D-listamenn á göngu um Mosfellsbæ
8.5.2010 | 19:42
Í gær gekk ég mína fyrstu kosningagöngu í þessari kosningabaráttu. Við ætlum okkur að ganga í hvert hús í bænum og efast ég ekki um að það takmark náist. Að mínu mati er þetta einn skemmtilegasti hluti baráttunnar og nýt ég þess að hitta fólk og ræða bæjarmálin.
Fyrst fór ég með Halla tíunda í Arnartangann og afhentum við stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna og ræddum við fólk. Flestir voru jákvæðir og ánægðir með að við værum að ganga í hús. Ég ætla ekki að vera svo barnaleg að halda að allir þeir þessi jákvæðu ætli sér að kjósa okkur sjálfstæðismenn, en vissulega sögðust margir ætla að gera það, sem er ánægjulegt. Einn ágætur viðmælandi spurði mig hvort við ætluðum nú að reyna að moka yfir fortíðina. Ég sagði að það væri engin þörf fyrir slíkan mokstur hér í Mosfellsbænum, við værum við stolt af fortíðinni og ætluðum að standa okkur vel áfram. Þá fór hann að tala um að hann svæfi bara hérna, væri ekki alveg inni í málunum. Hann varð bara nokkuð sáttur þegar ég sagði honum að hann gæti sofið rólegur því hann byggi í mjög vel reknu sveitarfélagi.
Við tókum okkur matarhlé og fengum þessa líka djúsi lúðu úr Fiskbúðinni Mos sem Snorri Gissurar grillaði ofan í okkur göngugarpana. Eftir matinn hlupum við Bryndís, Hafsteinn og Kolla Skeljatangann og tók ég svo Rituhöfðann á leiðinni heim og hitti marga góða granna.
Ég hlakka til að halda áfram að dreifa og ræða við Mosfellinga og kynna þeim stefnu okkar sjálfstæðismanna í Mosfellsbæ.
Í Mosfellsbæ er framtíðin björt, fjárhagurinn traustur, umhverfið fagurt og mannlífið blómlegt. Það er markmið okkar sjálfstæðismanna að hér geti íbúar á öllum aldri búið við bestu aðstæður og fái notið góðrar þjónustu. Sjálfstæðismenn vilja fylgja gildum Mosfellsbæjar virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.