Betra er lítið leyft, en mikið gleypt

 paskaliljur2

Gleðilega páska mín elskanlegu og vona ég að allir hafi það sem best.

Undanfarna daga höfum við notið þess að vera á Siglufirði eins og alla páska undanfarna áratugi. Nú er Ásdís Magnea að vísu heima, en hin hér með okkur hjá ömmu, Lady og Kristínu. Við Sædís Erla keyrðum með Kristínu frænku en herra Sturla Sær kom nokkrum dögum seinna keyrandi ásamt Degi vini sínum enda kappinn kominn með bílpróf og frjáls eins og fuglinn. Elli kom keyrandi frá Reyðarfirði og fer þangað aftur á morgun á sínum eðal-Skóda.

536214_3399173171922_1047559722_3233790_820070531_n

Sædís Erla var óvenju fljót að leita páskaeggið uppi í morgun og lýsti því yfir að hún myndi hætta þessu þegar hún fengi bílpróf og hana nú!

Málshættir ársins eru ágætir, en kom í ljós að þeir voru ekki allir réttir. "Betra er lífið leift, en mikið gleypt" stóð á málshættinum sem ég fékk úr Nóa egginu mínu. Ég var nú ekki alveg viss um merkinguna og hélt kannski að það merkti að maður ætti að lifa lífinu lifandi og vakandi. Svo fékk ég útskýringu á málshættinum hjá Sæunni frænku hans Óla frænda eins og hún er alltaf kölluð í okkar fjölskyldu. Réttur er hann "Betra er lítið leyft, en mikið gleypt" ... sem er mikið rétt. Mömmu málsháttur var "Engar fréttir eru góðar fréttir". málsháttur Ella var "Vit en ekki kraftur vinnur verkið". Sædísar Erlu var "Sá fær happ sem hamingjan ann". Kristínar systur var Augun eru spegill sálarinnar" og  málsháttur Sturlu Sæs var "Það sem ungur nemur, gamall temur"... sem ætti náttúrulega að vera "Hvað sem ungur nemur, gamall temur".... Held að það verði að fara að gera eitthvað í þessum málsháttamálum hjá sælgætisgerðunum landsins. 

398859_3399229893340_1047559722_3233823_1754229619_n

Við Kristín systir erum búnar að taka nokkra góða gönguhringi undanfarna daga sem er alltaf jafn hressandi fyrir sál og líkama. Elli og Sædís Erla eru búin að skella sér í Norðlensku Alpana, en er rigningin búin að setja strik í reikninginn og hefur aumingja Elli því "neyðst" til að lesa meira og slappa af en oft áður. Sem er ósköp ljúft og hef ég sjálf ekki slappað meira af síðan á síðustu öld held ég.

Við Elli fórum til Akureyrar með Sædísi Erlu og sáum Gulleyjuna og skemmtum okkur hið besta og er óhætt að mæla með þeirri sýningu. Í gærkvöldi fórum við á tónleika í Rauðku og stoppuðum stutt við og mörðum það ekki að fara á ball með Geirmundi. Það er rétt sem Kristín systir sagði að þetta væri eitthvað stórskrítið með Geirmund. Þegar hún var að hefja sinn glæsilega djammferil upp úr 1970 var Geirmundur ævaforn ellismellur, en nú rúmum fjórum áratugum síðan er hann enn að.

Dagskrá páskadags er hefðbundin á Laugarvegi 15. Rólegheit, Elli eldar kalkúninn og svo fáum við góða gesti í kvöldmat og njótum lífsins.

549804_3399167651784_1047559722_3233789_1242504417_n


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband