Áhyggjulaust ævikvöld í Mosfellsbæ

Ný kynslóð aldraðra hefur sagt ellikellingu stríð á hendur og ætlar að njóta ævikvöldsins. Það er hlutverk samfélagins að koma í veg fyrir félagslega einangrun aldraðra og gefa þeim tækifæri til að taka þátt í samfélaginu á þeirra eigin forsendum. Þannig má koma í veg fyrir mörg sársaukafull og kostnaðarsöm vandamál.  Heilbrigði er dýrmætasta eign hvers einstaklings og um leið ein verðmætasta auðlind hverrar þjóðar.

Lýðheilsa eldri borgara

Hér á landi hefur ekki mikið verið fjallað um lýðheilsu aldraðra en mikilvægt er að hlúð sé að þeirra þörfum. Óþægilegir fylgikvillar ellinnar eru kvíði, þunglyndi og félagsleg einangrun. Mikilvægi hreyfingar og félagslegrar virkni er stór þáttur í því að halda heilsu og því ánægjulegt að fylgjast með öflugu- íþrótta og félagsstarfi aldraðra í Mosfellsbæ.

Bætt félagsaðstaða

Sjálfstæðismenn  í Mosfellsbæ fagna öflugu starfi FaMos, Félagi aldraðra í Mosfellsbæ. Við ætlum að bæta aðstöðu aldraðra með nýrri félagsmiðstöð sem Mosfellsbær byggir samhliða hjúkrunarheimili, sem brátt rís við Langatanga. Jafnframt bjóðum við FaMos, aðstöðu í Brúarlandi þegar Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ flyst yfir í nýtt húsnæði og fela þeim aukin verkefni. 

Öldrunarsetur

Með byggingu hjúkrunarheimilis við öryggisíbúðir verður markmið okkar um öldrunarsetur sem hófst árið 2003 náð. Fagnaðarefni er að fljótlega verður hægt að veita heildstæða þjónustu við aldraða í Mosfellsbæ. Það er ekki síður mikilvægt að styðja við bakið á þeim sem velja að dvelja sem lengst heima s.s. með samþættingu heimahjúkrunar og félagslegrar aðstoðar.

Systurnar heilbrigði og gleði ná yfirleitt miklum árangri saman. Heilsan er það mikilvægasta sem við eigum og  það ekki fyrr en hún brestur að fólk áttar sig á hve miklu máli hún skiptir.  Við sjálfstæðismenn viljum öflugt samstarf við FaMos og stuðla að því aldraðir í Mosfellsbæ fái notið aukinna lífsgæða og virkrar þátttöku í samfélaginu.

Grein birtist í Morgunblaðinu 14. maí 2010

Höfundar eru Herdís Sigurjónsdóttir og Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Mosfellsbæ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband