Öldrunarþjónusta í Mosfellsbæ

Eftir: Herdísi Sigurjónsdóttur

Birtist í Morgunblaðinu 13. maí 2006

MOSFELLSBÆR er eitt fárra sveitarfélaga í landinu sem hafa ekki tryggan aðgang að hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Þessi staða er óviðunandi fyrir ört vaxandi sveitarfélag sem telur um 7.300 íbúa.

Á vegum bæjarfélagsins eru 20 íbúðir fyrir aldraða í íbúða- og þjónustuhúsnæði við Hlaðhamra þar sem rekin er umfangsmikil sólarhringsþjónusta. Í sama húsi er þjónustu- og félagsmiðstöð fyrir aldraða.

Til að mæta ört vaxandi þjónustuþörf hafði bæjarstjórn Mosfellsbæjar árlega sótt um styrk til Framkvæmdasjóðs aldraðra til byggingar hjúkrunarheimilisdeildar í tengslum við Íbúða- og þjónustuhús aldraðra við Hlaðhamra. Þessu var ætíð synjað. Hugmyndir bæjaryfirvalda voru í þá tíð að byggja 24 rýma hjúkrunarheimili þar sem nú eru að rísa öryggisíbúðir.

Á þessu kjörtímabili eða árið 2003 tóku bæjaryfirvöld ákvörðun um að ganga til samstarfs við Eir um uppbyggingu öldrunarseturs í Mosfellsbæ þ.e. byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis, öryggisíbúða og þjónustumiðstöðvar. Með samstarfinu var líka leitast við að tryggja Mosfellingum eftir atvikum vistun á Eir uns búið væri að byggja hjúkrunarheimili í bæjarfélaginu. Í lok síðasta árs dvöldu 15 Mosfellingar á Eir og hafa alls 23 fengið hjúkrunarrými þar frá 2003. Þetta samstarf hefur gjörbreytt þeim aðstæðum sem sjúkum öldruðum í Mosfellsbæ og aðstandendum þeirra var gert að þola. Vart er hægt að hugsa sér í hvaða stöðu við værum í dag ef ekki hefði komið til samstarfsins við Eir.

Rekstur hjúkrunarheimilis og öryggisíbúða undir sama þaki er hagkvæmur kostur bæði þegar tekið er tillit til nýtingar húsnæðis og reksturs þjónustunnar. Þannig er hægt að veita umfangsmikla heimaþjónustu og draga úr kostnaðarsamri og ótímabærri stofnanaþjónustu. Þannig er öldruðum gert kleift að búa sem lengst á eigin heimilum og halda ráðstöfunarrétti yfir eigin tekjum og halda þar með fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Staðan í dag

Hafin er bygging 39 öryggisíbúða sem gert er ráð fyrir að verði tilbúnar í ársbyrjun 2007. Öryggisíbúðirnar verða samtengdar þeim 20 íbúðum sem þegar eru fyrir hendi í bæjarfélaginu og verður þeim íbúðum einnig breytt í öryggisíbúðir. Óskað hefur verið eftir framkvæmdaleyfi frá heilbrigðisráðherra fyrir byggingu hjúkrunarheimilisins án mótframlags og lögð fram áætlun þess efnis. Búið er að breyta deiliskipulagi þess svæðis sem byggja á hjúkrunarheimilið á og hefur frumhönnun farið fram. Þar er gert ráð fyrir 40 rýma heimili samansettu af fjórum 10 rýma einstaklingsrýmum á fallegum stað í miðbæ Mosfellsbæjar. Þar er einnig gert ráð fyrir þjónustumiðstöð.

Við sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ viljum taka við þjónustu aldraðra frá ríkisvaldinu og byggja upp öfluga einstaklingsmiðaða þjónustu í bæjarfélaginu. Við munum byggja þjónustumiðstöð við Hlaðhamra þar sem veitt verður heildstæð þjónusta og viljum samþætta heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu til að hægt sé að mæta mismunandi þörfum fólks, í Mosfellsbæ þar sem allir skipta máli.

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og formaður fjölskyldunefndar og skipar 3. sæti framboðslista sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.



Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband