Ert þú sáttur við nýjustu Gallupkönnun?

425197A

 

 

 

 

 

Ný könnun Capacent Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna sýnir miklar sveiflur í fylgi milli vikna og að ef þetta fylgi gengi eftir þá héldi ríksstjórnin velli.

  • Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 6,1% fylgi milli vikna og mælist nú 40,6 %. 
  • Vinstri græn eru enn að hrapa þessa vikuna og komin niður í 21.1% en hafði flokkurinn 24% fyrir viku.
  • Samfylkingin lækkar milli vikna og mælist nú 19,5% en hafði 19,9% fyrir viku.
  • Framsóknarflokkurinn dalar enn og mælist nú með 8,1% fylgi í stað 8,3% fyrir viku.
  • Frjálslyndir bæta við sig 0,1% og mælist nú með 5,4% fylgi í stað 5,3% fyrir viku.
  • Íslandshreyfingin missir fylgi milli vikna. Mælist nú með 4,5% en hafði 5,2% fyrir viku.


Enn hefur ekki verið hrigt í mig frá Gallup og því svara ég bara hér og get ég ekki annað en sagt að ég sé sátt við þessa niðurstöðu 40,6%.

En ef þessi spá gengi eftir fengi Sjálfstæðisflokkurinn fleiri þingmenn kjörna en nokkru sinni fyrr og sýnir það að fólk treystir flokknum til áframhaldandi stjórnar. Stjórnarandstaðan er sífellt að reyna að koma höggi á flokkinn og stefnuna með litlum árangri, já nema til fylgisaukningar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur nú trúlega ekki verið ætlunin hjá hinum.

En þá að samstarfsflokknum Framsóknarflokknum. Hann virðist ætla að haldast jafnlár og spurning hvort nýja slagorðið "árangur áfram, ekkert stopp" dugi þeim í kosningunum. En eins og þeir segja alltaf þá kemur alltaf meira upp úr kjörkössunum, en fylgi þeirra sýnir í könnunum, sem er verðugt rannsóknarefni í sjálfu sér og spurning hvort Kára gæti nú ekki þótt áhugavert að leita að framsóknargeninu.

Það er alveg ljóst að nýtt framboð Íslandshreyfingin hefur ekki náð flugi, ég er í sjálfu sér ekki hissa þar sem startað var með fjóra frambjóðendur og engin stefnumál nema Draumalandið og finnsku leiðina sem unnið hefur verið eftir hér á landi í nokkur ár með ágætum árangri, eins og bent hefur verið á. Ekki hef ég trú á því að Bubbi hjálpi mikið. Hvað er þetta annars með poppara og skemmtikrafta.... grín..green, ég er ekki alveg að átta mig á því?

Hjá Frjálslyndum hefur mest púður farið í innflytjendamálin undanfarið og virðist á orðum annarra gesta í kaffiboði Kaffibandalagsins að bandalagið sé úr sögunni. Enda sá möguleiki svo sem ekki uppi á borðinu, ef þessi fylgiskönnun gengi eftir. Ég hef trú á því að við eigum eftir að sjá Frjálslynda snúa sér meira að öðrum stefnumálum á næstu vikum.

Fylgi Vinstri grænna er enn að dala og er það spá mín að enn sé ekki búið að ná botni, en engu að síður er flokkurinn að mælast með meira fylgi en þeir fengu í síðustu alþingiskosningum. Það virðist sem Íslandshreyfingin hafi einna helst tekið fylgi frá VG, enda keppast þeir við að greina fólk grátt eða grænt og eru greinilega allir búnir að steingleyma því að grænn er framsóknarlitur.

Samfylkingin hefur haldið sínu stöðuga léttvínsfylgi undanfarnar vikur og er greinilega skjálfti í þeirra herbúðum. Mér þótti skondið þegar Ágúst Ólafur varaformaður fór að tala um í tengslum við þessa könnun að ef fólk ætlaði að ná fram breytingum í vor, þá ætti það að kjósa Samfylkinguna, en ekki láta atkvæði sín detta dauð með því að kjósa litlu flokkana. En mér er spurn, ef vel gengur, af hverju að breyta, bara til að breyta?

Það er alltaf gaman að spá í spilin og til þess eru þessar kannanir m.a. gerðar. En við skulum ekki gleyma því að enn eru fimm spennandi vikur til kosninga, sem er langur tími í kosningabaráttu. 


mbl.is Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

"En mér er spurn, ef vel gengur, af hverju að breyta, bara til að breyta?"

Sumum líkar ekki 8% verðbólga, hræðilegan viðskiptahalla, skuldugustu heimili í heimi, ál sem framtiðar atvinnuveg, verðtryggða krónu með ofurvöxtum, hæsta matvælaverð í heimi og fjársvelt heilbrigðis- og menntakerfi.

Skrýtið samt að 40% þjóðarinnar sætti sig við að halda í þetta... greinilega enginn skortur af íhaldsmönnum hér.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 5.4.2007 kl. 14:11

2 Smámynd: Herdís Sigurjónsdóttir

Já ánægjulegt að ekki er skortur á Sjálfstæðismönnum. Það skyldi þó ekki vera að fólk myndi eftir þeim tíma sem vinsti menn héldu um stýrið á þjóðarskútunni?...

Herdís Sigurjónsdóttir, 5.4.2007 kl. 14:30

3 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Takið eftir að Samfylkingin sem var með yfir 31% fyrir tíð ISG hrapar niður í 19% ?? Hvers vegna var USG að ýta Össuri frá???  Það var á sínum tíma afar slæmt að missa Jón Baldvin úr brúnni á þeim bæ.  Ég m.a.s. kaus Alþýðuflokkinn þegar hann var með Sjálfstæðisflokki í Ríkisstjórn. Slæmt fyrir Samfylkinguna hvernig Lúðvík Geirsson og félagar komu fram í álversmálinu.  Svo segir hann "allt í plati" eftir kosninguna um álverið. "Það stækkar samt"!!!  Trúverðugt?  Nei og aftur nei.  Ekki svona ríkisstjórn TAKK.

Vilborg Traustadóttir, 5.4.2007 kl. 14:58

4 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Guð gefi okkur hægri stjórn áfram í þessu landi, fólk um fertugt ætti að muna hvernig þetta var hér áður þegar vinstri menn sólunduðu öllu til fjandans og settu allt á bömmer, vil ekki lifa þau ár aftur og hana nú

Ásdís Sigurðardóttir, 5.4.2007 kl. 20:47

5 Smámynd: Ágúst Dalkvist

Sáttur og ekki sáttur, virðist þróast eins og maður bjóst við . Auðvitað er maður sáttur ef þessi þróun heldur áfram

Greinilegt að Jónas gerir sér ekki grein fyrir hverju hann þarf að fórna til að ná niður verðbólgu, vöxtum og fleiru sem hann nefnir en sem betur fer virðist stærri hluti þjóðarinnar gera það og ætlar sér að kjósa stjórnarflokkana.

Sem betur fer munum við alltaf telja að heilbrigðiskerfið og menntakerfið sé svelt, þar sem að við gerum alltaf meiri kröfur í þeim málaflokkum og þannig á það að vera. Þessi tvö kerfi eru betur sett en nokkru sinni og er núverandi stjórn einni treystandi til að halda áfram að bæta þau.

Ágúst Dalkvist, 5.4.2007 kl. 23:33

6 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Já, Herdís, ég er ánægður með síðustu könnun Gallup könnun, því að ég treysti ekki þessu vinstra liði til að halda rétt á málum. Best væri að Framsókn bætti við sig nægilega miklu fylgi til að áframhaldandi byggðaþróun gæti haldið áfram öllu

landinu til góða. Reykjavík og nágrenni mun halda áfram að blómstra, en það mætti hægja á þeim vexti dálítið í bili. Við Framsóknarmenn eigum kannske eftir að braggast, þannig að þessir draumar geti ræst.

Með góðri kveðju til Siglufjarðar, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 6.4.2007 kl. 16:43

7 Smámynd: Kristján P. Gudmundsson

Villa "könnun" er ofaukið x1 í efstu línu...bless, KPG.

Kristján P. Gudmundsson, 6.4.2007 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband