Fundur bæjarstjórnar Mosfellsbæjar með þingmönnum kjördæmisins

Bæjarstjórn Mosfellsbæjar fór á sinn árlega fund við þingmenn kjördæmisins í dag og þar á meðal fyrrverandi bæjarstjórann okkar hana Ragnheiði Ríkharðs. Að þessu sinni fórum við og hittum þau í Alþingishúsinu, en frá því að ég byrjaði í bæjarstjórninni höfum við hitt þau í Hlégarði, sem hefur náttúrulega verið mun huggulegra, en þau óskuðu eftir því að við fulltrúar sveitarfélaganna funduðum í Alþingishúsinu að þessu sinni. Nokkrir nefndu að þeir söknuðu þess að vera ekki í Hlégarði og lofaði ég því að þau fengju tækifæri til að koma og hitta okkur, t.d. þegar búið yrði að ganga frá tvöföldun Vesturlandsvegarins, en þá yrði nú heldur betur tilefni til að halda vegahátíð í Mosfellsbænum.

Við fórum yfir stöðu mála hvað varðar fjármál bæjarfélagsins og það sem verið er að ræða um varðandi skólamál og annað sem ríkið er að skoða til að auðvelda sveitarfélögum róðurinn. Því næsta fórum við yfir gömlu kunningjana, Vesturlandsveginn, hjúkrunarheimilið og framhaldsskólann. Ég ræddi okkar sýn á öldrunarmálin og það að Mosfellsbær hefur verið að ganga lengra en okkur bæri lagalega séð í þjónustu við aldraða Mosfellinga. Það var ánægjulegt að þingmenn voru vel áttaðir á því hvernig hér væri staðið að málum og þörfinni sem hér er um byggingu hjúkrunarheimilið til að ná þeirri heildstæðu þjónustu sem við viljum hafa í bænum. Því vona ég að það sem búið er að lofa okkur gangi eftir og hjúkrunarheimilið rísi innan bæjarmarkanna á næstu árum.

Nokkur áhugi var á PrimaCare verkefninu og fór bæjarstjóri vel yfir það mál. Auk þess var m.a. spurt um atvinnuleysistölur, þjónustuaukningu sveitarfélagsins eftir efnahagshrunið. Siv spurði okkur hvernig okkur tækist að vera með svo vel rekna skóla og jafnframt gott skólastarf og er alltaf gaman að fá svo jákvæðar spurningar og er ég ekki í nokkrum vafa að í Mosfellsbæ er fyrsta flokks skólastarf. Alþingismenn voru einnig að velta fyrir sér lóðamálum, húsaleigubótum og félagsþjónustu. Nokkur umræða var um Vesturlandsveginn og Sundabrautina og þörf fyrir tvöföldun Vesturlandsvegar. En við upplýstum að um hann færu 16 þúsund bílar á dag á meðan 1200 - 1500 bílar færu um Vaðlaheiðina.

Það verður fróðlegt að vita hvort bæjaryfirvöld geta tekið með sér sama málapakka að ári. Ég vona í það minnsta að þá verði framkvæmdir hafnar við byggingu hjúkrunarheimilis og að búið verði að halda vegahátíðina miklu í Hlégarði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú skil ég það sem þú sagðir mér í gær ;o)

Hjördís Kvaran Einarsdóttir (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband