Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar
5.10.2011 | 18:18
Íbúar hafa verið virkjaðir við mótun draganna með ýmsum hætti á vinnslutíma. Hópur íbúa var valinn með slembiúrtaki úr þjóðskrá til að taka þátt í vinnufundi um íbúalýðræði með þjóðfundarsniði. Á vef Mosfellsbæjar var opnað vefsvæði um íbúalýðræði og íbúar hvattir til að koma með ábendingar. Skoðanakönnun var send út rafrænt og haldinn var íbúafundur um íbúalýðræði sem tekinn var upp og gerður aðgengilegur á vef Mosfellsbæjar. Allar fundargerðir hópsins voru birtar jafnóðum á vefnum, niðurstöður könnunar og önnur gögn sem hópurinn var að vinna með.
Lýðræðisleg vinnubrögð snúast um að komast að niðurstöðu sem flestir geta unað við og höfðu allir fulltrúar jöfn tækifæri til að afla sínum skoðunum fylgis, enda vel við hæfi að samræða sé notuð og hugmyndum leyft að þróast þegar unnið er að gerð lýðræðisstefnu. Þegar drögin voru samþykkt til kynningar náðist því miður ekki eining í stýrihópnum og lagði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram bókun varðandi tvær greinar stefnunnar.
Lýðræðisstefna Mosfellsbæjar verður ekki meitluð í stein og er mikilvægt að hún verði í stöðugri þróun í takti við samfélagið. Næstu skref eru því mjög mikilvæg. Með samþykkt lýðræðisstefnu í Evrópskri lýðræðisviku leggur Mosfellsbær af stað í vegferð þar sem aukið gegnsæi, þátttaka og samræða um málefni og ákvarðanir í nærumhverfi okkar eiga að verða sjálfsagður og eðlilegur þáttur í samskiptum bæjarbúa, kjörinna fulltrúa og starfsfólks bæjarins. Það er tilefni til bjartsýni að skoðanakönnun sýndi að 85% þeirra sem svöruðu hafa áhuga á að taka þátt í mótun samfélagsins og verður því að leita allra leiða til að ná til íbúanna með virkum hætti.
Að lokum þökkum við þeim starfsmönnum sem unnið hafa með stýrihópnum og lagt sig fram um að vinna vel og af trúmennsku að verkefninu. Síðast en ekki síst viljum við þakka þeim íbúum sem svöruðu kallinu og tóku þátt í mótun lýðræðisstefnunnar og hvetjum jafnframt Mosfellinga til að láta sig málin varða í framtíðinni.
Höfundar eru Anna Sigríður Guðnadóttir og Herdís Sigurjónsdóttir, fulltrúar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í stýrihópi um lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar
Greinin birtist í Mosfellingi, 11. tbl. 10. árg. 29. september 2011
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ásdís Sigurðardóttir, 6.10.2011 kl. 12:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.