Skólarnir okkar

DSC05423

Það er stór stund þegar börn byrja í grunnskóla og var mikill spenningur á mínu heimili þegar yngsta dóttir mín hóf grunnskólagöngu sína síðasta haust. Undirbúningur fyrir skólagönguna byrjaði markvisst í leikskólanum m.a. með verkefninu „Brúum bilið" og höfðum við rætt skólabyrjunina heima, en engu að síður var sú stutta samt búin að ímynda sér þetta eitthvað öðruvísi því eftir fyrsta skóladaginn sagði hún með undrunarsvip,  „mamma þetta var bara alveg eins og í leikskólanum". Þegar við fórum að ræða málin þá kom í ljós að hún hélt að strax fyrsta daginn myndi rigna bókstöfum og tölustöfum. Leikur myndi heyra sögunni til og þau fengju vart að anda. Því var þungu fargi af henni létt og bætti hún því við að kennarinn væri líka skemmtilegur.

Skólar barnanna okkar skipta mjög miklu máli og velja margir sér búsetu eftir því hvernig þeim líst á skólamálin. Sem foreldri þriggja barna sem hafa verið og eru í leik- og grunnskólum bæjarins er ég sannfærð um að hér í Mosfellsbæ er rekið metnaðarfullt skólastarf. Í skólunum starfa samstilltir hópar fólks sem leggja mikið upp úr því að það nám sem fram fer taki mið af þroska og þörfum hvers barns þar og skólinn hefur lagt uppeldisstefnu, sem hefur eflt krakkanna til ábyrgðar á eigin verkum. Skólafólkið er líka hugmyndaríkt og þróunarverkefnin bæði fjölbreytt og spennandi. Má nefna 5. ára deildir við grunnskólana, tónlistarnám í grunnskóla og Skólahljómsveit og einstakan Listaskóla. Hér er útikennsla, spennandi raungreinakennsla og tungumálanám. Líkamsrækt fyrir unglinga sem ekki njóta sín í almennri íþróttakennslu. Krikaskóli nýjasti skóli Mosfellsbæjar hefur þegar komist á spjöld skólasögu Íslands. Pollagallaskólinn, sem er samþættur leik- og grunnskóli fyrir börn frá 1- 9 ára, þar sem mikil áhersla er lögð á tengingu skólans við nærsamfélagið. Þá má ekki gleyma hve vel hefur tekist til með þróun félagsmiðstöðvarinnar við Lágafellsskóla með þeirri breytingu sem varð á starfi og starfsaðstöðu þar.

Í Mosfellsbæ er áhersla lögð á að þjónusta við foreldra vegna yngstu barnanna, enda slíkt nauðsynlegt í nútímasamfélagi. Frístundasel grunnskólanna mynda heildstæða umgjörð um skóladag barnanna og er litla dóttir mín ánægð með starfið. Hún stundar m.a. Kirkjukrakka og ýmislegt val og er alsæl með íþróttafjör Aftureldingar sem hún fer í tvisvar í viku. Þar kynnast börnin hinum ýmsu íþróttagreinum s.s. Taekwondo, handbolta, fótbolta, blak og fimleika og sér maður hvernig hugmyndir hennar um íþróttagreinarnar breytast við að prófa. Það er til fyrirmyndar hvað vel hefur tekist til með samþættingu starfsins milli skóla og Aftureldingar.

Þegar á heildina er litið eru foreldrar og sveitarfélagið örugglega að ala upp börn sem eru ánægð með skólana sína, skólastarfið og eru ábyrg og virk í námi sínu og lífi.

Nýlega lukum við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar fyrir árið 2010 þar sem áhersla er lögð á að verja grunn- og velferðarþjónustu sveitarfélagsins. Við óhjákvæmilega hagræðingu er forgangsraðað í þágu barna og velferðar og ekki er gert ráð fyrir hækkunum á þjónustugreiðslum barnafjölskyldna í leik- og grunnskólum. Bæjarstjórn stóð sem einn maður að áætluninni og er það von mín að áfram takist okkur að ná samstöðu um skólastarfið og velferð barnanna okkar.

Herdís Sigurjónsdóttir, bæjarfulltrúi sjálfstæðisflokksins.

Herdís gefur kost á sér í 2. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna 6. febrúar nk. Meira um Herdísi á www.herdis.blog.is

Styttri útgáfa af greininni birtist í Mosfellingi 15. janúar 2010


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Hún er svo falleg dúllan þín. Knús til ykkar allra

Ásdís Sigurðardóttir, 20.1.2010 kl. 18:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband