Tengibraut í Mosfellsbæ

Ástæða þessa skrifa er grein oddvita samfylkingarinnar í Mosfellsbæ er birtist í Morgunblaðinu í dag og fjallar um tengibraut í Mosfellsbæ.

Í grein sinni rekur Jónas Sigurðsson bæjarfulltrúi og oddviti samfylkingarinnar feril tengibrautarmálsins á sinn hátt. Við lestur greinarinnar mætti ætla að meirihluti sjálfstæðismanna og vinsti grænna hefðu ekki tekið tillit til þeirra athugasemda og varnaðarorða sem fram hafa komið við undirbúning og lagalegan feril  framkvæmda við tengibraut inn í nýtt hverfi í Mosfellsbæ, Helgafellshverfið. Jónas rekur í grein sinni hvernig hann hefði staðið að málum ef hann hefði fengið að ráða og er ekki hægt að skilja orð Jónasar með öðrum hætti en svo að þá heyrði umrædd tengibraut inn í Helgafellshverfið sögunni til, hans eigin sögu.  

Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Jónas hvetur fólk í grein sinni til að skoða feril málsins frá vorinu 2006, en það er einmitt sá tímapunktur sem hann ákvað skyndilega að vera á móti framkvæmdinni. Ekki er ólíklegt að ætla að hann oddviti samfylkingarinnar í Mosfellsbæ hafi þá verið með stefnubreytingu sinni að höfða til væntanlegra kjósenda vegna sveitarstjórnarkosninganna sem fóru fram nokkrum dögum síðar. Fyrir þá sem hafa á annað borð áhuga á rannsóknarblaðamennsku væri hins vegar virkilega áhugavert að skoða ákvarðanaferillinn fram að umræddum bæjarstjórnarfundi í maí 2006. Allar ákvarðanir bæjarfulltrúans fram að þeim bæjarstjórnarfundi höfðu samkvæmt því sem í greininni stendur verið óhugsaðar. Hann hefur sem sé líklega ekki áttað sig á því í öllum þeim fjölmörgu ákvörðunum sem hann tók sjálfur tók og staðfesti í nefndum og ráðum tengslum við uppbyggingu Helgafellshverfisins að tengibrautin kæmi að lokum, sem eðlileg tenging við hverfið og miðbæ Mosfellsbæjar.  

Mat á umhverfisáhrifum

Í umræðunni undanfarnar vikur er sífellt verið að saka meirihluta sjálfstæðismanna og vinstri grænna um að ekki sé farið að lögum og ekki sé tekið tillit til umhverfismála og mögulegra áhrifa á vistkerfi Varmár sem er ósatt og hefur verið vandað til undirbúnings til að tryggja sem minnst áhrif á umhverfið. Lögum samkvæmt var kannað hvort skipulagsyfirvöld teldu framkvæmdir við gerð á tengibrautar í Helgafellshverfi háða mati á umhverfisáhrifum. 

  • Á 770 fundi bæjarráðs Mosfellsbæjar þann 27. apríl 2006 var tekið fyrir erindi Skipulagsstofnunar sem samkvæmt lögum óskaði eftir umsögn Mosfellsbæjar varðandi tengibraut í Helgafellsland.
Umsögn Mosfellsbæjar sem send var Skipulagsstofnun:

Umrædd tengibraut í landi Mosfellsbæjar er í samræmi við aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024 og er nauðsynleg forsenda fyrir uppbyggingu á Helgafellslandi. 

Að fráveitumálum verður staðið þannig að ekki komi til aukinnar mengunar í Varmá frá tengibrautinni. Áhrif brautarinnar á náttúru munu vera í lágmarki.

Uppbygging tengibrautarinnar í Mosfellsbæ mun fylgja uppbyggingu í landi Helgafells og er því gert ráð fyrir því að hún byggist upp í áföngum á næstu árum. Mosfellsbær telur því ekki að framkvæmdin muni hafa í för með sér þá umhverfisröskun að nauðsynlegt sé að fram fari mat á umhverfisáhrifum vegna hennar. 

  • Samþykkt var með þremur atkvæðum að fela bæjarstjóra að senda inn umsögn Mosfellsbæjar í samræmi við umræðu á fundinum.
  • Afgreiðsla bæjarráðs var staðfest á 442. fundi bæjarstjórnar þann 10. maí 2006, með öllum greiddum atkvæðum og þar á meðal atkvæði bæjarfulltrúa samfylkingarinnar
  • Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en var sú niðurstaða kærð til umhverfisráðherra.
  • Umhverfisráðherra staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum í desember 2006.

Þróun byggðar upp með Varmá

Öllum sveitarfélögum er skylt að setja sér aðalskipulag sem sýnir þróun byggðar og er í raun stjórntæki sveitarstjórnar til að ná fram markmiðum sínum til framtíðar og hefur slíkt skipulag verið í gildi í Mosfellsbæ frá 1983. Mikil uppbygging hefur verið í Mosfellsbæ á undanförnum árum og hafa fjölmargir kosið að flytja í jaðar borgarinnar og búa í nánum tengslum við náttúruna og fallegt umhverfi í Mosfellsbæ. Útivistarperlan meðfram bökkum Varmár er dýrmæt og hefur á undanförnum árum m.a. verið unnið að því að tengja holræsi við lagnakerfi bæjarins, sem áður rann í Varmána. Í umhverfisskipulagi Varmársvæðisins hefur verið felld úr skipulaginu brú yfir Varmána ofan Álafosskvosar, þar sem hún þótti ganga of nærri þeirri náttúru og þeim fallega skógi sem þar stendur. Í öllum undirbúningi vegna vinnu við tengibrautina hefur verið gætt að umhverfisþáttum og áhrifum á lífríki Varmár og íbúa í næsta nágrenni.

 

Fjölmargir hafa álitið sem svo að umrædd tengibraut sé hraðbraut í gegnum Álafosskvosina, sem er rangt. Tengibrautin er ekki hraðbraut og hún er komin fjær Álafosskvosinni en fyrra skipulag gerði ráð fyrir og fellur vel að umhverfinu. Álafosskvosin sjálf sem fólk man eftir sem vöggu ullariðnaðar í landinu hefur þróast í íbúðabyggð og hafa íbúar sest að í auðum verksmiðjuhúsum. Skipulagi hefur einnig verið breytt sem gefur fólki tækifæri til að búa í fyrrum sumarhúsum upp með Varmá, sem er eðlileg þróun. Það verður einnig að teljast eðlileg þróun byggðar og fyrirséð að byggja upp hverfi sem hefur verið á skipulagi í áratugi eins og Helgafellshverfið og fjölgun íbúamagns í tímanna rás er eðlileg og hefur verið horft til þess að gera nýja hverfið sem sjálfbærast, með einn tveggja hliðstæðu grunnskóla, tvo leikskóla og hverfisverslun, enda hefur alltaf ríkt þverpólitísk sátt í bæjarstjórn um aukningu íbúamagns og skipulag Helgafellshverfisins og verða því upphrópanir fulltrúa samfylkingarinnar í bæjarstjórn um íbúaaukningu í Helgafellshverfiu að teljast enn eitt undrið í þessum málum og afar ótrúverðugar.

Hér er er hægt að sjá afstöðumyndir af tengibrautinni í Helgafellshverfið og getur fólk séð fleiri nýjar myndir hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband