10 konur kynntu framboð sitt til miðstjórnar og ég var ein þeirra

Á fimmtudagskvöldinu var haldið hóf kvenna á Broadway. Þetta var skemmtilegt og hélt Ragnheiður Ríkharðsdóttir vinkona mín uppi fjörinu með glæstri veislustjórn.  Þar kynntu 10 konur alls staðar af landinu framboð sitt til miðstjórnar flokksins og var ég ein þeirra. Ég var búin að gefa það út fyrir nokkru að ég hyggðist bjóða mig fram, en svo hætti ég við, enda mikið að gera í öðru. En svo á fimmtudeginum ákvað ég að láta slag standa og er að fara að skila inn framboðinu mínu í hádeginu.

Mér sýnist á öllu að mikill fjöldi fólks hafi áhuga á þeim 11 sætum sem kosið er í á landsfundi, en eftir hádegi kemur í ljós hver fjöldinn er. Skilafrestur til framboða til miðsstjórnar rennur út kl.13 í dag og kosning til miðstjórnar fer síðan fram fyrir hádegi á morgun og lýkur kl.12.

Svo er bara að sjá hvort ég verð ein þeirra sem hlýt kosningu, en mikið óskaplega yrði það nú gaman. En óhætt er að segja að þetta sé  örstutt kosningabarátta og ekki ætla ég að missa mig í kynningarefninu. Ég fékk hann Þór hjá Prenttorgi þó til að ljósrita eitt A-4 blað í gærkveldi sem ég ætla að dreifa í dag, svo verður gefið út sameiginlegt veggspjald með frambjóðendum og eins rúlla ég í kynningu Sjálfstæðiskvenna, en fyrst og síðast treysti ég á þá sem hafa unnið með mér á hinum ýmsu vígstöðvum telji mig vera traustsins verða. En það kemur í ljós á morgun.

Hér er kynningin á dreifibréfinu.

IMG_0520

Kæru landsfundarfulltrúar, ég gef kost á mér í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.

Meginástæða þess að ég ákvað að gefa kost á mér er sú að ég tel að reynsla mín og þekking muni nýtast í því uppgjöri og endurreisnarstarfi sem bíður okkar. Ég er vinnusöm, hef sterka réttlætiskennd og brennandi áhuga á því að efla flokkinn minn. Að mínu mati felast tækifæri í því að efla aðildarfélög um allt land og hef ég töluverða reynslu í slíku uppbyggingarstarfi.

Nú er hárrétti tíminn til að bretta upp ermar og láta verkin tala.

Hver er Herdís Sigurjónsdóttir?

Ég er fædd 1965 og uppalin á Siglufirði, hef búið í Mosfellsbæ frá 1990. Gift þriggja barna móðir.

Menntun:

Umhverfis- og auðlindafræðingur og doktorsnemi í opinberri stjórnsýslu og áfallastjórnun við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

  • MS Umhverfis- og auðlindafræðingur frá Háskóla Íslands febrúar 2009
  • BSc Lífeindafræðingur frá Tækniskóla Íslands 1989
  • Stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1985

Tók þátt í  rannsóknarverkefninu Langtímaviðbrögð við náttúruhamförum(LVN) með meistaranáminu. Verkefnið fjallaði um endurreisn samfélaga eftir náttúruhamfarir.

Stjórnmál

Hef verið bæjarfulltrúi í  Mosfellsbæ frá 1998 og formaður bæjarráðs og fræðslunefndar.

Er formaður samstarfshóps sem stofnaður var í október 2008 vegna breyttra aðstæðna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Stjórn SORPU bs frá 2004 og formaður frá 2008. Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins frá 2005 og sat í áhættugreiningarnefnd á vegum nefndarinnar. Fulltrúi Sjálfstæðismanna í stýrihópi vegna Staðardagskrár 21 í Mosfellsbæ.

Varamaður í stjórn Sambands sveitarfélags á höfuðborgarsvæði (SSH), stjórn slökkviliðsins, skólanefnd Borgarholtsskóla. Forseti bæjarstjórnar 2004 -2006. Fjölskyldunefnd (formaður) 2002 - 2006, varamaður 1998-2002. Umhverfisnefnd 1998-2002. Formaður dómnefndar Krikaskóla 2007.

Hef setið í stjórn og fulltrúaráði hjúkrunarheimilisins Eirar frá 2003 og sit í stýrihópi Starðardagskrár 21 á landsvísu fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga.

Störf

Rauða krossi Íslands (1998 til 2007). Fyrst sem svæðisfulltrúi á höfuðborgarsvæði en frá 2001 sem verkefnisstjóri í neyðarvörnum og neyðaraðstoð og vann m.a. að uppbyggingu neyðarvarnakerfis og þjálfun sjálfboðaliða í neyðarvörnum um allt land. Var í áhöfn Rauða krossins í Samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíð og meðlimur í ráðgjafahópi Flugstoða ohf og almannavarnadeildar ríkislögreglustjórans og tók þátt í undirbúningi og framkvæmd fjölda hópslysaæfinga og sat sem varamaður í almannavarnaráði fyrir Rauða krossinn.

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum (1989 - 1998). Starfaði við  fisksjúkdómarannsóknir.

Hef unnið við flest þau störf er tengjast fiski og fiskvinnslu á Siglufirði. Var háseti á frystitogara einn vetur og barþjónn á farþegaferjunni Norrönu eitt sumar. Vann á sjúkrahúsi Siglufjarðar við umönnunarstörf og á rannsóknastofu.

Ég óska hér með eftir stuðningi ykkar til setu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins.


mbl.is Eru hræddar um stöðu Þorgerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hilmar Gunnlaugsson

Það er flott hjá ykkur hversu vel þið hafið staðið ykkur innan Sjálfstæðisflokksins. Ég verð að óska ykkur til hamingju með það.

Hilmar Gunnlaugsson, 29.3.2009 kl. 00:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband