Umferð á hættu- og neyðartímum - rannsóknarverkefni
31.3.2012 | 10:50
Að undanförnu hef ég verið að vinna rannsóknarverkefni hjá VSÓ Rágjöf í samstarfi við Vegagerðina, lögreglu-, og almannavarnayfirvöld á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæði og varðar umferð á hættu- og neyðartímum.
Meginmarkmið með gerð verkefnisins var að öryggi fólks á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu við rýmingar á hættu- og neyðartímum, bæði samfélagslegs- og umferðarlegs eðlis. Með því er líka verið að uppfylla lagalega skyldu opinberra aðila s.s. laga um almannavarnir nr.82/2008, vegalög nr. 80/2008 og lögreglulög nr. 90/1996. Fyrri rannsóknir og umferðarlíkön sem unnin hafa verið af VSÓ Ráðgjöf eru styrkur fyrir verkefnið, sem reynsla og þekking samstarfsaðila.
Framkvæmdin fólst í því að kanna afkastagetu Reykjanesbrautar og útbúa hermilíkan til að herma flóttaumferð svo hægt yrði að leita flöskuhálsa í vegakerfinu og kanna möguleika á forgangsakstri þegar rýming er í gangi. Jafnframt að skoða hvernig ákjósanlegast væri að standa að umferðarlokunum og umferðarstjórnun þ.e. hvar er brýnast að loka vegum og hvaða áhrif það hefur aðsnúa akstursstefnum vega. Markviss upplýsingagjöf til almennings um stöðu mála mikilvæg við þessar aðstæður, ekki síst til þeirra sem eru úti í umferðinni. Því var talin þörf á að skoða hvernig best væri að standa að þeim þætti sérstaklega.
Svanhildur og Smári Ó samgönguverkfræðingar hjá VSÓ gerðu hermilíkanið og notuðu tvær sviðsmyndir við gerð þess:
1. Rýming Suðurnesja um Reykjanesbraut þar sem nýttar yrðu sömu akstursstefnur og eru í dag.
2. Rýming Suðurnesja um Reykjanesbraut þar sem akstursstefnum væri breytt á Reykjanesbraut og fleiri akbrautum.
Gert var ráð fyrir því að við rýminguna myndu að meðaltali þrír íbúar ferðast í hverjum bíl. Einnig var áætlað að um 1.500 bíla þyrfti til að rýma Keflavíkurflugvelli. Íbúatölur og fjöldi bíla í hverju bæjarfélagi fyrir sig.
Búið er að ljúka við gerð hermilíkans fyrir Reykjanesbraut að afleggjara álvers í Straumsvík þar sem notuð var raunstaða umferðar- og skipulagsmála í dag. Sýnir líkanið hver geta gatnamannvirkja er og hvar helstu flöskuhálsar Reykjanesbrautar eru ef til rýmingar Suðurnesja kæmi.
Fyrsti áfangi sýnir að verkefnið getur nýst sem grunnur í rýmingaráætlun fyrir svæðin vegna mismunandi áfalla, fjölda vegfarenda, umferðarstjórnunar og vegakerfis. Hægt er að vega og meta kosti við rýmingar á skipulagningarstigi, en jafnframt í daglegu starfi og gæti hermilíkanið nýst við skipulagsvinnu ríkis og sveitarfélaga. Niðurstöður sýna að mislægu gatnamótin reyndust vel í báðum sviðsmyndum og mun betur en hringtorgin. Því ætti að hafa í huga við gerð rýmingaráætlunar að leggja áherslu á að stjórna umferð þannig að fleiri bílar fari inn á Reykjanesbrautina á mislægum
gatnamótum.
Næstu skref felast í því að tengja hermilíkan Reykjanesbrautar við höfuðborgarsvæðið og leita leiða til að koma umferð í gegn um svæðið á sem auðveldastan hátt. Í þeim áfanga verður einnig stefnt að því að meta afkastagetu vegakerfisins með notkun Suðurstrandavegar, Ofanbyggðavegar, Sundabrautar eða annarra framtíðarvegatenginga á svæðinu og virkja sveitarfélögin á svæðinu enn frekar inn í vinnuna. Jafnframt verður skoðað betur hvernig best er að standa að upplýsingagjöf til almennings við rýmingar.
Þrátt fyrir að ekki hafi verið lögð áhersla á upplýsingaþáttinn í fyrsta áfanga var sá þáttur ræddur. Fram kom hjá fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra að fljótlega yrði tekið í notkun Cell Brodcasting System" hjá Neyðarlínunni. Kerfið gerir Neyðarlínunni kleift að velja ákveðna GSM senda í dreifikerfinu og senda skilaboð á alla farsíma sem eru tengdir þeim sendum sem valdir eru. Þannig er hægt að koma leiðbeiningum og boðum til íbúa og ferðamanna sem eru tengdir viðkomandi sendum. Hægt að senda skilaboð á fleiri tungumálum en íslensku. Einnig er verið að vinna að 1-1-2 smáforriti (app") fyrir snjallsíma en þeir sem eru með það forrit í sínum síma geta notað það til að senda aðstoðarbeiðni til 1-1-2 ásamt staðsetningu. Rætt var um mikilvægi útvarpsstöðva í upplýsingagjöf og kom fram hjá fulltrúum almannavarnadeildarinnar að samkvæmt útvarpslögum skulu allar útvarpsstöðvar senda út þær tilkynningar sem almannavarnir óska eftir til að veita almenningi upplýsingar á hættu- og neyðartímum.
Ánægja er meðal samstarfsaðila um árangur verkefnisins og gagnsemi VSÓ hermilíkansins sem er sérstakt ánægjuefni þar sem um er að ræða þá aðila sem hafa ábyrgð á þessum málum og er því búið að taka skref í átt að heildstæðri rýmingaráætlun svæðanna. Fyrirliggjandi niðurstöður og reynsla opna jafnframt möguleika á því að útbúa slík hermilíkön og auka öryggi íbúa annarra þéttbýlissvæða á landinu.
Hér er hægt að lesa rannsóknarskýrslu fyrsta áfanga í heild sinni
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.