Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

Samstaða ríkir í Mosfellsbæ

Frá efnahagshruninu á síðasta ári hafa sveitarfélög í landinu staðið frammi fyrir krefjandi verkefnum sökum breytinga í ytra umhverfi og verri fjárhagslegrar afkomu. Mosfellsbær er engin undantekning í því sambandi. Þó hefur ábyrg fjármálastjórn og innleiðing breyttra vinnubragða við fjárhagsáætlunargerð á undanförnum árum skilað þeim árangri að fjárhagsleg staða Mosfellsbæjar er betri en flestra sveitarfélaga í landinu.

Grunnþjónustan sett í forgang

Sveitarfélögin stóðu skyndilega frammi fyrir breyttu ástandi og þurfti því að meta þjónustu út frá nýjum forsendum og aðlaga allan rekstur að þessum nýja veruleika. Sveitarfélög voru hvött til að forgangsraða verkefnum og leggja áherslu á grunnþjónustuna. Samband íslenskra sveitarfélaga skilgreindi hugtakið grunnþjónustu að beiðni sveitarfélaganna og til að auðvelda sveitarstjórnum að forgangsraða útgjöldum innan málaflokkanna voru mótaðar leiðbeiningar til sveitarfélaga um skilgreiningu grunnþjónustu á sviði fræðslumála og félagsþjónustu. Þar var horft til allra verkefna sem sveitarfélög eru að sinna í dag og skilgreint hvort um væri að ræða lögbundið eða valkvætt verkefni. Dæmi um slík valkvæð verkefni er leikskólaþjónusta og almenningssamgöngur. Eins var þar fjallað um að hvaða svigrúm sveitarstjórnir hafa eftir staðbundnum aðstæðum og þörfum.

Samstaða um leiðir til hagræðingar

Góð samstaða hefur ríkt um flestar ákvarðanir sem teknar hafa verið um hagræðingar á liðnu ári þar sem áhersla er lögð á að standa vörð um grunn- og velferðarþjónustuna. Strax var farið í mikla vinnu í öllum stofnunum við endurskoðun rekstrarþátta, þar sem öllum steinum var velt við í leit að hagræðingarleiðum. Sveitarfélög hafa farið svipaðar leiðir í hagræðingu og m.a. samræmdu sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu sig varðandi ýmsa þætti, s.s. að taka af eina kennslustund fyrir 1-4 bekk, sem ekki var lögbundin. Sjálfstæði stofnana í Mosfellsbæ er mikið og hafa þær sjálfar því eðlilega farið í ýmsar aðgerðir. Dæmi um slíkt er að draga úr framlögum til skólaferðalaga sem leitt hefur til þess að krakkarnir hafa lagt á ráðin og m.a. farið í ýmsar fjáraflanir,sem er ekki alslæmt að mínu mati.

Sértækar aðgerðir vegna efnahagshruns

Í október 2008 var stofnaður samráðshópur undir stjórn formanns bæjarráðs vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem sköpuðust í þjóðfélaginu. Markmiðið með hópnum var að samræma þjónustu og auðvelda aðgang Mosfellinga að þjónustu og ráðgjöf á vegum aðila í Mosfellsbæ. Sett var á stofn Ráðgjafartorg sem er starfrækt í samvinnu við Rauða krossinn, kirkjuna og heilsugæslustöðina. Strax var farið í aðgerðir til að tryggja að skólinn væri griðastaður barnanna, þar sem þau gætu unnt sér vel við leik og nám og notið án þess að þurfa að hlusta á umræður um ástandið í þjóðfélaginu. Starfsmenn skóla og þjálfarar í íþróttum fóru á sérstakt námskeið í sálrænum stuðningi og til að þau væru enn betur í stakk búin til að styðja börnin. Auk hinnar almennu félagsþjónustu sveitarfélagsins er nú aukin vöktun innan Mosfellsbæjar á ýmsum þáttum er lúta að velferð barna. Jafnframt eru starfsmenn hvattir til að vera á varðbergi og grípa inn í ef grunur er um að foreldrar neyðist til að segja upp þjónustu sökum fjárskorts.

Allir á sama báti

Mikill skilningur ríkir í samfélaginu gagnvart hagræðingu og forgangsröðun á þjónustu, enda öll heimili í landinu að glíma við slíkt sama. Nú er hafin fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár og eru því miður lítil teikn á lofti um að ástandið í samfélaginu breytist til batnaðar á næstu árum og því verður að gera áætlanir með það í huga. Á liðnu ári hefur vissulega mikið mætt á öllum sem koma að rekstri sveitarfélagsins.

Það jákvæða er að einhugur hefur ríkt og ljóst að fólk lætur ástandið í þjóðfélaginu ekki draga úr sér. Vissulega hefur þurft að beita meiri útsjónasemi en þekktist í góðærinu og má segja að það jákvæða við þessa kreppu sé að hún hefur fengið fólk til að staldra við og endurskoða leiðir og áherslur í þjónustu sveitarfélagsins, líkt og gert hefur verið á hverju heimili og fyrirtæki í landinu.

Þetta eru vissulega sérstakir tímar sem við lifum og þurfum við að horfa jákvæð til framtíðar og muna að öll él birtir upp um síðir.

Herdís Sigurjónsdóttir, formaður bæjarráðs

Grein sem birtist í Varmá, blaði Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ í  nóvember 2009.


Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2010

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn 16. desember sl. og var hún unnin sameiginlega af öllum flokkum í bæjarstjórn líkt og gert var fyrir árið 2009.  Eðlilega eru mismunandi áherslur hjá flokkum og hefðum við örugglega hvert og eitt viljað hafa sumt öðruvísi en reyndin varð. Að mínu mati er mjög jákvætt að okkur tókst að ná sameiginlegri niðurstöðu.

Fjárhagsleg staða Mosfellsbær er vissulega betri en margra sveitarfélaga í landinu og má það fyrst og fremst þakka ábyrgri fjármálastjórn og innleiðingu nýrra vinnubragða við fjárhagsáætlunargerð á undanförnum árum. Mikil skuldsetning er að sliga mörg sveitarfélög í landinu og því kemur sér vel nú að frá því árinu 2002 hefur markviss verið unnið að því að minnka skuldir Mosfellsbæjar. Það auðveldar róðurinn.

Megináherslur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010 eru að standa vörð um fjölskyldur og velferð en jafnframt að bjóða áfram upp á góða þjónustu í Mosfellsbæ.  Takmarkið er að halda áfram að byggja upp okkar samfélag þrátt fyrir erfitt árferði.

Rekstrarforsendur sveitarfélagsins eru gjörbreyttar, og þarf að bregðast við lægri tekjum sem og hækkun kostnaðar og launa. Rekstrargjöld hafa nánast staðið í stað frá árinu 2008 þrátt fyrir mikla verðbólgu og hafa því lækkað að raungildi. Áhersla er lögð á hagræðingu í rekstri, frekar en hækkun gjaldskrár vegna þjónustu í grunn- og leikskólum og skerðingu styrkja. Auk þess sem aðhalds verður gætt í rekstri líkt og undanfarin ár.

Í fjárhagsáætluninni er gert er ráð fyrir að skatttekjur lækki að raungildi milli ára. Þrátt fyrir það verði veltufé frá rekstri jákvætt um 86 mkr og áætluð rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð um 3,5 mkr. Heildartekjur A og B hluta bæjarsjóðs Mosfellsbæjar á árinu 2010 eru áætlaðar 4.612 mkr. en gjöld án fjármagnsliða áætluð 4.190 mkr.  Rekstrarafgangur án fjármagnliða er áætlaður 423 mkr., fjármagnsliðir er 425 mkr. og því rekstrarniðurstaða samstæðunnar neikvæð um 2 mkr.

Útsvarsprósenta verður 13,19% og er enn 9 punktum undir leyfilegu hámarksútsvari, sem er sama bil og árið á undan. Útsvarstekjur eru áætlaðar 2.682 mkr. sem er hækkun um 2,7% milli ára.

Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 460 mkr. aukning um tæpar 2 mkr frá fyrra ári vegna fjölgunar íbúða. Álagningahlutfall fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis er óbreytt en fasteignaskattur af atvinnuhúsnæði verður leiðréttur sem nemur lækkun fasteignamats.

Samantekt um áherslur í fjárhagsáætlun ársins 2010:

  • Að standa vörð um skóla- og æskulýðsstarf og að forgangsraðað verði í þágu barna og velferðar.
  • Að þjónustugreiðslur barnafjölskyldna í leik- og grunnskólum verði óbreyttar og lækki því að raungildi.
  • Að óhjákvæmilegri hagræðing í rekstri skóla og leikskóla verði gerð með góðri samvinnu forstöðumanna og starfsfólks skólanna hefur tekist að takmarka eins og hægt er áhrifin af því á nemendur og barnafjölskyldur.
  • Að áhersla verði lögð á að hagræðing í rekstri komi ekki niður á félagsþjónustu bæjarins og bætt verði í þann málaflokk til að koma til móts við aukna þörf.
  • Að aukin hagræðingarkrafa verður gerð á yfirstjórn sveitarfélagsins, sem og stjórnunardeildir stofnana. Starfsfólk Mosfellsbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri hagræðingu.
  • Að samkomulag sem gert var við æðstu stjórnenda um 6-7% lækkun launa 2009 gildi áfram, auk þess sem gert er ráð fyrir sérstöku átaki í lækkun starfstengds kostnaðar.
  • Að niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum skerðist ekki.
  • Að heimgreiðslur til foreldra ungra barna skerðist ekki.
  • Að styrkir til íþróttafélaga vegna barna og unglingastarfs aukist um 15% á milli ára, sem er til marks um þá áherslu sem lögð er á að leggja rækt við barna og unglingastarf í Mosfellsbæ.
  • Að stuðla að áframhaldandi samstarfi frístundaselja við íþróttafélög um þróun Íþróttafjörs, samþættingar íþrótta- og tómstundstarfs fyrir yngstu grunnskólanemendur, en Íþróttafjörið sem hófst í haust hefur stuðlað að þróun heildstæðs skóladags fyrir börn og fjölskyldur sem hefur verið markmið Mosfellsbæjar í mörg ár.
  • Að frístundaávísun verði ekki skert.
  • Að Krikaskóli verði tekinn í notkun snemma á næsta ári.
  • Að hafist verði handa við byggingu nýs framhaldsskóla í miðbæ Mosfellsbæjar í samvinnu við ríkisvaldið.
  • Að hafist verði handa við byggingu hjúkrunarheimils að Hlaðhömrum í samvinnu við Eir og ríkisvaldið. Í tengslum við þá framkvæmd verður byggð félagsaðstaða fyrir aldraða.
  • Að hagræða í viðhaldsverkefnum og forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf.
  • Að ábyrgðar verði gætt í forgangsröðun framkvæmda og ekki verði hafnar stærri framkvæmdir sem unnt er að bíða með en lögð áhersla á minni mannaflsfrekar framkvæmdir.
  • Að veltufé frá rekstri sé jákvætt og að afkoma bæjarins verði í jafnvægi.
  • Að álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði breytist ekki, en leiðrétt verður álagning á atvinnuhúsnæði sem nemur lækkun fasteignamats.

Lítil teikn eru á lofti um að ástandið í samfélaginu breytist til batnaðar á næstu árum og ríkir mikil óvissa. Því er enn mikilvægara en áður að gera áætlanir með það í huga, að gæta aðhalds í rekstri og forgangsraða í þágu velferðar íbúa. Það var takmark allra þeirra fjölmörgu sem komu að gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 og er það von mín að með góðri samvinnu muni það takast.


Gleðileg jól ♪♫•*¨*•.¸¸♥ Merry Christmas

Gleðileg jól, Merry Christmas, frohe Weihnachten, gleðilig jól, hyvää joulua, joyeux Noël, buon Natale, glædelig jul, 圣诞快乐, feliz Navidad, Срећан Божић, Wesołych Świąt, God jul ♪♫•*¨*•.¸¸♥

Gleðileg jól kæru vinir nær og fjær. Guð gefi ykkur og fjölskyldum ykkar gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár. Kærar þakkir fyrir góðar samverustundir á árinu sem er að líða.

Merry Christmas and happy new year dear friends and family. Thank you all so much for a great time in Seattle and Canada last summer.

christmas-tree-5


TÖKUM HÖNDUM SAMAN - styðjum barnafjölskyldur í vanda

tokum_hondum_saman_logo

Söfnuninni Tökum höndum saman var formlega hleypt af stokkunum í hádeginu í dag fyrir framan húsnæði Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að Hátúni 12. Þar mættum við sjálfstæðiskonur og tókum höndum saman.

Í morgun fór ég kem kortin í Wrold Class í Lágafellslaug, Bónus og Krónuna í Mosfellsbæ og vona ég að Mosfellingar og nærsveitarmenn láti gott af sér leiða.

Allur ágóði söfnunarinnar rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefnda í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, á Akranesi og á Akureyri. Nefndirnar munu nýta ágóðan til að styðja barnafjölskyldur í vanda á Íslandi. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar um land allt, en prestar geta haft milligöngu í þeim sveitarfélögum þar sem ekki er starfandi Mæðrastyrksnefnd.

Einstaklingar og fyrirtæki geta lagt söfnuninni lið með því að kaupa stuðningskort sem seld eru hjá eftirtöldum fyrirtækjum vítt og breitt um landið: Byko, Debenhams, Dýrfinnu og Finni gullsmiðum Akranesi, Einarsbúð Akranesi, Fjarðarkaup, Hagkaup, Heitt á prjónunum Ísafirði, Kjarval, Melabúðinni, N1, Nóru Kópavogi, Sælukjallaranum Patreksfirði, Verslunum 10-11, Verslunum 11-11, Verslunum Bónus, Verslunum Krónunnar, Verslunum Nóatúns og í World Class

Jafnframt er hægt leggja inn á söfnunarreikning Mæðrastyrksnefndar á vefsíðu söfnunarinnar www.xd.is/tokumhondumsaman

Aldrei hafa eins margir leitað á náðir Mæðrastyrksnefndar og undanfarnar vikur og hefur fjöldinn sem sótt hefur aðstoð þrefaldast á síðastliðnu ári. Búist er við því að rúmlega fjögur þúsund fjölskyldur muni óska eftir aðstoð hjálparstofnana um jólin. Þetta eru þung skref fyrir alla þá sem þurfa að leita á náðir þeirra til að þiggja nauðsynjar.

Það er okkar einlæga von að enginn þeirra sem leitar á náðir Mæðrastyrksnefnda þurfi frá að hverfa vegna skorts.

Við sjálfstæðiskonur hvetjum landsmenn til að taka höndum saman með okkur, leggja góðum málstað lið og styðja barnafjölskyldur í vanda á Íslandi.


Sjálfstæði Íslendinga og hörmungar

1. desember 1918 tóku sambandslögin gildi. Þá var íslenska þjóðin fullvalda, en vorum við þó enn með danskan konung og sáu Danir einnig um utanríkismál okkar og landhelgisgæslu.

Í fyrstu grein sambandslaganna sagði: Danmörk og Ísland eru frjáls og fullvalda ríki, í sambandi um einn og sama konung og um samning þann, er felst í þessum sambandslögum.

Danskir ríkisborgarar áttu að fá sama rétt og Íslendingar hér á landi og öfugt. Stofnað var íslenskt ríkisráð sem í sátu konungur, ríkisarfi og ráðherrar Íslands. Konungur gat haldið ríkisráðsfund með einum ráðherra og því dugði að einn ráðherra sigldi til Kaupmannahafnar til að fá undirskrift undir lög og konungsúrskurði.

Íslendingar fögnuðu þó hljóðlega því þá gekk spánska veikin yfir þar sem hundruðir íslendinga létust. 12. október 1918 hófst Kötlugos og og veturinn 1917-1918 hefur verið kallaður frostaveturinn mikli.

Lýðveldið Ísland var stofnað  árið 1944 fengu íslendingar þá fullt sjálfstæði frá Dönum.

1. desember 2009 tók Lissabonsáttmálinn gildi. Hann er nokkurskonar stjórnarskrá Evrópusambandsins og á að auðvelda ákvarðanatöku innan ESB. Íslendingar hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Evrópusinnar fagna  Lissabonsáttmálanum sem kveður á um ný embætti forseta ESB. Lýðræðislegra og skilvirkara starf ESB segna Evrópusinnar. Framsal á völdum aðildarþjóða til Brussel segja andstæðingar.

Veturinn 2008 gengu efnahagshamfarir yfir heiminn. Á Íslandi varð algjört fjármálahrun og þann 1. desember 2009 berjast íslensk fyrirtæki og heimili enn í bökkum. Hér geisar heimsfaraldur inflúensu líkt og árið 1918, en m.a. vegna framfara í læknisvísindum er faraldurinn ekki eins skæður og árið 1918.

Ég ætla rétt að vona að veturinn verði ekki líka kallaður frostaveturinn mikli og við munum ekki framselja nýfengið sjálfstæði okkar til Brussel.


mbl.is Lissabonsáttmálinn tekur gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband