Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Sparifatasöfnun Rauða krossins í dag laugardaginn 22.nóvember

Í dag laugardaginn 22. nóvember leitar Rauði krossinn eftir aðstoð almennings til að gefa vel með farinn sparifatnað fyrir börn og fullorðna í sérstakri sparifatasöfnun. Með því að gefa í söfnun Rauða krossins er hægt að veita fjölskyldum og einstaklingum tækifæri til að eignast spariföt fyrir jólin í fataúthlutun félagsins eða fá þau á hagstæðu verði í verslunum Rauða krossins.

Fyrir rúmum mánuði var þriðja Rauða kross búðin opnuð að Laugavegi 116 rétt hjá Hlemmi. En þar fer nú einnig fram fataúthlutun á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudögum milli kl. 10 og 14 og er gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Auk nýju búðarinnar eru Rauða kross búðir á Laugavegi 6 og Strandgötu 24 í Hafnarfirði. Allur hagnaður af sölu fatnaðarins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins. 

Tekið verður á móti sparifatnaðinum á átta stöðum á höfuðborgarsvæðinu hjá Rauða kross deildinni þinni og síðan líka í verslun Rauða krossins á Laugavegi116. 

Ég hvet alla til að fara í skápinn sinn og kanna hvor ekki er eitthvað þar sem nýst gæti öðrum.

sparifata


Valdefling í verki - Geðheilbrigðisdagar

Hér á landi eru sveitarfélögin í landinu að gera ýmislegt í góðu samstarfi við ríki og félagasamtök. Eitt af því sem er á döfinni eru fræðsludagar um geðheilbrigðismál sem eru á vegum Hlutverkaseturs og Félags- og tryggingamálaráðuneytisins, í samstarfi við Svæðisskrifstofu Reykjaness og kragasveitarfélögin, Mosfellsbæ, Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Seltjarnarnesi.

Fræðsludagarnir verða haldnir 20. og 21. nóvember undir: Valdefling í verki. Fjölmörg áhugaverð erindi verða flutt og má sjá nánari upplýsingar um námsstefnuna með því að smella hér á auglýsingu og einnig á http://www.hugarafl.is/ og http://www.smfr.is/

Fræðsludagarnir verða haldnir í Haukahúsinu að Ásvöllum í Hafnarfirði og eru þeir öllum opnir og aðgangur er ókeypis.

valdeflingiverki2

Áhrif erlendra tungumála

Á íslensku má alltaf finna svar

og orða stórt og smátt sem er og var,

og hún á orð sem geyma gleði og sorg,

um gamalt líf og nýtt í sveit og borg.

 

Á vörum okkar verður tungan þjál,

Þar vex og grær og dafnar okkar mál.

Að gæta hennar gildir hér og nú,

það gerir enginn - nema ég og þú.

Þetta ljóð Jónasar Hallgrímssonar er það sem Sædís Erla hefur sungið hér heima í Rituhöfða 4 að undanförnu, en þau hafa verið að syngja það í tilefni dagsins, dags íslenskrar tungu sem haldinn er á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.

Dagur íslenskrar tungu er afar mikilvægur að mínu mati. Að fjalla um tungumálið og söguna og t.d. að velta því upp hvernig önnur tungumál hafa áhrif á málið, sem er gömul saga og ný. Við notum fjölmörg dönsk orð í daglegu máli, gömul orð sem við jafnvel teljum alíslensk, þangað til við lærum heyrum þau á dönsku. 

Það var gaman að sjá þáttinn með Eyvöru Páls í gær og sagði sonur minn sem hlustaði á þau Eyvör og Jöggvan syngja á Færeysku, "vá ég skil hvað þau eru að segja, þetta er bara eins og íslenska". Já vinir okkar og frændur Færeyingar. Þegar ég var að vinna á Norrænu gat ég alveg talað við Færeyinga og eins var auðveldlega hægt að lesa blöðin, en erfitt fannst mér samt að taka neyðaræfingarnar, rýmingaræfingarnar sem haldnar voru vikulega á færeysku. En eftir á, þá er ég nokkuð ánægð með þá, að hafa haldið sig við móðurmálið í stað þess að hafa þetta á dönsku.

En talandi um erlend áhrif. Nú færist í vöxt að kenna á erlendum tungumálum í háskólum landsins. Námið mitt, það sem ég er að ljúka við núna í umhverfis- og auðlindafræðunum fer til að mynda allt fram á ensku. Það var fjári erfitt á köflum og sérstaklega þegar maður hafði ekki lært grunninn í faginu á íslensku, en þá fór maður bara í bóksölur og náði sér í menntaskólabækur í hagfræði og öðru og las á íslensku og þá kom þetta. Þetta er einmitt ástæða þess að mikilvægt er að þeir sem hafa önnur tungumál sem grunn og koma hingað til lands fái að halda áfram að byggja ofan á sitt eigið tungumál samhliða íslenskukennslunni, að halda undirstöðunum traustum.


mbl.is Dagur íslenskrar tungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum sama á erfiðum tímum

Það eru vissulega sögulegir tímar sem við Íslendingar erum að upplifa í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum. Ljóst er að ástandið í þjóðfélaginu hefur víðtæk áhrif á unga sem aldna, enda aðstæður sem margir hafa aldrei upplifað fyrr. Þeir, sem meiri lífsreynslu hafa, stappa stáli í landann og minna á að um tímabundna erfiðleika sé að ræða sem Íslendingum takist að vinna sig út úr, það sanni sagan.

Í þessari grein ætla ég ekki að fjalla um ástæður kreppunnar, heldur viðbrögð og viðbúnað Mosfellsbæjar vegna breyttrar stöðu í samfélaginu. Undir eins og ljóst var í hvað stefndi fór Mosfellsbær af stað með vinnu við að greina ástandið, stöðu Mosfellsbæjar í breyttu efnahagsumhverfi og hugsanleg verkefni.

Þetta er ekki ólíkt því skipulagi sem  unnið er eftir í kjölfar náttúruhamfara, enda vissulega um samfélagslegt áfall að ræða. Bæjarráð samþykkti að stofna samstarfshóp og kalla til þá aðila sem starfa að velferðarmálum og stuðningi við íbúa í Mosfellsbæ. Þetta eru, auk Mosfellsbæjar og stofnana, heilsugæslan, kirkjan og Rauði krossinn, en vissulega verða fleiri öflugir aðilar virkjaðir s.s. félagasamtök og íþróttafélög. Einnig er samráð við Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna og Vinnumálastofnun, sem og upplýsingaveitu félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem sett var á fót vegna ástandsins.

Samstarfshópurinn fór strax í það að skipuleggja starfið framundan, hvernig hægt yrði að mæta aukinni þjónustuþörf og styðja einstaklinga í því að takast á við tímabundna erfiðleika. Samhæfing aðstoðar og upplýsingagjöf er stór liður í hjálparstarfi og fórum við strax í það að afla upplýsinga sem okkur þótti líklegt að nýst gætu við þessar aðstæður. Það kom okkur mest á óvart hvað mikið var til af alls kyns upplýsingum um aðstoð og sjálfshjálp hjá hinum ýmsu þjónustustofnunum. Það sem vantaði var að safna þeim saman á einn stað og úr varð Ráðgjafartorg Mosfellsbæjar, sem vistað er undir slóðinni www.mos.is/radgjafartorg 

Það er mikilvægt að taka strax mark á þeim viðvörunarljósum sem kvikna og því hvet ég Mosfellinga til að kynna sér þá ráðgjöf og aðra þjónustu sem er í boði á vegum bæjarfélagsins og annarra og leita eftir aðstoð ef þeir þurfa.

Í menningarbænum Mosfellsbæ er ýmislegt skemmtilegt í boði á næstunni sem vert er að kynna sér. Skátafélagið Mosverjar stendur fyrir fjölskyldugöngu á Mosfell laugardaginn 15. nóvember og sama dag verður félagsstarf eldri borgara með basar í bókasafninu. Kirkjan verður með kvöldkirkju á fimmtudagskvöldum í nóvember og desember í Lágafellskirkju. Kvennakórinn Heklurnar í Mosfellsbæ halda tónleika í Mosfellskirkju 16. nóv. og er þema tónleikanna textar eftir Halldór Laxness við lög eftir ýmsa höfunda. Bókasafnið verður með bókmenntakvöld þann 19. nóvember og Rauði krossinn verður með sparifatasöfnun þann 22. nóvember en þá er upplagt að taka til í skápnum og gefa spariföt sem geta nýst öðrum. Þann 26. nóvember verður opið foreldrahús í Listasal Mosfellsbæjar, þar sem rætt verður um strauma og stefnur í uppeldisaðferðum. Allir þessir viðburðir eru skráðir inni á heimasíðu Mosfellsbæjar.  og í viðburðadagatal Ráðgjafartorgs sem vistað er undir flipanum "opin hús" á mos.is/radgjafartorg

Margir eru að takast á við breyttar aðstæður í sínu lífi og vil ég  minna á hve mikilvægt það er að huga að náunganum og styðja vel við bakið á þeim sem gæti þurft á uppörvun að halda. Við erum öll á sama báti og þurfum að sigla saman í gegn um hið mikla öldurót sem framundan er. Stöndum saman.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður bæjarráðs

 

Grein birtist í Mosfellingi, fréttablaði Mosfellinga 14. nóvember 2008


Ég fer á landsfund

IMG_0856

Þá er það ljóst að ég fer á landsfund þann í lok janúar 2009 og verður það eflaust mikill átakafundur. Ekki svo að skilja að landsfundir hafi hingað til verið einhverjar halelújasamkomur, sem oft er haldið fram og ekki síst af þeim sem ekki sitja fundina. En þessi landsfundur verður vissulega sögulegur. 


mbl.is Skipuð verði Evrópunefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu jólafötin ganga aftur

Það er alltaf eitthvað skemmtilegt framundan og nú er það sparifatasöfnun sem ég ætla að taka þátt í. Ég ætla bæði að taka til í skápunum og taka á móti fötum á söfnunardeginum.

Fatasöfnun Rauða kross Íslands stendur fyrir sérstakri sparifatasöfnun í samstarfi við deildir Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu laugardaginn 22. nóvember. Hugsunin að baki átakinu er veita fólki möguleika á að kaupa góð jólaföt á mjög hagstæðu verði í verslunum Rauða krossins eða að fá sparifatnaði úthlutað. Allur hagnaður af sölu fatnaðarins rennur í Hjálparsjóð Rauða krossins.

Koma svo og taka þátt Happy, annað hvort með því að gerast sjálfboðaliðar brot úr degi, einn dag, já eða eða lengur og það innan eigin heimilis. Taka til í skápunum og skoða hvaða vel með farin föt eru ekki í notkun lengur og gætu komið öðrum vel. 

Tekið er á móti fötum í húsnæði Rauða kross deilda á höfuðborgarsvæðinu laugardaginn 22. nóvember frá kl.11-15. 

Reykjavík, Laugavegi 120

Mosfellsbær, Þverholt 7

Kópavogur, Hamraborg 11

Hafnarfjörður, Strandgötu 24

Garðabær, Garðatorgi

Álftanes, Haukshúsið á Álftanesi

 

Nú er tækifærið að taka þátt og gefa af sér í orðsins fyllstu merkingu.

Sparifatas%C3%B6fnun-augl%C3%BDsing

 


Ljós í myrkri

Ég fékk þessa ágætu hugmynd frá einni Siglufjarðarsystur minni, henni Bjarkeyju Gunnars og ákvað að koma henni hér á framfæri, ykkur til ánægju og vonandi eftirbreytni.

Á þessum skammdegisdögum er nauðsyn að birta og ylur kærleiks og vinskapar streymi um nágrenni okkar. Hvetjum alla til að taka þátt í -Ljósi í myrkri-.  

Ljós í myrkri yrði í fyrstu einungis lifandi kertaljós í einum glugga, falleg kveðja til nágrannans. Þetta yrði í raun byrjun á ljósaskreytingum aðventunnar, en væntanlega meira með hvítum ljósum sem eru kannski síður tengd sjálfum jólunum. Stígandi yrði svo í þessu. Við byrjum á fallegu kertaljósi í glugga en endum á fallegum velupplýstum gluggum á aðventunni.


Breytt sjálfsmynd Íslendinga

Já blessuð krónulufsan eins og Edda Rós kallar íslensku krónuna. Mikið rétt hjá henni að verkefnið er að reyna starta krónunni, en stóra spurningin er hvar við fáum kaplana og rafmagnið sem þarf. Er mjög sátt við nýfenginn stuðning Póllands, en jafn svekkt yfir framkomu stórra "vina"þjóða í IMF málinu, en það verður ekki liðið eins og Geir sagði í gær.

En það sem ég er að velta fyrir mér í dag er breytt ímynd okkar Íslendinga, sjálfsmynd lítillar þjóðar. Hér hafa nokkrir Íslendingar þotið um heiminn, eins og hann sé í eigu þeirra sjálfra, fjárfest og sumir hafa komið eigum sínum fyrir í "fríríkjum", en það hefur verið mikið til umræðu að undanförnu og ætla ég ekki að fara meira út í það. En við "litlu Íslendingarnir" höfum líka farið um heiminn og verið bara nokkuð sátt við þessa ímynd frumkvöðla, víkinga sem geta allt, vita allt og (sumir) eiga allt. Danir og allir hinir sem hafa verið að hnýta í velgengni okkar manna hafa bara öfundað okkur! En hvað svo?

Nú bankakerfið hrundi og velgengni sumra einstaklinga með, en alls ekki allra fyrirtækja. Enn eigum við Össur og fleiri frumkvöðlafyrirtæki sem ganga vel. Það er vissulega erfitt að reka fyrirtæki í dag, en það mun breytast, þetta vitum við. En það er núið sem verið er að berjast við og erfitt að horfa bjartsýnn til framtíðar þegar óvissan er svona mikil.

En nú fer litli Íslendingurinn til útlanda, getur ekki farið út að borða án þess að borga fyrirfram, er vantreyst og fólk er lítillækkað, við erum ekki lengur frumkvöðlar og hetjur. Ekki má gleyma í þessu sambandi þeim sem verst fóru með okkur, Bretum sem beittu hryðjuverkalögum á okkur, ekki bara bankaviðskiptin, heldur á íslenska þjóð. Þessu gleymum við ekki.

Það verður að segjast að þetta er svolítið skrítið fyrir litla Íslendinginn, sem situr með vandann í fanginu. Lánin sem hækka og éta upp eigurnar. Daglega heyri ég af fólki sem ég þekki, sem er hætt að borga af íbúðum og bílum og bíður eftir gjaldþroti. Fólk sem er að skilja og annað tekur á sig gjaldþrot svo hægt sé að halda saman fjölskyldunni á annarri kennitölu.

Já svona er Ísland í dag.


mbl.is Koma „krónulufsunni" í gang á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er gefandi að vera sjálfboðaliði

Þetta eru góðar fréttir og veit ég fyrir víst að stjórnir deilda um allt land munu nýta fjármagnið vel og eiga sjálfboðaliðar Rauða krossins eftir að aðstoða fjölda manns fyrir jólin. Rauða kross deildir um allt land eru þátttakendur í samstarfi við sveitarfélög og aðila á hverjum stað um þessar mundir, vegna fjármálakreppunnar. Hér í Mosfellsbænum hefur Kjósarsýsludeild verið með opið hús og einnig hafa þau boðið upp á námskeið í sálrænum stuðningi, fólki að kostnaðarlausu og eru virkir aðilar í ráðgjafarteymi Mosfellsbæjar, sem m.a. heldur úti Ráðgjafartorgi á netinu. 

fatagamur_gjotuhrauni

Ég starfaði fyrir Rauða krossinn í níu ár og var alltaf ákveðin í því að gerast sjálfboðaliði þegar ég myndi hætta. Nú ég stóð við það og starfa í rekstrarstjórn fatasöfnunar. Það hefur verið mjög gefandi og ekki síst því ég tók þátt í því að starta verkefninu í upphafi, þegar ég var svæðisfulltrúi á hörfuðborgarsvæðinu um árið. Það eru forréttindi að fá að starfa með þeim Sigrúnu og Erni Ragnars sem halda utan um verkefnið og öllu því góða fólki sem gefur vinnu sína og tíma í þágu góðs málefnis.

Mikið safnast af fötum og eru fötin m.a. seld í verslunum Rauða krossins sem eru á Laugavegi 12, ein í Strandgötu 24 í Hafnarfirði og svo er nýjasta verslunin á Laugavegi 116, í glæsilegu húsnæði við Hlemm. Þar fer líka fram úthlutun á fatnaði. Úthlutun fer fram á miðvikudögum, frá kl.10-14 og er gengið inn af bílastæði Grettisgötumegin. Þegar ég kíkti í nýju verslunina á Laugaveginum um daginn hitti ég nokkra nýja sjálfboðaliða, konur á öllum aldri sem voru að byrja að vinna í búðinni. Hver veit nema ég eigi líka eftir að taka eina og eina vakt, eða starfa við fataflokkun já eða eitthvað annað gott verkefni hjá Rauða krossinum. Ef þeir sem lesa þetta hafa áhuga á að taka þátt í fataverkefninu, að vinna í búðunum, við fataflokkun eða eitthvað annað verkefni er hægt að skrá sig á vef Rauða krossins og þá mun fulltrúi Rauða krossins hafa samband.

 


mbl.is Rauði krossinn aðstoðar Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútímalist

482642

Þessi frétta er í meira lagi skondin. Það er náttúrulega grafalvarlegt að falsa peningaseðla, en ég heyrði áðan að þetta hefði verið lokaverkefni í listaskóla, svona nokkurs konar kreppuverk. Tvær fullar töskur af Davíðsseðlum. Svo hafði einhver listaunnandinn nappað seðlum úr listaverkinu og verslað fyrir.... en er það nokkuð lögbrot, er það ekki bara gjörningur?


mbl.is Notaði seðil með mynd af Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband