Í túninu heima 2008, bæjarhátíð í Mosfellsbæ

Bæjarhátíðin okkar Í túninu heima hefur tekist mjög vel að mínu mati, þrátt fyrir rigningu bæði föstudag og laugardag.

Sædís Erla gul og glöð

Á fimmtudeginum fórum við í leikhúsið og sáum Ásdísi Magneu leika í Ýkt kominn yfir þig sem var gaman eins og ég nefndi hér. Svo á föstudeginum fórum við tengdó í bæinn til að kaupa meira gult og skreyttum smá og fórum við á setninguna sem var færð inn í íþróttahús sökum rigningar. Þar var hún Guðný Halldórsdóttir handritshöfundur og leikstjóri útnefnd bæjarlistamaður Mosfellsbæjar 2008 og er hún vel að því komin hún Duna. Hún var með frábæra ræðu sem var algjörlega í hennar anda, hárbeitt og langt frá því að vera væmin. Það var oft gaman á bæjarstjórnar- og umhverfisnefndarfundum með henni Dunu, en hún kom oft með frábær komment um málin og dettur mér hún alltaf í hug þegar verið er að fjalla um mink og vargfugl. Ekki var hægt að fara í brekkusönginn í Ullarnesbrekkunum og því söng Hljómurinn inni í íþróttahúsi og svo fórum við heim og héldum áfram að skreyta götuna í rigningunni. 

Sigurlið Mosfellings  IMG_0190

Á laugardeginum var mikið líf og fjör um allan bæ. Að fórum við Elli ekki eins mikið um sökum hækjumála, en samt við náðum að skreppa í opið hús hjá Kjósarsýsludeild Rauða krossins og í íþróttahúsið. Þegar við komum var verið að starta Ólympíuleikum fyrirtækja í Mosfellsbæ og fékk ég þann óvænta heiður að kveikja ólympíueldinn, sem reyndar gekk ekki fyrr en í fjórðu tilraun og þá með grænum kveikjara í stað gömlu góðu eldspýtnanna. Bæjarskrifstofurnar áttu lið í ár sem bæjarstjóri fór fyrir og voru með honum þau Sigríður Dögg kynningarfulltrúi, Tómas umhverfisstjóri og Brynhildur framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs. Stóðu þau sig með ágætum en þegar ég fór var líklegast að lið Mosfellings myndi vinna. Það voru margir kynningarbásar í íþróttahúsinu og fluttu nemendur Listaskólans tónlistaratriði á sviðiðnu. Við fórum svo á tónleikana um kvöldið sem voru í blautari kantinum og fór Skvísý með okkur, en það var of mikill hávaði og því fórum við með hana heim. Það var gaman að hitta hálfan Rituhöfðann og eins fjölmarga Siglfirðinga og mætti m.a. hálfur saumaklúbburinn minn. Raggi Bjarna, Sigga Beinteins, Felix Bergsson, Buffið, hinar mosfellsku María og Hreindís sungu af list og Auddi og Simmi sáu um kynninguna... en svo varð allt vitlaust þegar lokalagið Bahama var sungið af list af þeim Ingó og Veðurguðunum. Það var svo gaman að sjá ljósasýninguna í rigningunni og flykktist fólk upp í Urðir til að sjá betur. Við fórum svo heim, alsæl eftir skemmtilegan dag í túngarðinum, en trúlega hafa einhverjir haldið áfram á Draumakaffi þar sem Hljómurinn spilaði. 

Herdís og Sædís Erla í Bahamastuði  Siglufjarðargengið á tónleikum

Rituhöfðingjar  IMG_0215

Í dag skrapp ég í Álfafosskvosina á grænmetismarkað og fór svo í íþróttahúsið á kóratónleika sem enduðu með frábærum samsöng allra kóranna og áhorfenda.

Hér eru fleiri myndir.

Hér eru fleiri myndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Gaman hvað þetta gekk allt vel. Kannski ég kíki á Mosó á næsta ári. Kærleikskveðja á þig og þína.

Ásdís Sigurðardóttir, 31.8.2008 kl. 20:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband