Leikhúsið við Austurvöll

Ég hef verið mjög hugsi yfir ástandinu að undanförnu og sé ekki annað en að þjóðarskútan sigli um stjórnlaus, í það minnsta án siglingartækja.

Við sveitarstjórnarmenn ræddum okkar mál á þingi sambandsins í síðustu viku, sem er fyrsta þing eftir sveitarstjórnarkosningar. Við ræddum ástandið í samfélaginu og tækifæri og var yfirskrift þingsins Nýtt umhverfi - Ný úrlausnarefni - Ný tækifæri. Frekar jákvætt, en við gerum okkur samt öll grein fyrir því að árið 2011 verði það erfiðasta í rekstri sveitarfélaganna í langan tíma. Í Mosfellsbænum bundum við vonir við að árið 2011 værum við farin að sjá til sólar, en því miður ætlar það ekki að ganga eftir og nokkuð ljóst að fjárhagsáætlunargerðin verður erfið.

Á sambandsþinginu kom fram hjá einum þingfulltrúa að sveitarfélögin ættu að taka að sér vinnu Alþingis. Einnig kom fram að við værum komin mun lengra í endurreisnarvinnunni en Alþingi og værum fyrir löngu farin að vinna á meðan enn væri verið að karpa um leiðir og unnið gegn uppbyggingu í atvinnumálum, sem væri forsenda endurrisnar. Sorglegt en satt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í borginni var með framsögu á þinginu. Frábær stjórnmálamaður þar á ferð. Í þessum framsögum sínum ræddi hún m.a. þjónustu við íbúa á erfiðum tímum og leit að lausnum. Ferskur blær um mikilvægi samstöðu pólitíkusa og samvinna við embættismenn og íbúa. Þar sem vikið er frá hefðbundnum leiðum, stokkað upp á nýtt og horft fram hjá því hver átti hugmyndina, sem hefur verið ríkjandi í stjórnmálum. 

Samstaða og samstarf allra flokka er ekki algilt hjá sveitarfélögum, en er sem betur fer hjá okkur hér í Mosfellsbænum. Höfum við unnið sem einn maður að fjárhagsáætlunargerðinni undanfarin tvö ár. Ég vona að svo verði áfram og veit að fenginni reynslu hvað það skiptir miklu máli. Þá er ég ekki að segja að bæjarráðið hafi verið sammála um leiðir og nálgun í upphafi, en við ræddum okkur niður á niðurstöðuna í samvinnu við íbúa og starfsmenn. Hafa fjölmargir starfsmenn komið að máli við mig og sagt hvað þetta auðveldi vinnuna á þessum erfiðu tímum, sem gerir mann enn einbeittari í því að ná samstöðu.

En hvað með Alþingi? Hvert er verið að stefna þar? Við Sædís Erla sem er nýorðin 7 ára lágum saman í gær og vorum að lesa undir útsendingu frá Alþingi og mótmælum á Austurvelli. Sædís varð ánægðust með að sjá ömmu Haddý bregða fyrir annað slagið á skjánum, eða Ragnheiði Ríkharðs sem er amma hálfrar sveitarinnar. Hún var ekkert að spá í mótmælin og var ég ekki að ræða þau neitt sérstaklega. Svo áttaði ég mig á því þegar hún sá forsíðuna á mogganum í morgun að hún hélt að Alþingi væri leikhús og mótmælin væru partur af sýningunni. Það segir kannski sitt um ástandið.

Það liggur eitthvað í loftinu og nokkuð ljóst að þrátt fyrir að fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafi skipt um skoðun á ástæðu þess að fólk flykkist á Austurvöll til að mótmæla. Viðsnúninginn má sjá og heyra í þessari frétt,  Þetta gengur ekki lengur svona.  Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir hefur áttað sig á þessu, en eftir mótmælin sagði hún að nú sé mikilvægt að taka höndum saman og finna lausnir fyrir fólkið. Þó fyrr hefði verið segi ég!

Ég er hrædd um að það sé mögulega of seint fyrir samstöðustjórn eða Þjóðstjórn og svo hefur mér líka sýnst lítill áhugi á aðkomu stjórnarandstöðunnar. Mikið vildi ég að Alþingi hefði tekið starfshætti okkar sveitarstjórnarmanna sem viljum samstöðu til fyrirmyndar. Það vita það allir að stjórnarandstaðan hefur boðið samstarf við að koma heimilunum í landinu í var, boð sem ekki var þegið. Skjaldborg hvað!

Eitt er ljóst í mínum huga að hvort sem samstaða næst um leiðir nú, eða boðað verður til kosninga verður að ná stjórn á þjóðarskútunni.  


mbl.is Ekkert boð komið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband