Vesturfarar, annar hluti

Pálsson afkomendur

Ég keyrði til Grindavíkur í gær með spennuhnút í maganum. Ástæðan var sú að ég var að fara að hitta nýfundna ættingja mína frá Kanada. Þegar ég keyrði eftir aðalgötunni fékk ég símtal frá Brynju sem sagði að þau væru komin í Lautina, en þar væri ekkert hús númer 10. En ég hafði í einhverju rugli sagt þeim að Kristín systir ætti heima í númer 10 en ekki 26. En við náðum saman og keyrðum í samfloti að húsi númer 26, húsinu þar sem búið var að flagga Liverpool fánanum.

Við fórum út út bílunum og hitti ég frænkur mínar Pat og Valerie og sjálfa Brynju sem ég er búin að vera í sambandi við. Rétt á eftir komu svo þeir Páll Pálsson frændi minn, Doug maður Valerie og Þorvaldur maðurinn hennar Brynju. Þegar inn var komið tók pabbi á móti Páli frænda sínum og voru miklir fagnaðarfundir. Þeir voru glettilega líkir þremenningarnir, prófíllin og ekki síst nefið sem er víst eitt af ættareinkennunum sem flutt var út til Vesturheims á þar síðustu öld.

Við höfum um margt að spjalla og fljótlega var Kristín systir og Halla búnar að framreiða dýrindis lambakjöt a la Ísland, sem allir voru á einu máli um að væri það besta í heimi. Meira spjall og myndasýningar. Ég líktist stórum hópi af fræknum vestra og pabbi var mjög líkur einum bróður Páls og afkomenda og pabbi var á því að Páll frændi líktist meira Steina bróður pabba sem dó um þrítugt. Páll talar íslensku eins og innfæddur og Valerie og Pat tala líka þó nokkuð og skilja það sem sagt er. Pabbi og Páll sátu lengi og ræddu um ýmislegt saman, bæði gamla tímann og muninn á Kanada og Íslandi.

Það kom í ljóst að þau vissu ekki að tvær systur Páls Jónssonar hefðu líka flust vestur um haf eða þær Engilráð og Þorbjörg og ætla ég að skoða betur þeirra sögu. Ég komst að því að haldin eru ættarmót Pálsson fjölskyldunnar í Kanada. Síðasta mótið var haldið fyrir 10 árum síðan og frá því að það var haldið hafa margir af þeim elstu látist og eins hafa nýir Pálssonar bæst við. Þær Valerie og Pat eiga þrjú systkini. Þær eru elstar og síðan kemur Raymond sem nú hefur tekið við búi Páls. Yngstar eru svo þær Roslyn og Deanna. Barnabörn Páls eru orðin 14 og komið er eitt lítið barnabarnabarn. Við ræddum um ættarmót í Kanada og væri svo sannarlega gaman að fara saman til vesturheims og hitta ættingjana og er það komið á to do listann nú þegar.

Bróðir minn Jóhann býr í Seattle og kom í ljós að sonur Valerie og Dougs býr í Vancouver sem er rétt handan landamæra Kanada. Ég talaði við Jóhann í gær og sagði honum frá þessu og langar hann til að hitta Trevor frænda sinn. Hann lifnaði líka allur við þegar ég sagði að það væri allt fullt af gæsum á túnunum hjá þeim sem biðu eftir því að hann kæmi.

Þetta var aðeins fyrsta sinn sem við hittumst og til að tryggja örugg og góð samskipti var skipst var á netföngum og símanúmerum. Ég kom með þá tillögu að við ættum að setja upp heimasíðu afkomenda Jóns Pálssonar og kom Doug með uppástungu um þann sem ég gæti virkjað í Kanada og er það mál því á hugmyndastigi. Ég held að það gæti verið góð leið til að halda utan um upplýsingar og gera þær aðgengilegar og svo er auðvelt að bæta við nýjum Pálssonum.

Eftir að þau fóru settumst við hin niður og rifjuðum upp og plönuðum ferðina til Kanada. Þetta er ótrúlegt sagði pabbi. Hann sem hélt alltaf að hann væri ættlaus og öfundaði mömmu sem átti heilu bækurnar með ættartölum sínum. Nú er hann búinn að heimsækja Strandirnar í ógleymanlegri ferð og ganga á slóðum horfinna áa sinna í Kjörvogi og hitta frændfólk sitt frá Kanada og farinn að plana aðra ferð á Strandirnar og ættarmót í Kanada. Þvílíkt sumar.

Ég náði ekki að setja inn myndir með blogginu en hér eru myndir sem voru teknar á fysta Pálsson fjölskyldumótinu á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gaman að heyra af þessu. Yndislegt kvöld greinilega og ómetanlegt að hitt áður óþekkta ættingja, það er aldrei of seint að mynda ný sambönd, þetta á örugglega eftir að verða þeim og ykkur uppsretta nýrrar vináttu sem skilar miklu af sér.  Knús kveðja á þig kæra vinkona    rósirnar eru enn æðislegar, love the colour.

Ásdís Sigurðardóttir, 17.8.2007 kl. 12:45

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Æðislegt og "stóra" var í skýjunum hér áðan.

Vilborg Traustadóttir, 17.8.2007 kl. 13:04

3 identicon

Já, það er alltaf gaman að hitta nýja ættingja, tala nú ekki um ný systkyni ! Ógleymanleg reynsla

Linda Ósk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 14:27

4 identicon

Það hlýtur að hafa verið ótrúlega gaman að hitta þetta frændfólk. Ég var um síðustu helgi á ættarmóti, sem samanstóð einkum af afkomendum Helgu Bjargar ömmu minnar, systur Þorsteins langafa þíns í Vík. Það var mjög gaman að hitta þetta fólk, sumt eftir mörg ár, en annað hafði ég aldrei séð áður. Pabbi þinn er sko aldeilis ekki ættlaus. Herdís langamma hans var komin bæði af Djúpadals- og Reynistaðaætt, virtum Skagfirskum ættum. Hjartans þakkir fyrir frábæran mat um daginn og notalegt „grúsk“ spjall.

Halli Gísla (IP-tala skráð) 17.8.2007 kl. 16:16

5 Smámynd: Bjarney Hallgrímsdóttir

Geggjað, fæ alveg sæluhroll af að lesa þetta, fyrir þig sko  Er svo gaman að hitta áður óþekkta ættingja og tala nú ekki um ef þeir eru búsettir erlendis, maður hittir þessa erlendu ættingja sína svo sjaldan að hver sekúnda er nýtt í botn.  Nú svo er að sjálfsögðu lika stór plús í þessu, nú getur þú farið til úttlanada, til þeirra í heimsókn  gaman og góða skemmtun með nýjú ættingjunum...

Bjarney Hallgrímsdóttir, 17.8.2007 kl. 20:22

6 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já þetta var alveg meiriháttar 

Halli frændi, takk sömuleiðis fyrir góðan grúsktíma, ekki þann fyrsta og laaaaaaaangt frá því þann síðasta. Þetta hefur verið skemmtilegt hjá ykkur Helgu Bjargar Group um síðustu helgi. Við verðum að taka þetta alla leið eins og við töluðum um og leita myndanna .

Anna, ég henti þessu inn í gær og hljóp út .... textinn kemur í dag.

Herdís Sigurjónsdóttir, 18.8.2007 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband