengu sendar frá Mosfellsbæ í ágúst. Hvort barn fékk ávísun upp á 15.000 krónur og nýtti hún Ásdís Magnea sína til að fara á 13 vikna dansnámskeið í Reykjavík og Sturla sína í handboltann.

Öll börn á grunnskólaaldri fengu slíka ávísun senda og geta þau nýtt hana til að greiða niður þátttökugjöld í eitthvað skipulagt starf, kennslu eða þjálfun, sem nær yfir eina önn eða að lágmarki 10 vikur.  

Meginskilyrði Mosfellsbæjar er að starfsemin sem valin er sé á forsendum uppeldislegra gilda og forvarna í víðum skilningi, starfsemin fari fram undir leiðsögn viðurkenndra starfsmanna og leiðbeinenda, við aðstæður sem hæfa starfi með börnum og unglingum.

Forvarnir eru náttúrulega fyrst og fremst á ábyrgð okkar foreldra. En þó getur bæði ríki, sveitarfélög og aðrir snúið bökum saman og sett forvarnamál í öndvegi. Það að niðurgreiða frístundir fyrir börn í Mosfellsbæ til að auka virkni þeirra er eitt skref í þá veru. Annað mál sem er á dagskrá er að vera með hollustuátak í haust. Í því átaki verður mikil fræðsla og hvatning til barna, foreldra, þjálfara, matráða, kennara og annarra sem vinna með börnum um að borða hollan og næringarríkan mat og gæti ég vel trúað að orkusúpan yrði vinsæll réttur þá vikuna.


mbl.is Forvarnarmál í öndvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju tek ég alltaf þessi próf?

Your Brain is Purple
Of all the brain types, yours is the most idealistic.
You tend to think wild, amazing thoughts. Your dreams and fantasies are intense.
Your thoughts are creative, inventive, and without boundaries.

You tend to spend a lot of time thinking of fictional people and places - or a very different life for yourself.

 

Æi ég veit ekki af hverju ég tek alltaf þessi próf.....þetta fann ég hjá Lindu Ósk með bláa heilann Smile

Er ....right conservative/libertarian.... sjálfstæðismaður....expressó...og nú það nýjasta purple brain sem hugsar villt og það án allra hafta... Er reyndar ekki þessi draumóramanneska..geri kannski meira af því að framkvæma á stundinni allt það sem mér dettur í hug.


Ég vona bara að ég geti sungið þessa ríkisútgáfu af þjóðsöngnum

Það eru flestir sammála um að það sé ekki auðvelt að syngja þjóðsönginn. Ég syng alltaf með þegar hann er spilaður, en stundum reynist tóntegundin of erfið öltunni, en þá skellir maður sér bara í bassann. 

Maður hefur líka heyrt ýmsar útgáfur af þjóðsöngnum spilaðar fyrir íþróttaleiki.... stundum alveg á seinna hundraðinu. Ég tel að svona samræming sé af hinu góða og hún komi til með að auðvelda þeim sem ætla að flytja. En samt heyrast alltaf þær raddir hvort ekki sé rétt að taka upp nýjan þjóðsöng, sem auðvelt sé að syngja. En hvaða virðulega lag ætti það þá að vera?


mbl.is Mismunandi útgáfur þjóðsöngsins samræmdar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðburðarík vika hjá Rituhöfðafjölskyldunni

Sædís Erla í stuði

Þá er kominn föstudagur einu sinni enn, merkilegt hvað þessar vikur líða hratt þegar mikið er að gera.

Nú er ég komin á fullt í skólanum og líst bara vel á áfangana sem ég er í. Það verður alveg nóg að gera við að skrifa ritgerðir, tvær slíkar upp á a.m.k. 15 síður takk, á ensku og líka fullt af verkefnum, fyrirlestum, dæmaútlausnum, ein tilraun með ritgerð, hópverkefni, vettvangsferðir og tvö próf svo ekki sé minnst á þessar 10 bækur sem ég á eftir að lesa... kannski eins gott að ég er nokkuð fljót að lesa Wink.

Það er mikill léttir að vera byrjuð aftur á meistaraverkefninu eftir frí í sumar. Ég var búin að fá aðstöðu hjá almannavörnum í sumar og fékk svo aðstöðu á skrifstofum sambands íslenskra sveitarfélaga til að vinna seinni hluta verkefnisins. Þá sendi ég út spurningalista til framkvæmdastjóra sveitarfélaga og spyr um viðhorf til almannavarna og eins stöðu almannavarnamála á hverjum stað. 

Hann Elli minn. Rituhöfðinginn, kláraði bílaplanið okkar í vikunni.... hibb hibb húrra og hefur þessi framkvæmd bara tekið mánuð. Þetta er svooooo flott og gerði Elli örugglega meira en 50% sjálfur. Hann lagði snjóbræðsluna og eins lagði hann 200 fermetrana stein fyrir stein og hafði Palli ekki undan að handlanga og ég sjálf á góðum dögum.

Sædís Erla er búin að vera eitthvað hálf snúin þessa dagana og fórum við með hana til læknis áðan. Við héldum að hún væri með kinnholusýkingu en fullyrti læknirinn að svo væri ekki, heldur veirusýning sem annað hvert barn í Mosfellsbæ er búið að vera með. Sem greinilega lýsir sér í ólund og óþekkt Crying. En hún sleppur þá í þetta sinn við að taka sýklalyf blessunin.

Sturla er byrjaður í handboltanum og æfir sem aldrei fyrr og sáttur í skólanum. Hann var heldur súr í gær, en hann var eitthvað veiklulegur og gubbaði og kom hann heim. En trúlega hefur þetta verið bara gamla bakflæðið, því hann var að drekka trópí. Nú hann kom heim og val alveg eyðilagður því hann langaði svo að fara í textíl, sem mér þótti ótrúlega krúttlegt. Það er svo gaman að sauma, að eftir að hann hafði verið heima í tvo tíma fór hann í skólann.. og náði tímanum í textíl.

Ásdís er búin að vera í listasmiðju alla vikuna. Enginn skóli heldur bara skissa og mála út í eitt undir leiðsögn danskrar listakonu og svo náttúrulega hennar Örnu Bjarkar líka. Þetta er meiriháttar framtak hjá Lágafellsskóla sem er alltaf með einhverjar nýjungar, sem er svo skemmtilegt fyrir krakkana eins og Ásdísi Magneu sem eru meira fyrir listir.

Nú erum við að fara í opnun í Keiluhöllinni. Þar verður mikil hátíð í kvöld þegar stækkun hallarinnar verður tekin í notkun og hlakka ég til að fara og samgleðjast með vinum okkar, þeim Rúnari og Björk. Ég ætti kannski að taka Mosfelling með, en þau Keiluhjónakorn komu með okkur í Hlégarð á Gildruballið og tók Hjördís Kvaran þessa líka fínu mynd af okkur Björk.


Aftureldingarstelpurnar í úrvalsdeild kvenna

Afturelding Völsungur

Aftureldingarstelpurnar okkar hafa staðið sig vel í knattspyrnunni í sumar og hafa þær þegar tryggt sér sæti í úrvalsdeild kvenna á næsta ári. Það gerðu þær á miðvikudaginn þegar þær lögðu Völsung á Húsavík.

Úrslitaleikurinn er þó eftir og baráttan um fyrsta sætið í deildinni og fer hann fram næstkomandi sunnudag á Varmárvelli. Leikurinn er á milli Aftureldingar og HK/Víkings. Um stórleik verður að ræða og eru allir Mosfellingar hvattir til að mæta og ætla ég sko sannarlega að vera þar með allt mitt lið og hvetja stelpurnar til dáða.

Til hamingju stelpur og allir Mosfellingar.

Áfram Afturelding!

Hér má sjá ferðasögu sumarsins í myndum og máli, sem Tryggvi Þorsteinsson meðstjórnandi meistaraflokksráðs kvenna og ofurstuðningsmaður tók saman.


Gott ástand í leikskólum Mosfellsbæjar

Sædís Erla á leikskólanum Huldubergi

Við fræðslunefndin fengum yfirlit yfir stöðu mála í leikskólum Mosfellsbæjar á fundi okkar í gær. Ástandið í starfsmannamálum er ágætt um þessar mundir, en samt er alltaf barátta að ná í gott starfsfólk. Maður er mjög meðvitaður um að lítið má út af bregða til að þessi staða breytist og munaði minnstu að seinka þyrfti inntöku barna vegna manneklu á einum leikskólanum um daginn.

Búið er að innrita í öll laus pláss í leikskólunum og eru börnin að byrja um þessar mundir. Öll börn sem fædd eru árið 2005 hafa fengið tilboð um leikskólavist í einhverjum af leikskólum bæjarins og var ánægjulegt að sjá að flestir fengu úthlutað plássi skv. fyrsta vali um tiltekinn leikskóla.

Ég er ánægð með alla leikskólana okkar og starfið sem þar er unnið. Ég vona svo sannarlega að við þurfum ekki að grípa við sömu ráðstafana og nágrannasveitarfélögin og senda börn heim vegna manneklu. Það er einmitt ástæða þess að ég segi að ástandið sé gott í dag, 7,9,13


mbl.is Starfsfólk vantar á leikskólana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sægrænir fingur suður með sjó

dsc01812

Stóra systir mín hún Kristín og Doddi mágur fengu verðlaun fyrir flottasta nýja garðinn í Grindavík þetta árið og er ég ekki hissa á því.

Doddi mágur

Þau eru búin að byggja og bæta og gróðursetja út í eitt. Setja upp flaggstöng svo hægt sé að flagga Liverpool fánanum á gróðri stundu, svona í stíl við bílnúmerið og planið. Doddi er búinn að koma mér verulega á óvart í þessum framkvæmdum, það er eins og hann stýrimaðurinn hafi bara dottið í smiðsgírinn með smá dassi af rafvirkja. Hann er búinn að setja upp hvert grindverkið af fætur öðru, smíða blómabeð og kassa og segja gárungarnir að hann sé kominn með sægræna fingur. Síðan hafa þau hjónakornin líka verið iðin við að gróðursetja alls konar blóm og tré og er meiriháttar hvað garðurinn er orðinn flottur. Það er líka gaman að sjá hvað hægt er að byggja upp svona flottan og garð á stuttum tíma.

Pabbi og Kristín í Lautinni

Well it runs in the family og setur það enga smá pressu á mig. Mamma og pabbi hafa í tvígang fengið garðaverðlaun, nei annars pabbi fékk fyrri verðlaunin einn, en það er ekkert að marka því það var á þeim árum sem hann var alltaf úti á sjó LoL og mamma var öllum stundum í garðinum. En slíkt gerist örugglega ekki í dag þó húsbóndinn sé skráður fyrir húsinu. Ég held að við Elli séum samt kannski fallin á tíma með að fá verðlaun fyrir nýjan garð...  en kannski eru 7 ár ekki svo langur tími Whistling. En um að gera að setja sér háleit markið og um að gera að stefna að því að fá garðaverðlaun á næstu 5 árum.


Siðfræði náttúrunnar

73WHITE-

Ég fór í fyrsta tímann minn í siðfræði náttúrunnar í dag. Það voru helmingi fleiri mættir en skráning sýndi og því greinilega mikill áhugi á efninu.

Ég sá að ég verð ég að setja mig í ákveðinn gír, siðfræðigírinn. Ég verð að reyna að sleppa allri rökhugsun og sönnunum og taka upp gömlu góðu bugðugleraugun. Ég er nefnilega þannig að ég verð að sjá allt fyrir mér í þrívídd, en það gæti reynst mér erfitt í þessum áfanga og ætla ég svo sannarlega að reyna að slaka mér og njóta þess að taka virkan þátt.

Ein pælingin var um mál sem kom upp í Bandaríkjunum, í einum af þessum villtu þjóðgörðum sem þar eru. Þar var lítið dádýr að mig minnir sem var fast í feni. Fjölmiðlar komust í málið og oft voru sýndar myndir af dýrinu brjótast um og reyna að koma sér upp. Eitthvað var búið var reyna að hjálpa því, hvað væri rétt að gera?

Ég fór strax að hugsa um að við yrðum nú að fá meira kjöt á beinin, það væri nú ekki hægt að velta þessu fyrir sé fyrr en ég vissi meira um aðstæður, stjórnina, garðinn, veðrið, var dýrið í útrýmingarhættu.. og og og.....

En sem betur fer voru ekki allir eins og ég og því spunnust heitar umræður um málið. Ein vildi drepa það, stytta tímann sem það varð að þjást..... en þá fór ég að hugsa um það hvort aðstæður hefðu leyft það .....

Ýmsir voru með og á móti og enn var ég að hugsa um að ekki væri hægt að svar þessu fyrr en ég vissi hvort það hefði yfir leitt verið hægt að bjarga dýrinu... af hverju þessu dýri...  en ég hallaðist þó að því að rétt væri að láta náttúruna bara um sig sjálfa.

En svo kom í ljós að stjórn þjóðgarðsins ákvað að láta náttúruna bara um þetta og dýrið dó.

Var það rétt? Wink

 

 

 


Nýr bæjarstjóri í Mosfellsbæ

Bæjarstjóraskipti í Mosfellsbæ

Í gær voru bæjarstjóraskipti hjá Mosfellsbæ. Haraldur Sverrisson tók við embættinu af Ragnheiði Ríkharðsdóttur sem óskað lausnar eftir rúmlega fimm ára starf. En eins trúlega hefur ekki farið fram hjá lesendum bloggsins hjá mér þá var Ragnheiður kjörin alþingismaður í alþingiskosningunum síðastliðið vor. Ég grínaðist með það í ræðu sem ég hélt í kveðjuhófi Ragnheiðar að ég notaði óhefðbundnar leiðir til að koma mér ofar á lista okkar sjálfstæðismanna. Ég hefði unnið ötullega að því að koma Ragnheiði á þing og nú væri næsta verk fyrir mig að koma Haraldi í forsetastólinn LoL

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri hefur verið bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og formaður skipulags- og byggingarnefndar Mosfellsbæjar í fimm ár, eða frá því að við sjálfstæðismenn fengum meirihluta í bæjarstjórn 2002. Við höfum samt unnið saman mun lengur því hann var varabæjarfulltrúi kjörtímabilið 1998 - 2002 og sat hann þá líka í skipulagsnefndinni. Þá vorum við í minnihluta og höfðum því ágætis innsýn í bæjarmálin þegar við náðum meirihlutanum árið 2002.  

Ég óska Halla vini mínum og samstarfsfélaga hjartanlega til hamingju með embættið. Ég hlakka til samstarfsins og veit að hann á eftir að standa sig vel sem bæjarstjóri og styðja vel við bakið á mér, nýbökuðum formanni bæjarráðs. 

  


Verkefni allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

logo

Þetta er ánægjuleg þróun og er umferðin áberandi minni þegar framhalds og háskólar byrja þetta haustið. Fólk var í vandræðum á nýju heimasíðunni fyrstu dagana því ekki var búið að setja inn leiðarvísir, en nú er hann kominn á sinn stað og er einnig hægt að prenta út leiðabæklinga.  

Ég gagnrýndi það í útvarpsviðtali að borgin tæki einhliða ákvörðun um að fara í þetta verkefni einhliða og þá í leiðinni fyrir hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og næ því ekki í raun ennþá af hverju ekki var hægt að taka ákvörðun um að fara í þetta átak í stjórn Strætó bs. Þetta verkefni er göfugt og mun klárlega stuðla að því að fólk átti sig á því að þessi ferðamáti er góður og stuðlar að minni umferð á götum höfuðborgarsvæðisins, svo ekki sé talað um minni mengun. 

Ég bind miklar vonir við þetta tilraunaverkefni, sem Mosfellsbær og öll önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka þátt í og stefnið ég háskólaneminn að því að verða ein af þeim sem telur í talningatölum yfir þá framhaldsskólanema sem nota þjónustuna. Ég leit á leiðina mína út Mosfellsbæ í skólann og sá að best er að taka vagninn kl. 7.39 og þá verð kominn í HÍ kl. 08.03, 24 mínútur á leiðinni, þetta bara gæti ekki verið þægilegra.


mbl.is Fullt í strætó á morgnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband