Hinn íslenski lögregluher

Ég fór inn á heimsíðu Björns Bjarnasonar og las ræðu sem hann flutti á fundi Samtaka um vestræna samvinnu og Varðbergs 29. mars sl. Þarna fer Björn yfir það, lið fyrir lið, hvernig hann hefur unnið að málum í dómsmálaráðuneytinu frá því að samkomulag um framtíðarskipan landvarna Íslands á grundvelli varnarsamningsins við Bandaríkin frá 1951 var gert 26. september 2006. Ríkisstjórnin birti yfirlýsingu um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins og má sjá alla liðina hér fyrir neðan.

Það var fróðlegt að lesa þetta yfirlit yfir það sem áunnist hefur og má með sanni segja að Björn Bjarnason sé framkvæmdastjórnmálamaður. Ég hafði þó sérstakan áhuga á að kynna mér betur þriðja lið yfirlýsingarinnar sem snýr að nýskipan lögreglumála, aukinni samvinnu viðbragðsaðila og varaliði lögreglu. En varaliðið hefur verið mikið í fréttum undanfarið og fólk hefur gengið svo langt að kalla það "hinn íslenska her".

Þó ég hafi ekki séð endanlegar tillögur eða útfærslu er augljóst að verið er að efla heimavarnir sem ég tel vera af hinu góða. Lagt er til að lögreglulögum verði breytt og ríkislögreglustjóra verði heimilað, að fengnu samþykki dómsmálaráðherra, að bæta við varaliði lögreglu og almannavarna. Slík heimild var í lögreglulögum frá 1940 til 1996, þannig að í raun er ekki um nein nýmæli að ræða.

Samkvæmt frumvarpinu verður ríkislögreglustjóranum falið að halda utan um þetta varalið og búnað þess, en hvort tveggja tæki mið af varðgæslu mikilvægra mannvirkja eða staða, landamæragæslu, verkefnum vegna öryggisgæslu, mannfjöldastjórnun, almennum löggæsluverkefnum, umferðarstjórn og sérstökum verkefnum

Nú hvaða fólk á síðan að skipa þetta varalið lögreglu og almannavarna? Samkvæmt tillögunni yrði kallað til starfa fólk úr röðum björgunarsveita, slökkviliðs, sjúkraflutninga, öryggisvarða, friðargæsluliða og fyrrverandi lögreglumanna eftir sérstaka þjálfun á vegum ríkislögreglustjóra.

Ég sé ekki annað en að með þessum tillögum sé verið tryggja faglegt starf á neyðartímum. Það veit hver sé sem hefur komið að stórslysaæfingum og almannavarnaaðgerðum að ekki er nægjanlegt að hver viðbragðseining geti unnið sitt starf, það er samhæfingin, samstarf og samskipti við aðrar viðbragðseiningar sem skiptir máli til að hlutirnir gangi vel fyrir sig. Með góðri samhæfingu eins og reynsla er komin á með samhæfingarstöð almannavarna er hægt að tryggja góða þjónustu og aðstoð við borgarana á hættu og neyðartímum.  

Talað hefur verið um að við höfum öflugt almannavarnakerfi og að hjálparlið almannavarna (björgunarsveitir og Rauði krossinn) geti alveg verið þetta varalið. Vissulega er hjálparlið almannavarna mikilvægt á neyðartímum og er um að ræða ýmis verkefni sem sinnt er eins og leit og björgun og rekstur fjöldahjálparstöðva. En í þessari ágætu tillögu er ekki eingöngu verið að ræða um sjálfboðaliða heldur einnig aðrar mikilvægar starfsstéttir. Því sýnist mér að þarna sé verið að ræða um þjálfun og samhæfingu aðila, sem eins og ég sagði áður skiptir öllu máli þegar á reynir.

 

Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006

Í fyrsta lið var lýst yfir því, að stofnað yrði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli. Skyldi félagið koma svæðinu og mannvirkjum á því með skipulegum hætti í arðbær borgaraleg not án þess að valda röskun á samfélaginu í næsta nágrenni vallarins.

Í öðrum lið lýsti ríkisstjórnin yfir því, að til að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir komið á fót miðstöð, þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar, sem koma að öryggismálum innanlands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar skyldu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar yrði á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra, en honum var falið að leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Þriðji liður segir, að samhliða því sem unnið verði að nýskipan lögreglumála, verði samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kunni að verða þörf í landinu.

Fjórði liður segir, að tryggja verði íslenskum yfirvöldum lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og. alþjóðastofnanir, þar sem skipst er á trúnaðarupplýsingum

Fimmti liður segir, að unnið verði að því að koma á öflugu öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem nái til alls landsins.

Sjötti liður skýrir frá ráðstöfunum til að efla þyrluþjónustu landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip verði keypt.

Sjöundi liður er um að komið verði á laggirnar samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna, þar sem fjallað verði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli.

Áttundi liður snertir breytingar innan stjórnarráðsins, þegar verkefni færast frá utanríkisráðuneyti til annarra.

Níundi liður snýst um, að gerðar verði ráðstafanir til að lesa úr öllum merkjum frá Ratsjárstofnun, sem þýðingu hafa varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands

Eins og áður var sagt er hægt að lesa á heimasíðu Björns hvað hefur áunnist í þessum málum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Hef talað við lögreglumenn sem segja að Björn sé langbesti dómsmálaráðherra sem hefur verið lengi og þeir efast um að það komi annar eins góður í bráð.

Segir nú ýmislegt um dugnað Björns

Ágúst Dalkvist, 31.3.2007 kl. 18:15

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já það má með sanni segja að Björn sé duglegur. Hann nær yfirsýn, kemur sér vel inn í málin og framkvæmir, alveg ótrúlegur maður. 

Herdís Sigurjónsdóttir, 31.3.2007 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband