Aukin þjónusta þrátt fyrir mikla uppbyggingu í Mosfellsbæ - fjárhagsáætlun 2008 lögð fram

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram í bæjarráði í morgun og vísað þar til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Í þessari fjárhagsáætlun eru megináherslur á aukin og bætt þjónusta við íbúa, uppbygging á þjónustumannvirkjum í ört stækkandi sveitarfélagi og að rekstur verði áfram ábyrgur,  traustur og til fyrirmyndar. 

Heildartekjur  Mosfellsbæjar eru áætlaðar 4.065 mkr og heildargjöld 3.798 mkr.  Útsvarsprósenta verður óbreytt milli ára eða 12,94% og er Mosfellsbær eitt fárra sveitarfélaga sem ekki fullnýtir útsvarsprósentuna.  Samkvæmt áætluninni verður rekstrarniðurstaða samstæðunnar  af reglulegri starfssemi jákvæð um 92 mkr.  Auk þess eru tekjur af sölu byggingarréttar áætlaðar 645 mkr. sem renna eiga til uppbyggingar á skólamannvirkjum í nýjum hverfum á næstu árum. En allt stefnir í að íbúafjölgun á árinu 2008 verði um 11%. Gert er ráð fyrir að heildarskuldir bæjarfélagsins og skuldir á íbúa haldi áfram að lækka. 

Á árinu 2008 er áætlað að verja um 775 mkr. til uppbyggingu skóla- og íþróttamannvirkja, þ.m.t. byggingu nýrra grunn- og leiksskóla, hafist verði handa við byggingu framhaldsskóla í samvinnu við ríkið og sérstökum endurbótum á eldra skólahúsnæði í bæjarfélaginu.  Hafist verður handa um byggingu menningarhúss í tengslum við byggingu kirkju  í miðbænum og hjúkrunarheimilis á Hlaðhömrum.

Áfram verður haldið á þeirri braut að Mosfellsbær verði í fremstu röð í þjónustu sinni við barnafjölskyldur.  Útgjöld til fræðslumála aukast um tæp 18% eða um 275 mkr.  og er það í takt við aukna þjónustu. Leikskólavist 5 ára barna verður  gjaldfrjáls og með því áfram stuðlað að lægri kostnaði fyrir barnafjölskyldur.

Gert er ráð fyrir því að á árinu 2008 fari fram vinna við að samtvinna starf í frístundaseljum og almennu grunnskólastarfi þannig að til verði heilsdagsskóli í fullmótaðri mynd fyrir yngstu bekki grunnskólans.  Þegar þessu markmiði er náð gefst tækifæri til að fella niður gjaldtöku fyrir frístundasel þannig að nám og vera í grunnskólum verði gjaldfrjáls. 

Sú nýjung verður kynnt á árinu 2008 að teknar verða upp heimgreiðslur til foreldra eins til tveggja ára barna til að jafna stöðu þeirra og stuðla að því að foreldrar geti verið lengur heima hjá ungum börnum sínum.

Gert er ráð fyrir verulegri hækkun á framlagi til íþrótta- og tómstundafélaga vegna barna og unglingastarfs sem og að frístundagreiðslur hækki og aldursviðmið þeirra.

Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að sérstakt átak verði gert í umhverfismálum  með ráðningu umhverfisstjóra sem m.a. hafi málefni staðardagskrár 21 í sinni könnu sem og auknum framlögum til umhirðu opinna svæða og leikvalla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvurs lags er þetta Herdís, er bænum stjórnað af framsóknarmönnum, allt svona ljómandi flott og gott.     Kveðja frá Sarajevo.  G.F

Guðm.Fylkis (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 16:41

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Right Gummi, gott að sjá að þú ert enn á lífi og sprækur, en greinilega með pínu óráð líka .

Það var svo sem alveg á mörkunum með mig sjálfa í dag, fékk svona rosalega gubbupest. Ég var frekar slöpp í morgun, sleppti skólanum og kannski eins gott. því ég rétt marði það heim. Strákurinn veikur í gær og svo kom stóra stelpan heim í dag með blússandi hita og gubbu..

Herdís Sigurjónsdóttir, 29.11.2007 kl. 23:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband