Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Umferð á hættu- og neyðartímum - rannsóknarverkefni

18490_logreglan

Að undanförnu hef ég verið að vinna rannsóknarverkefni hjá VSÓ Rágjöf í samstarfi við Vegagerðina, lögreglu-, og almannavarnayfirvöld á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæði og varðar umferð á hættu- og neyðartímum.

Meginmarkmið með gerð verkefnisins var að öryggi fólks á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu við rýmingar á hættu- og neyðartímum, bæði samfélagslegs- og umferðarlegs eðlis. Með því er líka verið að uppfylla lagalega skyldu opinberra aðila s.s. laga um almannavarnir nr.82/2008, vegalög nr. 80/2008 og lögreglulög nr. 90/1996. Fyrri rannsóknir og umferðarlíkön sem unnin hafa verið af VSÓ Ráðgjöf eru styrkur fyrir verkefnið, sem reynsla og þekking samstarfsaðila.

u við rýmingar á hættu- og neyðartímum, bæði samfélagslegs- og umferðarlegs eðlis. Framkvæmdin fólst í því að kanna afkastagetu Reykjanesbrautar og útbúa umferðarlíkan til að herma flóttaumferð svo hægt yrði að leita flöskuhálsa í vegakerfinu og kanna möguleika á forgangsakstri þegar rýming er í gangi. Jafnframt að skoða hvernig ákjósanlegast væri að standa að umferðarlokunum og umferðarstjórnun þ.e. hvar er brýnast að loka vegum og hvaða áhrif það hefur að snúa akstursstefnum vega. Markviss upplýsingagjöf til almennings um stöðu mála mikilvæg við þessar aðstæður, ekki síst til þeirra sem eru úti í umferðinni. Því var talin þörf á að skoða hvernig best væri að standa að þeim þætti sérstaklega. Framkvæmdin fólst í því að kanna afkastagetu Reykjanesbrautar og útbúa hermilíkan til að herma flóttaumferð svo hægt yrði að leita flöskuhálsa í vegakerfinu og kanna möguleika á forgangsakstri þegar rýming er í gangi. Jafnframt að skoða hvernig ákjósanlegast væri að standa að umferðarlokunum og umferðarstjórnun þ.e. hvar er brýnast að loka vegum og hvaða áhrif það hefur aðsnúa akstursstefnum vega. Markviss upplýsingagjöf til almennings um stöðu mála mikilvæg við þessar aðstæður, ekki síst til þeirra sem eru úti í umferðinni. Því var talin þörf á að skoða hvernig best væri að standa að þeim þætti sérstaklega.

Svanhildur og Smári Ó samgönguverkfræðingar hjá VSÓ gerðu hermilíkanið og notuðu tvær sviðsmyndir við gerð þess:

1. Rýming Suðurnesja um Reykjanesbraut þar sem nýttar yrðu sömu akstursstefnur og eru í dag.

2. Rýming Suðurnesja um Reykjanesbraut þar sem akstursstefnum væri breytt á Reykjanesbraut og fleiri akbrautum.

Gert var ráð fyrir því að við rýminguna myndu að meðaltali þrír íbúar ferðast í hverjum bíl. Einnig var áætlað að um 1.500 bíla þyrfti til að rýma Keflavíkurflugvelli. Íbúatölur og fjöldi bíla í hverju bæjarfélagi fyrir sig.

Búið er að ljúka við gerð hermilíkans fyrir Reykjanesbraut að afleggjara álvers í Straumsvík þar sem notuð var raunstaða umferðar- og skipulagsmála í dag. Sýnir líkanið hver geta gatnamannvirkja er og hvar helstu flöskuhálsar Reykjanesbrautar eru ef til rýmingar Suðurnesja kæmi.

Fyrsti áfangi sýnir að verkefnið getur nýst sem grunnur í rýmingaráætlun fyrir svæðin vegna mismunandi áfalla, fjölda vegfarenda, umferðarstjórnunar og vegakerfis. Hægt er að vega og meta kosti við rýmingar á skipulagningarstigi, en jafnframt í daglegu starfi og gæti hermilíkanið nýst við skipulagsvinnu ríkis og sveitarfélaga. Niðurstöður sýna að mislægu gatnamótin reyndust vel í báðum sviðsmyndum og mun betur en hringtorgin. Því ætti að hafa í huga við gerð rýmingaráætlunar að leggja áherslu á að stjórna umferð þannig að fleiri bílar fari inn á Reykjanesbrautina á mislægum
gatnamótum.

Næstu skref felast í því að tengja hermilíkan Reykjanesbrautar við höfuðborgarsvæðið og leita leiða til að koma umferð í gegn um svæðið á sem auðveldastan hátt. Í þeim áfanga verður einnig stefnt að því að meta afkastagetu vegakerfisins með notkun Suðurstrandavegar, Ofanbyggðavegar, Sundabrautar eða annarra framtíðarvegatenginga á svæðinu og virkja sveitarfélögin á svæðinu enn frekar inn í vinnuna. Jafnframt verður skoðað betur hvernig best er að standa að upplýsingagjöf til almennings við rýmingar.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið lögð áhersla á upplýsingaþáttinn í fyrsta áfanga var sá þáttur ræddur. Fram kom hjá fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að fljótlega yrði tekið í notkun „Cell Brodcasting System" hjá Neyðarlínunni. Kerfið gerir Neyðarlínunni kleift að velja ákveðna GSM senda í dreifikerfinu og senda skilaboð á alla farsíma sem eru tengdir þeim sendum sem valdir eru. Þannig er hægt að koma leiðbeiningum og boðum til íbúa og ferðamanna sem eru tengdir viðkomandi sendum. Hægt að senda skilaboð á fleiri tungumálum en íslensku. Einnig er verið að vinna að 1-1-2 smáforriti („app") fyrir snjallsíma en þeir sem eru með það forrit í sínum síma geta notað það til að senda aðstoðarbeiðni til 1-1-2 ásamt staðsetningu. Rætt var um mikilvægi útvarpsstöðva í upplýsingagjöf og kom fram hjá fulltrúum almannavarnadeildarinnar að samkvæmt útvarpslögum skulu allar útvarpsstöðvar senda út þær tilkynningar sem almannavarnir óska eftir til að veita almenningi upplýsingar á hættu- og neyðartímum.

Ánægja er meðal samstarfsaðila um árangur verkefnisins og gagnsemi VSÓ hermilíkansins sem er sérstakt ánægjuefni þar sem um er að ræða þá aðila sem hafa ábyrgð á þessum málum og er því búið að taka skref í átt að heildstæðri rýmingaráætlun svæðanna. Fyrirliggjandi niðurstöður og reynsla opna jafnframt möguleika á því að útbúa slík hermilíkön og auka öryggi íbúa annarra þéttbýlissvæða á landinu.

Hér er hægt að lesa rannsóknarskýrslu fyrsta áfanga í heild sinni


Góð staða Mosfellsbæjar

mos

Á bæjarrásfundi í morgun var ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2011 lagður fram og honum vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Hér er fréttatilkynning sem send var vegna ársreikningsins.

Rekstur Mosfellsbæjar gekk vel á árinu 2011 og var rekstrarafgangur fyrir fjármagnsliði um 560 milljónir sem er um 10% af tekjum. Rekstur stofnana bæjarins var í samræmi við áætlun sem tókst með samstilltu átaki allra starfsmanna. Tekjur urðu meiri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, hinsvegar urðu verðbætur mun hærri og er það vegna meiri verðbólgu í landinu en gert var ráð fyrir. Því var að teknu tilliti til fjármagnsliða niðurstaðan neikvæð um 26 milljónir eða 0,4% af tekjum sem er rúmlega 40 milljónum betri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 8.822 þann 1. desember 2011 og hafði fjölgað um 2,2% frá
fyrra ári.

Skuldahlutfall niður í 148% af tekjum
Kennitölur úr rekstri bera vott um góða stöðu bæjarsjóðs. Veltufé frá rekstri er 677 millj.kr. sem 12% af rekstrartekjum og framlegð frá rekstri er 15%. Skuldahlutfall hefur lækkað niður í 148% en var 179% árið 2010 og er þar með komin niður fyrir 150% mörkin sem ný sveitarstjórnarlög setja sveitarfélögum. Er þetta þrátt fyrir að inn í þessum tölum sé lántaka vegna byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem er verkefni sem Mosfellsbær er að sinna fyrir ríkisvaldið. Eigið fé í árslok nemur 3.663 milljónum, jókst um 66 milljónir á árinu og er eigfjárhlutfallið 31%.

Fræðslu-, félags- og íþróttamál eru umfangsmestu verkefnin
Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 2.313 millj. kr. á árinu 2011 eða rúmlega 50% af skatttekjum. Til félagsþjónustu var veitt 864 milljónum og er þar meðtalin málefni fatlaðs fólks sem er ný þjónusta sem sveitarfélagið sinnir. Vel hefur tekist til við rekstur þessa nýja málaflokks og var hann samkvæmt áætlun. Íþrótta- og æskulýðsmál eru þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 523 millj. kr. á árinu 2011.

Nýr leikskóli og hjúkrunarheimili í byggingu
Í framkvæmdir var varið á árinu 2011 um 390 millj. kr. Stærsta einstaka framkvæmdin er bygging nýs 30 rýma hjúkrunarheimils við Hlaðhamra. Til þeirrar framvkæmdar runnu um 139 millj. kr. en áætlaður byggingarkostnaður er um 800 millj. kr. Nýr leikskóli var tekinn í notkun á árinu 2011, Leirvogstunguskóli og er það bylting í þjónustu við það hverfi sem er í örri uppbyggingu.

Mosfellsbær hefur nú lokið því þriggja ára ferli sem lagt var upp með til að bregðast við afleiðingum hrunsins. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 gerir ráð fyrir rekstrarafgangi ásamt töluverðri uppbyggingu. Lokið verður við byggingu hjúkrunarheimilis, nýr íþróttasalur byggður að Varmá og hafist handa við byggingu nýs framhaldsskóla í miðbænum í samvinnu við ríkisvaldið.

Reikningurinn verður lagður fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn 11. apríl og til síðari umræðu 25. apríl.

Hér er hægt að nálgast ársreikninginn og fjárhagsáætlunina. http://mos.is/Stjornsysla/Fjarmal/


Var ekki hugsað um umhverfisvernd í þá gömlu góðu?

Fékk þetta sent og mátti til með að birta þetta hér öðrum til umhugsunar. Margir hafa upplifað þessa þróun án þess að spá í það og aðrir þekkja ekkert annað en það sem hér er lýst. Við getum öll gert betur og gott að horfa í kring um sig og velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að gera betur.


Nýlega var ég að greiða fyrir vörurnar í matvöruversluninni og unga kassadaman lagði til að ég ætti að vera með eigin margnota vörupoka, þar sem plastpokar eru ekki umhverfisvænir. Ég baðst afsökunar og útskýrði að mín kynslóð hefði ekki hugsað svo mikið um náttúruvernd. Kassadaman svaraði að það væri einmitt vandamálið. "þín kynslóð hugsaði ekki nægjanlega um að vernda náttúruna fyrir komandi kynslóðir."

Hún hafði reyndar rétt fyrir sér að einu leiti - mín kynslóð hugsaði ekki mikið um náttúruvernd á þeim
tíma.

En hvað höfðum við á þeim tíma? Eftir að hugsa um þetta vel og lengi og að grafa djúpt í sálu minni komst ég að því hvað það var sem við höfðum....

Þá höfðum við mjólkurflöskur sem við skiluðum aftur, gosflöskur sem við seldum aftur. Verslunin sendi þær svo til framleiðandans, sem þvoði þær og notaði aftur. Þannig voru þær raunverulega notaðar margsinnis.

En við hugsuðum ekki um náttúruvernd.

Við gengum upp og niður tröppurnar þar sem lyftur og rúllustigar voru ekki í öllum verslunum, skólum og fyrirtækjum. Við gengum í búðina til að versla og við fórum ekki á bílnum í hvert sinn sem við
þurftum að fara nokkur hundruð metra.

En kassadaman hafði rétt fyrir sér - við hugsuðum ekki um náttúruvernd.

Þá þvoðum við bleyjurnar þar sem einnota bleyjur voru ekki til. Við þurrkuðum þvottinn okkar á þvottasnúrunni en ekki í orkufrekum skrímslum. Sól og vindur þurrkaði fötin okkar í þá daga. Börnin erfðu fötin af systkinum sínum, ekki alltaf nýjustu tískuna.

En kassadaman hafði rétt fyrir sér - við hugsuðum ekki um náttúruvernd.

Á þeim tíma var aðeins til eitt sjónvarp á heimili ef það var yfir höfuð til á heimilinu, ekki eitt í hverju herbergi heimilisins. Sjónvarpið var einnig á stærð við vasaklút - ekki eins og Heimaey.

Í eldhúsinu blönduðum við öllu saman með handaflinu, þeyttum með handpískara. Við áttum ekki til vélar sem gerðu allt fyrir okkur. Þegar við pökkuðum viðkvæmum hlutum notuðum við gömul dagblöð til að vernda þá, við áttum ekki kúluplast eða plastfyllingarefni.

Á þeim tíma settum við ekki í gang bensíngráðuga mótora til að slá grasið, við notuðumst við handsláttuvélar sem við ýttum á undan okkur með eigin orku. Líkamsrækt okkar var þessi daglega vinna okkar þannig að við þurftum ekki að fara í líkamsræktarstöðvar sem nota rafmagsntæki
svo sem hlaupabretti, tröppuvélar og fleira.

En kassadaman hafði rétt fyrir sér - við hugsuðum ekki um náttúruvernd.

Við drukkum vatnið úr krananum í stað þess að nota plastglas eða flösku í hvert sinn. Við fylltum
blekpennann aftur þegar blekið kláraðist í stað þess að kaupa nýjan penna. Við skiptum um rakvélarblað í rakvélinni, í stað þess að henda helmingi raksköfunnar, þegar blaðið hætti að bíta.

En kassadaman hafði rétt fyrir sér - við hugsuðum ekki um náttúruvernd.

Á þeim tíma forum við á milli staða með strætó, börnin hjóluð eða gengu í skólann í stað þess gera foreldrana að leigubílastöð (opinni 24 tíma á sólahring). Við höfðum eina innstungu í hverju herbergi (í besta falli) í stað þess að hafa margar innstungur á hverjum stað og á nokkrum stöðum í hverju herbergi.Við þurftum ekki að hafa tölvuapparöt sem senda tölvuskeyti 20000 km út í heiminn til þess að finna nálægan pizzastað.

Er ekki sorglegt hve kynslóð dagsins í dag kvartar yfir hve eldri kynslóðir gengu á auðlindir náttúrunnar - bara vegna þess að við vorum ekki "umhverfissinnuð"?


Börn í hamförum - afleiðingar hamfara í Japan 2011- 1 hluti

skolaborn

Börn og ungmenni eru hluti samfélagsins og verða þau fyrir áföllum eins og aðrir komi til hamfara líkt og í Japan í fyrra þar sem jarðskjálftar, flóðbylgjur og kjarnorkuslys orsökuðu þær verstu hamfarir sem Japanir hafa þurft að takast á við.

Þar sem ég hef verið að vinna viðbragðsáætlanir með sveitarfélögum þar sem sérstaklega er tekið á þessum þætti langaði mig til að vita hvernig staðið hefði verið að þessum málum  á þeim hamfarasvæðum sem ég fór um  í Japan.

Það ánægjulega er að skoðun mín leiddi í ljós margt mjög jákvætt, sem var ljós í myrkrinu ef svo má segja og ýmislegt sem við getum lært af hér heima.

Hér eru sögur af skólabörnum. Jarðskjálftinn stóri reið yfir kl.14:46 á föstudegi þegar flest börn voru enn í skóla.

Daiich junior high_

Í Taro Daiichi grunnskólanum-eldri deild. Fyrst kom jarðskjálftinn og brugðust allir rétt við. Þá leit starfsmaður til sjávar og sá hvítfrussandi öldu við sjóndeildarhring og kallaði „FLÓÐBYLGJA, RÝMING!"

15 kennarar og 122 nemendur klifu brekkuna bak við skólann og björguðu sér. 70 nemendur misstu heimili  sitt og allir innanstokksmunir og gögn í skólanum eyðilögðust.

okiara_primary school_ofunato

Okirai grunnskóli-yngri deild. Það var nýbúið að gera brú svo hægt væri að rýma út á aðalgötuna. Hún kom sér vel við rýminguna því enginn slasaðist eða lést eftir hamfarirnar og allir komust út sem hefði verið erfitt þar sem skólinn var á efri hæð. Eldri börnin leiddu þau yngri og allir fóru hljóðlega á áfangastað efst í brekkunni.

okirai_primary_school_bruin

Það jákvæða var að starfsfólk og nemendur voru búin að æfa viðbrögð og því gekk rýming vel fyrir sig. Það létust þó nemendur sem voru veik heima, eða foreldrar voru búin að sækja í skólann. Búið er að breyta reglum og geta foreldrar ekki lengur sótt börnin í skólann þegar búið er að gefa út flóðbylgjuviðvörun.

tsunami_prevention_card_tarodaiichiPS Flóðbylgju forvarnaleikur í grunnskóla

Hlutfall látinna skólabarna og þeirra sem enn saknað er í 11 borgum og bæjum Iwate er 36 af 20.152 eða 0,18% af heildarfjölda nemenda í grunnskólum héraðsins. Í tveimur bæjum sem fóru mjög illa var hlutfallið hærra. Í Otsuchi var hlutfallið 11,29% og Rikuzentakata 9,26%.

Ég mun skrifa fleiri frásagnir um börn og hamfarir á næstu dögum.


Viðbót við viðtal á Rás 2 um hamfarirnar í Japan

herdis_ras2

Hér er hægt að hlusta á viðtal við mig á Rás 2, 13 mars 2012 um hamfarirnar í Japan 11. mars 2011 og Kizuna námskeiðið í Japan sem ég sótti á 51 viku frá hamförunum. 

Það er alltaf eins í stuttum viðtölum að hlutirnir komast ekki allir til skila. Ég hefði líka viljað ræða þetta jákvæða að flest skólabörn komust af því þau voru vön rýmingum, að fólk sé að nýta reynsluna til að endurskoða viðbragðsáætlanir, endurskoða skipulagsmál og huga að fæðuöryggi svo eitthvað sé nefnt.

Ég nefni þrennslags hamfarir og nefni í sjálfu sér aldrei hvaða. Fyrst var það þessi risastóri jarðskjálfti fyrir utan Tohoku, sem er einn af þeim fimm sterkustu jarðskjálftum sem mælst hafa í heiminum frá því að mælingar hófust og sá sterkasti í Japan. Síðan koma fljóðbylgjurnar í kjölfar jarðskjálfta hafa aldrei verið stærri og sögðu heimamenn þetta vera "á 1000 ára fresti" atburð. Því fylgdi svo kjarnorkuslysið í Dai-ichi kjarnorkuverinu í Fukushima. Strax voru 80 þúsund manns sem bjuggu innan við 20 kílómetra frá Fukushima verinu fluttir í burtu. Síðan mun fleiri og hafast enn sumir við í fjöldahjálparstöðvum, þrátt fyrir að flestir hafi fengið húsnæði sem ríkið sér þeim fyrir í 2 ár.

Síðan truflaðist allur infrastructur í landinu og sérstaklega á hamfarasvæðinu. 10% fiskihafna skemmdust, orkuskömmtun og -truflanir, veitukerfi og margt margt fleira.

Nefnd voru tvö rannsóknaverkefni sem ég er að vinna. Ég nefni aðeins annað þeirra, "Byggjum öryggara samfélag". Hitt verkefnið er "Umferð á hættu- og neyðartímum" og snýst um að gera umferðarlíkan sem nýtis við gerð rýmingaráætlana fyrir Suðurnes og höfuðborgarsvæðið og er það styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Byggjum öruggara samfélag er styrkt af Viðlagatryggingu Íslands og er tvíþætt. Annars vegar að gera handbók sem nýst getur sveitarfélögum við gerð viðbragðsáætlunar. Áherslur breyttust varðandi þann þátt og er nú stefnt að því að aðstoða sveitarfélög sem vilja við að útbúa viðbragðsáætlanir fyrir innri starfsemi sína. Aðeins eru 3 sveitarfélög með slíka áætlun í dag. Hinn hlutinn er að taka saman forvarnaefni svo almenningur geti betur tekið ábyrgð á eigin öryggi. 

Verkefnin eru unnin í samvinnu við lykilaðila í skipulagi almannavarna, enda mikilvægt að allir fari í sömu átt. Fyrir þá sem hafa áhuga á því að skoða þær áhættur sem metnar hafa verið í sínu nærumhverfi eru hvattir til að fara inn á heimasíðu almannavarna almannavarnir.is og skoða áættumat sem búið er að gera fyrir allt landið. Það var unnið af heimamönnum í hverju lögregluumdæmi fyrir sig. 

Líkt og ég nefndi í viðtalinu þá tel ég okkur geta lært af þessum hamförum í Japan og mun nota reynsluna í doktorsverkefninu mínu. Ég segi "taktu ábyrgð á eigin öryggi í stað þess að bíða eftir að aðrir segi þér hvað á að gera". Farðu á skyldihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum, gerðu heimilisáætlun, hugaðu að tryggingarmálum og festu þunga hluti ef þú býrð á jarðskjálftasvæði. Notaðu eigið hyggjuvit til að byggja öruggara samfélag!


Í framboði til allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins

Allsherjar og nemmtamálanefnd fjallar um dóms- og löggæslumál, mannréttindamál, ríkisborgararétt, neytendamál, málefni þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga og jafnréttismál, svo og um mennta- og menningarmál og vísinda- og tæknimál.

Herdís Sigurjónsdóttir

Rituhöfða 4, 270 Mosfellsbær

Bæjarfulltrúi og doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands

Hér er 200 orða framboðsútgáfan af mér:

Ég gef kost á mér því ég tel mig hafa bæði menntun og reynslu sem muni nýtast vel í málefnastarfinu og löngun til að takast á við þau verkefni sem framundan eru.  

Ég er gift þriggja barna móðir, fædd og uppalin á Siglufirði. Ég hef búið í Mosfellsbæ frá árinu 1990 og setið í bæjarstjórn frá árinu 1998 og formaður bæjarráðs frá 2007. Ég hef gengt ýmsum trúnaðarstörfum s.s. forseti bæjarstjórnar, formaður fræðslunefndar, fjölskyldunefndar (einnig jafnréttisnefnd), heilbrigðisnefndar og  SORPU bs. Sat í Brunamálaráði og sit í almannavarnanefnd, fagráði Brunamálaskólans og hópi á vegum forsætisráðuneytisins sem hefur það hlutverk að bæta verklag vegna tjónamála eftir náttúruhamfarir.

Ég hef starfað hjá VSÓ Ráðgjöf frá 2009 og var að hefja námsleyfi. Starfaði áður hjá Rauða krossi Íslands og þar áður við fisksjúkdómarannsóknir á Keldum. Menntun mín er  þverfræðileg. Ég er lífeindafræðingur og lauk meistaranámi við umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Meistaraverkefnið fjallaði um hlutverk sveitarstjórna á neyðartímum og við endurreisn samfélaga eftir hamfarir. Nú stunda ég doktorsnám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Doktorsverkefnið fjallar um stefnu Íslands í almannavarna- og öryggismálum sem tekur til allra þátta íslensks samfélags og stjórnsýslu. Ég hef stýrt og tekið þátt í fjölmörgum rannsóknarverkefnum í starfi mínu og námi.


Kizuna International Seminar Iwate University Japan

Þegar ég fékk póstinn frá Alþjóðaskrifstofu háskóla Íslands um námskeið um náttúruhamfarirnar í Japan sem urðu 11. mars í fyrra var ég staðráðin í því að sækja um. Námskeiðið var haldið á vegum Iwate háskóla í Japan sem er í samstarfi við HÍ og greitt af japanska ríkinu. Ég var svo lánsöm að vera valin úr hópi umsækenda sem sérlegur doktorsnemi við HÍ og áður en ég vissi var ég komin í flug, fyrst til Kaupmannahafnar, en þaðan í beinu flugi til Tokyo í Japan.

DSC03432

Þetta var mitt fyrsta skipti í Japan og voru allir skynjarar því á fullu að nema menningu og líf frá fyrstu mínútu. Það var búið að grínast með það að ég ætti nú loksins eftir að vera í hærra lagi (sem er ekki daglegt brauð þegar maður er rúmlega 160), ég yrði að syngja Karókí í morgunmatnum og svo væri sushi í öll mál. En það var alls ekki svo. Ég var enginn risi, bara svona meðal og dökka hárið grásprengda varð til að ég féll bara nokkuð vel inn í hópinn. Ég fékk aldrei tækifæri til að syngja í karoke og fékk ekki einn einasta sushi bita eins og við borðum yfirleitt hér, en fullt af hárum fiski, grænmeti og hrísgrjónum og dásamlega góðum mat. Ég fékk meira að segja íslenskan karfa og japanska geit.

Það sem ég tók fyrst eftir var hreinlætið og hvað allir voru kurteisir og tillitssamir, svo ekki sé minnst á hvað maturinn var fallega fram reiddur. Hvar sem ég kem er maturinn eitt af AÐAL og verð ég að segja að óætt er að mæla með japönskum mat. Fannst mér allt gott nema Gjosa, sem eru kæstar baunir sem voru aðeins og slímugar fyrir minn smekk, en stútfullar af próteinum og hollustu og var greinilegt að þeim fannst þetta gott.

IMG_0595

Ég beið á flugvellinum í Tokyo eftir þátttakendum 1 frá Tælandi og 2 Kóreu og ferðuðumst við saman í lest upp til Morioka, sem er höfuðborg Iwate héraðsins. Kínvesku þátttakendurnir 6 voru þegar komin. Þegar til Maroka var komið tók hluti japönsku nemendanna á móti okkur og fórum við út að borða áður en lagst var til hvílu. Voru þá 28 tímar liðnir frá því að ég lagði í hann frá Íslandi.

Þegar ég lagðist á koddann var ekki laust við að erfitt væri að sofna vegna hugsana um námskeiðsdagana sem biðu.

IMG_0845

Næstu daga verða sagðar fréttir frá ferðinni á hamfarasvæðin studdar með myndum.

DSC02772 

Inniskór á flestum stöðum þar sem maður kom og hreinlæti mikið.


Rikuzentakata í Japan 51 viku eftir hamfarirnar 11. mars 2011

DSC03532 

Það var ótrúleg lífsreynsla að fá tækifæri til að fara um hamfarasvæðin í Japan í síðustu viku, tæpu ári eftir hamfarirnar miklu í Japan í fyrra. Fyrst stórum jarðskjálftum sem komu af stað risa flóðbylgjum sem höfðu hræðilegar afleiðingar og ekki síst í fiskibænum Rikuzentakata í Iwate sem við fórum um. Það var trist að sjá nýlagðar götur og húsabrak í stórum fjöllum um allan bæ. Einstaka hús uppistandandi í miðbænum sem áður iðaði í mannlífi. Eina lífið voru þeir sem enn voru að hreinsa brakið, allir með grímur til að varna mengun og sýkingum.

Þetta er eitthvað sem ég á aldrei eftir að gleyma og veit ég að margir eiga um sárt að binda. 16 metra háar flóðbylgjur tóku líf rúmlega 1.500 af 24.000 íbúum bæjarins og voru þar á meðal margir opinberir bæjarstarfsmenn, lögregla og slökkviliðsmenn sem komnir voru saman til að takast á við afleiðingar skjálftans þegar flóðbylgjan reið yfir. Tæplega 300 er enn saknað.

DSC03525

DSC03560

DSC03595

DSC03511

DSC03486

DSC03568


mbl.is Leita að líkum ári eftir flóðbylgju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband