Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Einkasjúkrahús PrimaCare í Mosfellsbæ

Mynd_0131636

Í morgun fjallaði bæjarráð Mosfellsbæjar um áform fyrirtækisins PrimaCare um stofnun einkasjúkrahúss í Mosfellsbæ. Bæjaryfirvöld hafa unnið hratt að öllu sem snýr að undirbúningi okkar undir styrkri stjórn Haraldar Sverrissonar bæjarstjóra.

Það er mjög spennandi mál fyrir okkur Mosfellinga ef verður af byggingu einkasjúkrahúss og hótels PrimaCare í Mosfellsbæ. Þetta smellpassar við það sem við höfum verið að vinna að varðandi heilsubæinn Mosfellsbæ þar sem Reykjalundur spilar stórt hlutverk. Það er einnig frábært að fyrirtækið leggur áherslu á það að umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi við byggingu og rekstur sjúkrahússins og jafnframt er áhersla lögð á sjálfbærni og samspil við náttúruna.

Það þarf ekki að orðlengja það að slíkt fyrirtæki með rúmlega 600 störf skiptir okkur miklu máli og gleðiefni ef forsvarsmenn PrimaCare kjósa að reisa sjúkrahúsið í Mosfellsbæ.

Yfirlýsing frá bæjarráði Mosfellsbæjar vegna áforma PrimaCare um stofnun einkasjúkrahúss:

Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir yfir eindregnum stuðningi við áform forsvarsmanna fyrirtækisins PrimaCare um byggingu einkarekins sjúkrahúss og hótels á Íslandi og fagnar því að PrimaCare sýni Mosfellsbæ áhuga varðandi hugsanlega staðsetningu.  Mosfellsbær og forsvarsmenn PrimaCare hafa verið í viðræðum um samvinnu varðandi hið nýja sjúkrahús.

Bæjarráð lýsir jafnframt sérstakri ánægju yfir því að umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi við byggingu og rekstur sjúkrahússins og að áhersla verði lögð á sjálfbærni og samspil við náttúruna og samræmist það jafnframt sjónarmiðum  Mosfellsbæjar. Mosfellsbær gaf nýverið út stefnu í umhverfismálum til ársins 2020 sem ber heitið Sjálfbært samfélag sem rímar mjög við stefnu PrimaCare.

Mosfellsbær hefur unnið að stefnumótun þar sem fram kemur að Mosfellsbær verði yfirlýstur heilsubær og leiðandi á sviði endurhæfingar, heilsueflingar og lýðheilsu á Íslandi. Eitt mikilvægasta fyrirtæki Mosfellsbæjar er Reykjalundur en fyrirtækið er í fararbroddi á sviði endurhæfingar í landinu.

Gert er ráð fyrir að hjá PrimaCare muni starfa rúmlega 600 manns og myndi fyrirtæki af þeirri stærðargráðu skipta miklu máli fyrir Mosfellsbæ. Yrði það mikið gleðiefni ef forsvarsmenn PrimaCare kjósa að reisa sjúkrahúsið í Mosfellsbæ.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ munu gera það sem unnt er til að greiða götu fyrirtækisins svo tryggja megi farsælan starfsvettvang þess í bæjarfélaginu.

Hér á heimasíðu Mosfellsbæjar má fletta kynningarefni sem Mosfellsbær tók saman vegna verkefnisins.


mbl.is Rætt um einkasjúkrahús í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar 2009

Ásdís og Sturla  1

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar verður haldinn hátíðlegur á morgun, föstudaginn 18. september.   Yfirskrift jafnréttisdagsins í ár er "Jafnrétti í skólum - Raddir barna".

Jafnréttisdagur Mosfellsbæjar er árlegur viðburður og er 18. september fæðingardagur Helgu J. Magnúsdóttur fyrrum oddvita Mosfellsbæjar. Helga lét sig málefni kvenna varða með ýmsum hætti. Hún var til að mynda formaður Kvenfélagasamband Gullbringu og Kjósarsýslu, og einnig formaður Kvenfélagasambands Íslands.

Mosfellsbær er hefur sl. tvö ár verið þátttakandi í verkefninu Jafnréttisfræðsla í skólum, í samvinnu við fjögur önnur sveitarfélög, Jafnréttisstofu og Félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þess vegna var ákveðið að tileinka jafnréttisdaginn í ár Jafnrétti í skólum, og yfirskrift dagsins er: Jafnrétti í skólum - raddir barna. Börn úr Mosfellsbæ á aldrinum 5 - 15 ára munu koma og fjalla um jafnréttismál út frá sínu sjónarhorni, líkt og sjá má nánar í dagskrá.

Dagskráin jafnréttisdagsins fer fram í Hlégarði, frá kl. 10 - 12.  Þátttak er ókeypis.

Dagskrá

10:00     Ávarp
Þorbjörg Inga Jónsdóttir, varaformaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar

10:15     Strákar og stelpur  
5 ára nemendur leikskólans Reykjakots

10:25     Jafnrétti í leik og starfi
Nemendur á yngsta stigi í Lágafellsskóla

10:40     Jafnrétti kynjanna frá landnámi til vorra daga
Myndband frá 4. bekk í Vogaskóla 2008-2009

10:50     Hlé - kaffi, te, kleinur og djús

11:15     Hvernig jafnréttisfræðslu viljum við fá í skólanum?
Nemendur unglingadeildar Varmárskóla

11:30     Þátttaka nemenda við framkvæmd jafnréttisáætlunar
Nemendur unglingadeildar Lágafellsskóla

11:45     Jafnréttisviðurkenning Mosfellsbæjar 2009
Jóhanna B. Magnúsdóttir, formaður fjölskyldunefndar Mosfellsbæjar

11:55     Ávarp bæjarstjóra
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar

12:00     Dagskrárlok

Fundarstjóri verður Sigríður Indriðadóttir, mannauðstjóri og jafnréttisfulltrúi Mosfellsbæjar


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband