Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Viðbrögð við jarðskjálftum - hvað getur þú gert?

Almannavarnakerfið er virkjað á neyðartímum, en þarf að hafa í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp. Því er mikilvægt að hver og einn búa sig undir að bjarga sér og sínum sjálfur, þar til hjálp berst. 

Á þeim áratug sem ég hef starfað í tengslum við almannavarnir hafa orðið miklar framfarir og ekki síst á liðnum árum. Viðbragðsaðilar eru mun betur meðvitaðir um hlutverk sitt og eins er samhæfing þeirra skipulagðari í viðbrögðum á neyðartímum. Búið er að móta áfallaskipulag á landsvísu og hafa viðbragðsaðilar útbúið ýmislegt fræðsluefni sem gott er að grípa í ef á þarf að halda.

Að mínu mati er ábyrgðin komin of langt frá hinum almenna borgara, fólk bíður eftir því að opinberir aðilar gefi fyrirmæli um hvað beri að gera í stað þess að fólk velti því sjálft fyrir sér hvernig það ætli að bregðast við á neyðartímum. Það er margt sem hægt er að gera, forvarnir sem geta skipt sköpum og ef fólk er vel undirbúið getur það minnkað álagið á almannavarnakerfið á neyðartímum.

Gerið heimilisáætlun

Það er ýmislegt sem almenningur getur gert. Hægt er að gera heimilisáætlun fyrir fjölskylduna. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur á heimasíðu sinni fyrirmynd sem leiðir fólk í gegnum þau atriði sem þarf að skipuleggja og síðan getur fólk sjálft bætt við því sem á vantar að þeirra mati. Í Viðalagahandbóksem útbúin var af almannavörnum og ýmsum viðbragðsaðilum má nálgast ýmsar góða upplýsingar um rétt við brögð og hlutverk viðbragðsaðila.

Heimilisfólkið útbýr sína heimilisáætlun og taka börnin fullan þátt í gerð hennar. Rætt er um hugsanlegar hættur, tryggingamál, forvarnir, samin er viðbragðs og rýmingaráætlun og fólk lærir að bregðast við vá. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma og hvítasunnuhelgin er upplögð í slíka vinnu.

Hér farið þið inn á fyrirmyndina.

Einnig er hægt að nálgast leiðbeiningar um viðbrögð ef hættuástand skapast.

Gott er að vita um dreifikerfi Ríkisútvarpsins þar sem tilkynningar eru lesnar upp og hvar næsta fjöldahjálparstöð er.

Slysavarnafélagið Landsbjörg er framarlega í forvörnum og hafa m.a. útbúið fræðsluefni vegna slysa á heimilum.

Eldsvoði

Þrátt fyrir að nú sé verið að fjalla um náttúruhamfarir er ekki síður mikilvægt að búa sig undir eldsvoða á heimilinu. Brunamálastofnun og slökkviliðin í landinu hafa útbúið fræðsluefni fyrir almenning um viðbrögð við eldsvoða. og er einnig mikilvægt að fara yfir brunavarnir heimilanna. Flóttaleiðir og fyrstu viðbrögð sem mér þótti gott að rifja upp fyrir mig og mína..

  1. Látið alla í húsinu vita um hættuna.
  2. Aðstoðið þá sem ekki geta bjargað sér sjálfir út úr húsinu.
  3. Lokið hurðum á eftir ykkur.
  4. Hringið í 1 1 2.
  5. Reyna að slökkva eldinn ef hann er mjög lítill.
  6. Sé eldurinn mikill eða eykst þrátt fyrir tilraunir til að slökkva eldinn forðið ykkur þá út.

Áfallahjálp

Það er einnig til mikið af fræðsluefni til að lesa um áföll og eðlilegt viðbrögð við áföllum. Rauði krossinn hefur útbúið mikið af góðu efni fyrir almenning í þessa veru og mæli ég með því að fólk fari á námskeið í sálrænum stuðningi. Það eru námskeið sem nýtast út lífið og hjálpar mikið á neyðartímum. Hér er hægt að sjá það fræðsluefni og leiðbeiningarsem Rauði krossinn hefur útbúið.

Almannavarnir hafa einnig útbúið fræðsluefni og má nálgast bækling um áfallahjálp, áfallastreitu og sálrænan stuðning -  Sorg og sorgarstuðning.

Áhrif áfalla á börn geta orðið haf meiri áhrif á börn en fullorðna. Hér er hægt að nálgast upplýsingar um eðlileg viðbrögð og leiðir til að hjálpa þeim að vinna úr áfallinu.

Fræðsluefni um viðbrögð við jarðskjálftum

Búið er að útbúa kennsluefni fyrir grunnskóla um viðbrögð við jarðskjálftum. 

Einnig er búið að útbúa barnaefni sem hægt væri að fara yfir með börnunum við gerð heimilisáætlunar. Það eru þau Alvör og Alvar sem kenna börnunum viðbrögð - KRJÚPA-SKÝLA-HALDA og er hægt að prenta út litabók fyrir börnin.

 


mbl.is Grindvíkingar geri ráðstafanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ - nýtt utanvegahlaup

Sturla Sær on the top of Reykjafell Sturla í einni af tindagöngunum fjölskyldunnar

Nú styttist í fyrsta 7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ, en það verður haldið 13. júní nk. Hlaupaleiðin 35 km fyrir 7 tinda hlaupið, en einnig er hægt að velja sér styttri leið 17 km á 4 tinda. Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali, en aðeins er lítill hluti leiðarinnar í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ og verður gaman að sjá hlauparana bruna um hverfið sitt. Hér er kort af hlaupaleiðinni.

Skátafélagið Mosverjar á hugmyndina, Gunni Atla held ég og fengu þeir til liðs við sig Ella Níelsar, Mosfellsbæ, Björgunarsveitina Kyndil til að koma þessu í framkvæmd. Hér á bæ hafa skátar fjölskyldunnar gengið 7 tinda gönguna, sólarhringsgöngu á þessa tinda, en hlaupið er nýtt utanvegahlaup sem ég vona að verði vinsælt að hlaupa.

Eftirfarandi upplýsingar um hlaupið eru af Mosverjasíðunni.

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið

Hlaupaleiðin 35 km. 7 tinda hlaupið.
Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal og áfram uppá efsta hnjúk Æsustaðafjalls (4). Áfram suður eftir fjallinu og stefnan tekin austur að Torfdalsbrúnum og áfram upp á Hjálminn. Þaðan áfram í austur og alla leið á hæsta tind Grímmannsfells.(5) Farið síðan vestur á Flatafell og áfram niður að Hraðastöðum. Haldið síðan þvert yfir Mosfellsdal um Guddulaug og síðan vestur að Mosfellskirkju. Þaðan farið á Mosfellið. Fyrst í norður frá kirkjunni uns komið er upp fyrir öll gil, og þá sveigt til vesturs rakleiðis á hæsta hnjúkinn.(6). Farið síðan í suður niður af fjallinu og um bæjarhlaðið á Hrísbrú. Haldið áfram niður veginn og yfir Köldukvísl og Suðurá á brú. Síðan farið á Helgafell frá Skammadalsvegar og Þingvallavegar. Þegar Helgafellstindinum (7) er náð er farið suð-vestur af fjallinu og komið niður við Helgafell. Farið áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Hlaupaleiðin 17 km.  3 tinda hlaupið.

Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi. Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1). Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal. Þegar komið er á Reykjaborg (2) er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og uppá  Reykjafell (3). Þaðan er hlaupið niður í Skammadal, suður með Helgafelli og áfram gegnum Áslandshverfið og niðrá malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng  og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Skráning, skráningargjald og verðlaun

Gjaldið fyrir 35 km er 2.500 kr og fyrir 17 km er gjaldið 1.500 kr. Takmarkaður þátttökufjöldi og skráningu lýkur í síðasta lagi 10. júní. Skráning fer fram á hlaup.is

Verðlaun fyrir 3 fyrstu sæti karla og kvenna í báðum vegalengdum.

Aðrar upplýsingar

Mosfellsbær, Skátafélagið Mosverjar og Björgunarsveitin Kyndill halda hlaupið.
Þátttakendur séu komnir að Lágafellslaug minnst 30 mín fyrir hlaup.
Frítt er í Lágafellslaug að hlaupi loknu.
Drykkjarstöðvar verða á leiðinni.
Sperrun verður við Golfvöllinn í Mosfellsdal kl: 14.00 og hlaupurum ekið að Lágafellslaug.
Þátttakendur eru að öllu leiti á eigin ábyrgð í hlaupinu.


Úrskriftarferð elstu barna leikskólans Huldubergs í Mosfellsbæ

DSC02394

Fröken Sædís Erla bauð mömmu sinni með í útskriftarferð með leikskólanum Huldubergi í vikunni. Það var stolt mamma sem fór með yngsta gormnum, sem brátt útskrifast úr leikskóla og þá er Rituhöfða-fjölskyldan ekki lengur í námi í leikskóla, grunnskóla, framhaldskóla og háskóla eins og þetta skólaárið.

Þegar ég kom inn var það fyrsta sem Sædís Erla sagði, mamma komstu með nestið? og auðvitað klikkaði ég ekki á því.

Við fórum frá Huldubergi í rútu í yndislegu veðri, sól og hita. Með var útskriftarárgangnum fóru, mömmur, systkini, pabbar, ein amma og starfsfólk, eða fóstrurnar eins og Sædís Erla segir alltaf og er slétt saman um allt leikskólakennaratal mömmunnar. Í rútunni voru sungin falleg lög eins og maístjarnan sem var sungin í tilefni maímánaðar. Krakkarnir sungu nokkur lög sem Helgi hafði kennt þeim í vetur, en hann kemur með gítar og syngur með þeim í leikskólanum, alveg eins og í grunnskólunum. þeim til mikillar ánægju.

     DSC02444   

Brátt vorum við komin á safnasvæðið á Akranesi. Persónulega hafði ég aldrei komið þangað og verð ég að segja að það kom mér mjög á óvart. Þarna eru ótrúlegustu hlutir á safni og þótti mér og öðrum mikið koma til íþróttasafnsins og ekki síst ólympíustökksins Vilhjálms Einarssonar. Hann fékk silfurverðlaun fyrir þrístökk í Melbourne í Ástralíu og voru fótsporin merkt á gólfið og þegar maður sér lengdina milli fótspora virðist slíkt stökk vera yfirnáttúrulegt. Einnig vakti beyglað reiðhjól mikla hrifningu. Það var hjól sem Jón Páll heitinn pakkaði saman og var það "ekkert mál fyrir Jón Pál" eins og svo margt annað. Stórkostlegir íþróttamenn þar á ferð.

DSC02437 

Það var margt annað áhugavert á safninu og fengi þau að hlusta á vínilplötu á upptrekktum grammófóni og dillaði Sædís Erla sér við fallega tóna með bros á vör. Eins þótti krökkunum skemmtilegt að leika sér í bátunum úti og príla upp á dekk góða veðrinu. Það er alveg óhætt að mæla með ferð á safnið fyrir þá sem ekki hafa komið þangað.

DSC02427  DSC02419

Næst var ferðinni heitið í skógræktina á Akranesi þar sem ætlunin var að borða. Við gengum frá rútunni og var mikið líf í garðinum, börn að leik með skólunum og hafði einn hópurinn slegið upp tjöldum og skemmti sér hið besta. Við gengum í gegn um fallegt gróið skógræktarsvæði og brátt fundum við fallegt svæði með glæsilegu útigrilli. Krakkarni þustu úr í buskann fóru að róla, renna og gormast úti í náttúrunni. Fótboltinn hafði verið tekinn með og sýndu ungu mennirnir þvílíka takta, fórnuðu sér, tókust á við íþróttameiðsl og görguðu á dómarann, þetta var sko alvöru kappleikur.

DSC02504  DSC02475

Við borðuðum pylsur að íslenskum sið og nutum lífsins og þá var komið að síðasta áningarstaðnum, ströndinni, eða Langasandi. Krakkarnir rifu sig úr fötunum og þustu út á sandinn með fötur, skóflur og góða skapið. Sædís Erla og vinkonur hennar týndu skeljar og einhver fann krossfisk sem var stúderaður í bak og fyrir áður en hann fékk flugferð úr í sjó. Krakkarnir busluðu og var eins gott að ég tók aukaföt með, svona með nestinu. Þau hlupu út í sjó, busluðu við sturtuna og svo endaði ferðin með því að þau fóru öll í útisturtu, sem var mikið sport.

DSC02580  DSC02651

Við héldum heim á leið alsæl og þótti okkur Kollu Reinholds, mömmu Benktu Kristínar merkilegt hvað við vorum alveg búnar á því, eftir að vera úti og gera ekki neitt.  Svo tók ég þær Benktu og Natalíu með mér heim og þær vinkonurnar héldu áfram að leika sér saman fram að kvöldmat.

Svona ferðir gleymast aldrei, en tók ég nokkrar myndir til að hjálpa okkur að muna og eins fyrir þá sem misstu af ferðinni. Ég setti örfáar þeirra inn í albúm sem þið getið fengið að sjá hér.


Master disaster og jarðskjálftar 29. maí

29_mai_2009_499964

Enn skalf jörð þann 29. maí og nú í Grindavík. Við fundum skjálftann hér í Mosfellsbænum, en það var samt ekki mjög greinilegt, meira svona eins og rok.

Það er ekki að ástæðulausu að ég Íslendingurinn valdi hamfarafræðin. Nú er ég orðin master disaster og sérfræðingur í viðbrögðum sveitarfélaga eftir náttúrhamfarir og önnur samfélagsáföll. Svo er ég lögð af stað í doktorinn og verð vonandi orðin doktor disaster fyrir fimmtugt og þá búin að skoða stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og greina viðbrögð eftir hamfarir liðinna áratuga. 

Maður trúir því varla að komið sé ár frá jarðskjálftunum á Suðurlandi. Í dag er nákvæmlega ár frá því að ég sat í Öskju á ráðstefnu um stjórnun þjóðgarða og hristist ærlega þegar sá stóri reið yfir. Þá fórum við LVN rannsóknarhópurinn með lokafurð okkar,  almennar leiðbeiningar fyrir starfsmenn sveitarfélaga um viðbrögð og endurreisn eftir náttúruhamfarir. Í sveitarfélögunum Árborg, Ölfus og Hveragerði urðu miklar skemmdir og hefur til þessa dags verið unnið mikið og gott starf á þessum stöðum við endurreisn sveitarfélaganna eftir jarðskjálftana.

Hveragerði og Árborg samþykktu að nota leiðbeiningarnar og vann LVN hópurinn með Hveragerði við gerð sértækra leiðbeininga vegna endurreisnarstarfsins. Ég hef aðstoðað Árborg við áætlunargerðina og hafa fjölmargir komið að þeirri vinnu og eru forréttindi að vinna með Ragnheiði Hergeirsdóttur bæjarstjóra og því starfsfólki sem ég hef starfað með. Þetta er búið að vera lærdómsríkt og skemmtilegt ferli. Það er mjög ólíkt að gera áætlun um viðbrögð fyrirfram, eða þegar hamfarir hafa orðið eins og 29. maí í fyrra og fólk er að vinna í ferlinu samhliða áætlunargerðinni.  Fyrir vikið er hægt að skrá ferlið samhliða og aðlaga að raunveruleikanum og nýta þá þekkingu sem fæst.

Mér varð hugsað til Kristínar og fjölskyldu í Grindavík áðan þegar jörð tók að skjálfa. Eins varð mér hugsað til þeirra á Suðurlandi og ekki síst þeirra sem misstu heimili sín. Ég get ekki ímyndað mér að stórir jarðskjálftar séu eitthvað sem fólk venst bara, að minnsta kosti ekki fólk sem hefur séð skemmdir og skelfingu sem slíkar hamfarir geta valdið. En það er hægt að undirbúa sig fyrir slíka atburði og veit ég að sveitarfélögin á Suðurlandi eru betur undirbúin nú, en þau voru fyrir jarðskjálftana 2000 og afmælisskjálftana 29. maí 2008. 


mbl.is Jörð skalf við Grindavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í tilefni dagsins

Til hamingju með daginn sjálfstæðismenn.

Fyrir nokkrum vikum síðan tók ég að mér á fundi hjá Sjálfstæðisfélaginu í Mosfellsbænum að leiða umhverfisverkefni og var fyrsti í átaki í kvöld. Það var gaman hjá okkur sjálfstæðismönnum við að týna rusl í móanum. Ég er farin að halda að ruslið vaxi þarna með lúpínunni, en við uppskárum við marga poka af sjoppurusli. Sannreyndi Daníel það að ruslatýnsla getur borgað sig, en hann fann vel veðraðan þúsundkall sem hefur kannski fengið óvænta ferð út um bílglugga með kókdós eða hamborgarabréfi.

x_DSC02373

Það var ýmislegt skrafað og ræddum við m.a. tímamótauppgötvun forsætisráðherra, sem var að átta sig á því núna að ríkisstjórnin stæði frammi fyrir erfiðum verkefnum. Ja ekki kom það mér á óvart, en eitthvað er þetta greinilega að verða óþægilegt fyrir stjórnarflokkana. Það er nefnilega þannig að það er ekki alltaf hægt að vera í vinsæla liðinu.

Annars er mikið á döfinni hjá okkur sjálfstæðismönnum í Mosfellsbæ í júní. Annað hreinsunarátak og þá með þátttöku stóra XD hópsins sem endar á fjölskyldugrillveislu og svo er það útilega.

Ég læt nokkrar myndir fylgja með, en eitthvað af fólkinu var farið þegar hópmyndin var tekin.

 x_DSC02329

Ragnheidur rikhardsdottir

x_DSC02374


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn áttatíu ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólaþing í Mosfellsbæ

p3040062

Á  fyrramálið verður haldið skólaþing í Mosfellsbæ og vona ég að þátttakan verði góð þrátt fyrir góða veðurspá. 

Skólaþingið verður haldið í Lágafellsskóla frá kl. 9-12 og er meiningin að ná fram viðhorfum sem flestra til skólamála, leik -grunn- og framhaldsskóla. Að undanförnu hefur verið í gangi vinna með yngstu Mosfellingunum 0-10 ára og hafa þau verið að gera myndir og ýmislegt annað varðandi þeirra sýn á það hvernig góður skóli á að vera. Það verkefni verður í vinnslu áfram eftir skólaþingið, en afrakstur til þessa verður sýndur á þinginu á morgun.

Þegar fræðslunefnd var að velta fyrir sér hvernig best væri að hefja endurskoðun á skólastefnunni okkar kom upp þessi hugmynd, að halda skólaþing og lofa ég skemmtilegri morgunstund þar sem áhugasamir geta látið til sín taka í vinnuhópum og haft þannig áhrif á stefnu Mosfellsbæjar í skólamálum til framtíðar. Gylfi Dalmann kom með þá hugmynd að nota "Brain Writing" aðferðina og er það sú aðferð sem notuð verður í hópastarfinu og er hann búinn að þjálfa hópstjóra og skrifara.

Það eru margir búnir að leggja mikið á sig til að þetta geti orðið að veruleika og hafa Björn Þráinn og hans fólk leitt undirbúningsvinnuna. Það er búið að leita eftir hugmyndum að "umræðuefni"  spurningum í hópana

Ég spurði Sædís Erlu mína fimm ára, sem er ein af þessum yngstu þátttakendum hvernig börnum ætti að líða í leikskólanum. Hún sagði að þau ættu að vera brosandi og glöð og líða vel í hjartanu. Svo sagði hún líka að krakkar ættu ekki að slást og meiða. Hún var algjörlega með það á hreinu að það væri skemmtilegast í tölvunni og púðunum og róla úti, en síður skemmtilegt að vera í hlutverkarými.

Þessi vinna að undanförnu hefur vakið áhuga og hafa sextíu 10-12 ára börn meldað sig til þátttöku á laugardagsmorguninn. Eldri börn taka þátt í vinnuhópum með þeim fullorðnu.

Það er nú ekki á hverju degi sem hægt er að bjóða morgunstund fyrir alla
fjölskylduna þar sem allir eru virkjaðir, en munum við öll fimm rölta saman í Lágafellskóla í fyrramálið. Bæði Ásdís Magnea og Sturla Sær eru í ungmennaráðinu og svo ætla Sædís Erla að skemmta sér með yngri krökkunum í leikrýminu, en boðið er upp á barnapössun á þinginu.

Ég vona að ég sjái sem flesta í fyrramálið. Ég hef verið að hvetja fólk í kring um mig til að mæta og verja þremur tímum á skólaþingi til að láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins okkar.

Dagskrá:

8:30-9:00 Morgunhressing undir fögrum tónum Skólahljómsveitarinnar okkar.

9:00 Af hverju skólaþing?
Herdís Sigurjónsdóttir, formaður fræðslunefndar Mosfellsbæjar.

9:10 Framtíðarsýn og grunnskólalög.
Svandís Ingimundardóttir, skólafulltrúi Sambands ísl. sveitarfélaga.

9:30 Kynning á hópastarfi - skipting í hópa -
Gylfi Dalmann, varaformaður fræðslunefndar.

9:40-11:40 Hópastarf

11:40 Barnakór Reykjakots

11:45 Hvað svo - hvað verður um niðurstöðu Skólaþings 2009 ?
Gylfi Dalmann, varaformaður fræðslunefndar.

12:00 Þinglok

Þessar myndir eru teknar á Leikskólanum Huldubergi þar sem Sædís Erla er búin að vera síðustu ár, alsæl og glöð í hjartanu eins og hún segir sjálf.

p2200004

p2250036


Jóhanna með V-ESB-G stjórnina á prjónunum

Þar kom að því!

Ég hélt satt best að segja að það ætlaði ekkert að gerast í þessum málum um sinn og verður fróðlegt að vita hvernig ESB nálgunin verður hjá VG.

Það er samt nokkuð furðulegt að flokkar sem fóru rígbundnir til kosninga eins og við munum öll, hafi ekki verið búin að ræða ágreiningsmál-IÐ, eða inngöngu í ESB fyrir kosningarnar. En við skulum sjá hvernig lendingin verður. Er hrædd um að VG þurfi að éta ofan í sig Evrópumálin.


mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhver fór inn á kynlífsstefnumótasíðu í nafni dóttur minnar

16 ára dóttir mín lenti í heldur óskemmtilegri lífsreynslu um páskana. Við fjölskyldan vorum úti á landi en var hjá ömmu sinni og hafði skroppið heim að horfa á sjónvarpið því hún vildi horfa á eitthvað annað en amman.

Þegar hún var ein heima fékk hún sms í símann sinn frá manni sem spurði hana hvort hún væri hún og hvort hún hefði verið inni á ákveðinni heimasíðu undir x dulnefni og verið að spjalla við sig. Hún sendi til baka að svo hefði ekki verið og þá baðst hann afsökunar og sagði að einhver hefði verið þar inni og boðið honum í "heimsókn". Þetta var greinilega vanur maður, því hann var sem sé að fullvissa sig um að hún væri hún áður en hann færi heim til hennar.

Ég fæ hroll þegar ég hugsa til þess sem hefði getað gerst ef hann hefði mætt á tröppunum og tilbúinn í "slaginn".

En ég vissi ekki einu sinni að þessi síða væri til, en ég sá þegar ég fór inn á hana að það voru fjölmargir sem vissu af tilveru hennar. Ég fór þar inn undir dulnefni þeirrar sem þóttist vera dóttir mín og fékk þvílík tilboð frá einhverjum sem voru greinilega tilbúnir í kynlíf með börnum. Mér tókst að ná sambandi við manninn sem var "svikinn" um heimsóknina heim til mín og varð honum um og ó þegar hann komst að því að þetta var ekki barnið heldur mamman sem hann spjallaði við.

Við erum búin að kæra þetta atvik og er víst lang líklegast að þetta sé einhver sem þekkir hana, sem er hræðilegt til að hugsa.  Þetta er hættulegur leikur hafi þetta átt að vera grín og skrifa ég þetta blogg til að þeir sem lesa geti farið yfir þessa hluti með börnunum sínum.


mbl.is Kynlífsfíklum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband