Ég vil vinna fyrir þig
1.2.2010 | 15:38
Ég hef verið bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ í 12 ár, er formaður bæjarráðs og sit í umhverfisnefnd. Brennandi áhugi á málefnum samfélagsins varð til þess að ég gaf kost á mér upphaflega. Áhuginn er enn til staðar og því ákvað ég að gefa kost á mér aftur. Stöðugt hefur bæst í reynslubankann á þessum árum. Ég hef verið forseti bæjarstjórnar, formaður í fræðslunefnd og fjölskyldunefnd. Ég hef setið í stjórn hjúkrunarheimilisins Eirar frá 2004, sit í almannavarnanefnd og er stjórnarformaður Sorpu.
Á þeim tíma sem ég hef setið í bæjarstjórn hef ég lært að starf bæjarfulltrúa er fjölbreytt, oft á tíðum vandasamt, en umfram allt mjög gefandi.
Nærþjónustan skiptir alla máli
Nærþjónusta við íbúa er mitt hjartans mál og skiptir miklu máli að í bæjarfélaginu sé veitt góð þjónusta á öllum sviðum. Mosfellsbær hefur lagt metnað sinn í að svo sé með þá þjónustu sem veitt er af sveitarfélaginu sjálfu, en það vita ekki allir að nærþjónusta er einnig veitt af ríkinu. Má nefna rekstur framhaldsskóla og var það ánægjuleg og eftirminnileg stund þegar Framhaldsskóli Mosfellsbæjar var settur í fyrsta sinn haustið 2009. Nú grillir loksins í byggingu hjúkrunarheimilis í Mosfellsbæ, sem er mjög mikið ánægjuefni. Komið er vilyrði fyrir 30 rýma hjúkrunarheimili og er verið að ganga frá samningunum við ríkið um bygginguna. Því er langþráður draumur um öldrunarsetur í Mosfellsbæ að verða að veruleika. Einnig má nefna löggæslu, sem við viljum bæta. Nú er verið að skipuleggja lóð við Skarhólabraut þar sem rísa mun slökkvistöð og lögreglustöð, sem mun auka öryggi okkar Mosfellinga til muna.
Fleiri mikilvæg verkefni bætast við á næstu árum þegar málefni fatlaðra og öldrunarþjónusta verða færð frá ríki til sveitarfélaga. Einnig hefur m.a. verið rætt um heilsugæslu.
Fyrir fólkið
Þegar ég lít til baka er ég stolt af því sem ég hef komið að og veit líka að enn eru verkefnin ærin og ýmislegt sem þarf að bæta. Árið 2008 lukum við stefnumótun Mosfellsbæjar og mun sú stefna vísa okkur veginn að þeim markmiðum sem við höfum sett okkur. Jákvæðni, virðing, framsækni og umhyggja er okkar leiðarljós. Markmiðið er að Mosfellsbær verði áfram eftirsóttur til búsetu, þar sem fjölskyldan er í fyrirrúmi.
Við, kjörnir fulltrúar megum aldrei missa sjónar á því að við erum að vinna í umboði íbúa og að ákvarðanir sem við tökum eru ekki okkar einkamál. Í störfum mínum fyrir Mosfellsbæ legg ég áherslu á heiðarleika, góðan rekstur, skilvirka stjórnsýslu og uppbyggingu samfélagsins, í góðri sátt við íbúa og umhverfi. Er það von mín að sú reynsla, menntun og þekking sem ég hef nýtist vel og ekki síst á þeim tímum sem við Íslendingar erum að ganga í gegnum núna.
Kæri Mosfellingur. Ég heiti því að vinna áfram af krafti og heilindum og óska eftir stuðningi þínum í annað sæti.
Herdís gefur kost á sér í 2. sæti.
Grein sem birtist í 2. tbl. Varmár í febrúar 2010
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já takk mættu upp á LSH í Fossvogi kl 8:) Nei, nei, bara harmlaust grín. Gangi þér allt í haginn með þitt framboð.
Finnur Bárðarson, 1.2.2010 kl. 16:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.