Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

Meirihlutasamstarf VG og Sjálfstæðisflokks í Mosfellsbæ

Ég eins og fleiri Íslendingar á mér þá ósk heitasta að ábyrg áhöfn fáist á þjóðarskútuna sem fyrst. Því hef ég þetta til málanna leggja.

Stöðugleiki er það orð sem oftast var notað um mikilvægasta verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Mér sýnist á öllu að flestir séu sammála um að komast hjá því að einstaka áhafnarmeðlimir taki stjórn og sigli skútunni í strand á kjörtímabilinu. Trúlega þarf því að sigla skútunni í var til að byrja með til að áhöfnin geti ná utan um verkefnið og nýtt orkuna í að merkja inn raunhæfa áningarstaði og svo að plotta siglingarleiðina.

Í snarpri kosningabaráttu nýafstaðinna þingkosningar sýndist mér flestir flokkar vera með sömu mál í stefnuskrám sínum. Mér varð því oft hugsað til þess að þetta væri orðið eins og í sveitarstjórnarmálunum. Vissulega var mismunandi orðalag viðhaft, en lokatakmarkið var í meginatriðum það sama.  

Mosfellsbæjarmódelið - pólitísk nýsköpun

Árið 2006 var farin ný leið í samstarfi stjórnmálaflokka í bæjstjórn Mosfellsbæjar þegar nýr meirihluti var myndaður með einum fulltrúa VG og þremur fulltrúum sjálfstæðismanna. Þetta módel var einstakt á þessum tíma og náði hugur margra ekki utan um þetta nýja konsept. Ég man vel að þáverandi oddviti VG, Karl Tómasson þurfti að standa af sér mótbyr fyrir þessa djörfu ákvörðun flokksins. Mörgum á hægri væng stjórnmálanna þótti þetta líka tómt rugl og töldu slíkt samstarf dæmt til að mistakast.

Í Mosfellsbæ hefur samstarf flokkanna einkennst af trausti og samhug. Má geta þess að þegar Sjálfstæðisflokkurinn fékk meirihlutakosningu fjórum árum síðar var áfram óskað eftir samstarfi við VG. Þessir flokkar starfa enn saman í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og er ég sannfærð um að þetta pólitíska nýsköpunarskref hafi verið bæjarbúum og samfélaginu til heilla.

Mosfellsbær er sveitarfélag í hröðum uppvexti og því segir sig sjálft að á þessum árum hefur oft þurft að ná þverpólitískri samstöðu um leiðir varðandi stór verkefni. Að mínu mati er ákveðinn kostur fólginn í því að hafa ólík grunnstef í stefnum samstarfsflokka. Slíkt samtal skilar ef eitthvað er betur ígrunduðum niðurstöðum. Það má vel vera að einhverjum þyki þetta barnaleg einföldun á mjög svo flóknu pólitísku fyrirbæri, en sannleikurinn er sá að mestu máli skrifta þeir sem eiga samtalið á hverjum tíma.

Ég skora á Vinstri græn, Sjálfstæðismenn og Framsókn að taka höndum saman í anda þess sem starfað hefur verið eftir í Mosfellsbænum. Nýtið kraftana til góðra verka þjóðinni til heilla. Rissið leiðina og náið samstöðu um helstu áningarstaði næstu fjögurra ára. Eftir allt þá snýst þetta um fólk. Reynsla mín og persónuleg kynni af fólki í þessum hópum segir mér að þetta er vel mögulegt!

23511151_10156095993959887_5564363630948342397_o


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband