Ár frá því ég ákvað að hætta í bæjarstjórn Mosfellsbæjar

Síðasti bæjarstjórnarfundurinn

Ég var að átta mig á því að fyrir rétt um ári síðan var ég á leið í vinnuna hjá VSÓ Ráðgjöf þegar sú hugsun læddist að mér að það væri kominn tími til að hætta í bæjarstjórninni í Mosfellsbæ. Um kvöldið vorum við samstarfsfélagarnir að fara í vinnuferð og var ég búin að upplýsa um ákvörðun mína áður en dagurinn var liðinn. 

Á þessum tíma frá því að ég ákvað að hætta hafa óteljandi margir spurt mig hvort ég hafi séð eftir þessari ákvörðun, hvort ég sakni þessa ekki óskaplega og hvort það hafi ekki skapast mikið tómarúm. 

Stutta svarið við þessu er nei. Án hroka og alls yfirlætis. Ég held að þetta hafi einfaldlega verið frábær ákvörðun og fullkomin tímasetning. Ég les ekki fundargerðir og skanna ekki það sem verið er að gera til að tryggja að "blessuð bæjarstjórnin klúðri þessu nú ekki". Þarna starfar frábært fólk og maður kemur í manns stað.

Ég get þó sagt að ég sakna samstarfsfólksins, félaganna og sérlega bæjarráðsheimsóknanna í stofnanir bæjarins. Þegar maður hitti starfsmenn og fékk að heyra þeirra sýn á þróun mála, samstarf og framtíðina. Það er dýrmætt og skapar nauðsynlega tengingu milli kjörinna fulltrúa og starfsmanna. Ekki það að ég sé hætt að fara í skólana, bókasafnið og bæjarskrifstofurnar, en samt!

Árið 1998 var ég fyrst kjörin í bæjarstjórn Mosfellsbæjar fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var því búin að stja í fjórtán og hálft ár. Ég var búin að sinna flestum þeim embættum í bænum, með mikilli ánægju og lagði mig töluvert fram við að hafa gott samráð við íbúa og starfsmenn. En eins og flestir kjörnir bæjarfulltrúar, var ég einnig í annarri vinnu og síðar í háskólanámi samhliða. Fyrstu fjögur árin vorum við í minnihluta sem var ágæt reynsla, en árið 2002 kom Ragnheiður Ríkharðsdóttir inn og unnum við góðan sigur og fengum meirihluta bæjarfulltrúa. Árið 2006 fórum við í samstarf við Vinstri græn í Mosfellsbæ, samstarf sem hélt áfram árið 2010, þrátt fyrir að við Sjálfstæðismenn hefðum fengið meirihluta bæjarfulltrúa aftur.

Hér er fréttin sem birtist í Mosfellingi um ákvörðun mína að hætta. Mun hætta í bæjarstjórninni og um áramótin og helga líf mitt hamfaramálum

Að taka þátt í bæjarmálum er eitthvað sem ég ráðlegg öllum sem vilja hafa áhrif á samfélagið sitt að gera. Ég er langskólagengin, en segi samt að stjórnmálaþátttaka er besti skóli sem hægt er að hugsa sér. Næstu sveitarstjórnarkosningar munu fara fram í maí 2014. Í næstu kosningum verður bæjarfulltrúum í Mosfellsbæ einnig fjölgað úr 7 í 9 vegna mikillar fjölgunar í bæjarfélaginu og fá því fleiri tækifæri.

Mitt ráð til ykkar hvar í flokki sem þið standið er að ef það blundar í ykkur að bjóða ykkur fram skora ég á ykkur að gera það. Þannig getið þið haft bein áhrif og látið gott af ykkur leiða í samfélaginu. Ekki láta nægja að hugsa að hinir sjái um þetta stjórnmálastúss, ykkar tími er kominn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Takk fyrir þetta skrif. Ég sakna þín svolítið í bæjarstjórninni.

Úrsúla Jünemann, 16.11.2013 kl. 16:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband