Sigurjón Jóhannsson - minningarorð
30.12.2010 | 11:43
Kallið er komið, komin er nú stundin og margs að minnast.
Þvílíkur fróðleiksbrunnur sem hann pabbi minn var, hálfgerð alfræðiorðabók og var maður alltaf ríkari eftir samræður við hann. Frá því að ég var lítil stelpa naut ég frásagna úr Haganesvíkinni, af prakkarastrikum, skotveiði og rollurækt þeirra Steina. Af ævintýralegum veiðum í ísnum við Grænland, mannbjörg skipsfélaga af Fylki svo eitthvað sé nefnt. Lengi vel hélt ég að þetta væri eitthvað fært í stílinn, en eftir því sem ég eldist hef ég lært að trúlega hefur hann heldur dregið úr en hitt.
Á liðnum árum hef ég nýtt tímann okkar vel og drukkið í mig sögur og skráð, enda áhugasviðin lík. Minnist ég páskanna sem fóru í heimildaleit um ævi Herdísar ömmu, gleðinnar þegar við fundum vesturfaralegginn okkar og ógleymanlegri heimsókn til Kanada í fyrra. Gullbrúðkaupsferðarinnar á Strandirnar á vit forfeðra okkar galdramannanna. Síðustu sögustundirnar áttum við í byrjun desember og nú er það okkar hinna halda þeim á lofti.
Pabbi byrjaði til sjós 15 ára gamall og hafa margir verið með honum til sjós á þeim 45 árum sem hann stundaði sjóinn. Margir af fyrrum skipsfélögum voru honum kærir og héldu tryggð við sinn gamla skipstjóra. Hann hafði oft orð á því hvað hann var lánsamur að missa aldrei mann. Við samantekt mína síðasta sumar kom í ljós að hann hafði tekið þátt í björgun 47 manna, en hann var ekkert að auglýsa það frekar en önnur afrek.
Pabbi var alltaf jafn mikill keppnismaður og áhugsamur um það sem hann tók sér fyrir hendur. Skotveiði, Ella til mikillar ánægju, silungsveiði og kartöfluræktin fræga. Ég vissi það alveg þegar hann sagði í vor að hann myndi taka kartöflurnar upp sjálfur haust, að svoleiðis yrði það. Restina af uppskerunni borðuðum við á litlu jólunum fyrir tveimur vikum síðan.
Pabbi leit á alla hluti sem verkefni og ekki síst hindranir líkt veikindi. Hann tók því sem að höndum bar með æðruleysi, en alltaf ætlaði hann þó að sigra. Hann var í góðu líkamlegu formi og oftast heilsuhraustur, en verst þótti honum þegar augnbotnarnir fóru að bila. En skotaugað var þó betra, sem var þó stór plús í hans huga.
Krabbameinið var annað verkefni sem hann sigraðist á fyrir 6 árum síðan. Ég var svo með honum í vor þegar hann fékk fréttir um nýtt mein. Þá kom karakter hans vel í ljós. Læknirinn sagði líka að í þetta sinn yrðu krabbinn og hann trúlega að læra að búa saman, að búa með fjandvini sagði pabbi alltaf. Hann leit lækninn beint í augun og tók hann aðeins örskamma stund að sannfæra doktorinn um að meðferð væri það rétta í stöðunni.Sem varð. Svo sagði læknirinn já ég sé núna að þú ert ekki orðinn áttræður." Á leiðinni heim ræddum við veikindin og fór hann yfir hvað hann var sáttur við lífsstarfið og ekki síst fjársjóðinn sinn, fjölskylduna sem var honum allt og þurfti ekki blóðskyldleika til að hljóta fjölskyldustatus í hans hjarta.
Í þetta sinn sigraði pabbi ekki og er hann nú lagður upp í sína hinstu sjóferð
Takk fyrir allt og allt pabbi minn. Minning þín mun lifa um ókomna tíð.
Herdís Sigurjónsdóttir
Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu útfarardaginn, 30. desember 2010
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:45 | Facebook
Athugasemdir
Elsku Herdís og fjölskylda.
Votta ykkur öllum mína dýpstu samúð. Guð blessi minningu föður þíns
Gylfi Björgvinsson, 30.12.2010 kl. 13:38
Ég las greinina í morgun og er búin að vera að hugsa til ykkar, vel skrifað hjá þér eins og þín er von og vísa. Votta ykkur samúð mína og guð blessi pabba þinn og ykkur öll.
Ásdís Sigurðardóttir, 30.12.2010 kl. 15:02
Falleg orð Herdís mín. Rak sérstaklega augun í að ekki þyrfti blóðskyldleika til að teljast til fjölskyldu sem er svo satt. Hann var með stórt hjarta og við söknum hans öll mjög mikið.
Ragna Sif (IP-tala skráð) 30.12.2010 kl. 19:42
Kæra Herdís og aðrir aðstandendur, ég votta þér einlæga samúð mína og Guð blessi minningu föður þíns.
Kristján P. Gudmundsson, 30.12.2010 kl. 23:42
Innilegar samúðarkveðjur, Guð blessi minningu föður þíns.
Magnús V. Skúlason, 3.1.2011 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.