Það kom flóðbylgja, bærinn þinn Rikuzentakata er horfinn

Lögregluþjónninn stoppaði mig og ég spurði hann hvort það hefði orðið slys, hann leit á mig undrandi og sagði „ þú ert greinilega ekki að hlusta á útvarpið". Ég sagði nei og þá sagði hann „Það kom flóðbylgja, bærinn þinn Rikuzentakata er horfinn".

Þúsund hugsanir þutu í gegnum hugann og beið ég eftir því að hann segði mér að hann hefði verið að grínast, en það gerðist ekki. Ég keyrði áfram í leiðslu og þegar ég kom að bænum mínum sá ég að þetta var ekkert grín, bærinn var í alvöru horfinn. Ég áttaði mig þó ekki á alvarleikanum fyrr en ég sá skósóla barns í drullunni og brakinu. Drottinn minn dýri hvað hafði gerst?  Eina hugsunin var að hafa uppi á stóra stráknum mínum og mömmu og pabba sem voru þarna þegar hamfarirnar dundu yfir.

Það var erfitt að keyra fyrir braki, en ég keyrði í fjöldahjálparstöðina og hafði séð það fyrir mér að þar fengi ég upplýsingar um stöðu mála og hvar fjölskylda mín væri niðurkomin. Þrátt fyrir svartamyrkur í bænum vegna rafmagnsleysis komst ég á áfangastað. Við mér blasti annað en ég hafði sé fyrir mér. Þar voru hundruð manna í sömu erindagjörðum og ég og allir að leita að fjölskyldumeðlimum sínum. Þetta var óhugsandi!

Í stöðinni voru um 1000 manns og var mögum kalt eins og mér og höfðum við ekkert að borða. Þegar ég fór að heiman um morguninn hafði ég ekki verið að búa mig undir veru í ískaldri blautri fjöldahjálparstöð. Ég var klædd háum hælum, pilsi og nælonsokkabuxum sem var ekki beint draumafatnaðurinn við þessar aðstæður og við tók erfiðasta nótt lífs míns. Gömul kona leit á mig og sagði „þú ert svo grönn að þér er örugglega kalt".  Ég leit á hana og þá sagði hún „ég get ekki látið þig hafa fötin mín því ég þarf að hugsa um mig sjálfa. Fyrirgefðu mér." Ég þurfti að fara á klósettið sem var yfirfullt, enda 8 salerni í húsinu. Þegar ég kom til baka þyrmdi yfir mig og laust niður í huga mér að þetta væri það vera þolandi hamfara.

Um miðnætti kallaði einn hjálparstarfsmaðurinn „Ekki biðja okkur um teppi eða eitthvað annað. Við einfaldlega höfum það ekki. Þið getið þakkað fyrir að hafa húsaskjól sem er meira en margir geta sagt og er t.d. hópur uppi á þaki á hótelinu. Við létum þau hafa síðustu teppin. Þið skulið þjappa ykkur saman til að halda hita á hvoru öðru". Við gerðum það og held ég að það hafi bjargað okkur, í það minnsta hélt ég lífi sem er meira en verður sagt um fólkið sem fraus í hel á þaki hótelsins.

Það var kominn morgun.

rikuzentakata_iwate


Myndband af flóðbylgjunni í Rikuzentakata.

Það kom flóðbylgja, bærinn þinn Rikuzentakata er horfinn -  seinni hluti

Ég fór af stað í leit að fólkinu mínu og fór yfir gærdaginn í huganum. Þetta var enn óraunverulegt. Það hafði aldrei komið upp í huga minn að það gæti komið flóðbylgja eftir jarðskjálftann stóra. Ég hugsaði um skemmdir á húsinu mínu, hvað hefði eyðilagst og að ég þyrfti að hreinsa til þegar ég kæmist heim. Ég hafði miklar áhyggjur af foreldrum mínum sem voru orðin fullorðin og hættu sem þeim gæti stafað af vegna glerbrota eða vegna húsgögagna sem hefðu fallið í jarðskjálftanum. Flóðbylgja var einfaldlega aldrei inni í myndinni þrátt fyrir að við byggjum á hamfarasvæði, svona hamfarir voru langt umfarm hugmyndarflug okkar. Þetta var martröð.

Hugsunin um að aldraðir foreldrar mínir og strákurinn minn hefðu verið á svæðinu þegar hamfarirnar dundu yfir var að gera mig brjálaða. Ég varð að finna þau.

Maðurinn minn og yngsti sonur minn komu heim. Við vorum heppin því strákurinn okkar sem var heima var óslasaður. Það var erfitt að sameina fjölskyldur eftir hamfarirnar því tölvusamband var niðri og símasamband slitrótt. Því voru útbúnir listar sem gáfu upp nöfn þeirra sem lifðu af og aldur og voru þeir einnig birtir í blöðunum. Nöfn foreldra minna höfðu ekki birst á listum yfir þá sem höfðu komist af.

Ég og maðurinn minn fórum daglega í húsið þar sem líkunum var safnað saman í leit að foreldrum mínum meðal fórnarlamba hamfaranna. Það var erfitt verk og fannst mér hræðilega sorglegt að sjá lík ungra barna sem enginn vitjaði, dag eftir dag. Það var merki um að öll fjölskyldan hafi farist. Við fundum pabba látinn nokkrum dögum eftir hamfarirnar. Við hættum að leita að móður minni eftir tvo mánuði og hefur lík hennar ekki enn fundist. Hún er meðal þeirra 300 bæjarbúa sem enn er saknað ári eftir flóðbylgjuna.

Það er óhætt að segja að eftir svona reynslu líti maður lífið öðrum augum. Ég hef svo oft hugsa til símtals sem ég fékk í farsíma minn frá móður minni að morgni þessa örlagaríka dags 11 mars. Hún átti það til að vera svolítið barnaleg og gleymin eftir heilablóðfall sem hún hafði fengið ári fyrr. Í símtalinu bað mamma mig um að fara með sig til læknis út af kláða í augunum. Ég var upptekin þegar hún hringdi og sagði henni að ég myndi fara með hana daginn eftir og varð frekar pirruð og sagði. „Ég var búin að segja þér að ég myndi taka þig þangað á morgun." Mín síðustu orð við móður mína voru „mamma ekki vera svona barnaleg". Mér hafði ekki dottið í hug að þetta væri mitt hinsta samtal við móður mína.

Mín skilaboð til ykkar og annarra er að mikilvægt er að nýta hvert tækifæri sem gefst til að láta ástvini vita að við elskum þá og sýnum það í verki. Við þurfum ekki að vera fullkomin en metum það sem við höfum og látum ekki litlu hlutina pirra okkur. Ekki gleyma að njóta líðandi stundar því við
vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér.


Rikuzentakata

Frásögnin hér að ofan er skrifuð eftir fyrirlestri Ms. Takemi Wada sem sagði okkur nemendum Kizuna 2012 sögu sína.

Hér að neðan er blogg sem ég skrifaði um Rikuzentakata.

Rikuzentakata í Japan 51 viku eftir hamfarirnar 11. mars 2011

Það var ótrúleg lífsreynsla að fá tækifæri til að fara um hamfarasvæðin í Japan í síðustu viku, tæpu ári eftir hamfarirnar miklu í Japan í fyrra. Fyrst stórum jarðskjálftum sem komu af stað risa flóðbylgjum sem höfðu hræðilegar afleiðingar og ekki síst í fiskibænum Rikuzentakata í Iwate sem við fórum um. Það var trist að sjá nýlagðar götur og húsabrak í stórum fjöllum um allan bæ. Einstaka hús uppistandandi í miðbænum sem áður iðaði í mannlífi. Eina lífið voru þeir sem enn voru að hreinsa brakið, allir með grímur til að varna mengun og sýkingum.

Þetta er eitthvað sem ég á aldrei eftir að gleyma og veit ég að margir eiga um sárt að binda. 16 metra háar flóðbylgjur tóku líf rúmlega 1.500 af 24.000 íbúum bæjarins og voru þar á meðal margir opinberir bæjarstarfsmenn, lögregla og slökkviliðsmenn sem komnir voru saman til að takast á við afleiðingar skjálftans þegar flóðbylgjan reið yfir. Tæplega 300 er enn saknað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband