Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Óveður heima og sól í New Orleans

Gott mál með að virkja samhæfingarstöðina. Að mínu mati á að nota stöðina meira en minna og hefur það líka verið þróunin á undanförnum árum. Það var góð reynsla að fá að vera með í þróunarferlinu í samhæfingarstöðinni og mest með Gyðu og því var gaman að sjá þessa mynd af henni þarna með fréttinni. Það er mjög mikilvægt að fyrir hendi sé samræmt kerfi og fólk sem þekkir starfsemi annarra viðbragðsaðila. 

Annars allt gott að frétta frá New Orleans. Það eru önnur hamfaramál sem við erum að ræða hér en snjóbylur. Hér er verið að ræða uppbyggingu í kjölfara fellibyljanna Katrínar og Rítu árið 2005. Við Ásthildur fórum aðeins út í gær þegar við vorum um það bil að sofna og fórum aðeins á röltið á blúsbaragötunni. Að vísu varð ég fyrir vonbrigðum því þetta var næstum eins og í Can Cun í Mexico.. en byggingarnar dásamlegar og svo fundum við einn blúsbar og nutum New Orleans blústónlistar í botn.

DSCF0044

 


mbl.is Virkja á Samhæfingarmiðstöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóra systir mín er fimmtug í dag

Systurnar í Kjörvogsfjörunni

Elsku hjartans Stóra. Til hamingju með daginn Heart.

Mikið óskaplega er nú gaman að sitja hér ein og skemmta sér yfir öllu sem mér dettur í hug þegar ég hugsa til samskipti okkar frá því að ég man eftir mér.

Þegar ég var síli og þú stóra systir (alveg heilum 7 árum eldr og svo miklu stærrii) ég get alveg ímyndað mér að þú hafir ekki nennt að druslast mikið með mig. Ég man samt eftir því þegar ég var svona 4 eða 5 og við hoppuðum niður af bakkanum hjá Önnu Vignis og ég tognaði á báðum. Í minningunni var það ekkert mál, en það sem ég man vaf þegar þú keyrðir mig í barnavagni um allan bæ með hrafninn. Þegar við kúrðum saman og svo margt margt fleira því tengt.

Svo man ég eftir nokkur þúsund minningum með þér og Vilborgu. Þið voruð svo (og eruð náttúrulega enn) laaaaaaaaaaaang flottastar. Alltaf eitthvað að sprella og djamma og fékk ég ótrúlega oft að fylgja með út á Sauðarnes eða á rúntinn og stóð mig nú vel í því að segja þér til á Mercury Cometnum í snjókomunni fyrir framan Sigló síld og þú bakkaðir á Blush. Svo má nú ekki gleyma þegar við vorum að fara með Vilborgu... nei alveg rétt, það má ekki segja fjalladrottning kær Wink LoL.

Hundavinurinn hann Doddi, giftingin á Siglufirði, viðbeinsbrotið hans Dodda, Stapasíðan á Akureyri, vikan sem ég kom og hjálpaði með tvíburana,, Mosfellsbær og allar góðu stundirnar í Grindó, fallega ræðan þín í afmælinu mínu,  flottu strákarnir þínir allir gormarnir ykkar Dodda og hundarnir. Öll fyrirtækin ykkar og dugnaðurinn og nú síðast með Salthúsið. Ég held samt að besta stundin hafi verið þegar við fórum á Strandirnar síðasta sumar kæra systir... alveg yndisleg ferð sem verður endurtekin.

Elsku hjartans Stóra systir enn og aftur til hamingju með daginn.

Knús og afmæliskossar frá Litlu í New Orleans.

Kristín Steinunn systir mín Kristín stóra systir mín á Ströndunum

Krakkarnir á Laugarvegi 15 og fylgifiskar Systkinin á Laugarvegi 15 og makar

Strákarnir Kristínar og Dodda Strákarnir þeirra Kristínar og Dodda

Doddi mágur og afastrákurinn Þórður Davíð Doddi og Buddi litli

Ásdís Magnea og Kristín frænka Kristín súperfrænka með Ásdísi Magneu

Pabbi og Kristín í Lautinni Pabbi og Kristín

Stóra systir og hestarnir Kristín flottust á Laugarveginum..

Mamma, pabbi og Kristín Jóhannsdóttir Kristín litla nafna með ömmu og afa

Vesturfarar Kanadíska fjölskyldan

Hluti af Sigló Group Sigló Group

 

 


Ein til frásagnar

Hræðilegt.

Ég er að lesa bókina "Ein til frásagnar", frásögn  Immaculée af blóðbaðinu í Rúganda 1994. Ég hef ætlað að lesa þessa bók lengi og greip hana með mér í Keflavík í gær. Þvílíkur hryllingur og grimmd, mig verkjar í hjartað.

Annars var ég að koma til New Orleans og held til á þessu líka glæsilega gamla hóteli í franska hverfinu. Elli var á leiðinni heim úr seinni lyfjagjöfinni í dag, en hann fékk að fara heim af spítalanum seinnipartinn. Elsku karlinn enn með margfalda tungu og vona ég bara að þetta grói hratt og örugglega og ekki verði neinir eftirmálar.


mbl.is Hundrað manns létust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andvaka í Boston, en kosningasjónvarpið hjálpaði

Þá er ég búin að taka stöðuna heima og er Elli enn á spítala með sexfalda tungu og getur ekki talað. Þeir frestuðu aðgerðinni í nótt, en hann hefur trúlega farið áðan því ég hætti að fá sms frá honum.

Sirrý, þessi elska er heima með krakkana og veit ég ekki hvað ég gerði án hennar fósturdóttur minnar. Þetta er ótrúleg staða ég í útlöndum, tengdó líka og Elli á spítala. Hann ætlaði með strákunum í langþráða fótboltaferð á föstudaginn, en ekki lítur það vel út.

Kosningarnar voru spennandi á þessum súper-þriðjudegi þar sem kosið var í 24 fylkjum og kosið um 42% kjörmanna þannig að þetta ræður miklu um framhaldið. Það er ljóst að þetta er ekki búið milli demókratanna Hillary Clinton og Barack Obama. Hann vann fleiri fylki en hún fleiri fulltrúa og m.a. með því að vinna í Kaliforníu og NY. Það var töluvert öruggara meðforystuna hjá Rekublikunum. John McCain sem er með gott forskot á keppinautana þá Romney og Huckabee, sem báðir hafa lýst því yfrir að þeir haldi áfram, en við skulum sjá hvað gerist þegar þeir hafa sofið á því.

Það er ljóst að fellibylir höfðu einhver áhrif á kosningarnar þar sem þeir fóru um. Um rýmingar var að ræða í hættuástandi og því fór fólk eðlilega ekki að kjósa, enda fólk að bjarga lífi sínu. Nokkuð var um slys á fólki og margir látnir. Ég efast ég ekki um að þetta ástand verði rætt á náttúruhamfararáðstefnunni í New Orleans næstu daga.


mbl.is McCain á sigurbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningasjónvarp í US of A og Elli í aðgerð

Já ég sit hér og horfi á kosningasjónvarpið. Spennandi að sjá hvernig fer og er ljóst að það eru mörg munstur í gangi, enda mörg ólík fylki. Ég ætla ekki að spá neinum sigri, en mig dreymdi samt Clinton grátandi og Obama sigurvegara...  en kannski voru þetta bara gleðitár hjá Hillary.

Mér líður samt ekkert sérstaklega vel því hann Elli minn var að fara í aðgerð þegar ég lenti hér í Boston. Hann var svo óheppinn karlinn. Hann fór nefnilega til tannlæknis í dag sem væri ekki fásögu færandi nema þegar tannlæknirinn fór síðasta pússið missti hann skífuna í tunguna á Ella og í gegn og saumaði svo 10 spor í tunguna. Elli var enn dofinn þegar ég fór út á völl og svo þegar ég var að fara í loftið í Keflavík var Elli á leið á slysó. Nú ég flaug svo yfir hafið og þegar ég lenti var Elli á leið í aðgerð til að stöðva blæðinguna. 

Hálf glatað að vera hér og því eins gott að dreifa huganum með því að skella sér á bloggið og horfa á kosningasjónvarpið.


mbl.is Obama sigraði í Georgíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

New Orleans

Næsta vika verður spennandi hjá mér, enda á leið á náttúruhamfararáðstefnu í New Orleans. Þar verður mikil áhersla á uppbyggingarfasann eftir náttúruhamfarir, enda hafa heimamenn nokkra reynslu eftir hamfarirnar miklu eftir fellibylinn Katrínu 2005. Ég mun því eflaust læra mikið og fá fullt af efni sem mun nýtast mér í meistararitgerðinni og eins við smíðar á næstu verkefnaumsókn.

mardigras

Ég var að átta mig á því í morgun að ég rétt missi af Mardi Gras carnivalinu þeirra og lokadeginum sem þeir kalla Fat Tuesday, en ég ætla ekki að mæta fyrr en á miðvikudeginum. En ég á örugglega eftir að hitta á nokkra blúsbari í franska hverfinu þar sem hótelið er og hef ég líka heyrt að þarna sé nk. carnivalstemming árið um kring, þannig að ég hef ekki stórar áhyggjur af þessu, það gefur mér bara tækifæri til að fara aftur.

Ég er að vona að Jóhann bróðir komi og hitti mig, en hann vinnur mikið þarna niðurfrá og væri því vel við hæfi að nýta tækifærið þegar Litla er á staðnum. Jæja ætli sé þá ekki best að fara að leita að sumarfötunum Wink....


Sjóræningjanám á Akureyri

valholl_2februar2008

Það verður ekki af henni Þorgerði Katrínu skafið að hún er frábær stjórnmálamaður. Hún fór vel yfir málefni liðinna daga og vikna og var fundurinn í Valhöll góður að mínu mati.

Þegar hún hafði rætt ríkisstjórnarsamstarf, borgina og húsafriðunarmál kom hún að menntamálunum. Hún fór vel yfir þær breytingar sem ný frumvörp sem eru til umfjöllunar nú fela í sér. Ég er persónulega ánægð með að hafa fengið tækifæri til að líta yfir þessi mál heildstætt sem þessi endurskoðun gefur möguleika á. Að gera leikskólastiginu jafnhátt undir höfði og hin stigin, en eins og Þorgerður fór yfir þá líta önnur lönd til okkar í þeim málum. Við vorum við fyrst til að gera leikskólastigið að fyrsta skólastiginu og erum við með frábæra leikskóla á Íslandi og hefur mikil þróun átt sér stað frá því að Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra tók þetta skref.

Ég er líka ánægð með að nýju lögin sem ég hef kynnt mér vel gera kennurum tækifæri til að flæða milli skólastiga. Það skiptir okkur Mosfellinga töluverðu máli þar sem við ætlum erum að byggja Krikaskóla, skóla sem verður fyrir börn frá 1 árs til 9 ára og mun þessi breyting því auðvelda stjórnendum að reka slíkan skóla. Það skiptir líka máli og búið er að opna fyrir það að leikskólakennarar geti rekið skóla eins og Krikaskólann okkar, þ.e. að stjórnandinn þurfi ekki endilega að vera bæði með leikskóla og grunnskólamenntun. Í nýju lögunum er líka búið að opna fyrir það að aðstoðarskólastjórinn þurfi ekki að vera kennaramenntaður og gefur það m.a. tækifæri til að ráða inn sérfræðinga á sviði mannauðsstjórnunar eða rekstrarmála, enda felst í lögunum verulega aukið sjálfstæði skóla frá því sem er í dag og því mikilvægara en fyrr að hafa innanbúðar víðtækan bakgrunn þeirra sem koma að skólastarfinu. Þetta gefur einnig möguleika á aukinni sérhæfingu skólanna og eigum við örugglega eftir að sjá breytingar í áherslum með auknu sjálfstæði til þróunar skólastarfs.

Á fundinum áðan var ágætis umræða um iðnmenntun. Þorgerður fór yfir það að í dag væru um 90 námsbrautir. Hún sagði jafnframt að það væri verið að undirbúa það að hægt væri að skipta náminu í styttri námsbrautir. Að gefa krökkum tækifæri á því að taka námið í stigum, sem gerir námið þá ekki eins óyfirstíganlegt og geti þeir sem kjósa þá tekið allt í einu og lokið meistaranámi, en aðrir tekið þetta í áföngum og unnið milli námslota. Þetta tel ég að verði til batnaðar og verði til þess að fleiri ljúki námi en fyrr og haldið okkur áfram í fremstu röð hvað iðnmenntun varðar.

Kristileg gildi voru rædd og fór Þorgerður vel yfir það að ekki væri verið að slaka á, en við gætum einfaldlega ekki haft þetta lengur svona í lögum, það væri ekki hægt að hafa slíkt ákvæði inni sem hygli einum trúarbrögðum umfram önnur. Þessu hefði líka verið breytt í lögum í Noregi, því að mati mannréttindadómstólsins mætti þetta ekki. En við Íslendingar yrðum kristin sem fyrr. Í skólum væri verið að kenna trúarbragðafræði, en ekki stunda trúboð. 

Ég er algjörlega sammála Þorgerði Katrínu menntamálaráðherra og varaformanni Sjálfsæðisflokksins að það eru mikil tækifæri fólgin í aukinni menntun og að við Íslendingar eigum að vera stolt af því að vera í fremstu röð þekkingarsamfélaga í heiminum.

Börnin okkar er framtíðin og var dásamleg sagan sem Þorgerður af litla Akureyringnum sem var spurður að því hvað leikskólakennarar ættu að gera. "Nú þeir eiga að syngja". Síðan var hann spurður að því hvað hann ætlaði að vera þegar hann yrði stór og hann svaraði um hæl... "Sjóræningi". Svo var hann spurður að því hvort hann vildi frekar var barn eða fullorðinn og þá sagði sá stutti.. "nú fullorðinn" og af hverju, var hann spurður..... "nú sjóræningjar eru fullorðnir". Svo er bara að vita hvort draumurinn verði að veruleika og boðið verði upp á sjóræningjabraut við Verkmenntaskólann á Akureyri í framtíðinni.

 


mbl.is Fundað í Valhöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband