Hefur þú týnt barninu þínu?

Ég var einu sinni í sundlaugargarði með krakkana á Ítalíu og leit eitt augnablik af litlunni minni á meðan ég tók mynd af strákunum í rennibraut. Á þessu augnabliki labbaði sú stutta í vaðlaug og brá mér svo mikið að ég henti frá mér myndavélinni og hljóp á eftir barninu, eðlilega. Þá nýtti einhver sér neyð okkar og stal myndavélinni með sumarleyfissögu fjölskyldunnar. En það er ekki sagan af stolnu myndavélinni sem situr eftir heldur skelfingin sem greip mig þegar sú stutta ráfaði í burtu frá mér. Mér datt mér þetta atvik í hug þegar ég las um landssöfnunina Göngum til góðs, en sameining fjölskyldna er eitt af þeim fjölmörgu verkefnum sem Rauði krossinn vinnur að um allan heim og er það eitt elsta verkefni samtakanna.

raudi krossinn

Það slær enn Rauða kross hjartað, þrátt fyrir að ég sé hætt að vinna þar og því gat ég ekki sleppt því að taka eitt blogg um söfnunina og fékk lánaðar nokkrar setningar frá Kristjáni Sturlusyni framkvæmdastjóra Rauða krossins, sem hann skrifaði um söfnunina.

Landssöfnunin Göngum til góðs er að þessu sinni helguð leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins í Kongó. Þar geisaði borgarastyrjöld 1998-2003 og enn eru átök milli stríðandi aðila í norðurhluta landsins. Talið er að um 1,3 milljón manns sé á flótta innan eigin landamæra, og árlega berast hundruð nýrra beiðna um aðstoð við að sameina sundraðar fjölskyldur á ný.

Öll landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans ásamt Alþjóða Rauða krossinum þéttriðið net leitarþjónustu sem allir þeir sem hafa misst samband við ástvini í kjölfar átaka geta sett sig í samband við. Þannig hefur Rauði kross Íslands aðstoðað flóttafólk og hælisleitendur hér á landi við að leita ættingja sem samband hefur rofnað við, og hefur tekist að koma á samskiptum að nýju.

Fjölskyldur sem hafa tvístrast vegna átaka búa oft árum, jafnvel áratugum, saman við óttann sem fylgir óvissunni um að vita ekki um afdrif ástvina. Í þeirri ringulreið sem ríkir á vígvöllum og hamfarasvæðum verður fólk oftar en ekki viðskila við sína nánustu, og eyða jafnvel það sem eftir er ævinni við leit að þeim. Af öllum þeim þjáningum sem átök og náttúruhamfarir valda er óvissan um afdrif ættingja ef til vill með þeim verstu.

Þegar átök brjótast út brotna innviðir samfélagsins niður, símasamband og samgöngur rofna og oft eru hömlur á ferðafrelsi einstaklinga. Í þeirri ringulreið sem skapast á átakasvæðum verða börnin oft verst úti, og árlega verða tugþúsundir barna viðskila við foreldra sína við slíkar aðstæður. Mörg eru ómálga, eða svo lítil að þau geta ekki sagt frá nöfnum foreldra sinna eða hvaðan þau eru upprunninn.

Á stríðsárunum 1998-2003 skráði Rauði krossinn rúmlega 6.000 börn sem orðið höfðu viðskila við foreldra sína. Um 4.400 börn voru sameinuð fjölskyldum sínum á þessu tímabili. Í fyrra voru hátt í 500 börn sameinuð fjölskyldum sínum í Kongó en hundruð bíða enn í þeirri von að fjölskyldur þeirra finnist. Á þessu ári hefur Rauði krossinn sameinað um 200 börn og fjölskyldur þeirra í Kongó.

Við Íslendingar ættum að velta því fyrir okkur því neyðarástandi sem fylgt getur vopnuðum átökum, um sundrungu fjölskyldna. Ég ætla að taka þátt í verkefninu og öll mín fjölskylda og vona ég að sem flestir vinir og vandamenn geri slíkt hið sama. Hvað er huggulegra en að fá sér göngutúr til góðs í snjónum og koma svo inn og fá sér rjúkandi kakó og köku. Ég var að lesa að enn vantar fjölmarga sjálfboðaliða til að ganga, þetta er góð leið til að láta gott af sér leiða, hægt er að skrá sig á www.redcross.is.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gylfi Björgvinsson

  1. Já  Herdís.     Ég leit augnablik af henni dóttur minni fyrir um 23 árum úti á Heathrow flugvelli. Þá var hnátan 6 ára og átti það til að rammba eitthvað eins og hún væri annars hugar. Ég var á leið heim og kominn í smá pressu með að komast í gegn,      æddi nú um allt að leita að henni  nánast eins og óður væri, ég var orðinn verulega örvinglaður þegar ég loksins fann hana þar sem hún sat á bekk með japanskri konu sem talaði ekki eitt orð í ensku, og hnátan mín  talaði bara íslensku,  samt var hún búin að plata þá japönsku  til að kaupa fyrir sig nammi sem hún  nú sat og hámaði í sig. Það varð svo mikið spennufall hjá mér  að ég rétt komst í vélina áður  en ég gat áttað mig á  hversu alvarlegt ástandið hafði verið. Eftirá séð er eins víst að þessi kona hafi ætlað sér eitthvað meira og ljótara en bara kaupa nammi fyrir þessa sex ára stúlku, allavega hefði ég ályktað svo hefði þetta gerst í dag. enn allt fór vel  og ég gleymi þessu ekki meðan ég lifi

Gylfi Björgvinsson, 5.10.2008 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband