Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Siglufjörður bestur í heimi?

img_9895.jpg

 Á dögunum var ég beðin um að halda fyrirlestur um Siglufjörð fyrir áhugasaman hóp hér á SV horninu. Fyrirlesturinn mun bera heitið "Siglufjörður. eitthvað meira en síld?". Í því tilefni gerði ég stutta og afar óvísindalega könnun meðal vina minna á Facebook og spurði. Hvað er Siglufjörður ykkur? Eitthvað jákvætt eða neikvætt um Siglufjörð eða Siglfirðinga. Minningarbrot úr æsku eða frá heimsók. Breytingar - jarðgöng - söfn - skíðasvæðið. Bara eitthvað, ég er spennt að sjá afraksturinn :D

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fékk ég fjöldann allan af svörum og mátti til með að deila þeim með ykkur. Ef þið hafið einhverju við að bæta er ég enn að safna.

Siglufjörður er minn æskubær ég elska fjöllin og bara allt skrifaði Stella Þorláks gömul vinkona mömmu sem ég hitti í sumar

Ég á nú ekki svo margar... enda fór þaðan 9 ára - ein af mínum er þegar blómabílinn kom á torgið og mér fannst svo skemmtilegt að sjá öll blómin á torginu og konurnar að velja sér blóm:) í minningunni var þetta litadýrð. Í mörg ár þegar ég var spurð hvaðan ég væri þá svaraði ég Íslandi en í dag þá svara ég Siglufirði og er stolt af:) Spurning hvort þetta sé merki um aldur konunnar?;) .... skrifaði mín yndislega frænka Guðrún Stefáns

Yndislega fallegur bær, verið þar í útilegu og líka farið í heimsóknir og skoðað söfnin:) Svo furða ég mig líka alltaf á því hvað ég kannast við marga Siglfirðingar miðað við hvað bæjarfélagið er lítið. Þeir láta svo sannarlega að sér kveða;) .. þetta skrifaði Ella Mosfellingur

Dásamlegur bær, sakna Siglufjarðar, skrifaði tengdó sem var þar í sumar.

Besti staður í heimi, skrifaði Halli

Katrín Anna skrifaði. Á hverju ári þegar ég var krakki var farið í sveit í Fljótin. Því fylgdi nánast alltaf dagsferð til Sigló að heimsækja ættingja. Ferðirnar voru alltaf skemmtilegar og ekki spillti fyrir að keyra í gegnum Strákagöng sem voru þó aðeins of stutt! Ég dvaldi líka í mánuð þar þegar ég var 13 í góðu yfirlæti. Dreymir ennþá um bíóísinn í boxi með súkkulaðisósu og dýfu ;)

Hér skrifaði Mundý mín kæra skólasystir af reynslu. Nálægðin við fjöllin, náttúruna. Yndislegt fólk, stuttar vegalengdir í vinnu og tómstundir. Fjölbreytt menningarlíf, uppbyggingin sem á sér stað núna, söfnin okkar. Göngin hafa breytt miklu, t.d. Hvað varðar skóla, læknisþjónustu, skreppa í bíó svo fátt eitt sem nefnt. Gangi þér vel Herdís mín, kveðja úr blíðunni á SIGLÓ

Fjöll og skíði, skrifaði Sylgja sem er ein af tengdadætrum Siglufjarðar

Siglufjörður er mér heilagt athvarf og að verða mitt annað heimili :) ♥ skrifaði Halla mín úr Vogunum

Gott fólk, glaðværð, vingjarnleiki, veðursæld, fegurð, menning og há fjöll :) skrifaði Haddú af fenginni reynslu

Frábærar minningar frá æsku og unglings árunum, var farinn í austurbæinn 17 ára skrifaði Einar skólabróðir minn sem flutti til Ólafsfjarðar

Aldrei komið til Siglufjarðar - því miður :/ ... skrifaði Habba sem þarf greinilega að láta þann draum rætast.

Það er ótrúlegt hversu margir sem maður hittir eru frá Siglufirði. Segir mér að þar hafi verið mjög blómlegt um miðja síðustu öld. Siglufjörður er í mínum huga ein af perlum íslenskra landsbyggðarþorpa, með fallegan miðbæ og höfn og ánægjulegt hversu mikið er búið að gera fyrir bæjarmyndina á síðustu árum. Alltaf gaman að koma á Sigló skrifaði Jón Mosfellingur.

Góðar minningar, gott fólk og verður fallegri með hverju árinu sem líður og á eftir að verða einn eftirsóttasti ferðamannabær landsins, skrifaði Axel Axels

Yndislegar minningar frá æskuárunum, alltaf gott veður á Sigló, okkar frábæra skíðasvæði sem á eftir að verða ennþá betra, frábær uppbygging í miðbænum ásamt svo mörgu fleiru jákvæðu. Skrifaði Svana skólasystir frá Vestmannaeyjum

Ég sakna Siglufjarðar sem mest skrifaði Svava vinkona mín frá Kanada sem ég hitti einmitt á Sigló í sumar.

Siglufjörður er paradís, skrifaði Ragnheiður Rögnvalds og gæti ég ekki verið meira sammála.

Sú sem þetta skrifar er fædd á Siglufirði og tel það alltaf sem kost þótt farið hafi verið yfir fjöllin til Ólafsfjarðar nokkrum dögum síðan. Siglufjörður hefur alltaf átt stað í hjarta mér og heimsóknir þangað alltaf mikill viðburður og gleðidagar þegar ég var barn. Fallega torgið, kandíflos sem selt var á torginu á góðum dögum og ís í brauði. Og að sjálfsögðu voru skólafötin keypt þar í þessum fínu verslunum sem þar voru. Mikil þökk fyrir Héðinsfjarðargöngin sem gerir allt miklu auðveldara fyrir okkur sitt hvoru megin við Héðinsfjörð.

Við komum tvisvar til Siglufjarðar í sumar og í bæði skiptin í glöðum hópi fólks, veðrið var eins og best verður á kosið og gaman að sjá hvað bærinn er að breytast í aðlaðandi ferðamannabæ og toppurinn að heimsækja Birnu á hafnarkrána frábæru... skrifaði Úlla Mosfellingur

Fannst eitthvað við staðinn sem minnir á minn heimabæ, Ísafjörð :) ... skrifaði Áslaug og er ég svo sammála, enda líður mér alltaf vel á Ísafirði

Fyrst er að nefna lognið sem er alltaf hér kyrrðin er einstök bærinn fallegur og svona mætti lengi telja, skrifaði Agnes Björns

Fyrir mér er Siglufjörður einn af þessum fallegu bæjum sem alltaf er gaman að koma til og verður alltaf fallegri og fallegri. Gaman að sjá vel heppnaða uppbygginguna í miðbænum, sem smitar um allan bæinn með vel og smekklega uppgerðum húsum. PS. Veit um hús til sölu, ef ykkur langar til að koma ykkur upp öðru heimili þar ;=) .... skrifaði Hilmar

Fyrir okkur sjómenn er skjólið fyrst og fremst. Að koma í norðaustan hvassviðri og byl og sjá Hólshyrnuna rísa fyrir stafni, það er himnaríki skrifaði Stjáni Elíasar

Það er einfalt svar, nafli alheimsins skrifaði Þórður Þórðar.

Fallegt bæjarstæði, síldarminjasafnið með skemmtilegri söfnum sem maður heimsækir og svo eru bátarnir á bensínstöðinni ógeðslega góðir skrifaði Vilborg Halldórs

Það er alltaf góð tilfinning að koma til Siglufjarðar, eitthvað sem ég get ekki útskýrt nánar, skrifaði Imba vinkona mín Húnvetningur

Flottur bær til myndatöku núna þegar haustið er að koma til okkar skrifaði Hrönn Einars frænka mín

Yndislegasti fjörður í heimi sem fóstraði mig :) voru þær Ása Hilmas og Hulda Kobbelt sammal um

Best í heimi ♥  skrifaði Stína Bjarna og er ég viss um að mjög margir eru sammála henni

 


Hvernig eru reglurnar?

Þetta kemur ekki á óvart og mætti segja mér að fleiri komi til með að tala upphátt eins og Duncan þegar kemur til úthlutunar þeirra fjármuna sem evrópulönd greiða í sameiginlega sjóði. Þarna sakar hann Evrópusambandið um að sóa peningum sem eigi að fara til þróunarhjálpar í verkefni sem hafi ekkert með fátækt að gera og tekur sem dæmi styrkveitingu til Íslands, til að örva ferðaþjónustu á Suðurlandi sem dæmi um þetta, en verkefnið kom til í kjölfar goss í Eyjafjallajökli.

Ég hef svo oft heyrt þegar evrópusambandsaðild er nefnd að við munum klárlega fá allt það fjármagn sem við leggjum inn í sambandið til baka í formi styrkja. Hvað þennan styrk varðar, sem ég vissi reyndar ekki af þá tel ég nokkuð ljóst að styrkurinn hefði ekki fengist ef styrkbeiðnin hefði ekki fallið innan þess ramma sem sjóðurinn bauð upp á, eða hvað?  


mbl.is Finnst óþarfi að styrkja Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að bæta eigið öryggi vegna jarðskjálfta

Undanfarið hefur verið jarðskjálftahrina út fyrir Norðurlandi. Það er mikilvægt að halda ró sinni en það er einnig mikilvægt að mun að hægt er að gera ýmislegt til að bæta eigið öryggi vegna stórra jarðskjálfta. Þetta er jú þekkt jarðskjálftasvæði og því betra að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Á vefsíðu almannavarna má nálgast upplýsingar um ýmsar varnir til að draga úr tjóni og  minnka hættu í jarðskjálftum Einnig má nálgast upplýsingar  um viðbrögð í jarðskjálftum og ýmsar hagnýtar leiðbeiningar.

Með því að skoða hvar á heimili eða vinnustað hættur leynast sem valdið gætu tjóni í jarðskjálfta má gera ráðstafanir sem draga verulega úr tjóni.

Hér eru upplýsingar um:

varnir fyrir jarðskjálfta

viðbrögð við jarðskjálfta

viðbrögð eftir stóra jarðskjálfta

 


mbl.is Fjórir skjálftar yfir 4 að stærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband