Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Breytingar á nefdarskipan Sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ

Mynd_0131636

Þegar ár er í næstu sveitarstjórnarkosningar ákváðum við Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ að gera töluverðar breytingar á nefndarskipan hjá okkur. Ástæðan er einföld, að auka ábyrgð og hleypa nýju fólki að. 

Við bæjarfulltrúar sem höfum sinnt formennsku í nefndum stigum til hliðar og hleyptum nýju fólki að. Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, hefur verið formaður skipulags- og byggingarnefndar í 7 ár, en verður nú aðalmaður í þróunar- og ferðamálanefnd. Bryndís Haraldsdóttir var kosin formaður skipulags- og byggingarnefndar. Erlendur Fjeldsted verður aðalmaður, en hann var varamaður og Daníel Jakobsson verður varamaður. Katrín Dögg Hilmarsdóttir verður varaformaður þróunar og ferðamálanefnd og tekur hún við af Gunnari Inga Hjartarsyni sem verður varamaður.  

Ég hef verið formaður fræðslunefndar þetta kjörtímabilið, en hætti því í dag og er nú fulltrúi í umhverfisnefnd. Gylfi Dalmann Aðalsteinsson tók við formennsku og Hafsteinn Pálsson verður varaformaður. Ég sat síðast í umhverfisnefnd á þar síðasta kjörtímabili og hlakka til nefndarstarfsins, enda nýbakaður umhverfis- og auðlindafræðingur og vona að ég geti lagt eitthvað til málanna. En annar fulltrúi sjálfstæðismanna í nefndinni er Agla Elísabet Hendriksdóttir sem er varaformaður.

Hafsteinn Pálsson var formaður í íþrótta og tómstundanefndar, en fer í fræðslunefndina eins og áður sagði. Theódór Kristjánsson tekur við formennsku í nefndinni og Bjarki Sigurðsson verður aðalmaður, en hann var áður í umhverfisnefnd.

Í menningarmálanefndinni verður Hilmari Stefánsson varaformaður og Helga Kristín Magnúsdóttir kemur inn sem aðalmaður. Grétar Snær Hjartarson víkur úr nefndinni, en Ásta Björg Björnsdóttir sem var varaformaður verður varamaður í nefndinni.

Á fundinum í dag var jafnframt kosið í bæjarráð og voru sömu fulltrúar kosnir í bæjarráð. Ég formaður, Karl Tómasson frá VG, Jónas Sigurðsson frá Samfylkingunni og Marteinn Magnússon áheyrnarfulltrúi frá Framsókn. Kosinn var forseti bæjarstjórnar og var Karl Tómasson kjörinn forseti bæjarstjórnar, Hafsteinn Pálsson fyrsti varaforseti og ég annar.

Ég ætla ekki að neita því að ég  kveð fræðslunefndina með vissum söknuði og á eftir að sakna þess að vinna með öllu þessu frábæra fólki sem starfað hefur í og með nefndinni á undanförnum árum. En maður kemur í manns stað og hætti ég ekki að hafa áhuga og skoðanir á fræðslumálum. Framundan eru mörg spennandi verkefni s.s. endurskoðun á skólastefnunni , uppbygging skóla í Leirvogstungu og Krikaskólinn,að verða að veruleika og mun ég taka virkan þátt í því starfi sem bæjarfulltrúi, enda kjörin til þess að gæta hagsmuna íbúanna í skólamálum sem öðru.


17. júní í Mosfellsbæ

Mynd_0603981

Gleðilega þjóðhátíð.

Hátíðarhöld í tilefni 17. júní verða fjölbreytt að vanda í Mosfellsbænum.  Elli fór út í bítið í morgun til að setja upp skátatjöld við Hlégarð, en skátarnir standa fyrir sprelli og selja gasblöðrur og tröllasleikjó.

Hátíðardagskráin hófst í Varmárlaug kl. 10:00 með sundmóti og hátíðarguðþjónusta í Lágafellskirkju.  Dagskráin 17. júní verður síðan formlega sett á bæjartorginu kl. 13:00 með hátíðarræðu Karls Tómassonar forseta bæjarstjórnar og ávarpi fjallkonu. Á fræðslunefndarfundinum í gær lofaði Björn Þráinn Kalla góðu veðri, sem var ekki alveg það sem veðruspáin sagði og mér sýnist mér spá Björns Þráins ætli bara að ganga eftir. 

Frá bæjartorginu okkar við Kjarna munu skátarnir leiða skrúðgöngu að Hlégarði þar sem dagskráin heldur áfram með margskonar uppákomum fyrir alla fjölskylduna.

Það verður mikið um að vera fyrir börnin að vanda. Leikskólabörn syngja, Lilli klifurmús og Mikki refur, Leikfélagið verður með leikþátt, Fimleikadeild Aftureldingar með atriði, trúðar, töframaður og Gunni og Felix svo eitthvað sé nefnt.

Síðdegis verður keppt um sterkasta mann Íslands á túninu við Hlégarð sem er árlegur viðburður í Mosfellsbæ og mikið fjör.

Hátíðarhöldin dagsins enda með fjölskyldudansleik um kvöldið með mosfellskum hljómsveitum og tónlistarmönnum. 

Sölutjöld við Hlégarð, andlitsmálun, Tívolí, leikir, glens og gaman með félögum úr Mosverjum. Afturelding með kynningu á starfsemi sinni.

Síðast en ekki síst verður Kaffisala í Hlégarði kl. 14:00-17:00 í boði Knattspyrnudeildar Aftureldingar sem enginn má missa af.

mosfellsbaer


mbl.is Það er kominn 17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

7 tinda hlaupið í Mosfellsbæ

Ég ákvað í gærmorgun að drífa mig út og horfa á hlaupahetjurnar leggja í 7 tinda hlaupið frá Lágafellsskóla. 37 kílómetra af þúfum og urð og grjóti utan síga og stendur þetta utavegahlaup því vel undir nafni. Um 30 manns fóru í 37 kílómetrana og um sjötíu fóru 17 kílómetra á fjóra tinda.

Það kom skemmtilega á óvart hvað ég þekkti margar hetjur, Stefán Gísla, Árni Birgis, Steffan arkitekt, Pétur, Ingi, Halla Karen og þrír Siglfirðinga þau, Biggi Gunnars, Ella Gísla og Óla Vals hlupu af stað þegar Haraldur bæjarstjóri ræsti hlaupið. 

Þegar ég arkaði upp í skóla með myndavélina var ég á inniskónum, en fór samt með henni Döggu upp að Hafravatni til að sjá hlauparana koma niður af fyrsta tindinum, Úlfarsfelli. Þaðan lá leiðin í Skammadal og þar fór ég að hjálpa Vigdísi að brynna þyrstum hlaupurum, orkudrykkjum og vatni og eins fengu margir bananabita. Þar var fólkið á vegamótum og gat valið að fara 37 kílómetrana eða 17. Einhverjir hættu við að fara löngu leiðina, enda var hlaupaleiðin erfiðari en fólk átti von á. En flestir héldu áfram á tindana sjö.

Úr Skammadal fór ég að Hraðastöðum, en sá enga hlaupara, þeir voru ekki komnir niður af Grímannsfellinu. Ég fékk far með þeim mæðgum Vigdísi, Ingu og Eyrúnu og hittum við Gunna Atla við Suðurá og tók Inga Ævars við "brynningum". Það var síðasta stopp fyrir Helgafell og lokasprettinn í markið við Láfellsskóla. 

Eins og keppendur endaði ég við markið við Lágafellsskóla. Þar kom hver keppandinn að fætur öðrum og voru allir sammála um að hlaupið hefði verið erfitt, en ótrúlega skemmtilegt. Það var þó greinilega of langt á milli stika á einhverjum köflum og því villtust einhverjir af leið, en "allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó". Nokkuð margir höfðu orð á því að þeir hefðu aldrei séð Mosfellsbæ fyrr og þá náttúrufegurð sem við Mosfellingar þekkjum svo vel.

Til hamingju Mosverjar með 7 tinda hlaupið, ég er viss um að það verður haldið að ári.

Hér eru myndir sem ég tók af hlaupurum og sérlegum sjálfboðaliðum hlaupsins. 

 

 

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband